Morgunblaðið - 19.10.1988, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 19. OKTÓBER 1988
15
Helgi Hálfdanarson:
Lokaorð til Hallmars Sigurðssonar
Kæri vinur, Hallmar.
Ég þakka orðsendingu þína í
Morgunblaðinu 14. þ.m. vegna
sýningarinnar á Hamlet og um-
mæla minna um hana. Allt sem
þú segir þar er svo vinsamlegt
sem þín var von og vísa.
Þér þykir skiýtið, að ég skyldi
fara að ræða um sýningu þessa
í víðlesnu blaði í stað þess að
spjalla um hana „okkar á milli í
góðra vina hópi“. Það gerði ég
að sjálfsögðu vegna þess, að
skoðanamunur okkar er ekkert
einkamál tveggja eða þriggja
manna. Hann varðar þá hliðina á
verki Shakespeares sem veit að
alþjóð á vegum opinbers leikhúss,
sem þú veitir forstöðu. Þess
vegna vildi ég einmitt „bera hann
á torgu en ekki láta við það sitja
að tuldra upp í dauf eyru leik-
stjóra og leikhússtjóra, að mér
þætti ótækt að farið væri aftan
að almenningi og hann dulinn
þess, að verið væri að sýna annað
leikrit en það frábæra snilldar-
verk sem William Shakespeare
nefndi Hamlet.
Kannski hefði ég getað þagað
um álit mitt á tiltæki ykkar. En
mér er, eins og svo mörgum öðr-
um, annt um þennan gimstein,
og ég get illa horft á það þegj-
andi, að honum sé að mínum
dómi hraklega spillt. Auðvitað
treysti ég því, að ég sé ekki með
svo eðlilegri hreinskilni að bægja
sjálfum mér frá „góðra vina hópi“
eða stofna í hættu vináttu manna
sem mér þykir vænt um og ég
met mikils.
Ég býst ekki við, að þér hafi
þótt grein mín um þá félaga
Hamlet og Gamlet, 5.5. í vor,
neitt sérstakt hneykslunarefni,
þótt þú værir mér ekki sammála.
Henni gat hver svarað sem vildi.
Og það gerðir þú með óbeinum
hætti í blaðaviðtalinu 27.8., þar
sem sjónarmið þitt er ekki beinlín-
is í grennd við mitt viðhorf. Að
sjálfsögðu þótti mér það ekki til-
tökumál. Eigi að síður fannst mér
ástæða til að ræða frekar það sem
þú sagðir þar á almannafæri.
í þetta sinn þykir mér þú tala
um íslenzka leikhúsgesti eins óg
þeir væru Lundúnabúar, sem ár
eftir ár séu ofaldir á verkum
Shakespeares og hljóti þess vegna
að verða hundfegnir öllum nýst-
árlegum kúnstum. Um þetta
ræddi ég rækilega í grein minni
í vor, og aftur að gefnu tilefni í
orðsendingunni til þín 15. f.m.,
og nenni ekki að endurtaka það
oftar. Mergurinn málsins er vita-
skuld sá, að upp er vaxin kynslóð
sem aldrei hefur fengið að sjá
Hamlet Shakespeares á íslenzku
leiksviði, og þeir sem aldrei hafa
séð hann, hafa þar engar hefð-
bundnar klisjur að fælast; en þeir
sem hugsanlega eru orðnir leiðir
á þessu verki, verða engu nær
um kosti þess, þótt það sé krydd-
að með annarlegum gantaskap.
Þú segir það vera tilgang ykk-
ar, að leikritið um Hamlet „sé
gert skiljanlegt og sé um leið
áhrifaríkt“. En ég er ekki einn
um það að geta með engu móti
séð, hvað það er í sýningu ykkar,
sem gerir leikritið Hamlet eftir
Shakespeare skiljanlegra eða
áhrifaríkara en það er frá hendi
höfundar síns. Það er nú öðru
nær. Endurbætur ykkar eru mér
með öllu óskiljanlegar og í mínum
augum áhrifaríkar á þann eina
veg að spilla leikritinu sem lista-
verki. Og á ég þó ekki við það,
að rúmur helmingur þess er strik-
aður út og þar með sumt af því
ailra bezta.
Eitt frægasta og áhrifaríkasta
atriði leiksins er frásögn drottn-
ingar, þegar hún skýrir Laertesi
frá dauða Ófelíu systur hans, og
reynir að láta líta svo út, sem hún
hafi fallið í ána af slysni en ekki
drekkt sér. Fregnin um hörmuleg
ævilok Ófelíu, sem hvergi birtist
nema í þessari frásögn drottning-
ar, hefur löngum þótt eitt feg-
ursta og listfengasta atriðið í öll-
um verkum þessa skálds. Þama
veit Shakespeare upp á hár, hve
mikið skal sagt og hve mikið sýnt.
Enda hefur þetta atriði leiksins
orðið skáldum og myndlistar-
mönnum að heillandi yrkisefni..
Ekki veit ég hvort það var niður
fellt úr sýningu ykkar vegna þess
að það væri eitt þeirra sem þú
kallar hlægileg. En niður féll það,
og annað kom í staðinn.
Og kannski er það á vissan
hátt áhrifameira að láta drottn-
ingu reka upp skelfilegt org, þeg-
ar hún allt í einu sér Ófelíu dauða
í gímaldi því undir miðju leik-
sviði, sem áður hafði verið notað
sem baðker þeirra hjóna; og síðan
koma tveir náungar og drösla upp
rennblautu líkinu hálfstrípuðu og
fleygja þvi á gólfið. Sé svo, þá
er víst, að þau áhrif eru af harla
ólíkum toga, sem kannski er nóg
að kalla smekksatriði, sem ekki
sé hægt um að deila. Enda skal
ég láta það liggja milli hluta,
hvor gerðin megi þykja hlægi-
legri.
Þá mætti sjálfsagt kalla það
sams konar smekksatriði að gera
Pólóníus ræfílinn að enn aumara
fífli en leikrit Shakespeares gefur
tilefni til, svo að annað í fari
hans verði þeim mun óskiljan-
legra, og drottninguna að þeirri
brotahrúgu, sem engin leikkona
gæti klastrað saman. Og kannski
er kóngurinn skiljanlegri og
áhrifameiri persóna, ef hann er
slarkdrukkinn með glas í hendi
við hin ólíklegustu tækifæri, og
tekur á móti hirðmönnum til við-
tals um málefni ríkisins þar sem
hann er peðfullur og drafandi
með fíflahúfu á höfði að striplast
í baðkeri og með miklum gusu-
gangi að kjassast við drottningu
sína, sem Iíka er rallfull í baðker-
inu og skvettir víni ýmist framan
í konunginn eða forsætisráðher-
rann, sem þar er hafður fyrir þjón
með bakka og vínflösku í höndum
til að skenkja jafnharðan i glös
konungshjóna í baðinu.
Þannig yrði lengi upp talið það
sem kalla mætti smekksatriði,
sem ekki tjói um að deila. Samt
hef ég æði margt við allt þetta
að athuga, og fjölmargt annað í
sýningunni, sem ég skal með
þökkum þiggja að ræða innan
íjögurra veggja í góðra vina hópi.
Það sem ef til vill er þó sorgleg-
ast um sýningu þessa, er sá skæði
grunur, að búið sé að æra íslenzka
menningu niður á það stig, að til
lítils þyki að bjóða almenningi
annað en það sem Hamlet varar
sinn slynga leikflokk við að hafa
í frammi, það sem hann segist
hafa heyrt hrósað, og það óspart,
og kunni að vekja hlátur hinna
fávísu, en geti aðeins angrað
skynbæra menn (þeirri frægu
ræðu var að vísu sleppt í Iðnó),
eða það sem Hamlet kallar á öðr-
um stað það eina,. sem haldið
geti lítilmótlegum áhorfanda vak-
andi í leikhúsi. Á þetta komandi
menningarástand drepur Eyvind-
ur Erlendsson leikari með greini-
legum trega í athyglisverðum
hugleiðingum um þessa Haml-
ets-sýningu í Alþýðublaðinu 21.5.
s.l.
En til þess verður að ætlast
af opinberum leikhúsum, að þau
fyrir sitt leyti vinni gegn slíkri
þróun eftir mætti, en viðurkenni
hana aldrei sem óhagganlega
staðreynd. Hingað til hafa íslenzk
leikhús staðið vel í þeirri stöðu,
og á því má engin breyting verða.
Kæri Hallmar, ég vona að þú,
og þið Kjartan báðir, skiljið hvað
fyrir mér vakir með þessum
gauragangi, og sjáið um leið
ástæðu til að fyrirgefa, að ég hef
ekki getað orða bundizt.
Svo þakka ég þér fyrir skil-
merkilega grein, og fyrir allt gott.
Með vináttukveðju.
. --ondi meö leyfi Royal Crovvn Cols Co
'í-ftnEgjiiSkallagrimsson, GrjóthálSi ■■••
Bost lyrir: Sjá dagselníngu á botn .'U'
(Verð í Hagkaupum þann 12. okt. '88)
COLA
FYRIR PÁ SEM VELJA SJÁLFIR
HF. ÖLGERÐIN EGILL SKALLAGRÍMSSON
Til samanburðar:
Coke Pepsi
33 cl dós: 27,- 37,- 37,-
lálítrí: 37,- 48,- 37,-
1 lítrí: 65,- ekki til ekki til
COLA
KYNNIN G ARTILBOÐ:
20% AFSLÁTTUR!
t