Morgunblaðið - 26.07.1985, Blaðsíða 27
MORGUNBLADIÐ, FQSTUDAGUR 26. JÚLÍ1985
Minning:
Sigtryggur Eiríks
son frá Votumgri
Fæddur 16. nóvember 1904
Dáinn 18. júlí 1985
Sigtryggur Eiríksson frá Votu-
mýri á Skeiðum er hér ekki leng-
ur. Hann var burt kvaddur á átt-
ugasta og fyrsta aldursári og átti
þá mikið starf að baki.
Sonur var hann hjónanna Eiríks
Magnússonar og Hallberu Bern-
höft á Votumýri en ekki verður
hér nánar greint frá ætt hans. En
það var hverjum manni auðséð að
Sigtryggur var af góðum stofni
enda mat hann ætt sína mikils og
þá ættmenn alla.
Líkt mun þessu háttað um Vil-
helmínu konu hans Vilhjálmsdótt-
ur og birtist þetta gjörla í afkom-
endum þeirra hjóna sem eru
óvenju vel gerðir og glæsilegur
hópur. Var það Sigtryggi einstök
lífsfylling að fylgjast með þroska
og framvindu allri hjá börnum og
barnabörnum. Ritari þessara orða
kynntist Sigtryggi fyrst er hann
var hátt á sjötugsaldri og hafði
lagt að baki meginhluta starfsævi
sinnar. Þótti mér maðurinn allrar
athygli verður. Hann var sterkur
og fylginn sér, og að elju og kappi
stóð hann þá mörgum yngri manni
framar.
Þetta kom sér vel í störfum
hans fyrir Skógræktarfélag
Reykjavíkur en til þess réðst hann
fyrir nær 35 árum. Félagið var þá
ungt og mátti sín lítils og það var
því einstakt happ að fá Sigtrygg
til starfa. Hæfileikar hans nýttust
vel við uppbyggingu næstu ára og
hann varð burðarás framkvæmda
í gróðrarstöðinni í Fossvogi. Ef
veggirnir þar mættu mæla gætu
þeir skýrt frá atorku hans og ótal
handtökum við sérhvert mann-
virki þar sem hann var jafnan í
forustu.
Sigtryggur var ágætur smiður
en raunar lagði hann hönd að
flestu því er Skógræktarfélaginu
matti gagnast. Hann setti hag
þess ofar öðru og mat störf sín við
þann mælikvarða. Við félagið batt
hann órofa tryggð og vann því allt
er hann mátti. Þetta var honum
eðlilegt og líklega ættborið ein-
kenni, hollustan við það sem hon-
um var til trúað. Af slíku verður
starf manns farsælt og Sigtryggur
hafði farsæla hönd. Starfið var
honum fullkomin þörf og nautn
meðan kraftar entust.
Sigtryggur Eiríksson var góður
samstarfsmaður. Einkar fundvís
var hann á smágreiða sem föru-
nautum hans komu vel og létt-
lyndi æskumannsins var honum
eðlislægt. Það var alltaf nokkur
bjarmi yfir hversdagsstörfunum í
kringum hann. Samfara þessu var
festa og agað skap og skoðanir
Sigtryggs breyttust ekki í einu
vetfangi. Þó staðnaði hann ekki en
þroskaðist alla ævina og er slíkt
ekki á allra færi.
Unga fólkið sem fjölmennti til
sumarstarfa hjá Skógræktarfélag-
inu átti hauk í horni þar sem hann
var. Þyrfti að lagfæra verkfæri
eða leiðbeina þá var Sigtryggur
þar. Og söm var reynsla okkar,
hinna eldri starfsmanna. Okkur er
öllum þökk í huga fyrir samfylgd-
ina og þátt hans í góðum anda
meðal starfsmanna Skógræktarfé-
lagsins. Ekkju hans og börnum
sendum við samúðarkveðjur. Veri
hann ævinlega kært kvaddur.
Á.S.
Sigtryggur Eiríksson, tengda-
faðir minn, lézt í Borgarspítalan-
um að kvöldi dags föstudaginn 18.
júlí síðastliðinn.
Hann hafði átt við erfiðan sjúk-
dóm að stríða um nokkurt skeið,
sem leiddi til þessara endaloka.
Hann vissi sjálfur, að svona
mundi þetta enda, en horfðist í
augu við þá staðreynd með rólyndi
hugans vitandi það, að sá er fæðist
í þennan heim hlýtur eitt sinn að
deyja.
Á yfir áttatíu ára lífshlaupi
upplifði Sigtryggur ýmislegt, bæði
slæmt og gott, þar sem hið góða
hafði þó yfirhöndina.
Eftirlifandi eiginkona hans, Vil-
helmína Þórdís Vilhjálmsdóttir,
var honum ætíð sú trausta stoð og
stytta, sem best var á kosið og sem
ég vissi að hann mat að verðleik-
um.
Ég kynntist Sigtryggi fyrst um
1950 er ég fór að stíga í vænginn
við dóttur þeirra hjóna. Þau kynni
voru varfærin af beggja hálfu í
upphafi, eins og lög gera ráð fyrir,
en fóru síðan ört batnandi er hann
tók að sætta sig við tengdasoninn.
Síðan eru liðin mörg ár og má
segja að eftir því sem þau liðu, þá
gekk hann mér meir og meir í föð-
ur stað.
Alltaf var hann boðinn og búinn
til að rétta hjálparhönd ef eitt-
hvað þurfti að framkvæma. Var
því ekki ónýtt að hafa hann við
hlið sér er lagt var i húsbyggingu
af vanefnum og vanþekkingu.
Var hann þar ómetanleg hjálp-
arhella í hvívetna, ósérhlífinn og
hörkuduglegur verkmaður.
Innréttingar í eldhús, sem og
annars staðar í húsinu, töfraði
hann af fingrum fram, oft úr lé-
legu efni og takmörkuðu. Reisti
hann sér þar minnisvarða, ekki
eingöngu í mínu húsi, heldur fleir-
um.
Sigtryggur starfaði yfir 30 ár
hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur
og þá helst við smíðar allskonar og
lagfæringar. Var hann einn af
þekktu „gömlu góðu“ starfskröft-
um þess félags, sem allir könnuð-
ust við, er Skógræktina heimsóttu.
Áhugamaður var hann alla tíð
um trjárækt-og allan gróður, svo
og hestamennsku. Hestamennsk-
an var honum í blóð borin frá
barnæsku og um margan hestinn
fór hann kunnáttuhöndum á sinni
lífstíð.
Má því segja að lífið og allt hið
lífræna hafi höfðað mest til Sig-
tryggs. Að sjá falleg tré dafna og
gæðinga spretta úr spori var hans
yndi og ekki síst að sjá unga fólkið
verða að mönnum, því barngóður
var hann með afbrigðum.
Að skapa fagra og gagnlega
hluti úr hinu lífræna efni, trénu,
var hans náðargáfa. Prýða þeir
hlutir mörg heimilin og eru hans
.eftirmæli á vissan hátt.
Vil ég því minnast hans sem
manns lífsins, þó að hann hafi
þurft að beygja sig fyrir dauðan-
um í lokin. En það er okkur öllum
áskapað.
Ég vil líka minnast hans með
þökk í huga fyrir allt það sem
hann var mér í gegn um árin, svo
og minni fjölskyldu, minnast hans
sem góðs föður og afa. Blessuð sé
minning hans.
Baldur Bjarnasen
Elsku afi minn er látinn. Hann
er búinn að fá sína hvíld eftir
langt dagsverk.
Minningarnar sækja á hugann.
Margar þeirra tengjast á einn eða
annan hátt Skógræktinni í Foss-
vogi þar sem afi vann í yfir 30 ár.
Ég kom þar oft sem lítil stelpa.
Alltaf voru létt sporin niður í
kjallara til afa sem ætíð var að
fást við einhverja spennandi hluti
sem heilluðu. Vel var tekið á móti,
þó ég skynji það núna, að ef til vill
hafi þar ekki verið heppilegur
leikvangur innan um alls kyns
verkfæri og vélar. Oft var þá tekið
undir hendina á mér og sagt:
„Komdu, ég ætla að sýna þér
hérna kúnstugan grip“, og svo
leiddi hann mig inn í horn þar sem
blasti við ýmist borð, stóll eða
eitthvað annað skemmtilegt sem
hann hafði verið að fást við í frí-
stundum. Þessir gripir eru okkur
sem eftir lifum minnisvarðar. Það
var gaman að sjá áhugann og
kappið sem skein út úr öllu fasi
afa míns þegar hann var að
bjástra þetta og hreint ótrúlegt
hve fljótur hann var og öllu hag-
anlega fyrirkomið.
Það má með sanni segja að afi
hafi verið góður verkmaður. En
hann gladdist af fleiru en vinn-
unni. Flest lét hann sig varða. Öllu
lífi unni hann af hjarta, einkum
ungviði. Þvi er ljúft til þess að
hugsa hve sögur af litlum langafa-
dreng glöddu hann síðustu ævi-
dagana.
Fyrir börnum eru amma og afi
eitt. Þegar ég hitti annað hvort
fann ég nálægð hins og ég veit að
svo verður þó leiðir skilji að sinni.
Nú þegar afi er horfinn okkur
hér á vit nýrra-verka þá vil ég Guð
þakka þér fyrir samfylgdina með
góðum afa og vini og bið þig að
blessa okkar dýrmætu minningar.
Bella.
Það er sólbjartur júlídagur, og
ég virði fyrir mér glaður, hvernig
trén í görðunum hér allt um kring
vagga sér sviflétt í norðankylj-
unni. Eitt þeirra stendur dálítið út
af fyrir sig, í garðinum við heimili
mitt. Þráðbeint teygir það spengi-
legan stofn sinn upp, á vit ljóssins.
Ekkert annað tré í þessum garði á
sér viðlíka þroskasama vaxtar-
sögu, síðan Sigtryggur frændi
minn stóð með það hérna á tröpp-
unum bjartan maímorgun
snemma fyrir rösklega hálfum
áratug og vildi bæta því í garðinn
minn.
Og það er engu líkara en gef-
andinn hafi skilið eftir eitthvað af
orku handa sinna og hugar í
sveigju grenitrésins upplitsbjarta.
Sjálfur átti hann mörg handtökin
við að gróðursetja og búa ungvið-
inu vaxtarskilyrði, einnig við að
leiðbeina öðrum, svo að þeim
veittist sú gleði að gróðursetja
ungviði með lífvænlegum hætti.
Ög einn góðan veðurdag er hann
hér ekki meir, en handarverkin
hans, þessara styrku handa,
standa, og minningin um svipmót
hans heldur áfram að ylja okkur á
góðum stundum.
Hann fæddist að Votumýri á
Skeiðum 16. nóvember 1904,
yngstur 11 barna hinna mætu
Votumýrar hjóna, Eiríks Magn-
ússonar og Hallberu Vilhelms-
dóttur. Lifa 3 þeirra systkina
bróður sinn, öll á tíræðisaldri.
Ungur að árum vann Sigtryggur
að margvíslegum jarðyrkjustörf-
um austur í Árnessýslu. M.a.
stundaði hann mjög plægingar í
þessum framsæknu landbúnað-
arhéruðum, bæði með hestum og
svo með dráttarvél, sem þá var hér
um bil að kalla nýlunda. Enn
fremur vann hann við Flóaáveit-
una, sem var ákaflega merkilegt
framtak á sínum tíma, en til henn-
ar var stofnað með lögum árið
1917.
En leiðin hlaut að liggja suður
til Reykjavíkur. Þar vann hann
fyrst við húsasmíðar, en gjörðist
lögregluþjónn árið 1930 og gegndi
því starfi í heilan áratug. Hugur-
inn stóð mjög til smiða, og á
næstu árum reisti hann á eigin
spýtur hús í Hveragerði, á Sel-
fossi, í Kópavogi og víðar og seldi
fullfrágengin. Var nú vinnudagur-
inn oft langur og rösklega staðið
að verki. Áttu þau hér vissulega
vel við, sem oft í annan tíma, orð
skáldsins í Holti:
Undur var lífið endur
ðr lund og hyggja snðr
spor létt og heilar hendur.
Árið 1951 réðst hann til Skóg-
ræktarfélags Reykjavíkur, þar
sem hann starfaði upp frá því. Þar
undi hann sér sannarlega vel; þar
fékk hann jöfnum höndum að
sinna þeim verkefnum, sem stóðu
hjarta hans næst. Annars vegar
var þar gróðursetning og leiðbein-
ingarstarf í Heiðmörk. Smíðar
voru þó aðalstarf hans hjá Skóg-
ræktarfélaginu, þar sem hann
annaðist uppbyggingu húsa og
viðhatd tækja og mannvirkja. En
vinnufúsar hendur hans létu sér
ekki nægja starfsdaginn í skóg-
ræktarstöðinni. f tómstundum
sínum smiðaði hann innréttingar
og margvísleg húsgögn fyrir börn
sín og vini og frændur. Stólarnir,
sem hann smíðaði úr birkilurkum
og gaf víðs vegar, eru sérstæð völ-
undarsmíð, bæði fallegir og
traustir.
Er ekki of djúpt í árinni tekið,
þó að sagt sé, að hann hafi verið
hamhleypa til verka, kappsamur
og ósérhlífinn að hverju sem hann
gekk. Vinnan var honum lífs-
nautn, enda var hann verkséður
með afbrigðum og völundur í
höndum. Gaman var með honum
að starfa og lærdómsríkt, líkt og
að ganga til leiks undir öruggri
handleiðslu hans og verkhyggni.
Ein er sú mynd meðal annarra,
sem samferðarmenn eiga af Sig-
tryggi og ekki fyrnist. Unglingur
fékk hann þær mætur á hestum,
að þar átti hann hugðarefni upp
frá því. Þótti sumum nóg um í þá
daga, hvernig hann ungur að árum
varði tómstundum sínum og fjár-
munum til að eignast góða hesta
og njóta samvista við þá. Og þetta
áhugamál hans dvínaði ekki með
aldri, enda var hann mikill tamn-
ingamaður og tókst oft að gjöra
vænan grip úr göldnum fola, þó-að
aðrir hefðu áður gengið frá. Varð
sú og raunin, að oft tók hann hesta
til tamninga af vinum og frænd-
um, og aldrei hlökkuðum við eins
til að finna hann að máli og þegar
við gátum sagt honum ný tíðindi
af hestum okkar, ég tala nú ekki
um, ef nýtt afkvæmi hafði bætzt í
hópinn. Og þetta breyttist ekki
með árum, þó að hann ætti ekki
sjálfur hesta framar.
Þess nutum við í fari hans,
hvernig tryggðir fyrntust ekki, þó
að árin liðu, og umhyggja hans
margvísleg yljaði um hjarta.
Hann var borinn og barnfæddur
Skeiðamaður, svo sem fyrr
greindi, og sambandið austur
þangað var síungt, og þar fylgdist
hann með mönnum og málefnum,
þó að tímar rynnu. Hann er og
frændmargur og vinmargur þar í
sveit og naut þess að skreppa aust-
ur fyrir fjall, þegar tóm gafst til.
Á Votumýri má kalla, að hafi ver-
ið helgur lundur.
Sigtryggur var mikill heimilis-
maður. Konu sinni, Vilhelmínu
Þórdísi Vilhjálmsdóttur, kvæntist
hann 1. október 1930. Þeim varð
auðið 3 barna, sem öll eru búsett í
Reykjavík og Kópavogi. Barna-
börn þeirra eru 9 og barnabarna-
börnin 4. Hann hélt lifandi sam-
bandi við allan þennan hóp, enda
kunni unga fólkið jafnan vel að
meta afa sinn, og í því samfélagi
gafst mörg gleðistund. Var hollt á
seinustu árum, er tómstundum
fjölgaði, að sækja hlýju og yl í
þetta þekka samband, sem jafnan
stóð óhaggað milli heimilisins að
Eskihlíð 5 og unga fólksins, sem
þar var jafnan aufúsugestir.
Þær hrannast upp myndirnar,
þegar litið er til baka. Það er
hressileg birta yfir þessum mynd-
um og þökk fylgir ógleymanlegum
kynnum. Karlmannlega baráttu
háði hann misserum saman við
geigvænlegan sjúkdóm og æðrað-
ist ekki. Horfinn er drengur góður,
heitur um hjarta.
Innilegar samúðarkveðjur
okkar hjóna fylgja þessum línum.
Bjarni Sigurðsson
Við hittumst fyrst fyrir þrettán
árum. Ég var 15 ára unglingur að
hefja störf hjá Skógræktarfélagi
21
Reykjavíkur. Handtök hans
ómæld. Ég er sendur með honum
að leggja vatnsleiðslur um gróð-
urreiti stöðvarinnar. Fullur metn-
aðar skrúfa ég og skrúfa, tengi rör
við rör. Reyni að sýnast geta
eitthvað. Legg á minnið að þegar
hert er þá er skrúfað frá hægri til
vinstri. Gýt svo augum til verka-
mannsins sem fer öruggum hönd-
um um alla hluti. Ég skynjaði ekki
að hverju handtaki fylgdi bæn til
handa því lífi sem vatninu var
ætlað.
Ég vissi ekki þá að þessi maður
lagði sál sína í allt það sem hann
tók sér fyrir hendur. Undrið var
að ég fékk að kynnast og eignast
hlut í þessari sál.
Sigtryggur Eiríksson var list-
rænn hagleiksmaður. Verk hans
og kúnstugir smíðisgripir bera
þess glöggt vitni. Margan „pjakk-
inn“, en það kallaði hann iðulega
stóla sem smíðaðir voru úr ís-
lenskum viðargreinum, gaf hann
skyldmennum sínum og vinum.
Þeir eru djásn í hverri stofu.
Það er oft erfitt að geta sér til
um hvað orsakar samkennd
manna, sem þróast upp í vináttu.
Ef til vill var það hesturinn sem
var hvatinn að vináttunni sem síð-
an styrktist er ég og Bella sonar-
dóttir hans rugluðum saman reit-
um okkar. Sonur okkar Vilhjálm-
ur Karl var afa sínum mikill gleði-
gjafi, seintekinn og varkár „eins
og Votumýrarættin". En samband
langafa og stráks var mikið og
gott. Oft spurði Villi Kalli um
langafa sinn. Ekki kunni hann við
að hafa hann á spítala. Hann vildi
geta „snúsað" sig þegar langafi
tók upp baukinn í Eskihlíðinni.
Síðan var gott að bregða sér á bak
rugguhestinum. Langafi vissi líka
að þetta fór vel saman.
Hesturinn skaparans meistara mynd
er mátturinn, steyptur í hold og blóð —
sá sami, sem bærir vog og vind
og vakir i listanna heilögu glóð. (E.B.)
Ég hef engan þekkt sem unni
islenska hestinum jafn fölskva-
laust. Oft gleymdum við stund og
stað einir tveir, allt eins úti í
horni á mannamótum. Við vorum
komnir á bak áður en varði og
gjarnan var riðið eftir Þjórsár-
bökkum. Margur skeiðsprettur var
tekinn á stólunum í Eskihlíð. Einu
gilti þó fólkið kímdi í kring. Við
áttum þess aldrei kost að ríða út
saman í eiginlegri merkingu en
frásögnin og kenndin var svo sterk
að við fundum ilminn úr makka að
loknum spretti. Vafalaust er að
Sigtryggur hefur verið með meiri
reiðmönnum þó ekki bæri hann
það á torg fyrir almenning. Hann
þurfti ekki myndbandstæki nú-
tímans til tjáningar. Maður
heyrði, sá og fann, svo myndræn
var frásögnin af horfnum góðhest-
um.
Það verða ekki eingöngu vinir
og vandamenn sem fagna komu
hans. Ég veit að þeir standa við
stallinn horfnir félagar og bíða
þess að strokið verði um múl og
makka. Valið verður erfitt en nóg
hefur höfðinginn Skinfaxi beðið.
Skyldu þeir ætla sér af.
I dag verður til moldar borinn
vinur minn Sigtryggur Eiríksson.
Þó leiðir okkar lægju ekki saman
nema um áratug og aldursmunur-
inn væri rúm 50 ár þá tekur það til
hjartans, sem ég sjái á bak æsku-
vini.
Guð blessi hann.
Hari
ATHYGLI skal vakin á þvf, að
afmælis- og minningargreinar
verða að berast blaðinu með góð-
um fyrirvara. Þannig verður
grein, sem birtast í f miðviku-
dagsblaði, að berast í síðasta lagi
fyrir hádegi á mánudag og hlið-
stætt með greinar aðra daga. f
minningargreinum skal hinn
látni ekki ávarpaður. Þess skal
einnig getið, af marggefnu til-
efni, að frumort Ijóð um hinn
látna eru ekki birt á minningar-
orðasíðum Morgunblaðsins.
Handrit þurfa að vera vélrituð og
með góðu línubili.