Goðasteinn - 01.09.1971, Page 42
var við skörina, svo Loftur taldi rétt að leita vaðs við sjó fram.
Var það ráð tekið, þar var vatnið dreifðara. Birta tók og þarna
tókst að velja allgott vað og komast yfir þessla torfæru ásamt
Múlakvísl.
Nú var haldið alveg með sjónum, í flæðarmáli, þar sem lábar-
inn fjörusandurinn var mátulega mjúkur undir fótum. Ofan við
flæðarmálið var samanbarin snjóhrönn, sem hafaldan og frostvind-
ur norðursins höfðu hjálpazt að við hleðsluna. Brimlöðrið skolaði
fætur vegfaranda öðru hvoru, en léttar voru þær skvettur og komu
ekki að sök. Stinningskaldi var og skafrenningur. Hjörleifshöfði
gnæfði dökkur á brá úr mjallarauðninni.
Um lágfjöru var komið að Stóraútfalli, þar sem Miðkvíslarnar
renna saman í sæinn. Ágætt var að fara þar yfir á fjörubroti og
leiðin sækist greiðlega. Brátt var þangað komið, sem mál þótti að
yfirgefa fjöruna og leita byggða. Loftur vissi nokkra grein á leið-
inni upp úr Suðurhögum Álftveringa, hafði oft farið hana, en ekki
var gott að greina kennileiti. Drifhvít mjöllin huldi allt, og skaf-
renningur hindraði útsýn. Nauðsynlegt var að ganga á undan
hestunum, því víða leynast holur og gjótur, sem varast þarf. Samt
gekk ferðin sæmilega, og engar teljandi tafir urðu á leiðinni upp-
und.ir bæina. Þá var beygt til austurs, yfir Landbrotsá og að prests-
setrinu Mýrum, en þar var viðkomustaður póstsins. Á Mýrum
bjó Bjarni prestur Einarsson góðu búi. Þar fengu menn og hestar
smáhvíld. Hey, matur og kaffi rausnarlega látið í té. Ekki mátti
stanza lengi, afgreiðslu póstsins hraðað og svo lagt af stað austur
á Fljót.
Afætuálar, þó smáir væru, töfðu talsvert. Sums staðar vont að
koma hestunum ofan af og upp á skarirnar, þar sem álskorur voru
djúpar. Tókst þó slysalaust að koma öllu austur í Bæjarhólm og
heim að Söndum. Þá var farið að dimma, menn og hestar lúnir,
blautir og illa verkaðir. Sandamenn töldu naumast fært að leggja
hestana til erfiðs sunds, fyrr en þeir höfðu hvílzt. Loftur póstur
hafði ætlað að komast austur yfir en varð að hlýta þessu ráði, og
göngumenn féllust á að bíða á Söndum til næsta dags. Það gekk
vel að taka af hestunum og koma þeim í hús, þar sém grænt og
gott hey var látið á stalla. Sannarlega þurftu þessir þörfu þjónar
40
Goðasteinn