Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1941, Qupperneq 108
102
færslur og margs konar spjöll og afbakanir í máli voru eru ávextir
af niðurlægingar-æviárum þjóðar vorrar. Og sorglegt er að vita
til þess, hversu oss lærist seint (þrátt fyrir alla skólana) að laga
misfellurnar og málfar vort allt: stafsetning, framburð og orðaval.
Þjórsárdals-nafnið gat aldrei með réttu, vegna landslagsins,
náð lengra niður með Þjórsá en að Þverá. Takmörk dalsins við
Þjórsá eru glögg og auðsæ neðan-frá og af almannaleiðum, þar
sem eru hæstu fjöllin, Búrfell að austan og Hagafjall að vestan-
verðu. Svo lengi sem menn vita, hefir Hagi líka verið talinn
fremsti (neðsti) bær í Þjórsárdal. Var það og enn eðlilegra í upp-
hafi, meðan bærinn stóð þar, sem Búrfell blasti við; var graf-
in þar út stór skálatótt m. m. sumarið 1939. Bær sá hefir verið
settur við fegurstu brekkurnar (Líknarbrekkur) í Hagafjalli, á
austurbakka lítils lækjar. En lækurinn minkaði og hvarf, eftir
að skógur, graslendi og jarðvegur þvarr, uppi á fjallinu. Vegna
þess hefir bærinn verið fluttur vestur fyrir allmikinn ás, að læk,
sem þar er sírennandi.
Enginn maður þekkist svo líklegur sem Hjalti Skeggjason, til
þess, að hafa byggt fyrstu (og einu) kirkjuna í Þjórsárdal. —
Árið 1000 flutti hann — með Gissuri hvíta — konungsviðinn í
fyrstu kirkjuna í Vestmannaeyjum. Hann var þá og manna lík-
legastur til þess, að afla viðar í eigin kirkju, svo ant sem honum
var um kristnitökuna. Og hvar annars staðar mundi hann setja
kirkju sína en á einka-heimili sínu? Fyr og síðar hafa fundizt
(og nú fyrir fáum árum fann eg) nokkrar agnir af blýi á Skelja-
stöðum, þar sem kirkjan stóð. Styður það sannindi þeirrar sagnar,
að kirkjan hafi verið þakin blýi. Og gerðu svo fleiri stórhöfðingj-
ar. Uppgröftur alls kirkjugarðsins á Skeljastöðum 1939 virðist
sanna það fullkomlega, að þarna hafi verið í fornöld lítil timbur-
kirkja, og ekki jarðsett við hana fleiri en um 60 lík. Það er því
auðsætt, að í kirkjusókn, máske með allt að 20 bæjum (eða meira
í fyrstu?), hefir ekki verið jarðsett þar, eða kirkjan staðið, um
langan aldur. Vafasamt lengur en um nokkra tugi ára, eða eina
öld í mesta lagi, með því líka, að vel mátti jarða þar nokkur lík
eftir að kirkjan var orðin óstæðileg, eða flutt þaðan(?), sökum
eyðileggingar í dalnum. Má vel vera, að eyðing dalsins hafi byrjað
eigi síðar en í fyrsta gosi Heklu, sem árfært er 1104.
Um bústað Hjalta Skeggjasonar, að Núpi, sem Jón Egilsson
telur, vil eg varpa fram tveimur getgátum, til athugunar.
1. Bærinn Skeljastaðir í Þjórsárdal, sem munnmælin telja bú-
stað Hjalta, hefir staðið undir háum núp í Skeljafelli. Það er því