Morgunblaðið - 14.04.1987, Blaðsíða 81
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 14. APRÍL 1987
81
Reykjavík þann 7. apríl. Með honum
er gengpnn mikill sómamaður, sem
með sanni má segja, að tilheyrði
aldamótakynslóðinni, bæði að árum
og í hugsun. Þessi kynslóð er nú
að líða undir lok og einnig mörg
þau lífsviðhorf, sem einkenndu hana
og er svo vel lýst í þessum hending-
um Stephans G. Stephanssonar:
að hugsa ekki í árum en öldum,
að alheimta ei daglaun að kvöldum,
því svo lengist mannsævin mest.
Hermanni, eins og flestum hans
samtímamönnum, var í btjóst borið
að gera meiri kröfur til sjálfs sín
en annarra og að vinna fyrir sínu.
Það hugarfar breyttist ekki á langri
ævi hans.
Hermann fæddist 1. júní 1888
að Fremstuhúsum í Dýrafirði, sonur
hjónanna Hermanns Jónssonar,
bónda þar, og konu hans, Guðbjarg-
ar Torfadóttur. Þeim hjónum varð
fimm bama auðið, og eru þau öll
látin.
Frá fimmtán ára aldri fram til
tvítugs stundaði Hermann sjóróðra
á þilskipum, en 1909 hóf hann nám
á Ísafírði í trésmíði, sem hann átti
eftir að vinna við samfellt í 65 ár.
A ísafirði fannst honum of þröngt
um sig og 1910 fluttist hann til
Reykjavíkur, þar sem hann lauk
sveinsprófi í trésmíði þremur árum
síðar.
í Reykjavík bjó og starfaði Her-
mann til æviloka, en alla tíð áttu
Vestfirðir sterk ítök í huga hans.
Hann vann að húsgagnasmíði hjá
Gamla kompaníinu í áratug og hjá
Heildverslun Haraldar Amasonar
annan áratug. Þá vann hann að
bifreiðayfírbyggingum hjá fýrir-
tæki Egils Vilhjálmssonar enn einn
áratug og var einn af stofnendum
Félags bifreiðasmiða. Síðan réðst
hann til starfa við Heildverslun
Hallgríms Benediktssonar, þar sem
hann vann í fimmtán ár. Hann var
orðinn meira en sjötugur þegar
hann hætti störfum þar og hefði
einhverjum fundist starfsævin vera
orðin nógu löng og ástæða til að
setjast í helgan stein. Eftir núgild-
andi reglum myndi hann hafa hafa
verið orðinn „löggilt gamalmenni".
Hann hafði unnið meira en hálfa
öld með langa vinnudaga og lítil
frí, sem féllu alveg niður þegar illa
áraði og dagkaupið eitt nægði ekki
til að framfleyta stórri fjölskyldu.
En þetta hafði ekki meiri áhrif á
hann en svo, að sjötugur var hann
enn teinréttur, kvikur og léttur á
fæti og í allt öðmm hugleiðinjgum
en þeim að taka sér hvfld. I því
vom ekki fólgnir hans draumar eða
hugmyndir um það hvemig ætti að
„njóta ellinnar". í stað þess réðst
hann til vinnu á húsgagnaverkstæði
Jónasar Sólmundssonar, þar sem
hann vann meira og minna til 86
ára aldurs. Þá loks varð hann að
hætta, aðallega vegna sjóndepm.
Hann hélt þó áfram að dunda við
trésmíðar langt fram yfir nírætt —
bæði heima við og á öldrunarheimil-
inu við Dalbraut, þar sem hann
dvaldi daglangt um fimm ára skeið.
Árið 1914 kvæntist Hermann
Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur frá
Meiðastöðum í Garði, dóttur Þor-
steins Gíslasonar, bónda og útgerð-
armanns þar, og konu hans,
Kristínar Þorláksdóttur. Hjónaband
þeirra var einstaklega ástríkt og
farsælt, enda var með þeim jafn-
ræði, bæði skapstór, en samheldin
og veitti ekki af, því lífsbaráttan
var oft hörð, einkum á fýrstu hjú-
skaparárum þeirra.
Þeim Sigurbjörgu varð fimm
bama auðið: Hermann, sem er lát-
inn, var kvæntur Unni Jónasdóttur;
Dýrleif, gift Jóhannesi Bergsteins-
syni, múrarameistara; Kristbjörg,
sem er látin, var gift Páli Sigurðs-
syni, rakarameistara; Björg, gift
Gunnari Gíslasyni, vélstjóra; og
Þorsteinn Kolbeinn, sem lést aðeins
þriggja ára að aldri. Þá ólu þau upp
bróðurson Sigurbjargar, þann sem
þetta ritar, og kvæntur er Ingu
Lám Guðmundsdóttur.
Sigurbjörg andaðist árið 1966,
en Hermann hélt heimili til 1984,
oftast með einhvetju bamabama
sinna. Síðustu æviárin bjó hann
lengstum hjá Björgu dóttur sinni
og Gunnari manni hennar.
Hermann var glæsimenni á
Margrét Guðmunds
dóttir - Minning
sínum yngri ámm, grannur og
stæltur og bar sig vel. Hann var
vel að manni, seigur og þolinn og
góður glímumaður. Heilsugóður var
hann með afbrigðum og varð sjald-
an misdægurt, eins og langur
starfsaldur hans vitnar um. Hann
var vel lesinn og hafði sérstakt
yndi af kveðskap, enda var hann
sjálfur ágætlega hagmæltur. Stál-
minnugur var hann og kunni
ógrynni af kvæðum.
Hermann var góður verkmaður
og snillingur í sinni iðn, eins og fjöl-
margir smíðisgripir, sem eftir hann
*>g,g)a. bera vitni um. Nú hefur
hann fengið hvfldina eftir langan
starfsdag og lúnar hendur sttjúka
ekki lengur með ástúð fum og
beyki.
Fjölskylda Hermanns, ættingjar
og vinir, kveðja hann með söknuði
og þakklæti fyrir að hafa fengið
að njóta samvista við hann svo
lengi. Hans verður ávallt minnst
sem mikils drengskaparmanns.
Sjálfur fæ ég seint fullþakkað for-
sjá hans, handleiðslu og vináttu,
sem aldrei bar skugga á.
Blessuð sé minning hans.
Ingvi Þorsteinsson
Far þú í íriði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem)
Nú er vor í lofti og náttúra lands-
ins að vakna til lífsins. Sól hækkar
á himni og dagur lengist. Þessi
árstími er flestum fagnaðar- og
gleðiefni og svo sannarlega var afi
einn þeirra sem kunnu að meta og
njóta komu vorsins. Síðustu árin
gat hann hins vegar ekki fagnað
því eins og áður, vegna minnkandi
sjónar og annarra sjúkdóma ellinn-
ar sem settu honum skorður. En
nú hefur Guð valið þennan árstíma
til að gefa afa hvfld og kallað hann
til þess vors og sumars sem aldrei
á enda líður.
Ótal minningar sækja á hugann
á kveðjustund, bemskuminningar
sem ylja og vekja vor í hjörtum
okkar. Minnisstæð er stóra vinnu-
lúna höndin hans afa, sem svo oft
umlukti og leiddi litla bamshönd
og veitti henni öryggi og hlýju.
Stundum leiddi hún litla manneskju
um götur bæjarins og var þá gjarn-
an farið niður að höfn, þar sem við
virtum fyrir okkur bátana og skipin
og afi hélt bamshuganum föngnum
við frásagnir af ógnum og dásemd-
um hafsins. Náttúran öll, sveitin,
hafið, dýrin og gróðurinn gaf afa
tilefni til frásagnar, yrkisefni, sem
í birtist næmleiki hans og virðing
fyrir lífinu og sköpuninni allri.
Hvert sem leiðin lá, alltaf var jafn
spennandi og gaman að njóta sam-
vistanna við afa. Hann hafði þá
hæfíleika að fá bamið til að tala
um alla heima og geima, ekkert var
svo ómerkilegt að ekki mætti ræða
það við afa, og hann virtist alltaf
hafa tíma, þrátt fyrir erfiðan og
langan vinnudag.
Við systumar vomm svo lánsam-
ar að búa í sama húsi og afi og
amma í bernsku. Fyrstu æskuminn-
ingamar fléttast við heimsóknir
niður í íbúðina til þeirra og niður í
smíðastofuna hans afa, þar sem
hann eyddi svo mörgum stundum á
kvöldin og um helgar. Þar var oft
setið að spjalli, á meðan afí smíðaði
og lagfærði. Snemma lærði maður
að bera virðingu fyrir öllum for-
vitnilegu verkfæmnum hans og
ekki síður viðnum sem hann hand-
lék og strauk svo mjúklega. Þar
var tíminn aldrei á fleygiferð, held-
ur unnið stöðugt, vel og af vand-
virkni.
Að leiðarlokum viljum við þakka
afa allar stundimar sem við áttum
með honum og það góða veganesti
sem hann gaf okkur, góðvild hans,
umhyggju og ekki síst lífsgleði
hans. Minningin um hann á mikið
og stórt rými í hjörtum okkar og
mun þar ætíð tengjast æskunni og
vorinu í lífi okkar.
Blessuð sé minning hans.
Sigurbjörg, Ragnhildur,
Guðbjörg, Sjöfn.
Fædd 18. apríl 1899
Dáin 7. apríl 1987
í dag er kvaddur ljúfur sam-
ferðamaður eftir langa og dygga
þjónustu við umhverfi sitt.
Margrét fluttist með eiginmanni
sínum, Jens Hermannssyni, ættuð-
um úr Flatey á Breiðafirði, til
Bíldudals árið 1919 og var Jens
skólastjóri þar til ársins 1945, þá
fluttust þau til Reykjavíkur og gerð-
ist Jens kennari við Laugarnesskól-
ann og starfaði hann þar til ársins
1953.
Lóðir æskuheimilis okkar systk-
inanna í Valhöll og heimili skóla-
stjórahjónanna, Glaumbæ, lágu
saman og vom því börn beggja
heimilanna í nánu samfélagi hvort
við annað og hefur ætíð haldist vin-
skapur þar á milli.
Börn Margrétar og Jens vom:
Þorbjörg, Hólmfríður, Hringur, er
lést 4ra ára, Áslaug, er fórst með
Þormóði 1943, 18 ára, Sigurður,
Gunnar, Margrét og Bjargey, hálf-
systir Margrétar, ólst upp sem
þeirra eigið bam frá fögurra ára
aldri. Öll em þau börn hið mesta
manndómsfólk.
Skólastjórahjónin settu mikinn
svip á umhverfi sitt. Margrét var
fríð kona, dökkhærð og kvik á fæti.
Jens var fróður maður, skáld gott
og hinn mesti manndómsmaður.
Er skóla var lokið á vorin reri hann
sumarlangt á trillu sinni. Þar skorti
aldrei neitt. Þar var allt byggt á
bjargi.
Þessar línur frá okkur systkinun-
um eiga að flytja börnum þeirra
og fjölskyldum innilegar kveðjur og
þökkum nú Margréti alla ástúðina
er „dimmt var í ranni“ á báðum
heimilunum árið 1943. Þá var hún
hinn sterki stofn er aldrei brást.
Systkinin frá Valhöll
á Bíldudal.
„Vinir mínir fara fjöld“ kvað
Bólu-Hjálmar. Þessi vísuorð komu
okkur í hug þegar við heyrðum
andlátsfregn Margrétar Guðmunds-
dóttur. Að vísu kom sú frétt ekki
á óvart, en banalega hennar varð
ekki löng. Hún andaðist eftir fárra
daga legu í Borgarspítalanum 7.
apríl.
Margrét fæddist í Nýjubúð í Eyr-
arsveit 18. apríl 1899. Foreldrar
hennar voru Guðmundur Guð-
mundsson og kona hans Guðrún
Hallgrímsdóttir. Hún ólst upp hjá
foreldrum sínum í stórum systkina-
hópi. Ung að árum giftist hún Jens
Hermannssyni kennara frá Fiatey
á Breiðafírði.
Fáum árum seinna fluttu ungu
hjónin vestur á Bfldudal. Þar varð
Jens skólastjóri frá 1919—1945.
Þau eignuðust sjö böm en misstu
tvö þeirra. Hringur sonur þeirra
lést fímm ára gamall, mikið efnis-
bam, og Áslaug dóttir þeirra fórst
með vélskipinu Þormóði, sem fórst
með allri áhöfn og fjölda farþega
17. febrúar 1943.
Frá Bfldudal fluttu þau hjón með
fjölskyldu sína til Reykjavíkur og
Jens gerðist kennari við Laugames-
skólann haustið 1945. Hann var
hvers manns hugljúfi og ávann sér
virðingu og traust allra sem honum
kynntust. Jens andaðist fyrir aldur
fram 3. apríl 1953.
Kynni okkar og þeirra hjóna hóf-
ust vorið 1947. Þá fluttu þau á
Hofteig 42 í næsta hús við okkur.
Við fundum fljótt að þetta var
traust og samheldin fyölskylda, sem
öllum reyndist vel. Kunningsskap-
urinn varð að vináttu, sem enst
hefur alla tíð síðan. Eftir lát manns
síns bjó Margrét áfram á sama stað
en þegar öll böm þeirra hjóna höfðu
eignast sín eigin heimili og starfs-
vettvangur hennar minnkaði flutti
hún að eigin ósk í risíbúð í húsinu
og eftirlét Gunnari syni sínum og
Vigdísi konu hans sína fyrri íbúð.
Þó Margrét væri sjálfri sér að mestu
leyti nóg þá naut hún einstakrar
umhyggju tengdadóttur sinnar og
sonar.
Oft harmaði Margrét það hve
skólaganga hennar var litil í æsku
og tók sér gjaman í munn gamla
málsháttinn: „Því er fífl að fátt er
kennt." Þess þurfti hún sannarlega
ekki. Hún var víðlesin og margfróð.
Um hana mátti segja að hún var
vel gefin til munns og handa.
Hún var húsfreyja á stóru heim-
ili, ól upp mörg böm og hafði þá
lítil efni. Þá kom það henni að not-
um hve hög hún var og vandvirk,
allt sem hún vann bar hagleik henn-
ar vitni. Þegar bömin fóm að
heiman stytti hún sér stundir við
pijónaskap og fallegar hannyrðir
ásamt lestri góðra bóka, en þá dró
ský fyrir sólu. Sjónin dofnaði svo
hún gat ekki lengur lesið eða unnið
nákvæmnisvinnu og það varð henni
þung raun. Uppgjöf var ekki að
skapi Margrétar. Þessu eins og
öðm tók hún með æðmleysi og lét
útvarp og hljóðbækur bæta sér það
upp eins og hægt var. Þessi aldraða
kona hafði óskert minni og marg-
þætta lífsreynslu og gat miðlað af
henni þeim sem þurftu. Hún varð
aldrei gömul í hugsun eða skoðun-
um.
Það yrði of langt að telja upp
öll samskipti heimilanna nokkuð á
fyórða áratug, sem við vomm ná-
grannar. Við minnumst þess ekki
að þar hafi nokkum tíma fallið
styggðaryrði og bömin okkar virtu
hana enda var hún þeim góð.
Hún var sterk kona og æðmlaus
á hveiju sem gekk, hlífði sér aldrei
og reyndist best þegar mest lá á.
Ekkert var fjær þessari vinkonu
okkar en vera öðmm til byrði. Þeg-
ar heilsa og þrek minnkuðu fór hún
á Dvalarheimili aldraðra sjómanna
og var þar tvö síðustu áiin. Elli og
valheilsu bar hún með sama æðm-
leysi og annað. Hún lét aldrei
bugast eða var beisk í lund. Henni
fylgdi hljóðlát reisn og öllum sem
hún kynntist var hún eftirminnileg.
Hún var kona sem ekki mátti vamm
sitt vita.
Við kveðjum hana með innilegri
þökk og virðingu og vottum öllum
aðstandendum hennar dýpstu sam-
úð.
Ingibjörg Björnsdóttir,
Jónas Guðjónsson.
Hér eftir fylgja nokkur fátækleg
orð til minningar um góða konu og
gegnan þegn. Margrét fæddist í
Nýjubúð í Eyrarsveit 18. aprfl 1899,
dóttir Guðrúnar Hallgrímsdóttur og
Guðmundar Guðmundssonar, ein
af 12 bömum þeirra. Ung að ámm
lagði hún upp í lífsgöngu sína ásamt
ömmubróður mínum, Jens Her-
mannssyni, er þá var farkennari
þar í sveit. Fyrst bjuggu þau í
Skallabúðum um 2 ára skeið, en
árið 1919 gerðist Jens skólastjóri í
Bfldudal svo að þangað lá leiðin,
og þar varð vettvangur hennar í
gleði og sorgum næstu 26 árin. Þar
fæddust þeim bömin 7 og þar að
auki 1 í fóstur tekið, og þaðan dóu
3 þeirra. Hringur á sóttarsæng 5
ára og Áslaug 17 ára í slysinu stóra
þegar tæplega tíundi hluti Bflddæl-
inga hvarf í hafið á einni nóttu með
vélskipinu Þormóði. Þar að auki
dmkknaði Ríkharður, drengur er
þau höfðu tekið til sín, í áhlaups-
veðrinu mikla 1936 ásamt systur-
syni Jens, Eiríki, en þeir vora á
smokkfískveiðum í Amarfirði þann
dag ásamt fleirum.
Aföllin vom því mörg og stór er
mættu þeim hjónum en skapgerð
Margrétar slik að hún stóð jafnrétt
eftir um síðir, þó hart blési um
stund.
Árið 1945 fluttu þau Jens svo til
Reykjavíkur hvar hann gerðist
kennari við hinn nýreista Laugar-
nesskóla. Þá varð það hlutskipti
Margrétar, eins og svo margra
kvenna er flutt hafa þangað af út-
skæklum þessa lands, að verða
ættingjum, vinum og venslafólki
skjól og hlíf í margháttuðu stússi
þess í höfuðstaðnum, og var ekki í
kot vísað þeim er á hennar náðir
reri. Þar má ég vel um vista og
þakka af alhug að leiðarlokum
margháttaða aðstoð hennar og
elskusemi við mig og mína bæði
fyrr og síðar.
Árið 1947 varð Margrét fyrir bfl
með þeim ósköpum að hún hlaut
varanlega bæklun er háði henni æ
síðan, en ekki bugaði það hana frek-
ar en annað mótiæti lífsins, er hún
hafði þó ekki farið varhluta af.
1953 missti hún svo Jens sinn um
aldur fram og varð henni harm-
dauði, og svo varð fleirum.
Eg sem þessar línur rita er einn
þeirra er heimili áttu hjá henni á
Hofteignum um stund, er ég-kom
til náms í Reykjavík ungur og ómót-
aður, og gott var að eiga skjól undir
hennar væng, og af henni hef ég
margan lærdóm þegið, hver ekki'
fæst numinn í skólum, en því frek-
ar af munni þeirra er hertir eru í
lífsins glímu og hafa gull í hjarta
sínu.
Margrét varðist lengi elli kerl-
ingu af fullri einurð, með bælclun
sína að trafala, en hlaut samt að
falla, sem allir að lokum, það er
lífsins gangur. Guð blessi minningu
góðrar vinkonu.
Jón Arngrímsson
HITAMÆLAR
Vesturgötu 16,
sími 13280.
Farymann
Smádíselvélar
5.4 hö við 3000 SN.
8.5 hö við 3000 SN.
Dísel-rafstöðvar
3.5 KVA
SflyirOmogjtyr
Vesturgötu 16,
sími 14680.