Dagblaðið Vísir - DV - 23.05.1987, Blaðsíða 12

Dagblaðið Vísir - DV - 23.05.1987, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 23. MAÍ 1987. Gæðingur í skiptum fyrir fylfulla meri og veturgamalt trippi, Hvað á Gráni að kosta? Bókabéus nokkur, kunningi minn, fór i hrossakaup hér um dag- inn. Maður þessi lítur helst aldrei upp úr bókum sínum eða ritum, ekki nema til að finna sér nýja bók í hillu eða þjarka við bóksalann um verð. Og þessi hugmynd hans að fara í hrossakaup er einmitt þaðan sprottin: hann hafði verið að kíta við bóksala, kunningja sinn, um réttmæti verðlagningar í versluninni, fannst að bóksalinn gæti ekki einn ráðið verði bókar- innar. - Þú ert engu skárri en hrossa- prangari sem lýgur til um aldur bikkjunnar, kosti hennar og ættir. Þú reynir að selja fólki bækur og höfðar til loðins hugtaks eins og markaðsgildis, íjölda útgefinna eintaka (sem er útilokað fyr- ir kúnnann að kanna) og eftir- spurn. - Það getur enginn verðlagt mínar bækur nema ég sjálfur, sagði bók- salinn. Þar að auki hef ég ekki tíma til að prútta um verð hvers ritlings sem fólk ágirnist hér. Bókabéusinn lenti nokkru seinna á kenderíi og stóð á tröppum veitingahúss og beið eftir leigubíl. Þar sem hörgull var á slíkum tólum þessa nótt varð það úr að hann slóst í för með manni sem hann þekkti hvorki haus né sporð á og þeir óku saman niður í miðbæ. - Ég á fimmtíu hross, sagði sá ókunni. - Ég á eitt hross, sagði okkar maður og roðnaði ekki einu sinni yfir svo grófum ýkjum. Og þegar hann fann að stóðbóndanum fannst lítið til koma um hrossaeign sína, flýtti hann sér að bæta við að þessi eini hestur hans væri áreiðanlega meira virði en þessi fimmtíu hross öll til samans. - Skárri hlýtur það að vera mó- bikkjan, sagði stóðbóndinn. Er þessi stjörnufákur þinn til sölu? - Það getur farið svo, sagði okkar maður. Og kvaðst ekki hafa tíma til að sinna grip þessum og auk. þess vantaði sig fé. Eða hvað ertu tilbúinn að borga? spurði hann stóðbóndann. Við förum í hrossakaup sagði bóndinn. Og bauð okkar manni íylfulla hryssu ásamt vet- urgömlu trippi fyrir gæðinginn. - Ég slæ til, sagði bókamaðurinn, enda var bílferðin á enda og hann orðinn hræddur um að lenda í frek- ari stóðverslun. Og sagði seinna að sjaldan hefði hann haft eins ríka tilfinningu fyrir því að vera lentur úti á hálum ís en á þessari stundu, þegar hann hafði skipt á hesti sem ekki var til fyrir fylfulla hryssu og trippi sem hann taldi sig ekki hafa pláss fyrir á háaloftinu. - Hvað á ég að gera? spurði hann vin sinn daginn eftir. Vinurinn, sem þekkir inn á hrossaverslun, sagði tvennt til ráða: Þú hringir í bóndann eða skrifar honum fallegt bréf, segist hafa verið að grínast og að þú eigir engan gæðing, eigir reyndar ekki eina móbikkju held- ur. Eða þú stendur við orð þín, útvegar þér góðan hest og lætur í skiptum fyrir meri og fyl og folald og losar þig síðan við það nýfengna stóð ellegar gerist hrossabóndi. Voru ekki forfeður þínir úr sveit? Ég er viss um að það rennur búa- blóð um æðar þér. Já sagði bókabéusinn. Nú ætla ég að leggja fyrir mig hrossaprang svo að ég geti seinna sagt barnabörn- unum mínum sögur af þeim hross- um sem ég eitt sinn átti. Bókamaðurinn fór nú á hraðn- ámskeið í ættum hrossa hjá þeim hrosskunnuga, las síðan dýrahalds MILLI LÍNA Gunnar Gunnarsson auglýsingar í DV í nokkra daga og sá loks auglýstan gæðing. Hann lyfti símtólinu. - Þú varst að auglýsa gráan gæð- ing, ekki satt? sagði hann dimm- raddaður. - Já, sagði mjóradda piltur. - Hvað á hann að kosta? - Svona áttatíu eða níutíu þús- und, það fer eftir því hvernig hann verður borgaður. - Hvers vegna ertu að selja hann? - Hann er of viljugur fyrir mig. - Viltu fá fylfulla hryssu, úrvals- reiðhross af Kirkjubæjarkyni ásamt veturgömlu trippi undan Nökkva á móti? Það gæti orðið byrjun á mikilli hrossaeign þinni. - Ég gæti hugsað mér það, sagði pilturinn. Og svo gerðu þeir út um kaupin á þá lund að drengurinn borgaði bókabéusinum allt féð sem hann hafði fengið í fermingargjöf, um íjörutíu þúsund, í milli. Grái gæöingurinn var nú sendur norður í land til stóðbóndans. Og hryssan kom ásamt trippinu um svipað leyti. Okkar maður lagði fjörutíu þúsund inn á ávísanareikning sinn og var viss um að svo velheppnað hrossaprang hefði tæpast átt sér stað þann daginn á öllu Islandi. - Ég var að heyra Ijóta sögu, sagði svo vinur hans sem þekkti til hrossamálefna í landinu. Þeir sátu saman á vönduðu veitingahúsi og gæddu sér á krásum í boði bóka- mannsins. Hann hafði með sjálfum sér ákveðið að greiða fyrir máls- verðinn með hluta af því fé sem hann hafði fengið frá fermingar- barninu. - Lát heyra, sagði bókabéusinn, enda er hann mikið fyrir Ijótar sög- ur. - Sómakær bóndi norður í landi var plataður upp úr skónum hér syðra um daginn. Þessi vesalings maður var að byrja búskap, átti eiginlega ekkert nema eina fylfulla meri og veturgamalt trippi, hafði beðið í tvö ár eftir láni úr Stofnl- ánadeild til að geta keypt sér fyrir rollur þegar hann lenti hér á kend- eríi og ósvífinn prangari hafði af honum merina, fylið og trippið og lét hann í staðinn fá aflóga jálk, tannlaust gerpi sem var strax sent í sláturhús. Óskaplegt hve ósvífnir menn geta verið og tillitslausir. Það er nú ekkert smáræði sagði okkar maður og stakk gaffl- inum á kaf í safaríkan kjötbita sem hann var ekki alveg viss um hvort væri af hrossi eða kú. Enda hefur hrossaprang aldrei höfðað neitt sérstaklega til mín, bætti hann við. Það er eitthvað svo óþrifalegt og loðið við það. En svona er þetta orðið á svo mörgum sviðum þjóð- lífsins. Nú vill fólk ekki sjá fast verðlag sem ákveðið er í nefnd, heldur hleypur það milli verslana í von um að geta gert kjarakaup. En það gerir aldrei nokkur maður kjarakaup. Nema náttúrlega um- boðsaðilinn, sagði bókabéusinn og varð hugsað til fermingarpening- anna sem hvíldu tiltölulega óhultir inni á bankareikningi hans. - Eig- um við ekki að fá okkur kaffi og koníak á eftir? spurði hann svo í örlæti sínu. - Þakka þér fyrir, sagði sá sem hafði vit á hrossum. - En hvemig fór annars með þessi hrossavið- skipti þín um daginn? - Æ, minnstu ekki á það. Ég gleymdi því bara og vona að stóð- bóndinn hafi fyrirgefið mér sökum ölvunar. -GG

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.