Morgunblaðið - 23.10.1993, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. OKTÓBER 1993
33
Minning
Guðfinnur Jón Bergs
son lögreglufulltrúi
Fæddur 29. júní 1925
Dáinn 27. september 1993
Hinn 4. október sl. var til moldar
borinn Guðfinnur Jón Bergsson, lög-
reglufulltrúi.
Okkur langar til að minnast Guð-
finns sem var góður vinur og vinnu-
félagi, en hann lést hinn 27. septem-
ber sl. eftir skamma en alvarlega
sjúkralegu á Landspítalanum.
Guðfinnur fæddist í Reykjavík
hinn 29. júní 1925. Hann var sonur
Guðríðar Guðfinnsdóttur og Bergs
Jónssonar sem bæði voru ættuð frá
Bolungarvík. Guðfinnur ólst upp hjá
móður sinni ásamt yngri hálfbróður
sínum, Þórði Magnússyni. Móðir
hans var ráðskona í Móakoti á
Vatnsleysuströnd og þar gekk hann
í barnaskóla og fermdist frá Kálfa-
tjamarkirkju. Síðan fluttist hann til
Hafnarfjarðar og áttu þau mæðginin
heima á Suðurgötunni þar í bæ ára-
tuginn 1940-1950. Guðfinnur fékk
berkla sem unglingur, svokallaða
lokaða berkla, og lá í marga mánuði
á St. Jósefsspítalanum. Hann var
lengi að ná sér og á meðan hann
var að ná upp þreki fékkst hann við
leigubifreiðaakstur í Hafnarfirði.
Þegar hann hafði náð sér að fullu
fór hann á verkstjóranámskeið og
fékk síðan vinnu hjá bandaríska
hernum á Keflavíkurflugvelli sem
öryggisvörður.
Guðfinnur kvæntist 12. október
1951 eftirlifandi eiginkonu sinni,
Helgu Jóhannsdóttur, fæddri á
Siglufirði 1931. Þau eignuðust fjög-
ur börn. Elstur þeirra er Jóhann,
sjómaður í Grindavík, þá Guðríður
Björg, búsett í Amman í Jórdaníu,
næstyngstur er Guðfinnur Grétar,
sjómaður í Njarðvík, og yngst er
Hallfríður Helga, búsett í Grindavík.
Guðfinnur og Helga byggðu sér
hús í Garðabæ og bjuggu þar í mörg
ár og þann tíma vann Guðfinnur sem
verkstjóri í þakpappaverksmiðjunni.
Þau fluttust síðan til Grindavíkur
árið 1964. Sjórinn hafði alltaf heillað
Guðfinn og átti hann lítinn bát ásamt
Þórði bróður sínum og gerðu þeir
saman út frá Grindavík.
Það má segja að þáttaskil hafi
orðið í löggæslumálum í Grindavík
um haustið 1967 þegar Guðfinnur
J. Bergsson var ráðinn fyrsti fast-
ráðni lögreglumaðurinn hjá Grinda-
víkurhreppi. Guðfinnur var ráðinn
sem varðstjóri og starfaði hann allan
sinn starfsferil hjá lögreglunni í
Grindavík sem slíkur. Síðustu tvö
starfsár sín starfaði Guðfinnur sem
lögreglufulltrúi með starfsaðstöðu í
Keflavík. En Guðfinnur hætti störf-
um þar 1. febrúar 1992 og fór hann
þá á eftirlaun.
Guðfinnur starfaði við mjög frum-
stæðar og erfiðar aðstæður fyrst
eftir að hann varð lögreglumaður í
Grindavík. Lögreglustöðin var í einu
herbergi í húsi hafnarvogarinnar.
Þá var einnig keypt fyrsta lögreglu-
bifreiðin sem var í eigu lögreglunnar
í Grindavík. Bifreið þessi var jeppi
af gerðinni Land Rover árgerð 1962,
sem hafði verið tekin upp í útsvars-
skuld og var því talið upplagt að
nota hana til löggæslustarfa þar sem
hreppurinn hafði eignast bifreiðina.
Guðfinnur gegndi ýmsum öðrum
störfum jafnhliða lögreglustarfmu.
Hann sat í hreppsnefnd Grindavík-
urhrepps á árunum 1970 til 1974
og tók meðal annars þátt í undirbún-
ingi þess að Grindavík öðlaðist kaup-
staðarrétt árið 1974. Þá var hann
ökukennari og fréttaritari Morgun-
blaðsins. Guðfinnur var félagi í Li-
onsklúbbi Grindavíkur til margra ára
og var mjög virkur félagsmaður
þar. Síðast en ekki síst var hann
mikill áhugamaður um ljósmyndun
og hélt m.a. sýningar á ljósmyndum
sínum.
Guðfinnur var mikill áhugamaður
um gróðurrækt og minnumst við
góðra stunda með honum i gróður-
húsi hans þegar hann bjó á Suður-
vörinni í Grindavík en í gróðurhúsinu
var sem menn væru komnir til suð-
lægra landa.
Guðfinns minnumst við sem góðs
viiiar og lögreglumanns sem naut
virðingar og trausts almennings sem
og starfsfélaga.
Það er mikill sjónarsviptir að
Guðfinni og skarð hans verður seint
fyllt. Við erum mjög þakklátir fyrir
að hafa fengið að kynnast honum.
Aðstandendum vottum við okkar
dýptu samúð.
Lögreglumenn í Grindavík.
Minning
Siguijón M. Jónasson,
Syðra-Skörðugili
Fæddur 27. ágúst 1915
Dáinn 6. september 1993
Þegar geislar septembersólarinn-
ar tóku að lækka á lofti og krónur
blómanna að sölna kvaddi Siguijón
á Syðra-Skörðugili þetta jarðneska
líf, sem hann hafði lifað í rétt rúm
sjötíu og átta ár.
Dúddi var sérstæður maður sem
verður ætíð gott að minnast, maður
sem öðrum fremur kunni að lifa líf-
inu. Jákvæðari manni hef ég aldrei
kynnst. Hann gat jafnvel gert erfið-
leikana að skemmtilegheitum.
Hann varð þeirrar gæfu aðnjótandi
að vera fæddur í einu fegursta hér-
aði landsins, Skagafirði, sem hann
unni mjög og naut þess að fá að
lifa þar hamingjusömu lífi í nær
átta áratugi. Dúddi sagði eitt sinn
í viðtali við okkur Eiðfaxamenn að
hann hefði aldrei séð nema sólskin.
Vissulega lifði hann undir skagf-
irskum bláhimni, þar sem fjölbreytt
og fagurt menningarlíf blómstrar.
Þar sem sönglíf er meira meðal
fólks en almennt gerist og gleðin
ríkir. Með vinum sínum í karlakórn-
um Heimi söng hann í meira en
þijá áratugi og naut þess félags-
skapar vel, meðal annars á söng-
ferðalögum kórsins, innanlands sem
utan.
Það hefði mátt ætla eftir hans
jákvæða lífsviðhorfi að hann hefði
fæðst með silfurskeið í munni eins-
og sagt er og að líf hans hefði ver-
ið fyrirhafnarlaus dans á rósum.
En því var ekki þannig farið. Sem
barn fór hann að vinna hörðum
höndum eins og algengt var þá og
vissulega þurfti hann að leggja
hart að sér, eins og flest sveitafólk,
við að framfleyta sér og fjölskyldu
sinni.
Frá námi í Hólaskóla kom hann
heim með stóra vinninginn í lífinu,
Sigrúnu Júlíusdóttur, ættaða úr
Svarfaðardal, mannkostakonu þar
sem dugnaðurinn og snyrtimennsk-
an var í fyrirrúmi. Þennan dýrmæta
eiginleika frá foreldrunum hafa þau
fjögur börn þeirra, sem þeim auðn-
aðist, erft í ríkum mæli. Gestrisni
þeirra hjóna hefur verið við brugðið
enda vinsæl og virt. Sækjast vinir
og kunningjar enda þangað sem
söngur og gleði eru ríkjandi.
Dúddi hafði yndi af öllum skepn-
um og ungur gerði hann sér grein
fyrir því hve mikilsvert er fyrir
bændur að rækta arðsamt búfé.
Hann hafði gott vit á sköpulagi
þess og_ kunni að fóðra það til
afurða. Á fyrstu búskaparárum sín-
um keypti hann kvígu af föður
mínum í Syðra-Langholti þegar
Skagfírðingar komu suður í Hruna-
mannahrepp til að kaupa nautgripi
af hinu kunna Kluftakyni til að
kynbæta sinn kúastofn. Oft var
minnst á kvíguna þegar við hitt-
umst. Þá var oft gaman að fara
með Dúdda í fjárhúsin á Skörðugili
og sjá hið vel fóðraða og ræktar-
lega sauðfé sem þeir tengdafeðgar
áttu. Því miður varð að skera niður
þennan fallega fjárstofn vegna riðu-
veiki fyrir þremur árum.
Þekktastur var þó Dúddi af
áhuga sínum á hestum og hesta-
mennsku enda hrókur alls fagnaðar
á hestaþingum og var þá oft fljótur
að kynnast fólki. Það var því ekki
að undra þó að þessi ljúflingur yrði
vinmargur.
Þegar ég hitti þennan vin minn
í síðasta sinn var hann á Borgarspít-
alanum þar sem hann fékk úrskurð
um að nú ætti hann skammt eftir
ólifað. Það var enginn beygur í
þessum lífsglaða manni, hann trúði
guði og treysti og kveið ekki ferð-
inni sem við förum öll. Hann hafði
sterka trú og vissu um framhaldslíf
þar sem biðu vinir í varpa.
Ég votta fjölskyldu hans innilega
samúð. Blessuð sé minning Sigur-
jóns á Skörðugili.
Sigurður Sigmundsson.
Aldrei skín framar í lífdagsins ljósi
lokkbjarta sveinsins vöggugjöf.
Mér er bæði ljúft og skylt að
minnast skólabróður míns og vinar
með nokkrum orðum, en ætla þó
ekki að ættfæra hann eða geta um
afkomenduur hans, því að ég veit
að margir ætla að skrifa um hann.
Dúddi, eins og hann var kallaður
af öllum, var mörgum minnisstæður
vegna síns sérstaka persónuleika
og framkomu. Mínar minningar um
hann eru mér dýrmætur sjóður. Við
Dúddi vorum saman í skóla á Hólum
1939-1940 og hafði ég lítið komist
í kynni við hann áður. Síðar áttum
við margvísleg samskipti og féll
aldrei skuggi á okkar kynni. Hann
kynntiót konu sinni, Sigrúnu Júlíus-
dóttur, fyrst á Hólum og bjuggu
þau í farsælu hjónabandi alla tíð
síðan.
1 skólanum lagði hann áherslu á
að læra það sem hann áleit að
mundi verða sér til gagns við sitt
ævistarf, búskapinn, og náði
árangri í mörgum greinum. Aftur
á móti lagði hann minna á sig í
sambandi við námsgreinar, sem
ekki voru beint tengdar landbúnað-
arnámi, því að bóndi sagðist hann
ætla að verða og ekkert annað.
Strax í barndómi var hesta-
mennskan honum áhugamál og svo
var alla tíð síðan. Ég minnist þess
að þegar við vorum á Hólum, þá
sleppti hann aldrei tækifæri til að
komast á bak og oft var hann beð-
inn að fara ríðandi í sendiferðir
fyrir búið. Hann var skemmtilegur
skólafélagi. Dúddi átti eina vöggu-
gjöf, sem hann varðveitti allt til
æviloka; það var hans létta lund
og glaðværð, sem gleymist ekki
þeim sem hann þekktu. Hann var
hrókur alls fagnaðar hvar sem hann
kom og var oft fenginn til að flytja
grín og gamanmál á mannamótum,
því að hann kunni vel að koma fyr-
ir sig orði.
Höfðingi var hann heim að sækja
og ekki spillti konan þar um. Var
æði oft, gestkvæmt á heimili þeirra
hjóna, enda þekkti Dúddi þúsundir
manna bæði utanlands og innan og
átti sér engan óviidarmann. í veisl-
um og mannfagnaði skemmti hann
sjálfum sér og öðrum oft konung-
lega og þó að hann yljaði sér af
vínsins glóð, sem oft kom fyrir, þá
var það aldrei neitt til skaða eða
ámælisvert.
„Mikið lifandis skelfing hefur nú
lífið farið vel með mig, nafni minn,“
sagði Dúddi eitt sinn við mig, þegar
við ræddum eitthvað saman um þá
forsjón sem réð því að við urðum
til. Má það til sanns vegar færa,
lífið hefur farið vel með Dúdda.
Hann var ánægður með hlutskipti
sitt og starfaði alla tíð á þeim vett-
vangi, sem hann kaus sér þegar
hann enn var ungur.
Dúddi var náttúrubarn, hann
hugsaði vel um heimili sitt og bú-
stofn allan, hafði glöggt auga fyrir
byggingu og hæfileikum búljár,
sérstaklega hrossa. Honum þótti
vænt um hrossin sín, enda átti hann
margar ánægjustundir í sambandi
við þau. Hann gerði vel við allar
skepnur og vildi að þeim liði vel.
Hann vildi líka að vinum sínum og
kunningjum liði vel og þeir væru
glaðir. Allt var þetta sprottið af
einni rót, ást til alls þess sem lifir.
Hann var aufúsugestur alls staðar
og hvergi „persona non grata“.
Dúddi var trúaður, þó að hann tal-
aði lítið um það. Hann vissi vel eft-
ir úrskurð læknanna að endalokin
væru skammt undan og sagði þá
að þetta væri í raun og veru ekkert
meira heldur en að taka sig upp
og flytjast búferlum; það væri að
vísu alltaf umstang við slíkt.
Siguijón M. Jónasson var jarð-
settur í Glaumbæjarkirkjugarði
föstudaginn 17. september. Prestur
var Gísli Gunnarsson og söng ann-
aðist karlakórinn Heimir sem Dúddi
var búinn að starfa með um árabil.
Mörg hundruð manns komu að jarð-
arförinni til að votta hinum látna
virðingu sína og sýnir það m.a.
glöggt hve vinsæll hann var.
Að lokum vottum við Sigríður
Eiríksdóttir og undirritaður eftirlif-
andi konu hans og börnum, svo og
aðstandendum öllum, okkar dýpstu
samúð.
Sigurjón Runólfsson,
Dýrfinnustöðum.
+
Móðir okkar, tengdamóðir og amma,
MARGRÉT RÓBERTSDÓTTIR,
Egilsbraut 9,
Þorlákshöfn,
verður jarðsungin í dag, laugardaginn
23. október, kl. 10.30 í Þorlákskirkju,
Þorlákshöfn.
Elísabet Anna Ingimundardóttir, Valmundur Einarsson,
Róbert Karl Ingimundarson, Guðný Guðmundsdóttir,
Albert Ingi Ingimundarson, Sólrún Lilja Pálsdóttir,
barnabörn og aðrir vandamenn.
Þökkum innilega auðsýnda vinóttu og samúð við fráfall eigin-
manns míns, föður, tengdaföður og afa,
BENEDIKTS BENEDIKTSSONAR
Vfðilundi 24,
Akureyri.
Hugrún Stefánsdóttir,
dætur, tengdasynir og barnabörn.
+
Þökkum samúð og vinarhug við andlát
eiginkonu, móður okkar, tengdamóður
og ömmu,
SIGRÍÐAR LÁRETTU
TRYGGVADÓTTUR,
Vesturgötu 57A.
Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hinnar
látnu.
Sérstakar þakkir til starfsfólks Grensás-
deildar.
Jóhannes Oddsson.
+
Innilegar þakkir færum við öllum þeim, sem sýndu okkur samúð
og vinarhug við fráfall hjartkærs eiginmanns, föður okkar, tengda-
föður, afa og langafa,
MARINÓS L. STEFÁNSSONAR
kennara,
Brautarlandi 19.
Sérstakar þakkir fá læknar og hjúkrunarfólk í Hótúni 10B.
Guðbjörg Bergsveinsdóttir,
Þorbjörg L. Marinósdóttir,
Sigfríður L. Marinósdóttir,
Grétar L. Marinósson, Svava Guðmundsdóttir,
Karl L. Marinósson, Dóra S. Juliussen,
barnabörn og barnabarnabörn.
PRENTUM SÁLMASKRÁR FYRIR
JARÐARFARIR
ár
STENSILL HF. SUÐURLANDSBRAUT 4A SIMI 689777