Bændablaðið - 09.03.2023, Side 4

Bændablaðið - 09.03.2023, Side 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. mars 2023 FRÉTTIR Nautgriparækt: Kyngreining sæðis í frjóan jarðveg – Stofnkostnaður 184 milljónir króna Nautgripabændur hafa kallað eftir kaupum á búnaði til kyngreiningar á sæði undanfarin ár. Á búgreinaþingi var því beint til stjórnar deildar nautgripabænda og stjórnar Bændasamtakanna að hefja án tafar vinnu við að tryggja stofnfjármagn og hraða innleiðingu. Í löndunum í kringum okkur er kyngreint sæði víða notað. Með sérstökum búnaði er hægt að skilja að sæðisfrumur sem gefa annars vegar kvígur og hins vegar naut. Þetta gagnast mjólkurframleiðendum sérstaklega, en með þessu geta þeir fengið fleiri og betri kvígukálfa. Kyngreint sæði er dýrara í innkaupum og hentar ekki í öllum tilfellum. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu RML. Áætlað er að kaup á sjálfri skilvindunni sem skilur sæðisfrumurnar eftir kynjum muni kosta 170 milljónir króna. Við það bætist kostnaður við uppsetningu á rannsóknarstofu, standsetning skilvindu og þjálfun starfsfólks sem gerir stofnkostnað upp á samtals 183,5 milljónir króna. Árlegur rekstrarkostnaður er nokkuð hár, en áætlað er að þörf sé á tveimur stöðugildum sem kosta samtals 50 milljónir króna. Ofan á það bætist vörunotkun upp á 12,5 milljónir, rekstur tækjabúnaðar fyrir eina milljón á ári og 18,4 milljónir í afskriftir. Samtals má reikna með að rekstur kyngreiningar útheimti 82,9 milljónir króna árlega. Frá árinu 1991 hefur verið til tækni sem byggir á að lita sæðisfrumurnar með sérstöku litarefni sem safnast í frumunum í mismunandi magni eftir því hvort þær beri X eða Y litning. Karlfrumur bera 3,8 prósent minna erfðaefni og gerir litarefnið kleift að rafhlaða sæðisfrumurnar og flokka með rafsviðsskilvindu. Mjög miklar framfarir hafa verið í þessari tækni og er sá búnaður sem býðst núna umtalsvert afkastameiri og ódýrari en sá sem framleiddur var fyrir fáum árum. Lítil afköst eru á framleiðslu á kyngreindu sæði og er því nauðsynlegt að þynna það út til að fá fleiri skammta. Vegna þessa er frjósemi sæðisfrumna í kyngreindu sæði minni en í hefðbundnu sæði. Fjögur þrep fara í framleiðslu hefðbundins sæðis, en þegar kemur að kyngreiningu eru þrepin tuttugu. Samkvæmt rannsóknum er heilbrigði kálfa það sama með báðum tegundum sæðis. /ÁL Búnaður til sæðistöku í gömlu nautastöðinni á Hvanneyri. Ingimar Einarsson, fyrrum fjósameistari, stendur hjá. Mynd / Úr safni Niðurfelling gripagreiðslna á mjólkurkýr Nautgripabændur vilja greiðslur fyrir framleiðslutengda liði mjólkur. Í ályktun frá búgreina- þingi er kallað eftir að kerfið verði einfaldara og skilvirkara. Enn fremur sé loftslagsvænna að greiðslur hvetji til aukinnar framleiðslu á hvern grip. Gripagreiðslum á holdakýr verði haldið áfram. Þar sem kúabúum hefur fækkað og þau stækkað er sífellt algengara að mikil skerðing verði á gripagreiðslum. Nautgripabændur sem eru í mjólkurframleiðslu telja eðlilegra að greiðslur væru greiddar fyrir framleidda mjólk, í stað þess að greitt sé fyrir mjólkurkýr óháð því hvort þær skili af sér afurðum. Þegar kemur að nautakjöts- framleiðslu þurfi gripagreiðslur að haldast við lýði, en nautgripabændur vilja endurskoða fyrirkomulagið. Þar má nefna að þeir vilja að greiðslurnar komi fyrr í framleiðsluferlinu sem myndi skapa stöðugar rekstrartekjur og auðvelda aðgengi nýrra aðila inn í greinina. /ÁL Unnsteinn Snorri hættir hjá Bændasamtökunum Unnsteinn Snorri Snorrason, verkefnastjóri Bændasamtaka Íslands (BÍ) og bóndi á Syðstu- Fossum í Andakíl, hefur sagt upp störfum sínum hjá samtökunum og mun hætta 31. maí næstkomandi. Hann kom fyrst til starfa fyrir BÍ árið 2007 sem ráðunautur hjá Byggingaþjónustu landbúnaðarins. Starfaði svo um tíma hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) áður en hann hélt utan til Svíþjóðar til að starfa við vöruþróun hjá DeLaval um mitt ár 2011. Eftir tveggja ára dvöl í Svíþjóð sneri Unnsteinn heim og starfaði um skeið hjá RML, en tók svo við framkvæmdastjórastöðu hjá Landssamtökum sauðfjárbænda árið 2017. Eftir breytingar á félagskerfi landbúnaðarins, með sameiningu búgreinafélaganna við BÍ sumarið 2021, hefur hann verið í fullu starfi fyrir samtökin. Samhliða störfum sínum fyrir bændur stundar Unnsteinn sjálfur búskap á á Syðstu-Fossum í Andakíl í Borgarfirði. „Við erum með hross og sauðfé, en búskapurinn telst nú ekki vera stór í sniðum. Ég ætla mér að einhverju leyti að fara og sinna búskapnum meira en er ekki búinn að setja markið á annað starf. Tíminn hjá BÍ hefur verið ákaflega góður en fyrir mig var einfaldlega kominn tími á breytingar. Mér finnst að þeir sem starfa við stefnumótun og eru leiðandi í svona samtökum eigi ekki endilega að vera mjög lengi. BÍ er að mínu mati á réttri leið eftir að hafa gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum. Við vorum að klára glæsilegt búgreinaþing sem sýnir að samtökin eru að ná réttum takti í þessu félagskerfi. Ég verð áfram til taks í þeim fjölmörgu verkefnum sem eru fram undan í starfinu og kveð samtökin mjög sáttur.“ /smh Loðdýraeldi: Öll skinn seld undir kostnaðarverði Þrátt fyrir að öll skinn hafi selst á uppboði Köbenhagen Furs og þokkaleg sala hafi verið fyrsta uppboðsdaginn hjá Saga Furs er verð enn undir kostnaðarverði. Loðdýraeldi hér og víða annars staðar, sérstaklega í Evrópu, hefur átt undir högg að sækja vegna hruns á skinnaverði 2016. Sala skinnanna hefur verið dræm og verð fyrir þau undir framleiðslukostnaði. Útkoma uppboðanna núna mun því hafa afgerandi áhrif á framtíð loðdýraeldis og þeirra átta búa sem starfandi eru hér á landi sem nú þegar standa á brauðfótum. Einar E. Einarsson, bóndi að Skörðugili og formaður deildar loðdýrabænda, segir vissulega jákvætt að öll skinn í boði hafi selst í Kaupmannahöfn en að á sama tíma hafi uppboðið verið lítið, um 1,7 milljón skinn. Öll skinnin seldust undir framleiðsluverði þrátt fyrir að þau hafi hækkað um 15% frá síðasta uppboði Köbenhagen Furs. Uppboð Saga Furs í Finnlandi hófst 7. mars og stendur í viku og þar verða boðin upp fimm milljón minkaskinn auk annarra skinna. „Eftir fyrsta dag uppboðsins er ljóst að salan gengur ekki jafn vel og í Kaupmannahöfn. Megnið af því sem búið er að bjóða hefur selst en hækkun á verði skinnanna er minni en hjá Köbenhagen Furs.“ Lítið uppboð í Kaupmannahöfn „Uppboðið hjá Köbenhagen Furs er það fyrsta í langan tíma þar sem kaupendur voru í salnum en uppboðið var fremur smátt í sniðum miðað við mörg önnur uppboð þar sem fjöldi skinna er yfirleitt milli fjögur og sex milljón. Asíumarkaður hefur verið mikið til lokaður en á þessum uppboðum var merki um að hann væri að koma til baka. Það jákvæðasta við uppboðin er að skinnin eru að seljast og verð hefur hækkað lítillega þrátt fyrir að það sé enn töluvert undir framleiðslukostnaði.“ Hreyfing á markaði Einar segir að þessi tvö uppboð séu mjög afgerandi fyrir hvað muni gerast á þessum markaði og loðdýrarækt hér á landi. „Þrátt fyrir að verðið sem fékkst fyrir skinnin hafi verð lágt seldust þau að minnsta kosti og því einhver hreyfing á markaðinum. Við loðdýrabændur gleðjumst eins og hægt er yfir hækkuninni en þar vita allir að það þarf mun meira til ef greinin á að lifa.“ /VH Verð á minkaskinni hækkaði um 15% á uppboði Köbenhagen Furs en er enn undir kostnaðarverði. Mynd / VH Einar E. Einarsson, formaður búgreinadeildar loðdýra. Mynd / H.Kr.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.