Morgunblaðið - 05.09.1978, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 05.09.1978, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐÍ ÞRIÐJUDAGUR 5. SEPTEMBER 1978 Einn fremsti myndhöggvari aldarinnar, Henry Mo«re, varð áttræður þann 30. júlí sl. og hefur afmælisins verið minnzt í fjölmiðlum um allan heim. Hann er jafnframt sá mynd- höggvari sem víðþekktastur er, því að hin risastóru verk hans eru dreifð um allar jarðir. Víðförull ferðalangur kemst vart hjá því að rekast á verk hans fyrr eða síðar og í þeim mæli, að hann fer fljótlega að kannast við handbragðið og kinkar kunnuglega kolli, er hann lítur verkin á hinum ólíklegustu stöðum. Verk Moores sóma sér alls staðar vel, hvort heldur er úti í villtri náttúrunni, í snyrtilegum og velskipulögðum lystigörðum, fyrir framan nútímalegar bygg- ingar eða í eldri hverfum stórborga. Það er stundum líkast því sem myndirnar hafi alltaf verið á staðnum, að þær hafi vaxið upp úr frjórri gróður- moldinni eða jafnvel sprottið upp úr malbikinu! Eg minnist þess, þegar ég var í London fyrir réttum áratug, að ég sá mikla sýningu á verkum Moores í „Tate Gallery" í tengslum við sjötugsafmæli hans. Það var mikill viðburður fyrir mig að skoða sýninguna og fylgja þróun listamannsins frá fyrstu tíð, en þó var eftirminni- legast að sjá mikla styttu eftir hann fyrir framan listasafns- bygginguna. Ég naut þess að sitja á bekk og horfa mikið og lengi á þessa mynd, því að áhrifin voru svo mögnuð að líta þetta nútímaverk í miðri gömlu London. Þetta var í Ijósaskipt- unm og það jók enn hughrifin. Eitt er víst, að hér var líkast því sem gamli og nýi tíminn tækjust þéttingsfast í hendur og létu vel hvor að öðrum. — Þegar ég sat þarna minntist ég annars eftir- minnilegs atviks, er orkaði líkt á tilfinningar mínar og ég mun seint gleyma. Ég var staddur í New York ásamt föður mínum sumarið 1965 og höfðum við feðgar m.a. skoðað hina miklu heimssýningu, er þar var þá haldin. Við gengum hægt í hitanum um Manhattan og nutum þess einungis að vera til, skoðuðum frægar byggingar, svöluðum þorstanum á vinaleg- um krám og fylgdumst með litríku mannlífi úti og inni. Skyndilega stöndum við and- spænis hinum mikla himna- kljúf, er kenndur er við „Sea- gram“ og hinn nafntogaði Lud- wig Mies van der Rohe teiknaði. Bygging þessi er fræg fyrir þráðbeinar línur sínar og sem slík mikið listaverk. Við urðum blátt áfram agndofa, en við höfðum einmitt séð myndir af þessu mikla húsi á Nútímalista- safninu nokkru áður. Fyrir framan húsið var risastór, ævaforn mexíkönsk mynda- stytta, er hafði verið lánuð þangað í tilefni heimssýningar- innar. Það var eftirtektarvert og hreint sláandi, hvað styttan var áhrifarík og féll vel inn í umhverfið, þótt tæpast væri hægt að ímynda sér meiri andstæður. Það var líkast því sem gamli og nýi tíminn auðg- uðust og lífguðust í víxlverkun. „Skyldi það ekki einmitt svo vera,“ sagði ég við föður minn, „að listin er tímalaus, góð forn list er alltaf ung og á sífellt til okkar erindi, minnist svo ljúf- lega við nútímann." Faðir minn samsinnti þessum orðum mín- um eftir nokkra umhugsun, en bætti við: „Og á hinn veginn rímar öll góð nútímalist við öndvegisverk eldri tímaskeiða." Síðan sló þögn á okkur, og við stóðum þarna hljóðir langa stund. Ég fer enn lengra aftur í fortíðina og minnist þess, er tveir ungir menn er voru á leið til Sýrakúsu á Sikiley fyrir nær aldarfjórðungi, voru staddir í Napoli og hvíldust eftir að hafa skoðað „Museo Nazionale" þar í borg. Við höfðum orðið fyrir sterkum áhrifum, — þarna litum við ekki aðeins mikið safn listaverka frá Pompei og víðar, heldur og einnig mikla stand- mynd af konu einni í fordyrinu, er vakti sérstaka athygli okkar. Arið áður, er við vorum í Osló, höfðum við verið svo heppnir, að hver stórsýningin rak aðra í Kunstnerenes Hus, þar sem listaháskólinn var m.a. til húsa. Fyrst kom höggmyndasýning á .verkum Henry Moores, og svo seinna sýning ítalska mynd- höggvarans Marino Marini. Þetta var einstakur viðburður á Norðurlöndum og hvað mest að þakka duglegum forstöðumanni hússins, Reidar Revold. Þegar hér var komið höfðum við einnig heimsótt Mexíkanska sýningu í Stokkhólmi. Allt hafði þetta mikil áhrif á okkur, og varð tilefni fjörugra rökræðna þarna á gangstéttarkaffihúsi í Napoli. Styttan í anddyri safnsins hefði sem sé allt eins getað verið eftir Henry Moore, og mörg önnur verk, er við sáum, minntu mjög á Marino Marini. Því að skyld- leiki hinnar formrænu efnis- kenndar í útfærslu leyndi sér ekki. Þetta er sannarlega ekki sagt hinum miklu myndhöggv- urum til lasts, heldur til að sýna fram á skyldleika nútíðar og fortíðar og að ekkert er algjör- lega nýtt og ekkert heldur fullgilt, sem ekki á rætur í fortíðinni né er tengt móður náttúru. Henry Moore hélt í mikla skoðunarreisu frá lokum janúar til miðs júnímánaðar 1928. Heimsótti hann París, Flórenz, Pisa, Siena, Assisi, Padua, Ravenna og Feneyjar. Moore varð fyrir svo djúpum áhrifum á Italíu, að hann var í marga mánuði að jafna sig eftir að hann kom heim og hefur sjálfur látið svo um mælt, að þetta hafi verið þjáningarfyllsti tími lífs síns. Þeir, sem hafa troðið sömu slóðir í sömu erindum, skilja þetta mætavel. Mögnuð list Etrúska, önnur forn högg- myndalist, endurreisnartímabil- ið, svo og sjálf mannlífskvikan allt um kring, hafa mikil og varanleg áhrif á skoðandann og gjörbreyta í mörgum tilvikum lífsskoðun hans, sprengja fyrri gildi og sannfæringu. Þá er eins og viðkomandi svífi í tómarúmi og verði að byggja allt á nýjum grunni. Við þessar hugrenning- ar leitar á hug mér snilldar- kvæði eftir landa Moores, Rudy- ard Kipling (í þýðingu Magnús- ar Ásgeirssonar). „Ef draumum ann þitt hjarta og hönd þín dáðum,/ ef hugsun fleygri verð- ugt mark þú átt,/ ef sigri og hrakför, blekkingunum báðum./ Þú brugðizt getur við á sama hátt,/ ef sannleik þínum veiztu snápa snúa/ í snörur flóna, en bugast ekki af því,/ og lítur höll þíns lífs í rústamúga, —/ en lotnu baki hleður grunn á ný.“ Hér gildir það sem sagt að halda alltaf áfram, hætta öllu, tapa, en rísa ávallt upp aftur og hlaða nýjan grunn. „Ef treystir þú að hætta öllu í einu,/ sem ævilangt þér vannst, í hæpið spil/ og tapa — og byrja á ný með ekki neinu/ og nefna ei skaðann sem hann væri ei til,/ ef færðu knúið hug og hönd til dáða/ er hafa bæði þegar lifað sig./ Og þú átt framar yfir engu að ráða/ nema Myndllst eftir BRAG A ÁSGEIRSSON aðeins vilja, er býður: Stattu þig! Þetta segir meira en langt óbundið mál. Henry Moore hefur alltaf verið trúr sannfær- ingu sinni og hvergi hnikað af vegi, þótt vísast hafi verið til nóg af fólki í kringum hann sem aðra slíka, er telur sig handhafa hins eina og rétta sannleika í list og mennt. Það hefur reynzt harður kjarni í námumannssyninum frá Yorkshire. Henry Moore fæddist ekki alvís og fullskapað- ur, en hefur hægt og bítandi þróað myndheim sinn og nú á gamals aldri, er hann lítur yfir lífsferil sinn, blasa við meira en 300 einkasýningar verka hans um allan heim. Rúmlega hundr- að bækur og doktorsritgerðir hafa verið gefnar út um verk hans, og hann hefur hlotið 21 heiðursdoktorsnafnbót! Eintak- ið af stærri myndum hans kostar 100 milljónir ísl. kr. og ósjaldan ríflega það. En höfund- urinn sjálfur heldur fullri ró þrátt fyrir alla frægðina, vinnur dag hvern og er í nánum tengslum við náttúruna á sveitasetri sínu 50 mílur frá London. Frægðin kom þó ekki til þessa mikla manns fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari, er hann sýndi teikningar, er hann gerði í loftvarnabyrgjum í London, aðallega í göngum neðanjarðar- brautarstöðva, þar sem konur og börn höfðust við á meðan á loftárásum stóð. Myndir þessar, sem hann sýndi á Hermuna- minjasafninu í London gerðu hann skyndilega vinsælan. Þær höfðuðu til kviku þjóðarinnar og komu á réttum tíma við réttar aðstæður. Þessi meðbyr varð undirstaða frægðarferils hans og er íhugunarvirði, að án stuðnings og meðbyrs eignast þjóðir fáa eða enga snillinga. Henry Moore er höfðinginn og risinn í enskri höggmyndalist og um leið heimsins á þessari öld. Áhrif hans hafa verið víðtæk og þeirra gætir einnig greinilega hér á hjara veraldar. Ég vil enda þetta spjall með síðustu hend- ingunni úr ljóði Kiplings, sem á vel við þetta ofurmenni í heimi listanna. „Ef höfðingi ert í miðjum múgsins flokki/ og málstað lýðsins trúr í konungs- fylgd,/ ef hóf sér kunna andúð þín og þokki/ og þó ertu ávallt heill í fæð og vild,/ ef hverri stund er flughröð frá þér líður,/ að fullu svarar genginn spölur þinn,/ er jörðin þín og það, sem lífið býður,/ og þá ertu orðinn maður, sonur minn.“ Bragi Ásgeirsson. Liggjandi kona (1929) Liggjandi kona (1945—6) /

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.