Goðasteinn - 01.06.1986, Blaðsíða 11
jörðu á bæjum þar sem voru hálfkirkjur eða bænhús á miðöldum.
Til skamms tíma var og heitið Kirkjugarður notað um blett framan
við gamla bæjarstæðið á Fornusöndum.
Auðunn á Helgusöndum taldi að Stóri-Dalur hefði eignast Dals-
fjöru fyrir Sandalandi er alkirkja var lögð niður á Þorgeirsstöðum
en ekki er það líkleg skýring.
Dalsmáldaginn sem talinn er frá 1371 er síðasta skrifaða heimild-
in um Sandakirkju og verður nú ekkert um það sagt hvenær kirkjan
var aflögð. Ekki er þó ólíklegt að það hefði gerst um 1400 og gæti
verið tengt þeim umskiptum er byggð var flutt frá gömlu Söndum
langt útsuður í Sandaiand. Rannsókn á kirkjustæðinu á Fornu-
söndum kynni að geta gefið m.a. bendingar um það hvenær kirkjan
var niður felld.
í byrjun 16. aldar voru Sandar í eigu Dalverja undir Eyjafjöllum,
einnar ríkustu ættar landsins. I fjárskiptabréfi eftir Einar Eyjólfs-
son í Dal andaðan, skráðu 1522, voru Hólmfríði Erlendsdóttur
hinni ríku, ekkju hans, m.a. útlagðir Sandar í mati 20 hundruð (DI,
IX, bls. 87). Jörðin gekk frá Hólmfríði til sonar hennar, Eyjólfs í
Dal, sem síðar skipti á henni og fleiri jörðum fyrir Steina undir
Eyjafjöllum, svo sem sjá má á skiptabréfi Eyjólfs Einarssonar,
gerðu í Stóra-Dal 25. ágúst 1558. Jörðin var þá óbreytt í mati (DI,
XIII, bls. 326) og áföll seinni tíma röskuðu því ekki.
Eigendur Sanda á seinni hluta 16. aldar, Árni Ásmundsson og
Guðný kona hans, eru ættlaus í heimildum en hljóta að hafa verið
af góðu bergi brotin. Bróðir Árna, Jón, átti í meiriháttar erjum við
héraðshöfðingjann Nikulás Björnsson sýslumann á Seljalandi.
Helst er svo að sjá að Jón hafi búið á Fit undir Eyjafjöllum og því
verið nágranni sýslumanns. Kristín fyrri kona Nikulásar, dóttir
Markúsar á Núpi og Seljalandi, átti að móður Sesselju dóttur
Eyjólfs í Dal og Helgu dóttur Jóns biskups Arasonar. Nikulás fékk
Seljaland með konu sinni.
Gísli Árnason sýslumaður dæmdi um mál Nikulásar og Jóns á
héraðsþingi í Holti 15. og 16. maí 1599. Komu þar fram margar sakir
á hendur Jóni og var ein sú að hann hefði farið vopnaður í veg fyrir
menn Nikulásar í heift og hatri og varið þeim og varnað réttan veg
heim að ríða til Fitjar.
Goðasteinn
9