Birtingur - 01.07.1956, Blaðsíða 17

Birtingur - 01.07.1956, Blaðsíða 17
THOR VILHJÁLMSSON: Hvítur hestur Þau höfðu horft á leikiun og þau gengu út. Gengu út á götuna. Þar var margt fólk. Þar var svo gífurlegur mannfjöldi að þau gengu saman, leituðu að friðlegum stað að hvíla sig frá margmenn- inu og vera ein, og vera tvö ein. Voru tvö í kyrrum garði og sátu á járn- fættum baklausum steinbekk og horfðu á marglitan frið garðsins og fallið laufið sem gerði gulan og rauðan jaðar gangstígsins þar sem það hafði rótast ofan í rennur beggja vegna, rautt og gult; en stígurinn sjálfur grár úr smágerðri þjappaðri möl. Engir þar nema þau. Engir nema þau. Og hvitur hestur sem kom inn um garðshliðið og stóð álengdar og virti þau fyrir sér án þess að yrða á þau. Hann hafði stór blá augu. Þaðan streymdi vatnið látlaust. Var það sorg? Var það kannski af harmi? Þannig voru þau kannski ekki bara tvö lengur heldur eiginlega orðin þrjú með þessu þótt einn væri nokkuð afskiptur. En svo fann hvíti hesturinn það hvernig málin stóðu: að honum var ofaukið, og fór. Þá urðu þau aftur tvö en ekki eitt. Þótt þau væru tvö ein. Því eitthvað hafði gerst, hvað hafði nú gerst? og eitthvað var það sem hafði gerst. Eitthvað svo ekki var allt samt aftur. Nú var ekki lengur hægt að þegja. Nú varð að fara að tala. Nú var ekki nóg að þegja lengur: Hvaða hestur? hvaðan kom þessi hestur? segir mað- urinn til að segja eitthvað. Hvaðan? segir konan: En hesturinn sem lá í sandinum gula og blóðið rann svo rautt eftir horn nautsins, og hann lá þar í sand- inum grár, og blæddi út. Þessa ræðu flutti konan, þessi eftirmæli síðla dags í afskekktum skemmtigarði. Þetta grunaði manninn líka og þetta fannst honum hann hefði vitað þegar hann heyrði konuna segja það. En var rétt að segja það? Þögull ásakaði hann konuna fyrir að hafa orð á þessu, ó það kaldlyndi; en konan hugsaði: En hann skyldi ekki sjá þetta sjálfur held- ur þurfa að láta mig segja sér það! Þannig var einingu þeirra sundrað. Þau stóðu upp og gengu hvort í sína áttina út úr hinum kyrra garði og það var nótt. Ljósin kviknuðu út um borgina. 15

x

Birtingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Birtingur
https://timarit.is/publication/823

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.