Andvari - 01.01.2016, Blaðsíða 108
106
VÉSTEINN ÓLASON
ANDVARI
faðm, „fékk þar slíkar viðtökur sem væri hann úr helju heimtur.“ Benedikt
hefur náð sáttum og getur látið af aðventuferðum sínum — ef honum sýnist
svo — m.a. af því að hann hefur eignast arftaka. Hann hefur verið Benedikt
yngri sú fyrirmynd að hann er þegar tekinn að feta í fótspor hans og virðir
hann sem annan föður: „Þakkir þeim er þakkir ber ...,“ segir hann og kveður
þannig upp dóm samfélagsins. Af sögunni er þá ekki annað eftir en loka-
orðin: „... Þar með var þessari einstæðu aðventuför lokið, þjónustan innt af
höndum af fremsta megni, og Benedikt eldri aftur í mannheimum — um
stundarsakir.“
Öll erum við víst í mannheimum um stundarsakir.
Freistandi er að reyna stuttlega að setja Aðventu inn í stærra samhengi.
Mig langar að spyrja um tvennt: Hvaða erindi á Aðventa við okkur í nútím-
anum? Eiga atburðirnir og þær spurningar sem þeir vekja erindi við okkur
hér og nú? Og hins vegar: Hvernig fellur Aðventa inn í þann heim af sögum
sem maðurinn hefur skapað gegnum tíðina til að reyna að skilja sjálfan sig
og það sem kemur fyrir hann í heiminum? Þessar sögur eru ekkert afskap-
lega margar ef aðeins er litið á aðalatriðin.
Fyrst samtíminn: Daglega fáum við fréttir af hörmulegum atburðum sem
ekki láta okkur ósnortin, sem okkur er ekki sama um en sem við gerum þó
lítið eða ekkert til að vinna gegn. Við erum að því leyti lík samsveitungum
Benedikts og flestum sem hafa sitt nokkurn veginn á þurru. Við leggjum
ekki líf okkar í hættu til að leita að fáum eftirlegukindum, reynum að rýma
þeim úr hugskotinu. Með því á ég t.d. við flóttafólkið á Miðjarðarhafi. Hvað
erum við tilbúin að leggja á okkur persónulega til að bjarga því og taka
síðan við því og búa því skjól? Ég á við börnin í Nepal eftir jarðskjálftana
miklu og allt það vesalings fólk sem þjáist nú vegna ofríkis náttúrunnar eða
ofbeldis og illvirkja af manna völdum. Þannig mætti lengi halda áfram. Þessi
dæmi geta vakið okkur til umhugsunar um hinn djúpa siðferðislega boðskap
Aðventu. Og um leið varað okkur við að þykja sveitungar Benedikts flestir
standa á lágu siðferðisstigi. Þau eru eins og við. Benedikt gerir til sín meiri
kröfur en venjulegu fólki er fært. Hann er samviska samfélagsins. En hann
er fjármaður og túlkar hlutverk sitt í samræmi við það: hann ber ábyrgð á
sauðkindinni.
Aðventa gerist í kristnu samfélagi, Benedikt er sannkristinn maður, nafn
sögunnar og nafn söguhetjunnar eru tekin úr kristinni bókmenntahefð og
vísanir til biblíunnar eru margar. Þess vegna er ekki að undra þótt einhverj-
um lesendum hafi dottið í hug að jafna Benedikt við Krist. Ef Benedikt sá
sem sagan lýsir hefði verið raunveruleg persóna hefði honum blöskrað sú
samlíking, þótt hún skelfilegt guðlast. Benedikt hefur enga tilfinningu fyrir
því að hann sé útvalinn, sonur guðs eða frelsari. Hann er ekki ofsóttur eða
útskúfaður af öðrum hvað þá að hann sé festur á kross. Örlög hans eru ekki