Golf á Íslandi - 01.10.2011, Page 106
Kylfingurinn Gunnar Hreiðarsson úr GR fór holu í höggi í fyrsta sinn á ferlinum
14. september sl. Gunnar náði draumahögginu á 6. braut sem er 176 metra löng
af gulum teigum. Golffélagi hans til margra ára, Brynjar Valdimarsson, náði
draumahögginu rúmri viku fyrr á sömu braut í Holtinu og holan var á sama stað
á flötinni. Þeir félagar hafa þekkst í bráðum þrjátíu ár og Gunnar segir hringina
sennilega vera um eitt þúsund sem þeir hafi spilað saman.
„Ég sló með 6-járni og dró boltann inn á flötina. Holan var staðsett hægra megin
á flötinni og skoppaði boltinn einu sinni á flötinni áður en hann steinlá í holunni.
Það sem var svo sérstakt að golffélagi minn, Brynjar Valdimarsson, fór einnig holu
í höggi í fyrsta sinn á þessari holu þann 5. september sl. og þá var ég að spila með
honum. Hann var að spila með mér þegar ég náði draumahögginu, rúmri viku
síðar, þannig að þetta var mjög sérstakt. Ætli við kaupum ekki lottómiða saman,“
sagði Gunnar léttur í bragði en hann lék hringinn á 68 höggum og er mjög sáttur
við frammistöðu sína á golfvellinum í sumar. Brynjar var með 3-„blending“ þegar
hann náði draumahögginu.
„Ég er líklega búinn að leika 120-130 hringi í sumar og hef leikið svona mikið
undanfarin ár. Þetta er nú bara eins og að ganga hringveginn því þetta eru líklega
um 1400 kílómetrar þegar allt safnast saman. Sumarið hjá mér var frábært og
ég hef leikið mjög vel. Ég vann 1. flokkinn í meistaramóti GR og hef verið að leika
um og undir forgjöfinni í allt sumar. Það kórónar algjörlega sumarið að hafa farið
holu í höggi líka,“ sagði Gunnar Hreiðarsson.
GOLF
FRÉTTIR
Brynjar Valdimarsson og
Gunnar Hreiðarsson á
happaholunni í Grafarholtinu.
Gunnar Hreiðars
náði loksins
draumahögginu
Þúsund hringja
félagarnir fóru
loksins holu í
höggi
106