Morgunblaðið - 22.05.2001, Blaðsíða 4
FRÉTTIR
4 ÞRIÐJUDAGUR 22. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Til sölu MMC Pajero GLS
3200 diesel turbo, nýskráður
18.05.2000, ekinn 30.000 km,
leðurinnrétting, spoiler, vara-
dekkshlíf, 32 tommu, breyttur,
sóllúga. Ásett verð 4.390.000.
MÁLFLUTNINGI í máli ákæru-
valdsins gegn þremur mönnum sem
ákærðir eru fyrir aðild sína að
smygli á átta kílóum af amfetamíni
lauk fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
í gær. Dóms er að vænta á morgun,
miðvikudag.
Óvenju stuttur tími líður því frá
því málið er dómtekið og þar til
dómur er kveðinn upp. Ástæðan er
væntanlega sú að talsverður drátt-
ur varð á rannsókn málsins en
mennirnir voru handteknir þann 14.
júlí í fyrra.
Tveir þeirra hafa síðan verið í
haldi lögreglu. Þeir hafa því setið í
gæsluvarðhaldi í 312 daga. Rennur
gæsluvarðhald þeirra út 30. maí.
Sigmundur Hannesson hrl., skipaður
verjandi annars þeirra, gagnrýndi
mjög þann drátt sem orðið hefur á
rannsókn málsins og sagði að gæslu-
varðhaldið væri orðið með því lengra
sem gerðist. Tafir á rannsókninni
hlytu að verða til þess að refsingin
yrði lækkuð. Þá sagði hann ákæru
ríkissaksóknara ranga í veigamikl-
um atriðum, þóknun sem skjólstæð-
ingur sinn hefði átt að fá væri ekki
rétt í ákæru, ekkert lægi fyrir um að
hann hefði keypt efnin í Amsterdam
auk þess sem magn amfetamínsins
væri ekki rétt tilgreint í ákæru.
Mennirnir eru sem fyrr segir
ákærðir fyrir aðild að innflutningi á
átta kílóum af amfetamíni. Fyrir
dómi í gær kom fram að þyngd þess
væri nú tæplega fimm kíló eða um
40% minni en þegar lagt var hald á
það í júlí í fyrra. Í matsgerð Jakobs
Kristinssonar hjá Rannsóknarstofu
í lyfja- og eiturefnafræði kom fram
að ástæðan fyrir þessum mun er sú
að þegar efnið kom til landsins var
það óvenju blautt. Samkvæmt
vinnureglu lögreglu er efnið vigtað
þegar lagt er hald á það og þá var
það rúm átta kíló. Jakob sagði hins
vegar að eina leiðin til að leggja
mat á magn efnisins væri að vigta
það þurrt. Þá kom fram að styrk-
leiki efnisins væri lítill eða um 12–
14%. Jakob sagði þó að venjulegar
amfetamíntöflur innihéldu yfirleitt
ekki meira en um 3,3% af amfeta-
míni en að það dygði þó vel til þess
að töflurnar virkuðu. Ragnheiður
Harðardóttir sótti málið fyrir hönd
ríkissaksóknara. Við málflutninginn
lagði hún mestan þunga á sönn-
unarfærslu gegn þeim sem ákærður
er fyrir að hafa skipulagt innflutn-
inginn, útvegað fé til fíkniefnakaup-
anna og farareyri fyrir þá tvo sem
ákærðir eru fyrir að flytja inn
amfetamínið. Sá hefur ætíð neitað
sök. Hann sat í gæsluvarðhaldi
fram í lok ágúst og aftur í eina viku
í byrjun nóvember. Ekki þóttu
komnar fram nægar sannanir til að
hafa hann lengur í haldi.
Fyrir dómi í gær var spiluð upp-
taka af símtali milli hans og annars
meðákærðu. Ragnheiður sagði að
við að hlusta á símtalið færi ekki á
milli mála að það væri hann sem
stjórnaði aðgerðum. Hann hefði líka
fjarstýrt aðgerðum í Amsterdam
við kaup fíkniefnanna. Það hefði
komið fram í framburði annars
meðákærðu sem og í gögnum frá
símafyrirtæki sem sýndu að hringt
var frá Amsterdam í síma sem síðar
fannst hjá yngri bróður hans. Þessi
símtöl hefðu átt sér stað á sama
tíma og hinir tveir voru staddir í
Amsterdam til að kaupa fíkniefnin.
Ragnheiður tók þó fram að hann
væri ekki höfuðpaur málsins, hann
gæti hafa gengið erinda annarra.
Verjandi þess sem ákærður er
fyrir að skipuleggja innflutninginn,
Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.,
sagði ákæruna gegn skjólstæðingi
sínum stórfurðulega og hreinan
hugarburð. Engar sönnur hefðu
verið færðar á sekt hans. Ákæra
byggði einkum á ótrúverðugum
framburði meðákærða sem hefði
hagsmuni af því að skjólstæðingur
sinn yrði fundinn sekur. Jón Stein-
ar átaldi vinnubrögð ákæruvaldsins
og taldi að dómurinn hlyti að gera
athugasemdir við þau. Mjög nauð-
synlegt væri að ákærur væru ná-
kvæmar en ákæran gegn skjólstæð-
ingi sínum virtist „samin upp í
vindinn“.
Þá gagnrýndi hann lögreglurann-
sóknina og sagði lögreglumenn hafa
brotið gegn reglugerð sem kveður á
um að lögreglan verði að greina
grunuðum mönnum satt og rétt frá
við yfirheyrslur. Jón Steinar benti
einnig á að rannsókn ætti að miða
að því að sanna bæði hugsanlega
sök og sakleysi. Því skilyrði hefði
ekki verið fullnægt við rannsókn
málsins. Vitni sem hefðu getað
varpað ljósi á málið hefðu t.d. ekki
verið kölluð til yfirheyrslu.
Jón Steinar sagði einnig að svo
virtist sem rannsóknarskjöl hefðu
verið valin úr áður en þau voru lögð
fram við dóminn og ýmislegt benti
til þess að þau gögn sem bentu til
sektar hafi verið valin úr. Ragn-
heiður Harðardóttir sagði þetta
ekki rétt. Þá benti hún á að þrátt
fyrir að engin ákvæði væru um það
í lögum um meðferð opinberra mála
hefði ákæruvaldið reynt að dreifa
öllum málsgögnum til skipaðra
verjenda. Því hefði hins vegar verið
hætt vegna óánægju verjendanna.
Tveir menn hafa setið í gæsluvarðhaldi í 312 daga vegna amfetamínsmygls frá Hollandi
Efnið 40% léttara
en við fyrstu vigtun
DAGSKRÁ 29 sjónvarps-
stöðva er nú hægt að skoða á
slóðinni sjonvarp.is á Netinu.
Þetta er ný þjónusta og tengil
inn á hana er að finna á
mbl.is.
Þegar farið er inn á mbl.is
er smellt á valhnappinn Fólk-
ið ofarlega á skjánum. Þegar
þar er komið inn er smellt á
sjonvarp.is sem er vinstra
megin á skjánum undir Efni.
Opnast þá nýr gluggi og við
notandanum blasir dagskrá
allra íslensku sjónvarpsstöðv-
anna auk fjölda erlendra
sjónvarpsstöðva á þeim tíma
sem farið er inn á vefinn.
Hægt er að sjá dagskrá ís-
lensku sjónvarpsstöðvanna
a.m.k. eina viku fram í tím-
ann og sumra stöðva enn
lengra. Vefurinn býður einnig
upp á þann möguleika að tak-
marka valið við einstakar
stöðvar eða efnisflokka eins
og t.d. íþróttir eða kvikmynd-
ir. Birtast þá upplýsingar um
þessa efnisflokka á öllum ís-
lensku sjónvarpsstöðvunum
allt að nokkrar vikur fram í
tímann.
Sjonvarp.is er rekinn af
fyrirtækinu Nano ehf.
Nýr dag-
skrárvef-
ur á mbl.is
SJÓMENN og útvegsmenn hittust á
samningafundi hjá ríkissáttasemj-
ara í gær. Konráð Alfreðsson, for-
maður Sjómannafélags Eyjafjarðar,
sagði að fundurinn hefði verið alger-
lega árangurslaus. Ríkissáttasemj-
ari hefur ekki boðað fund á ný.
Ríkissáttasemjari boðaði fulltrúa
Landssambands íslenskra útvegs-
manna, Farmanna- og fiskimanna-
sambandsins, Sjómannafélags Eyja-
fjarðar og Alþýðusambands Vest-
fjarða til fundar til að kanna hvort
grundvöllur væri fyrir viðræðum.
Þessi samtök og félög frestuðu ekki
verkfalli og setti Alþingi því lög sem
bannaði verkfallið. Raunar hafði Al-
þýðusamband Vestfjarða aldrei boð-
að verkfall, en LÍÚ setti verkbann á
Vestfjörðum. Samkvæmt lögunum
hafa sjómenn sem eftir eiga að semja
frest til 1. júní nk. til að ná samn-
ingum. Hafi það ekki tekist tekur
gerðardómur til starfa og á hann að
skila niðurstöðu fyrir 1. júlí.
Konráð sagði að LÍÚ vildi ekki
semja um neitt annað en vélstjórar
sömdu um. Hann sagðist ekki sætta
sig við þann samning og því hefði
enginn árangur orðið í gær. Konráð
sagðist ekki sjá fram á annað en að
gerðardómur tæki til starfa.
Enginn ár-
angur á
fundi LÍÚ
og sjómanna
Í NÝJASTA hefti bandaríska
ferðamálatímaritsins Condé Nast
Traveler, sem gefið er út í um
milljón eintökum, er að finna lista
yfir hundrað bestu nýju veitinga-
staðina í heiminum „frá Róm til
Ríó“. Meðal þeirra staða sem er
að finna á listanum er Siggi Hall
á Óðinsvéum. Segir í tímaritinu
að þar séu reiddir fram fíngerðir
réttir með Miðjarðarhafsívafi úr
íslensku hráefni. Tekið er fram að
hráefnið gerist ekki mikið betra
en hið íslenska og sérstaklega er
humarhölum staðarins og saltfisk-
réttum hælt í hástert.
Í tilefni af þessu var haldinn
hádegisverður hjá Sigga Hall í
gær þar sem ýmsir áhugamenn
um íslenska matarmenningu sam-
fögnuðu honum. Ólafur Ragnar
Grímsson, forseti Íslands, var
meðal gesta en einnig nokkrir
þeirra sem hafa haft veg og
vanda af því að kynna Ísland í
Bandaríkjunum. Var það mál
manna að tilnefning sem þessi
gæti gegnt mjög mikilvægu hlut-
verki í að setja íslenska mat-
argerð á kortið vestra. Einar
Gústafsson, forstöðumaður Ferða-
málaráðs í Bandaríkjunum, sagði
þetta marka þáttaskil. Íslenskur
matur væri að verða að stórkost-
legu ævintýri sem ætti að gera að
meiri söluvöru. Magnús Stephen-
sen, markaðsfulltrúi Flugleiða í
Bandaríkjunum, tók í sama streng
og sagði markað vera að opnast
fyrir sælkeraferðir til Íslands.
Bandaríska ferðamálatímaritið Condé Nast Traveler
Siggi Hall
einn af
100 bestu
veitinga-
stöðunum
Morgunblaðið/Jim Smart
Siggi Hall með eintak af Condé Nast Traveler.
Á AÐALFUNDI sjómannadagsráðs
í Reykjavík og Hafnarfirði í síðustu
viku var samþykkt sú tillaga með
meirihluta greiddra atkvæða að
bjóða ekki Árna M. Mathiesen sjáv-
arútvegsráðherra að halda ræðu við
hátíðarhöldin á sjómannadaginn,
sem er 10. júní næstkomandi, líkt og
tíðkast hefur um langt skeið og held-
ur ekki að bjóða fulltrúa útgerðar-
innar að taka til máls. Tuttugu og
sex fulltrúar stéttarfélaga sjómanna
í Reykjavík og Hafnarfirði eiga sæti í
ráðinu og því seturétt á aðalfundi.
Að sögn Guðmundar Hallvarðs-
sonar, þingmanns og formanns sjó-
mannadagsráðs, kom tillagan fram
úr fundarsal og var sett fram vegna
óánægju með lagasetningu á verkfall
sjómanna og kvóta smábáta. Fimm
manna stjórn sjómannadagsráðs
kemur til fundar í dag til að fjalla
m.a. um þetta mál en niðurstaða að-
alfundar er þó endanleg varðandi há-
tíðarhöldin, að sögn Guðmundar.
„Það eru sár í brjósti manna yfir
því sem hefur gerst í málefnum sjó-
manna. Auðvitað skilur maður þá
beiskju sem býr í sjómönnum. Þetta
hefur ekki gerst áður, eða síðan há-
tíðarhöld sjómanna fóru fyrst fram
árið 1938. Á þessum tíma hafa lög
verið sett og gerðardómar og til
þessa hefur ráðið haldið sig fyrir ut-
an kjaradeilur,“ sagði Guðmundur.
Hátíðarhöldin í Reykjavík hafa
vaxið á síðustu árum og m.a. verið
efnt til samstarfs við Reykjavíkur-
borg og Reykjavíkurhöfn sem haldið
hafa hafnardag daginn áður, eða Há-
tíð hafsins. Þá hefur sjávarútvegs-
ráðuneytið tekið þátt í eflingu sjó-
mannadagsins og stutt m.a.
flökunarkeppni og aðstoðað við að fá
heiðursgesti erlendis frá. Árið 1999
var t.d. John Prescott, aðstoðarfor-
sætisráðherra Breta, heiðursgestur
og í fyrra var sjávarútvegsráðherra
Færeyinga viðstaddur hátíðarhöld-
in. Að sögn Guðmundar er óvíst um
þennan stuðning í ár, sem og mál-
þing sem sjávarútvegsráðherra
hafði uppi áform um að halda um
málefni hafsins.
Hátíðarhöld sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði
Ráðherra og útgerðar-
mönnum ekki boðið