Morgunblaðið - 24.03.2001, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 24.03.2001, Blaðsíða 36
36 C LAUGARDAGUR 24. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ FYRIR áhrif heittrúarstefnunnar eða píetismans var fermingin lögleidd í Danaveldi með konunglegri tilskip- un. Þetta var árið 1736 en hér á landi gekk fermingartilskipunin í gildi 1741 og átti eftir að gilda sem lög á Íslandi fram undir 1990. Tilgangur ferming- arinnar var sagður tvíþættur, annars vegar að fræða um sannindi kristin- dómsins og svo að veita aðgang að borði Guðs. Til grundvallar fræðslunni lá bók Lúthers, Fræðin minni, og þeim til viðbótar átti kon- ungur að löggilda kver sem útlegði barnalærdóminn. „Ponti“ lítur dagsins ljós Kverið sem nú kemur fram á sjón- arsviðið er líklega þekktast allra spurningakvera og jafnframt fyrst til að hljóta löggildingu konungs. Er þar á ferðinni „Sannleiki guðhræðslunnar í einfaldri og stuttri, en þó ánægjan- legri útskýringu yfir þann Litla barnalærdóm eður Catechismum hins sæla doct[oris] Mart[ini] Lut- heri, innihaldandi allt það, sem sá þarf að vita og gjöra, er vill verða sáluhólpinn“. Höfundur var Erik Pontoppidan og kom bók hans út á Hólum 1741. Um hana ritar sr. Bjarni Sigurðsson frá Mosfelli, orðrétt: „Skemmst er frá því að segja, að Sannleiki guðhræðslunnar var sú bók, sem Norðurlandabúar hafa stuðzt við til undirbúnings fermingar fremur og lengur en flestar eða allar aðrar bækur. Bókin var meiður á guðfræði heittrúarstefnunnar, sem hafði mikil áhrif á trúarlíf fólks á of- anverðri 17. öld og fram eftir hinni 18. Það var og fyrir áhrif þeirrar stefnu, að ferming var yfirleitt lögboðin í löndum Lúterstrúarmanna. Kristján konungur VI. bauð með bréfi 22. ágúst 1738, að kver þetta, sem gekk undir nafninu Ponti hér á landi, skyldi upp tekið í Danmörku og Noregi. Hér á landi var það löggilt um sömu mundir og áréttað með bréfi konungs 9. júní 1741, sama dag og ferming var hér lögboðin. Hingað til höfðu bisk- upar haft umsjón með hvaða spurn- ingakver væru notuð, en nú verður það mál löggjafans, konungsins. Halldór Brynjólfsson, síðar biskup, íslenzkaði bókina og þótti miður til takast, þar sem fróðir menn töldu sig finna í henni 170 rangar þýðingar og 160 prentvillur að auki. Harboe hafði þessa prentun með sér, er hann kom út hingað, og var hún seinna meir kölluð „Rangi-Ponti“ manna á meðal til aðgreiningar frá hinum eina sanna Ponta, sem seinna kom út í þýðingu Högna prófasts Sigurðssonar… Sr. Högni hélt þýðingar Halldórs á heiti bókarinnar, Sannleiki guðhræðslunn- ar. Var þýðing hans fyrst prentuð í Höfn 1746. Auk þess kom hún 6 sinn- um út á Hólum, seinast 1781. Ekki var Ponta tekið tveimur höndum, er hann var kynntur hér á landi. Jafnvel Jón Árnason biskup tók honum fálega og hnýtti í bókina í bréfum, enda stóð svo á, að einmitt um sama leyti og bókin kom hingað var gjörð seinasta prentun barna- spurninga hans úti í Kaupmannahöfn. „Rangi-Ponti“ lá líka vissulega vel við höggi. Tíminn líður, allt er í heiminum hverfult, trúarskoðanir fólksins breytast. Heittrúarstefnan úreltist, og Ponti varð með tímanum gamal- dags.“ Vigfús Jónsson prestur í Miklholti samdi ágrip af „Sannleika guðhræðsl- unnar“ og lét prenta það í Höfn 1770 í því skyni að létta tornæmum börnum fræðanámið. Bókin var í daglegu tali nefnd „Vigfúsarspurningar“. En með bréfi umsjónarráðs kirkna 26. mars 1772 var bannað að láta börn læra þetta ágrip, þar sem Hólastóll hefði einkarétt á prentun guðsorðabóka. „Balli“ öllu skárri en „Ponti“ Næsta barnaspurningakver var svo prentað í Leirárgörðum 1796 og nefndist „Lærdómsbók í evangelisk- um kristilegum trúarbrögðum handa unglingum“. Höfundur var Nicolaj Edinger Balle Sjálandsbiskup, en þýðandi Einar Guðmundsson frá Þór- laugargerði í Vestmannaeyjum, sem þá var prestur í Noregi, og var bókin löggilt hér með kansellíbréfi 25. ágúst 1798. Íslendingum féll þetta kver hans nokkuð vel í geð, enda hefur það komið út oftar, eða einum 27 sinnum, og verið lengur notað hér á landi en nokkurt annað spurningakver. Síðast var það prentað í Reykjavík 1882. Um þetta kver ritar Bjarni frá Mosfelli: „Vafalaust var þessi bók bragarbót frá Ponta, og var höfundurinn talinn fremur frjálslyndur á sinni tíð, þó að ekki aðhylltist hann skynsemistrúar- stefnuna. Magnús Stephensen átti því ekki gott með að sætta sig við hann, þó að honum þætti hann aug- ljós framför frá heittrúarstefnu Ponta. Árið 1807 kom út breytt út- gáfa af bókinni, kom fyrst í stað út á vegum Landsuppfræðingarfélagsins. Þar eru gjörðar nokkrar „endurbæt- ur“ á trúarjátningunni og fræðunum. Vafalaust var þessi breyting í anda Magnúsar, þó að prentaranum væri um kennt, en í næstu útgáfu var bók- in færð til fyrra horfs. Varð mikið fjaðrafok út af þessari „endurbót“ kversins.“ Tossakverið Árið 1849 kom út í Danmörku kver eftir Carl Frederik Balslev sem var löggilt þar í landi við hlið kvers Ball- es. Það hét fullu nafni „Lúthers kat- ekismus með stuttri útskýringu. Lærdómsbók handa ófermdum ung- mennum“. Balslev var sóknarprestur og prófastur fram eftir aldri en 1867 varð hann biskup í Rípum í Dan- mörku. Bókin naut mikilla vinsælda í heimalandinu og til marks um það má nefna, að þar kom hún út 137 sinnum á 80 árum. Ólafur Pálsson dómkirkju- prestur sneri henni á íslensku og var hún útgefin 1854 og löggilt við hlið Balle. Hér á landi var þessu kveri ekki tekið jafnfeginsamlega og í Dan- mörku og fékk raunar nokkuð vondar móttökur. Einn meginkosturinn á kveri Balles hafði þótt vera sá, að heimilin gátu hjálpað börnunum að tileinka sér efni þess án aðstoðar fræðara. Kver Balslevs gerði hins vegar ráð fyrir, að kennari væri nær- tækur til að skýra efni þess og hent- aði því illa til sjálfsnáms. Sumir hefðu talið það kost, að lærdómskver Bals- levs var styttra en Balles en andstæð- ingar þess vildu meina að ástæðan væri sú, að það væri einkum ætlað tornæmum börnum, og af því dró kverið heiti sitt í munni almennings og var kallað tossakverið. Og þessi nafngift varð enn til að ala á óánægju manna með bókina. Af þessu leiddi, að spurningabörn notuðu ekki öll sama kver, þar sem Balle var enn í gildi, og olli það nokkrum glundroða í fræðslumálunum. Balslev kom aðeins fjórum sinnum út hér á landi á ár- unum 1866-1872. Fermingin lögboðin Þetta spurningakver var prentað í Leirárgörðum 1796 og nefndist „Lærdómsbók í evangeliskum kristilegum trúarbrögðum handa unglingum“. Höfundur var Nicolaj Edinger Balle Sjálandsbiskup. Bók- in var löggilt hér með kansellíbréfi 25. ágúst 1798. Íslendingum féll þetta kver nokkuð vel í geð, enda hefur það komið út oftar, eða einum 27 sinnum, og verið lengur notað hér á landi en nokkurt annað kver. „Sannleiki guðhræðslunnar í ein- faldri og stuttri, en þó ánægjanlegri útskýringu yfir þann litla barnalær- dóm eður Catechismum hins sæla doct[oris] Mart[ini] Lutheri, inni- haldandi allt það, sem sá þarf að vita og gjöra, er vill verða sáluhólp- inn.“ Höfundur var Erik Pontoppidan og kom bók hans út á Hólum 1741. Hún var þó yfirleitt bara kölluð „Ponti“. Hér sést titilblað útgáfu hennar frá 1769. SAGA FERMINGARKVERANNA Magnús Bl. Jónsson fæddist á Efri-Ey í Meðallandi og var prestssonur. Síðar gerðist hann prestur sjálfur og lifði fram á 95. aldursár. Fermingarkverið reyndist honum erfitt, þegar hann ungur tók að glíma við það, en með sérstakri aðferð lánaðist honum að nema innihald þess. Í endurminningum sínum rifjar hann m.a. upp þá daga: „Þetta vor, 1876, rann upp hinn mikli dagur, fermingardag- ur minn. Það mun hafa verið um fardagaleytið, að eg var fermdur í Skarðskirkju. Lítið hafði eg getað sinnt kverinu um vorið fyrir annríki... Kom mér það nú vel, að eg hafði ekki svikizt um lærdóminn um veturinn. Ekki var laust við að eg kviði fyrir og væri hræddur um að eg væri bú- inn að gleyma öllu, enda hafði eg verið afhuga kverinu allt vor- ið, allur áhuginn beinzt að störf- unum. En þá tvo eða þrjá daga, sem faðir minn tók fermingar- börnin heim til undirbúnings undir fermingu og lét mig auð- vitað vera með þeim við upp- lestur og spurningar, rénaði ótti minn talsvert, því að þegar þau gátu ekki svarað lét hann mig svara fyrir þau, og gat eg það oftast. En svo varð eg aftur meira en lítið skelkaður, er eg var leiddur fyrstur að grátunum, og meðhjálparinn rak mig á undan sér allt upp að altari, sem nr. 1, sem þýddi það að byrja skyldi jafnan á mér, og var hræddur um, að eg mundi ekki haga mér rétt. En allt fór þetta betur en á horfðist, og var eg ánægður við sjálfan mig og allt saman þegar lokið var, þó karl faðir minn hlífði mér ekki og, að því er mér fannst, heimtaði meira af mér en hinum börn- unum. Og nú var eg þá orðinn maður sem svo er kallað.“ [Magnús Bl. Jónsson: Endurminn- ingar I. Reykjavík 1980. Bls. 188– 189.] „Og nú var eg þá orðinn maður sem svo er kallað“ Magnús Bl. Jónsson, þá orðinn prestur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.