Andvari - 01.01.2016, Blaðsíða 112
110
KRISTJÁN EIRÍKSSON
ANDVARI
Pétur Gunnarsson: ÞÞ íforheimskunarlandi. JPV útg. Reykjavík 2009.
„að skilja undraljós“ Greinar um Þórberg Þórðarson, verk hans og hugðarefni. Ritstjórar:
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Hjalti Snær Ægisson. Háskólaútgáfan. Reykjavík 2010.
Hér að framan er aðeins getið um stærri verk sem fjalla um Þórberg og verk
hans og er til dæmis öllum námsritgerðum, blaðagreinum og greinum í tíma-
ritum sleppt nema ritgerð Sigfúsar Daðasonar í Andvara. En nú skal vikið
að síðasta og mesta verkinu sem skrifað hefur verið um Þórberg og ritstörf
hans.
í fyrra gaf Soffía Auður Birgisdóttir út bókina, Ég skapa - þess vegna er
ég, um skrif Þórbergs Þórðarsonar. Hún lagði hana síðan fram til doktorsv-
arnar við Háskóla Islands á þessu ári og er nú orðin doktor í verkum of-
vitans úr Suðursveitinni. Bók Soffíu er mikið rit, 358 síður, og vandað að
öllum frágangi og uppsetningu. Hún skiptist í níu kafla fyrir utan Inngang
og Lokaorð. I Inngangi gerir Soffía grein fyrir því hvernig hún fjallar um
verk Þórbergs og út frá hvaða forsendum og segir þar:
Astæða er til að árétta að ég skoða skrif Þórbergs fyrst og fremst sem bókmenntatexta
og athyglin beinist að fagurfræðilegum eiginleikum þeirra. Ég greini og túlka skrif
hans og tengi við íslenskar og erlendar bókmenntir fremur en að túlka þau út frá
æviferli hans eins og aðrir hafa gert svo ágætlega áður.1
Hún tekur það þó skilmerkilega fram á eftir að vitaskuld tengist skrif
Þórbergs hans eigin ævi og þeim atburðum úr henni sem hann lýsir í skáld-
skap sínum. Og það má reyndar segja að verk Soffíu fjalli einmitt um það
hvernig Þórbergur vinnur stöðugt að því í skrifum sínum að búa ævi sinni og
reynslu „nýtt“ bókmenntagervi, sem speglar sögu skáldsins, lífsreynslu þess
og hugmyndir á annan hátt en tíðkast hafði áður í ævisögulegum verkum.
Umfjöllun hennar snýst fyrst og fremst um fagurfræði þessa bókmennta-
gervis eða kannski réttara sagt bókmenntagerva.
I Inngangi og fyrstu tveim köflunum fjallar Soffía stuttlega um helstu
bækur Þórbergs og viðtökur þeirra og fer þar nokkuð vítt yfir svið. Hún gerir
grein fyrir því hversu mönnum hefur frá fyrstu tíð reynst erfitt að átta sig á
hvernig bæri að skilgreina verk hans og flokka þau. Og hún ræðir um trúðinn
og sérvitringinn, hinn brennandi hugsjónamann og spámann, og skrif hans
um sjálfan sig sem mætti jafnvel „skilgreina [. . .] sem ævigoðsagnagerð (e.
biomythography)“2.
Þriðji kaflinn fjallar sérstaklega um Bréf til Láru þar sem Þórbergur segir
meðal annars frá því þegar hann varð óléttur en þann fyrirburð nefndi hann
„eitt af fyrstu sköpunarverkum [síns] auðuga ímyndunarafls."3 En í þeirri