Morgunblaðið - 29.01.2007, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 29.01.2007, Blaðsíða 28
28 MÁNUDAGUR 29. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Kolbrún Haf-steinsdóttir fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1966. Hún lést á heimili sínu föstudaginn 19. jan- úar síðastliðinn. For- eldrar hennar eru Sjöfn Sigurðardóttir og Hafsteinn Hjalta- son. Kolbrún ólst upp frá tveggja ára aldri hjá hjónunum Hólmfríði Árnadótt- ur og Stefáni Yngva Finnbogasyni, lengst af á Sólbraut 9 á Seltjarn- arnesi. Kolbrún gekk í Melaskóla og Hagaskóla, síðan í Kvennaskólann í Reykjavík. Hún lagði stund á snyrtifræði og vann við þá grein um tíma í Dan- mörku. Dóttir Kolbrúnar og Ingólfs Magn- ússonar sambýlis- manns hennar er Tinna Ýr Ingólfs- dóttir, f. 29. júlí 1986. Þau Ingólfur slitu samvistir. Kolbrún hóf sam- búð með Magnúsi Gunnari Baldvins- syni 1988. Árið 1992 flutti fjölskyldan til Danmerkur þar sem þau bjuggu í 14 ár, lengst af á Storkevej 25 í Fröstrup á Jótlandi. Haustið 2006 fluttu þau til Íslands. Kolbrún verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13. Um þig, um þig mig dreymir daga og nætur, og daga og nætur hef ég leitað þín. Mín sál er hrygg, mín sorg á djúpar rætur, og sumri hallar skjótt og ævin dvín. Hve seint og illa verkin stundum vinnast, þótt vaki hugur lengur en dagur skín. Ég leita þín, en þú munt aldrei finnast, því þú ert nefnilega konan mín. (Steinn Steinarr) Þinn, Magnús Þín nótt er með öðrum stjörnum. Um lognkyrra tjörn laufvindur fer, kallað er á þig og komið að kveðjustundinni er. Dimman, þögnin og djúpið. Og blöðin þín mjúk sem bærast svo hljótt, liljan mín hvíta sem lokast í nótt. Orð eins og hendur sig hefja, bænir til guðs úr brjósti manns, stíga upp í störnuhimin og snerta þar andlit hans. Úr heimi sem ekki er okkar æðra ljós skín en auga mitt sér, lijan mín hvíta sem hverfur í nótt frá mér. Úr lindunum djúpu leitar ást guðs til þín yfir öll höf. Hún ferjar þig yfir fljótið og færir þér lífið að gjöf. Og söngnum sem eyrað ei nemur þér andar í brjóst. Dreymi þig rótt, liljan mín hvíta, sem opnast á nýtt í nótt. (Gunnar Dal) Mamma mín, hver minning með þér er mín dýrmætasta perla. Þín Tinna. Kolla var á þriðja ári þegar hún kom til okkar, athugul og viljasterk. Fljótt komu í ljós fleiri eiginleikar. Hún var hvers manns hugljúfi, skemmtileg og vakandi. Hún stakk upp á því að lítil frænka hennar yrði skírð Sigalda. Sú fékk reyndar nafnið Elísabet Rósa. Kolla lærði snemma vísur og lög og hafði gaman af að syngja. Breytti gjarna textunum og samdi nýja. Hún var farin að lesa bækur sex ára gömul. Hafði lært að lesa hjá Gróu, vinkonu sinni sem var tveimur árum eldri. Hún keppti í svigi fimm ára gömul, datt við neðsta hliðið, þrælaðist uppfyrir aftur og varð núm- er þrjú. Margir gáfust upp, en ekki Kolla. Við fluttum til Bergen 1972 og þar gekk Kolla í skóla. Eftir fáa mán- uði talaði hún bergenska mállýsku lýtalaust. Kolla var vinsæl og eignað- ist fljótt vini og gegnum hana skap- aðist kunningsskapur okkar við norska nágranna og vinátta sem hald- ist hefir fram á þennan dag. Eftir heimkomuna 1974 gekk Kolla í Mela- skóla og síðar í Hagaskóla. Hún var bókhneigð og næm og var tíður gestur á bókasöfnum skólanna. Kolla gekk í Kvennaskólann í Reykjavík en lauk ekki námi. Hún kynntist ljúfum pilti, Ingólfi Magnús- syni, og þau hófu sambúð. Það gekk ekki upp og þau slitu samvistir, en þau eignuðust hetjuna Tinnu Ýri Ingólfs- dóttur, sem nú syrgir móður sína. Kolla kynntist síðar Magnúsi Gunnari Baldvinssyni og flutti með honum til Danmerkur. Hann hefir reynst Kollu traustur vinur gegnum árin. Það hafa skipst á skin og skúrir gegnum árin. Vímuefni komu við sögu með sínum hryllingi. Kolla barðist við vandann og stundum gekk og stund- um ekki. Fyrir fjórum árum lenti hún í alvarlegu bílslysi og brotnaði illa á höfði. Hún lá meðvitundarlaus í viku og náði sér seint. Fjölskyldan flutti heim á síðasta ári. Allt leit betur út. Kolla hafði frískast mikið og hún gerði áætlun um að hefja nám að nýju. En skyndilega er hún dáin. Hjartað hafði gefist upp og við sitjum hnípin og sorgmædd. Vissulega var lífið ekki alltaf dans á rósum. En minningin um yndislega stúlku, sem barðist við sinn sjúkdóm af viljafestu, en stráði um sig gleði á góðum stundum, sú minning rís hæst og hjálpar okkur í sorginni. Mamma og pabbi (Fríða og Stefán). Hún Kolla dáin! Ég er ekki enn bú- inn að átta mig á þessu. Ég vaknaði við að síminn hringdi snemma á laug- ardagsmorgni og mér sagt að Kolla væri dáin. Ég kynntist Kollu fyrir rúmum 20 árum. Við urðum ástfangin og fórum að búa saman. Sú ást dó en ávöxtur ástar okkar var hún Tinna dóttir okk- ar. Demanturinn okkar og það sem tengdi okkur sterkum órjúfanlegum böndum um aldur og ævi. Það er víst óhætt að segja að eng- inn veit sína ævi fyrr en öll er. Hefði einhver sagt mér fyrir 20 árum að við Kolla yrðum ekki gömul saman hefði ég ekki trúað því. Ég minnist á þetta vegna þess að við Kolla áttum saman gott samtal stuttu áður en hún varð bráðkvödd. Hún var svo full af lífi og bjartsýn og sagði mér frá ýmsu sem hún stefndi að í framtíðinni. Kolbrún eða Kolla eins og hún var alltaf kölluð var fædd og uppalin í Reykjavík. Hún flutti til Danmerkur fyrir 14 árum og bjó á Norður-Jót- landi um skeið. Hún ferðaðist mikið á þessum árum. Var að skoða heiminn. Sumir láta sig dreyma en það var ekki nóg fyrir Kollu, hún varð að þreifa á hlutunum. Kolla var tryggur vinur og var ætíð til staðar fyrir sína. Eins mátti hún ekkert aumt sjá og var eng- um vísað á dyr ef hann hafði ekki tryggan samastað. Kolla flutti aftur til Íslands fyrir tveimur árum. Sam- bandið á milli okkar hafði dofnað þessi ár sem hún var í burtu en það var samt eins og hún hefði aldrei farið í burtu. Kolla var mjög hispurslaus og blátt áfram og mér fannst eins og ég hefði alltaf þekkt hana. Elsku vinkona, ég veit að við eigum eftir að hittast aftur. En þangað til þarf ég bara að segja þér að ég sakna þín og ég skal ætíð vera til staðar fyrir hana dóttur okkar. Ingólfur M. Kolla mín er dáin! Og þá fer hug- urinn á fullt, allar minningarnar, ferðalögin og matarveislur. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar bróðir minn kynnti mig fyrir huggu- legri stúlku fyrir um 20 árum. Þá buðu þau mér í mat og var hann hinn huggulegasti eins og maturinn henn- ar Kollu var og besta eplasalat sem ég hef fengið var hjá henni og hún sagði, þetta lærði ég hjá henni mömmu, hún er svo góður kokkur. Það var sjaldan lognmolla í kring- um Kollu, hún var dugleg, góð mann- eskja, það veit ég af eigin raun, hvað hún reyndist pabba mínum Baldvini vel þau 7 ár sem hann bjó hjá Magnúsi og henni. Hún hugsaði allatíð vel til hans og hringdi til mín ef eitthvað var, eða bara til að spjalla um bækur, jafn- vel pólitík, því Kolla fylgdist vel með mörgu hér heima, þó hún byggi ekki hér og þá aðallega þeim sem minna mega sín, svo sem öldruðum og ör- yrkjum og þar hafði hún sko sínar skoðanir sem margar voru góðar. Ég fór að heimsækja hana tvívegis og þá kom sko gestrisni hennar í ljós. Tilbúinn matur, gott rauðvín og geng- ið úr rúmi fyrir mig, hvað getur mað- ur fengið það betra? Daginn eftir var hún búin að redda 2 hjólum og sagði: Nú ætla ég að sýna þér fallegu sveit- ina mína. Jú, jú, við hjóluðum allan daginn en þegar ég vaknaði daginn eftir þá gat ég varla risið úr rekkju vegna harðsperra, þá sagði Kolla með sínu breiða brosi: Þá verðum við að hjóla aftur í dag til að ná þessu úr þér og hana nú. Þetta voru yndislegir fimm dagar, það var mikið talað og hlegið, talað um börnin og þá Tinnu og Íris, hvað þær væru búnar að halda sambandi, þó svo langt væri á milli þeirra og þannig ætla ég að minnast hennar. Elsku Tinna, þú átt góða móður sem vildi þér allt það besta sem hún gat gefið þér, hún lifði fyrir það. Ég mun sakna þess að heyra ekki frá henni talandi um þig en hún skildi eft- ir afleggjara af sér sem betur fór. Maggi minn, ég vona að þú og Tinna styrkið hvort annað í þessum stóra missi. Stefán, Fríða, Leifur, Tinna og Magnús, ég vona að Guð og allir hans englar vaki yfir ykkur og huggi. Hans er valdið, miskunn, máttur, margbrotin er agans lið. Enginn veit nær kallið kemur, kall í gegnum sorg og neyð. Þetta land er elds og ísa, enginn þekkir næsta dag, hvað hann ber á brautir manna breytt er margt um sólarlag. (Hugrún) Sigríður Baldvinsdóttir og fjölskylda. Það er komið að kveðjustund, kæra frænka. Þú varst sérstök og mér þótti mjög vænt um þig. Samskipti við þig voru ekki alltaf auðveld og ef þú tókst ákveðna stefnu varð henni ekki svo auðveldlega breytt. Þú áttir það til að reyna verulega á þolrifin í manni og gast verið bæði þrjósk og stríðin. Ég man eftir sundferð sem við fórum saman, báðar börn en ég nokkrum ár- um eldri. Við fórum að morgni og framan af degi var mjög gaman hjá okkur. Um miðjan dag vildi ég fara upp úr en þá kom einhver púki í þig og það var ekki viðlit að koma þér upp úr lauginni. Það var liðið að kvöldi þegar ég fór upp úr og skildi þig eftir. Þegar þú varst orðin ein fannst þér þessi sundferð ekki áhugaverð lengur. Ég bjó á heimili fjölskyldu þinnar á vet- urna á fjögurra ára tímabili þegar ég var hér í skóla. Þú varst barn þegar ég kom fyrst en unglingur þegar ég fór. Á þessum árum myndaðist milli okkar þráður væntumþykju og þann þráð gátum við alla tíð tekið upp þó að sam- skiptin væru ekki mikil seinni hluta ævi þinnar. Þú varst eldklár, örlát og yfirleitt mjög jákvæð og hláturmild. Þú varst skemmtileg og það var gaman og gott að spjalla við þig. Þú varst ung þegar þú ánetjaðist vímuefnum og það gerði líf þitt oft á tíðum mjög, mjög erfitt. Að eignast Tinnu var eitt af því besta sem þú gerðir og þú barðist fyrir því að hafa hana hjá þér og varst mjög stolt af henni. Þú hringdir í mig í haust til að spjalla og það var gott hljóð í þér. Þú hafðir lokið meðferð og varst að gera upp þín mál til að geta byrjað nýtt líf án vímuefna. Þú lýstir ánægjulegri berjaferð með foreldrum þínum og gleði mömmu þinnar með þátttöku þína. Mér fannst þú vera að njóta hluta sem þú hafðir ekki leitt hugann að um tíma. Maggi var hjá þér þegar þú kvaddir en nýlega sagðir þú mér að hann væri maðurinn sem þú elskaðir. Ég votta aðstandendum öllum samúð. Berglind. Kolbrún, frænka mín og vinkona, er farin eftir stutta dvöl en sterka nærveru. Fyrsti fundur okkar er jafn skýr í minningunni og sá síðasti. Tveggja og hálfs árs gömul mætti hún á okkar fyrsta fund með síða lokka, stór og skýr augu í fallegri hvítri kápu, sem Fríða prjónaði handa stelp- unni sinni. Þá var ég sextán ára og hlakkaði mikið til að eignast nýja frænku og gat ekki beðið eftir því að sjá hana. Daginn sem Kolbrún kom til Fríðu frænku og Stefáns vann ég í versluninni Víði við Starmýri og tók loforð af minni kæru frænku að koma með stelpuna í vinnuna til mín um leið og hún hefði fengið hana til sín. Fríða og Stebbi komu stolt og glöð með Kolbrúnu, sem stóð eins og lítil heimsdama uppi á afgreiðsluborðinu, skoðaði innanbúðarstúlkuna og velti því fyrir sér hvort þarna væri kona, sem óhætt væri að treysta. Hún vildi ekkert við mig tala þennan fyrsta dag og mér þótti það miður en seinna kom að því að við ræddum saman í ein- lægni, jafnt í sorg og gleði. Skin og skúrir hafa skipst á. Trygg vinátta var með foreldrum okkar og mikil samskipti. Ég kynntist því Kolbrúnu vel og fann að hún hafði skarpan skilning, lifandi sýn og mikla orku, sem erfitt gat verið að beisla. Kolbrún gætti oft barna minna þeg- ar hún var orðin stálpaður unglingur og þótti þeim báðum mjög vænt um hana. Seinna lágu leiðir okkar saman þegar hún var nemandi en ég kennari við Kvennaskólann í Reykjavík. Þá varð mér ljóst að hún ætti erfitt með að standast ýmsar freistingar. Gleðin ríkti í sál hennar þegar hún sagði mér að hún ætti von á barni með Ingólfi vini sínum. Hún var ung en ákveðin í að hún ætlaði að takast á við móðurhlutverkið og sá í fljótu bragði ekki margar hindranir á veginum, vissi þó vel að verkefnið sem beið yrði henni ekki auðvelt. Hún vildi takast á við hið lifandi líf sem kviknað hafði og hlakkaði til. Tinna Ýr dóttir hennar kom og með henni mikil birta, sem lýsti þeim leiðina. Ung lagðist Kolbrún í ferðalög og flutti síðan til Danmerkur með Tinnu Ýri og Magnúsi Gunnari Baldvins- syni, sem síðar varð eiginmaður henn- ar. Eftir að Kolbrún fluttist til Dan- merkur leið oft langur tími á milli funda, sem nú verða ekki fleiri. Kolbrún flutti nýlega heim til Ís- lands. Við áttum gott kvöld saman í nóvember og litla stelpan sem stóð tortryggin á afgreiðsluborðinu í versl- uninni Víði árið 1968 var ekki lengur hrædd við frænkuna. Samtal okkar var innihaldsríkt og gefandi. Kolbrún var mælsk og tók vel eftir því sem gerðist í kringum hana. Hún átti auð- velt með að sjá kómískar hliðar á sjálfri sér og samtímanum. Kvöldið var skemmtilegt og við kvöddumst glaðar. Friður veri með syrgjendum. Megi minning Kolbrúnar frænku minnar lifa. Guðbjörg Þórisdóttir. Ég naut þeirra forréttinda að Kolla passaði mig stundum þegar ég var lít- ill. Það var alltaf tilhlökkunarefni að fá Kollu í heimsókn, hún var hlý, skemmtileg og góð. Eitt kvöldið þegar ég var lagstur upp í rúm sat hún við rúmstokkinn og sagði mér þessa sögu: „Einu sinni var strákur sem var nýr á leikskólanum. Hann var feiminn og hræddur. Hann var í nýrri, blárri peysu og einn strákanna fór að stríða honum og sagði að peysan hans væri ljót. Allir krakkarnir fóru þá að gera grín að peysunni og hlæja að honum, hann var alveg að fara að gráta þegar lítil stelpa sneri sér að hópnum og sagði: „Mér finnst þessi peysa mjög flott!“ Síðan fór hún að leika sér með stráknum og loks snerist allur hóp- urinn á band með henni og strákurinn gat tekið gleði sína á ný.“ Þessi saga getur kennt manni margt og sýnir, að mér finnst, hve falleg manneskja Kolla var. Hvíl í friði og kærar kveðjur frá litla drengnum sem þú passaðir svo vel. Einar Árnason. Það virðist ekki skipta máli hversu margir tugir bætast við aldur manns, það fennir aldrei í þau spor minninga sem góður vinur hefur stigið með manni í æsku. Minningarnar verða bara verðmætari og sú væntumþykja sem varð til gagnvart þessum einstak- lingi breytist ekki. Vinurinn á vísan stað í hjarta manns þó svo að leiðir skiljist. Þannig var það með okkur Kollu. Í æsku vorum við bestu vinkonur. Við vorum óaðskiljanlegar og á tíma- bili var ég meira að segja komin með aðgang að „mínu“ herbergi á heimili hennar. Við gerðum allt saman. Það var alltaf reiknað með okkur báðum í mat á öðru hvoru heimilinu og oftar en ekki var líka sameiginlegur morgun- matur. Kolla var mér traust og góð vin- kona. Hún var til staðar þegar ég þurfti á að halda og fannst mér oftar en ekki að hún byggi yfir visku sér eldri manneskju. Hún kom frá ynd- islegu heimili og átti þá bestu foreldra sem hugsast gat. Voru þau vakin og sofin yfir henni og vinum hennar í æsku. Átti ég alltaf hjá þeim skjól og fyrir það er ég þeim þakklát. Kolla var mikill persónuleiki, ógleymanleg öllum sem henni kynnt- ust. Hún var leiðtogi, hafði sterkar skoðanir, var sjálfsörugg og velti aldr- ei fyrir sér áliti annarra. Á meðan við hinir unglingarnir sáum okkur ekki fært annað en að reyna að falla í hóp- inn, fylgja ákveðnum fatastíl eða hár- tísku, þá hentaði henni betur að finna sinn eigin stíl og sínar eigin leiðir. Hún færði mér eitt sinn skæri og bað mig um að gera tilraunir á hárinu á sér. Ég sá fyrir mér að þarna fengi ég útrás fyrir eigin sköpunargleði, tók við skærunum og útkoman varð hin furðulegasta klipping. Kolla varð him- inlifandi en ég man eftir að hafa fengið snuprur frá ömmu hennar fyrir her- legheitin. Kolla var líka eldklár og virtist lítið þurfa að hafa fyrir náminu. Hún var einnig mjög góður penni og tókum við m.a. að okkur eitt árið að ritstýra skólablaði Hagaskóla. Ég er ekki frá því að hún hafi átt flestar greinarnar og sögurnar í því blaði. Síðan skildu leiðir eftir fyrsta árið okkar saman í Kvennaskólanum. Hún flutti til útlanda á vit nýrra ævintýra og ég reyndi að fylgjast með úr fjar- lægð. Ég vissi af Kollu og fjölskyldu hennar í Danmörku og á flakki um heiminn. Oftar en ekki heyrði ég af Tinnu, dóttur hennar Kollu. Hún var stolt móður sinnar, svo yndisleg og vel af guði gerð. Loks, eftir margra ára hlé og nokk- ur símtöl, hittumst við á ný á síðasta ári. Mér þótti mjög vænt um það. Við náðum að rifja upp gamla tíma yfir kaffibolla og fylla í eyðurnar. Mér datt ekki annað í hug en að við hefðum nægan tíma til frekari endurfunda. Frá því ég frétti af andláti Kollu hef ég verið að fletta í gegnum myndaal- búmin hjá mér og rifja upp ýmislegt sem við brölluðum. Oftar en ekki hef ég brosað í gegnum tárin. Kæru ástvinir Kollu, ég sendi ykk- ur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Blessuð sé minning hennar. Anna Margrét. Ég man þegar ég sá Kollu fyrst. Hún var þessi týpa sem ekki var hægt að láta fram hjá sér fara. Sæt, gáfuð, hress og bar með sér einstaklega heil- brigt sjálfsöryggi. Við vorum 12 ára og ég man hversu mikið mig langaði til að kynnast henni. Ári síðar lágu leiðir okkar saman í Hagaskólanum, við urðum vinkonur og Kolla sá um að halda uppi stuðinu. Það var engin lognmolla í kringum Kollu, hún var svo skemmtileg. Eitt sumarið fór hún í sumarskóla til Englands. Ég vissi að ég myndi sakna hennar og við ákváðum að horfa á tunglið á sama tíma, hún á Englandi – ég á Íslandi, og vita hvort við myndum finna hvor fyrir annarri. Kolbrún Hafsteinsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.