Bændablaðið - 06.10.2022, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. október 2022
FRÉTTIR
Fuglaflensa:
Tugmilljónum
alifugla fargað
Á síðastliðnu árið, frá 30. september
2021 til 30. september 2022, var
um 48 milljón alifuglum fargað í
Evrópu og á Bretlandseyjum vegna
fuglaflensu. Fjöldi fargaðra alifugla
á einu ári hefur aldrei verið meiri.
Samkvæmt heimildum EFSA,
Matvælaöryggisstofnunar Evrópu,
var um 48 milljón alifuglum fargað
vegna 2.600 tilfella fuglaflensu á
Bretlandseyjum og löndum Evrópu á
síðasta ári. Greind tilfelli fuglaflensu
í Evrópu voru 3.573 í 37 löndum allt
frá Svalbarða suður til Portúgal og
austur til Úkraínu en sú tala er engan
veginn talin lýsa fjölda tilfella rétt.
Frá 30. september 2020 til 30.
september 2021 komu upp 26 tilfelli
af fuglaflensu á Bretlandseyjum en
ári seinna, frá 30. september 2021 til
30. september 2022, voru þau 161.
Auk þess sem staðfest voru 1.727
tilfelli af fuglaflensu í 59 tegundum
villtra fugla á Bretlandseyjum
á síðasta ári.
Á þarsíðasta ári komu flest tilfelli
af fuglaflensu á Bretlandseyjum upp
á vorin og haustin en á síðasta ári
komu þau upp á öllum árstímum.
Yfirdýralæknir Bretlandseyja
sagði í viðtali fyrir skömmu að búist
væri við að tilfellum fuglaflensu
í alifuglum ætti eftir að fjölga í
nánustu framtíð. /VH
Förgun alifugla vegna fuglaflensu í Evrópu og á Bretlandseyjum hefur aldrei
verið meiri. Mynd / newseu.cgtn.com
Patreksfjörður:
Eldislaxar í Ósá
Fiskistofa var við eftirlit í Ósá í
lok síðasta mánaðar.
Dagana 16., 20. og 21. september
veiddust fjórir laxar sem reyndust
hafa útlitseinkenni eldislaxa. Aftur
voru lögð net 26.–28. september,
en þá veiddust engir laxar. Þetta
kemur fram í svari frá Fiskistofu
við fyrirspurn Bændablaðsins.
Þessir fjórir laxar voru
sendir til frekari rannsókna hjá
Hafrannsóknastofnun.
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri
á ferskvatns- og eldissviði Hafró,
staðfestir að þessir fiskar hafi borist
stofnuninni. Samkvæmt honum voru
útlitseinkenni fiskanna einkennandi
fyrir eldislaxa, en ekki sé hægt að
staðfesta uppruna þeirra nema að
lokinni erfðaefnisrannsókn. /ÁL
Fiskeldi í Patreksfirði. Mynd / ÁL
Ný rétt í Strandabyggð:
Fer betur með féð
Staðardalsréttin er smíðuð samkvæmt nýrri hönnun og er með svokölluðum sundurdráttargangi.
Mynd / Halldór Kristján Ragnarsson
Tvær nýjar réttir voru teknar í
notkun í Strandabyggð í síðasta
mánuði. Önnur er Krossárrétt í
Bitrufirði og hin Staðardalsrétt í
Staðardal, sem er talsvert stærri
og hönnuð með nýju fyrirkomulagi
og sundurdráttargangi.
Nýja fyrirkomulag Staðar-
dals réttar er sagt fara mun betur
með bæði fé og fjáreigendur,
dýravelferð er betri og erfiðið
minna fyrir eigendur. Réttir með
sundurdráttargangi eru ekki algengar
enn sem komið er. Aðalhönnuðir
nýja réttarfyrirkomulagsins eru
Magnús Steingrímsson og Marta
Sigvaldadóttir á Stað.
Fer betur með fé og menn
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri
Strandabyggðar, segir að nýbreytnin
í Staðardalsrétt felist í því að féð
rsé ekið inn í tiltölulega langan og
breiðan gang og notaðar grindur til
að hólfa það af.
„Í réttinni eru tíu dilkar sem koma
út frá langhlið hennar. Við endann
á ganginum beygir féð inn í þrengri
flokkunargang þar sem kemst bara
ein kind í einu í röð og þar kippa
bændurnir sínu inn í sinn dilk.
Það tók smá tíma fyrir eldra féð,
sem voru vanar gömlu réttunum, að
átta sig á nýja fyrirkomulaginu en
um leið og þær áttuðu sig á þessu
rann féð ljúft í sinn dilk.“
Þorgeir segir að nýja fyrir-
komulagið fari bæði betur með
féð og bændurna þar sem ekki
þarf lengur að vera að draga þar úr
almenningi í dilka.
Að sögn Þorgeirs er þörf fyrir
fleiri nýjar réttir í Strandabyggð og
ekki síst í Kollafirði og segir hann
að það mál sé í skoðun án þess að
nokkuð hafi verið ákveðið með
byggingu hennar enn.
Staðardalsrétt
Staðardalsrétt í Staðardal stendur í
landi Hrófbergs, skammt frá þeim
stað þar sem gamlir Strandamenn
muna eftir að Jón á Vegamótum
var með húskofa fyrir sig og
ærnar sínar. Staðardalsrétt er
mun stærri en Krossárrétt en með
sundurdráttargangi. Réttin er með
tíu misstórum dilkum eftir því hve
mikla fjárvon bændur eða svæði eiga.
Réttin var formlega tekin í notkun
þann 18. september síðastliðinn og
gengu réttir vel.
Krossárrétt
Krossárrétt í Birtrufirði stendur við
ós Krossár skammt frá brúnni yfir
Krossá við þjóðveg 68. Á þessum
stað stóð lengi skilarétt Bitrunga
þannig að staðsetningin er vel þekkt.
Réttin var tekin í notkun
laugardaginn 10. september
síðastliðinn að viðstöddu smölum,
fyrirstöðufólki og fleirum. Vel gekk
að reka inn í nýja rétt. /VH
Fyrirkomulag Staðardalsréttar auðveldar verk bænda. Mynd / Hjörtur Þór Þórsson
Dönsk minkarækt:
Endurvakning í uppsiglingu
Sóttvarnarstofnun Danmerkur
hefur gefið út að lýðheilsu
standi ekki ógn af endurreisn
minkaræktar í landinu.
Því hafa stjórnvöld í Kaup-
mannahöfn tilkynnt að reglugerð
sem lagði bann við loðdýrarækt falli
úr gildi um áramót. Endurvakning
búgreinarinnar, með hertum
sóttvarnareglum og takmörkun á
stærð, er því handan við hornið.
Ákvörðun þessi er tekin eftir
að sóttvarnarstofnunin hafði
metið áhættuna takmarkaða ef
minkaræktinni væru settar stífar
skorður sem miða að smitvörnum
og stærð greinarinnar.
Eftir að Covid-19 veiran
greindist í dönskum mink árið
2020 létu stjórnvöld skera niður
allan minkastofninn í landinu. Fram
að því voru Danir fremstir þjóða á
þessu sviði.
Rasmus Prehn, matvælaráðherra
Danmerkur, segir í samtali við
Landbrugsavisen að minkarækt í
landinu þurfi að vera á forsendum
lýðheilsu. Því skipti miklu máli að
sóttvarnaryfirvöld hafi gefið grænt
ljós á endurreisn greinarinnar.
Tímabundið bann við minkarækt
verði ekki endurnýjað en
minkabændur muni þurfa að gera
ýmsar smitvarnarráðstafanir til að
hefja búskap að nýju.
Sóttvarna vel gætt
Minkabændur verða krafðir
um að framkvæma Covid-19
skimun í öllum minkum. Einnig
verða auknar smitvarnir við alla
meðhöndlun – sem felur í sér
fataskipti og líkamsþvott áður en
farið er inn í minkahúsin.
Starfsfólk mun þurfa að viðhafa
sérstakar persónulegar smitvarnir
og fara á námskeið um hreinlæti.
Að auki verður mælst til þess að allt
starfsfólk taki Covid-19 próf áður en
það fer í návígi við bústofninn. /ÁL
Allt bendir til þess að danskir
minkabændur geti hafið endurreisn
búgreinarinnar eftir áramót. Kvaðir
verða settar um miklar sóttvarnir.