Árbók Tryggingarstofnunar ríkisins - 01.12.1956, Side 144
Yfirlit
um starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins
1936-1956.
Með lögum nr. 26 1. febrúar 1936, um alþýðutryggingar, var Tryggingastofnun
ríkisins sett á fót og átti að annast stjórn alþýðutrygginganna. Lögin, sem öðluðust
gildi 1. apríl 1936, kváðu svo á, að stofnunin skyldi vera í fjórum deildum, slysa-
tryggingadeild, sjúkratryggingadeild, elli- og örorkutryggingadeild og atvinnu-
leysistryggingadeild. Þar sem engir atvinnuleysissjóðir voru stofnaðir samkvæmt
lögunum, urðu deildirnar aðeins þrjár. Þegar nýir bótaflokkar komu til sögunnar
með almannatryggingalögunum 1946, breyttist nafn elli- og örorkutryggingadeildar
í lífeyrisdeild, en undir þá deild fellur raunar meira en hinn eiginlegi lífeyrir, og
má þar nefna fæðingarstyrlc, ekkjubætur og fjölskyldubætur. Auk þess annast
deildin greiðslu barnsmeðlaga. Atvinnuleysistryggingar, sem komið var á með lög-
um nr. 29/1956, eru ekki taldar til almannatrygginga, þótt Tryggingastofnunin
annist reikningshald og daglega afgreiðslu atvinnuleysistryggingasjóðs.
Samkvæmt lögunum frá 1936 höfðu deildirnar aðskilinn fjárhag. Lögin frá
1946 kváðu aftur á móti á um sameiginlegan fjárhag og ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu
bóta og kostnaðar af heilsugæzlu. Með lögunum frá 1956 var felld niður þessi ábyrgð
ríkissjóðs og aftur tekinn upp sérstakur fjárhagur hverrar deildar fyrir sig.
I töflu 63 eru sýnd iðgjöld og framlög til alþýðutrygginga (síðar almanna-
trygginga) 1936—1956, og eru iðgjöld og framlög til sjúkrasamlaga þar meðtalin.
Iðgjöld hinna tryggðu eru iðgjöld til sjúkrasamlaga 1936—1956, iðgjöld til
Lífeyrissjóðs íslands 1936—1946 og iðgjöld til almannatrygginga 1947—1956. Til
Lífeyrissjóðs íslands bar sérhverjum íslenzkum ríkisborgara á aldrinum 16—66 ára,
sem heimilisfastur var hér á landi, að greiða iðgjald, er nam:
a) 7 krónum fyrir þá, sem heimilisfastir voru í kaupstöðum, 6 krónum fyrir þá,
sem heimilisfastir voru í kauptúnum með yfir 300 íbúa og 5 krónum fyrir þá,
sem annars staðar voru heimilisfastir, og auk þess
b) einum af hundraði af skattskyldum árstekjum.
Nokkrar undantekningar voru frá tryggingarskyldunni. Félagar í fjórum til-
greindum lífeyrissjóðum voru þannig undanþegnir, og hið sama átti sér stað um
þá, sem orðnir voru fullra 60 ára 1. apríl 1936.
Um iðgjöld hinna tryggðu til almannatrygginga vísast til töflu 8 á bls. 45 hér
að framan. Iðgjöld til sjúkrasamlaga liafa verið mjög mishá, sbr. töflu 41, bls. 85.
Við samanburð á hlutfallinu milli iðgjalda hinna tryggðu og framlags ríkis-
sjóðs fyrir og eftir gildistöku almannatryggingalaganna verður að hafa í huga, að
iðgjaldsupphæðin er nú óháð tekjum hlutaðeigandi gagnstætt því, sem áður var.
Iðgjöld atvinnurekenda eru iðgjöld til slysatrygginga 1936—1956 og auk þess
iðgjöld til annarra greina almannatrygginga 1947—1956, sbr. töflu 3, bls. 35 og
töflu 32, bls. 72—73.