Morgunblaðið - 20.06.1984, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 20.06.1984, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 20. JÚNÍ 1984 15 Óvænt stefnubreyting Ian Dury í samtali við Morgunblaðið lbiza, 5. júní 1984. Sólríkur dagur er hniginn, stjörnubjart er og sigð mánans varpar drungalegum skuggum af trjánum umhverfis San Rafael. Rétt utan við bæinn bera sterk rafljós tunglskinið ofurliði, há- værir tónar berast frá einu stærsta diskóteki Evrópu; skemmtistaðnum Ku. Staðurinn er vissulega stór og tilkomumikill. Hann er að mestu leyti undir beru lofti, hundrað blikkandi kastara lýsa upp sérhvern kima, sem rúma eiga 6.000 manns þegar best lætur. Stór sundlaug er á miðjum staðn- um, en út í hana liggur rennibraut sem dulbúin er sem grænn, ófrýni- legur ormur. Gestum er ætlað að smeygja sér inn í endaþarm dýrs- ins og renna sér gegnum iður þess, út um gapandi ginið í laugina. Yfir öðrum enda laugarinnar slútir gerðarlegur hljómsveitapallur, en þetta tiltekna kvöld er hann þétthlaðinn hljóðfærum, hljóð- nemum og öðru þvi hafurtaski sem tilheyrir tónleikahaldi. Innan skamms eiga þarna að hefjast hljómleikar breska tónlistar- mannsins Ian Durys. Ian Dury er Islendingum að nokkru kunnur síðan lög hans: Hit Me With your Rythmstick, What a Waste og fleiri náðu vinsældum á Fróni fyrir nokkrum árum. Und- anfarið hefur verið nokkuð hljótt um Dury nema hvað frést hafði af nýrri plötu frá honum nú í vor. Ian Dury hefur löngum verið þekktur fyrir skerandi hrjúfleik, tónlist hans á áttunda áratugnum sór sig í ætt við hið hráa pönk, auk þess sem fötlun hans, gróf söng- rödd og framkoma gripu eftirtekt fjöldans. Það kom blaðamanni því mjög á óvart, þegar hann átti við- tal við Dury fyrir tónleikana, hve hann var hversdagslegur að ræða við og persónuleiki hans fjarri þeirri imynd sem sviðsframkoma fyrri ára hafði sniðið honum. Það kom líka í ljos þegar líða tók á spjallið, og eins á tónleikunum, að viðhorf Durys og tónlistarsmekk- ur hafa tekið stakkaskiptum á liðnum árum. Blaðamaður innti Dury fyrst eftir því hvort hann spilaði ein- ungis tónlistarinnar vegna eða hvort hann vildi koma einhverjum skilaboðum áleiðis til áheyrenda. „Það veltur á áheyrendunum," svaraði Dury, „stundum geturðu vænst hljómgrunns hjá þeim og stundum ekki. Hér til dæmis hlusta áheyrendur eftir hljómfall- inu og danstaktinum. Þú talar um skilaboð; skilaboð berast fólki í gegnum símafélög." — Hvað um samlanda þína eru þeir móttækilegir fyrir boðskap í tónlist? „Ég held að Bretar kjósi helst að hlusta á afþreyingartónlist og það er svo sem gott og blessað. Vissir hópar fylgja hljómsveit vegna boðskaparins, ekki almenningur. Ég á við að hjá hljómsveitum eins og Duran Duran og Boy George, sem njóta almennra vinsælda, fer allra jafnan lítið fyrir boðskap. Hér áður fyrr mátti finna boðskap í tónlist minni, en ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd. Það var á pönktímabilinu þegar menn höfðu hreinræktaðar hugsjónir, en það tók fljótt af. Þetta var líka nokkuð einangrað fyrirbæri, ein- skorðaðist við vissan hóp fólks." — Nú er mikil gróska í bresku tónlistarlífi, er pönkið útdautt, kafnað í flaumi nýrra strauma? „Það er ekki dautt. Pönktónlist- in er orðin klassísk hefð, líkt og Rokcabilly tónlistin, nokkurs kon- ar minning. Pönkið er ekki úr sér gengið, en það er ekki ferskt leng- ur.“ — Vilt þú draga þá tónlist sem þið leikið í einhvern tónlistarlegan dilk? „Já við leggjum mikið upp úr því að leika góða tónlist. Hljómsveitin f tfí HXÖiófild/tyyioM leitast við að vekja viðbrögð, ná tökum á áheyrendunum, sem góð funk-hljómsveit líkt og Earth Wind & Fire, Parlament, Funk Derik og fleiri slíkar." — Nú hefur þú staðið lengi í eldlínunni, nýtur þú þess enn að koma fram fyrir áhorfendaskar- ann? „Ég kýs miklu frekar að fara á tónleika til að spila, en að hlusta. Annar hef ég meira gaman af því að spila á tónleikum í tónieikahúsi frekar en á skemmtistöðum sem þessum, þar sem fólk er komið til að verða drukkið, finna sér bólfé- laga eða hanga saman á vörun- um.“ — Hvers konar tónlist hlustar þú á í frítíma þínum? „Reggae tónlist, afríska tónlist, soul og mikinn jazz, allskonar jazz.“ — Það hefur ekki hvarflað að þér að snúa þér alfarið að jazz- tónlist? „Nei, einfaldlega vegna þess að ég er ekki söngvari, ég kem fram sem leikari. Takmörk min setja mér skorður, innan þeirra tekst mér best upp. Tónlistinni eru líka takmörk sett, maður getur spilað einfaldari tónlist án þess að tón- listin glati litrófi sínu. Maður þarf líka að vera mjög varkár þegar maður leikur jazz; jazztónlist á frekar litlu fylgi að fagna, hún hræðir fólk oft því hún er þekkt fyrir að vera erfið og er af mörg- um álitin listgrein. Jazztónlist krefst líka vinnu frá áheyrandan- um engu síður en hljóðfæraleikar- Ian Dury anum. Ef þú vinnur í verksmiðju allan daginn er kvöldvinna það síðasta sem þú mundir leggja á þig. Engu að síður vona ég að jazz seytli í gegnum leik okkar án þess þó að tónlistin glati hinum upp- runalega danstakti. Ég spái því hiklaust að vinsæld- ir i sveiflutónlistinni muni aukast í framtíðinni af þeirri einföldu ástæðu að tónlistarmönnum fer sífellt fram. Ungir tónlistarmenn í Bretlandi eru tíu sinnum betri nú en þeir voru fyrir fimm árum síð- an. Hinir ungu læra af reynslu eldri meistara. Hljómsveitin sem leikur með mér núna, er t.a.m. skipuð fjórum hljóðfæraleikurum sem einungis eru 21 árs. Ég kann því vel að vinna með þeim ungu, það fylgir þeim ferskt andrúms- loft.“ — Hefur tónlistarbrautin reynst þér skeinuhætt, er miklum erfiðleikum bundið að halda velli? „Nei, ég tel að það sé ekki erfitt ef þú hefur áhuga og nýtur þess sem þú gerir. Það sem þú þarft að gera til að halda velli er að gera það sem þig langar til að gera. Þetta á við um allt skapandi starf; þú verður að vera trúr hugsjónum þínum til að geta lifað samkvæmt þeim. Þegar haldið er úti 10 manna hljómsveit eins og okkar, þá er vel mögulegt að lifa á tónleikahaldi; við höfum lifað vel frá því að við byrjuðum í febrúar. Við söfnum svo sem engum auði, en við lifum af vikuna. Ef við seldum auk þessa plötur væri mögulegt að græða vel. Mestu skiptir að hafa skipulag á hlutunum, við erum varkárir, gætum þess að neyta ekki kókaíns og þá er allt í lagi.“ Með þessum orðum slitum við talinu. Það kom á daginn þegar tónleik- arnir hófust að kúvending hefur orðið á tónlist Ian Durys. Hljómsveitin hóf leik sinn með kröftugu fusion-lagi og hélt slík- um leik út tónleikana. Hljómsveitin samanstóð af tveim sólógíturum, bassa, saxófón, trompet, bongótrommum, hljóm- borði, trommum og einum söngv- ara auk Durys sjálfs. Uppstilling- in var óneitanlega frábrugðin „The Blockheads" og allt nýir menn, utan hljómborðsleikarans. Hvergi bólaði á hinu hráa breska rokki; gömlu lögin voru svo til ein- ungis þekkjanleg af textunum. At- hyglisvert var hve hinir ungu hljóðfæraleikarar voru frambæri- legir; hvert sveiflu sólóið rak ann- að en þáttur Durys sjálfs var minni en maður átti von á. Hinn söngvarinn, kvenlegur bleik- klæddur spjátrungur, fór hins vegar á kostum, tölti tindilfættur um efstu þrep tónstigans án sýni- legrar áreynslu. Hvert lagið rak annað, áhorfendur voru vel með á nótunum og undir lokin var hljómsveitin klöppuð upp eins og góðu hófi gegnir við slík tæfifæri. Hin óvænta stefnubreyting þessa fyrrum rokkpönkara út í sveiflukennt jazz-funk, kann að valda mörgum fyrrum aðdáendum hans sárum vonbirgðum. í stað þeirra öðlast hann vafalaust nýja unendur vandaðrar, taktfastrar danssveiflu. Sérkenni þessa lág- vaxna Breta, sem tónlistarmanns virðast á margan hátt heyra for- tíðinni til. Jón Karl Helgason. matar-og kafflstell frá Rosenthal tous Suomi Suomi postulínið frá Rosenthal á sér fáa líka, enda er lögð ótrúleg vinna í framleiðslu þess. Suomi er hannað af Timo Sarpaneva. í raun og veru er ekkert postulín fullkomið. En Suomi er það postulín, sem listamenn Rosen- thal telja einna fullkomnast. Suomi er gljáð i handavinnu. Vélar skila ekki nægilega fínlegri vinnu. Hluti af framleiðslu Suomi er valinn til skreytingar með gulli og hvítagulli af heimsfrægum listamönnum. Komið og skoðið Suomi í Ros- enthalverzluninni. Lotus: Frábært matar- og kaffistell hannað af Björh Wiinblad. Glasasett og hnífapör í sama stíl. Lítið á gjafavöruúrvalið í Rosenthal verzl- uninni, — skoðið jólaplatta, mánaðardiska og postulín. Rosenthal vörur. Gullfallegar — gulltryggðar. Romanze Romanze — dýrindisstell frá Ros- enthal. Fágað form. Því sem næst gegnsætt postulín. Romanze er árangur margra ára þróunar í efn- isþlöndun og framleiðsluaðferð- uni. Þess vegna hefur Wiinblad og Wohlrab tekist að hanna svokallað meistaraverk: Romanze — dýr- indisstell frá Rosenthal. studio-linie Á.EINARSSON & FUNK HF Laugavegi 85 SÍMI 18400 .iiUCO liiiii

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.