Morgunblaðið - 13.09.1985, Side 29

Morgunblaðið - 13.09.1985, Side 29
29 tjaldið fellur. Því skyldi maður raekja vel tengsl þau sem vináttan skapar. Njóta unaðsstunda, deila vanda og ræða hugðarmál. Ég var svo lánsamur að kynnast Þórði og Vigdísi og lagði mikið upp úr vináttu þeirra. Hún var mér næring og nauðsyn. Þórður var einn þeirra sem óafvitað laðaði að sér fólk. Margir eignuðu það foringjahæfileikum hans. Hann réð og stýrði reyndar gerðum í hverjum hópi, en án þess að nokkur merkti það. Því held ég að aðrir eiginleikar hafi ráðið meiru. Sem tíður gestur á heimili þeirra hjóna fann ég, að hann ætl- aði kunningjum sínum tíma. Skaut sér ekki undan eða leiddi hjá sér vandamálin sem menn hylltust til að bera undir hann. Ég man aldrei eftir því að hann segði: „Ég er ekki heima." Jafnvel í spennandi leik lagði hann frá sér billjardkjuðann og bað okkur að hinkra. Hann svaraði engum stutt og nefndi aldrei, að kvabbið þreytti sig. Það voru ekki bara skipshafnir af Ögra og Vigra sem áttu erindi við Dodda, heldur líka fyrri félag- ar og venzlafólk sem sótti til hans ráð og stuðning. Mér er líka hugs- að til þess þegar ég rifja upp mis- litan hópinn, að lítið hefur manngreinin tafið skipstjórann. Heimili þeirra hjóna var alltaf opið og eitthvað óvenju sjálfsagt við hlýjar móttökur og veitingar. Eigin erfiðleika nefndi Þórður aldrei. Hann háði harða baráttu í veikindum sínum. Ein hjartaað- gerð dugði ekki til að færa honum þann bata sem hann kaus. Flestir létu þar við sitja en ekki hann. Fimm árum síðar lét hann enn til skarar skríða. Enginn merkti á honum bilbug. Við félagar hans hrifumst svo af æðruleysinu, sem hann sýndLað enginn var í vafa um endurfundi og nýjar gleði- stundir. Því urðu það mikil von- brigði þegar fréttir bárust af tíð- um bakslögum og áföllum, sem hvert eitt hefði getað rænt hann fjöri. Loks virtist hann kominn yf- ir boða. Lífslöngunin og lífsgleðin spegl- aðist í orðum hans, þegar hann bað fyrir skilaboð til kunningj- anna. Því fannst manni enn sárara þegar fréttin barst um fráhvarf kempunnar, og vitandi að vonir þeirra sem nær honum stóðu, voru brostnar. Þeim viljum við votta hlýhug og innilega samúð. Páll Steingrímsson og fjölskylda. Sumir menn þurfa meðmæli — aðrir ekki, er haft eftir Einari Ben. skáldi. Þessi orð koma í hug- ann, þegar hugsað er til Þórðar Hermannssonar. Hann var ekkert venjulegur maður. Kynni af slíkum manni voru ekkert venjuleg. 1 návist hans varð heimurinn einhvern veginn öðruvísi en þegar horft er á lífið og tilveruna með augum venjulegs manns. AUt stækkaði og óx og það fylgdi því meiri ábyrgð og vandi að vera manneskja. Þannig var persónuleiki Þórðar — kapteins Þórðar að vestan. Og þannig var styrkur hans í þessu lífi. Það er dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því, að hann sé fallinn frá — og það er þyngra en tárum taki að verða að sætta sig við að geta ekki hitt hann oftar á lífsleið- inni, að geta ekki oftar átt von á því að hitta hann að máli niðri i Ögurvík ellegar að heyra hann bjóða manni að ganga í bæinn á heimili hans I Hnjúkaseli 2, hvar nokkrir náungar — vinir hans — hittust næstum reglulega einu sinni í viku á fimmtudagskvöldum til að grípa í billjarð (snóker) og etja kappi saman. Það var alltaf skemmtilegt að hitta kapteininn eins og við í billj- arðgenginu kölluðum hann Þórð okkar á milli og líka svo að hann heyrði sjálfur. Andinn, sem hann gaf og stemmningin var eins og aflaferð á fengsælum fiskimiðum — allt fékk tilgang og eins og áður segir magnaðist án þess að hægt MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 13. SEPTEMBER 1985 væri í fljótu bragði að skilgreina það nánar eða vita af hverju það stafaði. Kannski var það andrúmsloft frá liðnum aflaárum — Þórður var frægur skipstjóri, áður en hann gerðist útgerðarmaður, og kannski var þetta loft í kringum hann, sem hún Vigga blessunin, eiginkonan hans, ræktaði með honum, að uppruna til frá forfeð- runum við Isafjarðardjúp, þar sem svo margt dularfullt þrífst — ekki hvað sízt þessi tæplega mennski lífskraftur. En einmitt þetta síðastgreinda kom hvað berlegast í ljós í síðustu sjóferð lífsins, þá er hann háði harðan bardaga fyrir lífi sínu — og varð um síðir að lúta í lægra haldi fyrir þeim, sem alla fellir fyrr eða síðar. Þær eru nokkrar nafnlausu hetjurnar, sem hafa vaxið úr grasi við Djúp. Þegar farið er um þessar slóðir í námunda við Ögurnes og Ögur og Óbótartanga og og Túnis- tanga, svo að nokkuð sé talið, fer ekki hjá því að rifja upp eins og haft er eftir aðkomumanneskju, sem lifði og hrærðist þar um skeið: „Ef nokkru sinni hefur verið rík ástæða til að sýna virðingu gagnvart tilverunni, þá er það vegna snertingar við þann hljóð- leik og þá lífsorku, sem stafaði frá þessum nafnlausu hetjum við Djúp — en þær þrífast þar enn sem betur fer. Það veit eg af eigin raun.“ Á svæði því, sem að ofan getur, hlaut Þórður Hermannsson sitt veganesti lífsins. Hann mótaðist snemma af fastri sjósókn og harðri lífsbaráttu. Systkinin voru mörg eins og tíðkaðist í vestfirzk- um fjölskyldum — og allt er þetta afreksfólk og kraftmanneskjur eins og þjóð veit. Þórður Hermannsson kom þannig fyrir sjónir við náin kynni, sem urðu æ nánari, þá stundir liðu fram, að hann væri maður, sem vildi engar fyrirsagnir — í hæsta lagi gæti hann fallizt á, að birt væri frétt annað veifið um met- afla og metsölu orrustuskipanna, þ.e. skutaranna — Ögra og Vigra. Þar fyrir utan var hann sundur- gerðarlaus eins og nafnlausu hetj- urnar við Djúp. Hins vegar var reisnin mikil, ef því var að skipta í lífi og leik — en það er erfitt að lýsa því með orðum. Hann var alltaf eins og kapt- einn á stóru skipi með áhöfn, þar sem var valinn maður í hverju rúmi, og þegar komið var „um borð“ — og þá tilfinningu fékk maður í hvert sinn sem komið var í heimsókn til hans, að maður væri að stíga um borð í skip — þá væri góð sigling fram undan, happadrjúg á hverju, sem ylti. Að Hæðardragi, Steingrímur St. Th. Sigurðsson í dag verður kvaddur hinstu kveðju Þórður Hermannsson, út- gerðarmaður hér í borg, er lézt 8. þ.m. Þórður fæddist hinn 19. apríl 1924 í Ögurvík og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Strax sem unglingur fór Þórður að stunda sjómennsku og lauk hann fiski- mannaprófi hinu meira frá Stýri- mannaskólanum í Reykjavík árið 1948. Varð hann síðan stýrimaður og skipstjóri í mörg ár við góðan orðstír, en þá sögu kunna aðrir betur. Þórður var kvæntur Vigdísi Birgisdóttur og eignuðust þau fjögur börn, sem nú eru öll upp- komin. Kynni mín af Þórði hafa staðið um langt árabil, en þau hófust fyrst að marki er hann hætti sjó- mennsku og hóf störf í landi í lok sjöunda áratugarins. En þá stofn- aði hann ásamt bróður sínum og fleirum útgerðarfélagið Ögurvík hf. sem hann með Gísla Jóni bróð- ur sínum stjórnaði með glæsileg- um árangri til hinstu stundar. Það æxlaðist þannig til, að við störfuðum báðir í sama húsnæði allan þennan tíma og urðu því kynni mín af Þórði mjög náin. Á þau kynni og vináttu hefur aldrei borið skugga. Tel ég það mikið lán að hafa fengið að kynnast slíkum manni sem Þórður var. Hann var þéttur í lund en þó ljúfur í skapi. Maður sem gat sagt skoðun sína umbúðalaust, án þess þó að særa v nokkurn, því aðalsmerki hans var góðmennskan. Þegar slíkur öðlingur kveður verður söknuðurinn mikill. Þorvaldur Lúðvíksson Stríðinu er lokið. Þórður Her- mannsson er fallinn. Hann hafði háð margra ára stríð við erfiðan sjúkdóm og unnið allar orustur nema eina, þá síðustu. Ég ætla ekki að rekja æviatriði nafna míns, en eftir margra ára samstarf og •*- vináttu vil ég fá að telja mig í hópi þeirra, sem hafa misst mikið, en ég veit að, aðrir hafa misst miklu meira. Eiginkonan, börnin og barna- börnin sjá á bak ógleymanlegum heimilisföður, en Þórður var mað- ur fjölskyldu sinnar og heimilis svo af bar. Allir sem kynntust Þórði Hermannssyni eiga um hann góðar minningar. Vigdís, við hjónin sendum þér og öllum öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Þórður Jónsson Ragnhildur Kristó- fersdóttir — Minning Fædd 4. september 1927 Dáin 4. september 1985 í dag er til moldar borin móður- systir mín, Ragnhildur Kristófers- dóttir. Ragnhildur fæddist á Litlu-Borg í Víðidal, V-Hún. Foreldrar hennar voru hjónin Emilía Helgadóttir, hjúkrunarkona, frá Litla-ósi í Miðfirði og Kristófer Pétursson, bóndi og siðar gullsmiður, frá Stóru-Borg í Víðidal. Emilia og Kristófer byrjuðu bú- skap á Litlu-Borg árið 1918 og bjuggu þar í 28 ár. Alls eignuðust þau 6 börn, en elsta barnið sitt misstu þau ungt. Var Ragnhildur næstyngst systkinanna. Ekki hefur verið úr miklu að spila á Litlu-Borg í þá daga, jörðin mjög erfið til búskapar, innilukt af vötnum sem gátu orðið ófær. Éngjar voru litlar og langt í burtu. Ekki var hægt að stækka túnið neitt að ráði með þeirra tíma tækjum. Aðalkosturinn við þessa jörð var lax- og silungsveiði sem Kristófer stundaði öll sumur. Fór hann jafnan eldsnemma á fætur og vestur að vatni til að vitja um netin. Það kom þá i hlut barnanna að gera að aflanum og sinna öðrum störfum sem til féllu. Ragnhildur varð snemma liðtæk til allrar sveitavinnu, en hugur hennar hneigðist þó fyrst og fremst til náms. Auk þess að vera námfús komu snemma í ljós hjá henni listrænir hæfileikar og sterk tilfinning fyrir náttúrunni og öllu lifandi, eins og sjá má á teikning- um hennar. Aðstæðurnar sem systkinin á Litlu-Borg ólust upp við kenndu þeim að gera hóflegar kröfur til lífsins gæða, eins og svo algengt er með þeirra kynslóð. En þau munu einnig hafa lært að sælla er að gefa en að þiggja og var Ragnhildur ekki eftirbátur hinna í að tileinka sér það viðhorf, sem einkenndi allt hennar ævistarf. Þrátt fyrir kröpp kjör tókst systkinunum flestum að stunda eitthvert framhaldsnám að loknu barnaprófi. Án efa hefur það kost- að erfiði og fórnir. Drýgsti styrkur þeirra hefur örugglega verið já- kvætt viðhorf til menntunar sem þau kynntust í uppvextinum og hvatning að heiman. Ragnhildur stundaði nám I Hér- aðsskólanum á Reykjum í Hrúta- firði veturna 1944—’46. Á sumrin vann hún við heyskap og sem matráðskona í vegavinnu. Vetur- inn 1946—’47 var hún við nám í Handíða- og myndlistaskólanum i Reykjavík og næstu tvo vetur stundaði hún nám í Samvinnuskól- anum í Reykjavík. Að því loknu vann hún lengi við skrifstofustörf, bæði utan heimilis og einnig tók hún verkefni heim meðan börnin voru lítil. 2. ágúst 1958 giftist Ragnhildur eftirlifandi manni sínum, Jóni Ágústssyni frá Bjólu í Rangár- vallasýslu. Bjuggu þau í Reykjavík síðan, lengst af á Bugðulæk 8. Börn þeirra eru þrjú: Pétur Haf- þór, Bergdís Þóra og Ingimar Emil. öll eru þau góðir fulltrúar sinnar kynslóðar. Margar af fyrstu minningum mínum eru tengdar Dadú eins og hún var venjulega kölluð, og fjöl- skyldu hennar. Oftast var komið við á Bugðulæknum þegar farið var til Reykjavíkur og þau komu líka oft í heimsókn til okkar í sveitina. Minningunni um það fylgir sólskin og blíða. Þá voru hrossin gjarna sótt og farið í reið- túr, því Dadú hafði gaman af hestum og kunni lag á þeim. Seinna kynntist ég enn betur hversu indæl manneskja Dadú var. Dvaldi ég á heimili þeirra hjóna í tvo vetur ásamt dóttur minni sem þá var lítil. Ég hafði ákveðið að reyna að ljúka námi í Háskólanum, en eins og flestir vita duga þannig ákvarðanir skammt nema aðstæður leyfi. Skemmst er frá að segja að Dadú bæði styrkti þennan ásetning með orðum og gerðum. Mér er það til dæmis minnisstætt hvað barnið veiktist oft þegar próf stóðu yfir. Þá gætti Dadú þess ævinlega að láta sem hún hefði nægan tíma og bað mig blessaða að drffa mig út í skóla og lesa eins lengi og ég vildi, hún skyldi sjá um stelpuna. Auðvitað hafði hún líka í mörg horn að líta, en gerði það aldrei að umtalsefni. Þannig hafðist námið á þessum árum og ég hef sterklega á tilfinn- ingunni að þáttur Dadúar hafi ráðið úrslitum í því. Fyrir nokkrum árum fór Dadú að finna fyrir sjúkdómi sem reynd- ist ólæknandi. Var hann henni og fjölskyldunni mikil þrekraun, en þau veittu henni allan stuðning sem mögulegur var. Sérstaklega er aðdáunarverð umönnun og umhyggja Jóns, sem annaðist hana af kostgæfni meðan hún dvaldi heima. Ekki trúi ég að margir fari í sporin hans. Sjúkdómur Dadúar minnir sterkt á hversu langt er enn í land að velferðarþjóðfélagið okkar búi nægjanlega vel að hinum sjúku. Dadú var einstaklega hógvær manneskja, hreinlynd og hjarta- hlý. Hún var sannkallaður ljósberi. Hafi hún bestu þökk fyrir allt. Ragnheiður Þorgrímsdóttir Á fögrum haustdegi, sunnudag- inn 4. september 1927, fæddist hjónunum á Litlu-Borg í Víðidal, Emilíu Helgadóttur og Kristófer Péturssyni, dóttir. Hún hlaut nafnið Jakobína Ragnhildur. Em- ilía móðir hennar var hjúkrunar- kona, ættuð af Vatnsnesi, en Kristófer, maður Emilíu, bóndi og gullsmiður, frá Stóru-Borg í Víði- dal, ættaður úr Borgarfirði. Ragnhildur ólst upp í foreldra- húsum og var hún fimmta í röð sex systkina. Af þeim eru nú fjögur á lífi. Ragnhildur var óvenjulega bráðþroska barn. Þriggja ára gömul var hún orðin læs og byrjuð að skrifa. Stór, spyrjandi augu horfðu á það sem gerðist í kringum hana. Hún var náttúrubarn og byrjaði snemma að teikna myndir af lífríki náttúrunnar, einnig var hún hrifin af tónlist og söng, enda var hljóðfæri á heimilinu, sem öll systkinin vildu leika á. Dró hún sig þá oft I hlé, því aldrei vildi hún lenda í illdeilum. Ég minnist systur minnar fyrst og fremst sem vinar. Þótt þrjú ár væru á milli okkar vorum við saman í leik og starfi og aldrei bar skugga á vináttu okkar. Oft þurft- um við að vinna heimilisstörf móð- ur okkar þegar hún var að heiman tímum saman að hjúkra þeim, sem sjúkir voru. Og tíminn leið. Við fórum að heiman í skóla, en alltaf skrifuðumst við á og á ég bréfa- bunka frá henni svo mikinn að vöxtum, að efni væri í heila bók. Árið 1944 fór Ragnhildur í Hér- aðsskólann á Reykjum í Hrútafirði og lauk þaðan prófi eftir tvo vetur. Síðan lá leiðin suður til Reykjavík- ur og bjuggum við systurnar saman í Vonarstræti 12. Foreldrar okkar voru þá fluttir suður að Kúludalsá í Innra-Akraneshreppi. I Reykjavík vann Ragnhildur um skeið á tannlæknastofu Jóns Haf- steins, en sótti síðan nám í Hand- íða- og myndlistaskólanum. Árið 1948 skildi leiðir okkar systra, er ég fluttist með manni mínum, sr. Guðmundi Guðmunds- syni, til Vestfjarða. Fór þá Ragn- hildur til nöfnu sinnar og frænd- konu, Ragnhildar Sveinsdóttur, en ^ hún var ráðskona hjá þeim mætu konum Gunnþórunni Halldórs- dóttur, leikkonu, og Guðrúnu Jón- asson, borgarfulltrúa. Hjá þeim bjó Ragnhildur meðan hún var við nám í Samvinnuskólanum. Að námi þar loknu gerðist hún skrif- stofumaður hjá Kaupmannasam- tökum íslands. 2. ágúst 1958 giftist Ragnhildur Joni Ágústssyni rafvirkjameistara frá Bjólu í Rangárvallasýslu. Bðrn þeirra eru þrjú, Pétur Hafþór, tón- # menntakennari við Austurbæjar- skólann, Bergdís Þóra, verzlunar- maður, og Ingimar Emil, mennta- skólanemi. Eftir að Ragnhildur eignaðist börnin vann hún ein- göngu heima, en tók þó að sér reikningshald fyrir hlutafélagið Rafver, þar sem maður hennar er einn af hluthöfum. Ragnhildur systir mín var mörg- um hæfileikum búin. Hún var mjög vel ritfær, eins og bréf henn- ar vitna um, skrifaði afburða fal- lega rithönd, einnig skrautskrift, en einkum og sér í lagi hafði hún yndi af að teikna og mála. Segja mátti að flestar tómstundir sínar helgaði hún þessum hlutum, enda , átti hún mikið safn málverka, en ' ekki flíkaði hún þessum hæfileik- um sínum, því að hún var í eðli sínu mjög hlédræg. Börn sín ann- aðist Ragnhildur af mikilli ástúð, en einnig nutu leiksystkini barn- anna í ríkum mæli umhyggju hennar og góðgerða. Þá dvöldu hjá þeim hjónum systkinabðrn þeirra, er þau voru í námi, og reyndist hún þeim sem bezta móð- ir. Oft var fjölmennt á Bugðulæk 8, því að þangað lögðu ósjaldan leið sína vinir og vandamenn, en þeim var þar jafnan tekið af ein- stakri gestrisni og góðvild. Fyrir allmörgum árum veiktist Ragnhildur af þeim sjúkdómi sem engin lækning fékkst við. Varð hún *' oft að dveljast á sjúkrahúsum og kom þá bezt í ljós æðruleysi henn- ar og einlæg barnatrú, er hún hlaut í arf frá sannkristnum for- eldrum. Nu. reyndi mjög á mann hennar að vera henni, og ekki sízt börnunum, athvarf og styrkur. í þeirri raun sýndi hann einstakt sálarþrek og drenglyndi. Við systkinin þökkum honum af alhug hversu vel hann reyndist henni í langvinnum veikindum. Við þökk- um einnig látinni systur allt sem hún var okkur, ástvinunum. Á afmælisdaginn hennar, 4. ” september sl., fagran haustdag, ætluðum við systkinin að heim- sækja hana og færa henni blóm. Én dauðinn varð á undan. Þennan morgun hafði hann komið til að leysa anda hennar frá þreyttum og þjáðum líkama — þennan morgun hvarf andi hennar til Guðs, sem gaf hann. ** Steinvör Kristófersdóttir

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.