Golf á Íslandi - 01.10.2011, Qupperneq 78
G O L F
Clarke
„ÞEGAR DARREN SLÓ MEÐ
FLEYGJÁRNINU, ÞÁ VISSI
ÉG AÐ HANN MYNDI SIGRA
Á OPNA BRESKA“
EWEN MURRAY RÆÐIR UM SVEIFLUNA SEM FÆRÐI
DARREN CLARKE SILFURKÖNNUNA Í SUMAR.
Höggið sem Darren sló inn
á aðra flöt á St. George á
sunnudeginum færði mér
sönnur á því að hann myndi
sigra á mótinu. Hann vissi það
líka. Hann sigraði ekki með því
að setja niður löngu púttin, eða
fá örn á sjöundu, heldur einmitt
með þessu höggi. Það sagði mér allt um það hvernig
Darren var að sveifla þennan daginn.
Hann lagði boltann inn á flöt með ofurlitlu slævi upp
í vindinn, og þegar boltinn lenti þá skoppaði hann
beint áfram og stoppaði, án þess að spinna til vinstri.
Ef það er eitthvað högg sem Darren líkar ekki við, þá
er það að slæva boltann með fleygjárni. Slíkt högg
er honum ekki eiginlegt, og hefðir þú horft á hann
á æfingasvæðinu á Queenwood nokkrum vikum
fyrir Opna breska, þá vissirðu um hvað ég er að tala.
Darren var einn daginn búinn að slá um það bil tvö
hundruð stutt högg, um það bil 25 metra löng. Hann
spurði mig síðan hvernig mér litist á. Ég benti honum
á að langflestir boltarnir hefðu endað hægra megin
við flaggið.
Darren sér öll högg fyrir sér sem dregin. Hann miðar
hægra megin og í upphafsstöðunni eru hendurnar
hans til baka í stöðunni. Boltaflugið er til hægri, og í
stuttum höggum á hann erfitt með að láta boltann
koma til baka. Ég man eftir móti á Bay Hill vellinum,
þar sem Darren var í forystu, en spilaði síðustu níu
holurnar á fjörutíu höggum. Ástæðan var að sex af
síðustu níu flöggunum voru aftarlega og til hægri
á flötunum, og hann einfaldlega komst ekki nálægt
þeim.
Á æfingunni neyddi ég hann til að slæva boltann.
Allt í einu voru hendurnar komnar á réttan stað í
upphafsstöðunni.
Um kvöldið, eftir að hann hafði sigrað Opna breska,
þá skildi hann eftir þvoglumælt skilaboð á símanum
mínum. „Hér talar sigurvegari ársins...“ Ég ræddi við
hann á mánudeginum og spurði hann hvernig hann
hefði slegið inn á aðra flöt með fleygjárninu. „Ég hef
ekki hugmynd um það,“ sagði hann þá.
Þarna er Darren rétt lýst; hann spilar af tilfinningu.
Ástæðan fyrir því að hann tók upp fleygjárnið var
að hann var fullur sjálfstrausts og tilbúinn í slaginn.
Annars hefði hann geymt þessa kylfu í pokanum.
Eftir að hann spilaði á 81 höggi á móti í Marokkó
í apríl, var Darren í slæmu ástandi. Hann sendir
reglulega myndskeið af sveiflunni sinni í símann
minn svo ég geti fylgst með. Á þessum tíma var
sveiflan hans ekki góð. Vinstri hendin lá yfir
brjóstkassann í aftursveiflunni og hann var kominn í
undarlegar stellingar. Þegar við hittumst loksins, þá
spurði ég hvað væri eiginlega í gangi.
Darren sagði mér að hann væri búinn að fá nóg -
hann gæti ekki hitt boltann lengur. „Ég er að gefast
upp,“ sagði hann. Ég held að þá hafi hann virkilega
meint það. Spilamennskan hjá Darren var slæm og
stutta spilið hjá honum var í rúst.
Darren sigraði óvænt á Majorku í maí. Hann segist
hafa spilað vel þá vikuna, en í raun og veru gerði
hann það ekki. Darren er bara svo hæfileikaríkur að
stundum tekst honum að sigra, þótt hann sé alls ekki
á boltanum.
En hann leggur hart að sér, og eyðir mörgum
klukkustundum á æfingasvæðinu. Ég á myndband
sem hann sendi mér frá Portrush vellinum áður en
Opna breska hófst. Hann er að æfa vippin og það er
prik sett í jörðina hinum megin við boltann - prikið
vísar upp að höku Darrens. Hann á það nefnilega til
að beygja hrygginn í aftursveiflunni - en hefði hann
gert það við þessar aðstæður, hefði hann fengið
prikið í hálsinn!
Myndirnar af honum á þessum blaðsíðum, að spila
á St. George, sýna hverju hann fékk áorkað. Allir
líkamshlutar eru á réttum stað í sveiflunni og hann
er í fullkomnu jafnvægi. Þegar Darren er í þessu
stuði, þá eru ekki margir sem slá honum við. Tiger
Woods - sem heldur góðu sambandi við Darren og
sendi honum nokkur skilaboð á meðan Opna breska
stóð yfir - veit vel hvað hann getur. Ég tel að Woods
beri mikla virðingu fyrir hæfileikum Darrens , kannski
síðan Darren sigraði hann í Accenture holukeppninni
árið 2000, þegar Tiger var á hátindi ferils síns.
78