Morgunblaðið - 22.05.2001, Page 29
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 22. MAÍ 2001 29
ÞEIR Jim Black trommumeistari
og Chris Speed tenóristi og klarin-
ettuleikari hafa tengst Íslandsdjass-
inum síðan þeir Jim og Hilmar
Jensson voru hebergisfélagar á
Berklee-tónlistarskólanum í Boston.
Ófá eru þau skipti sem Jim og Chris
hafa komið hingað til að leika með
Hilmari og félögum – eitt sinn með
Tim Berne en oftar í fylgd Skúla
Sverrissonar bassameistara svo sem
í balkandjasssveitinni Pachora. Skúli
býr í New York eins og flestum mun
kunnugt og starfar um víða veröld.
Í símaviðtali Morgunblaðiðs við
leiðtoga sveitarinnar, Jim Black,
þarsem hann var staddur ásamt
félögum sínum að taka upp nýjan
geisladisk, sagðist hann ekki vera
djassleikari og hafna öllum skil-
greiningum á tónlist. „Nú reyni ég
að forðast stíla og stefnur. Ég vil
bara heyra góða tónlist....... Ég
myndi segja að ég væri spunatónlist-
armaður fyrst og fremst.“
Það er ekkert nýtt að tónlistar-
menn gefi slíkar yfirlýsingar og ekk-
ert nema gott um það að segja. Bæði
Duke Ellington og Charles Mingus
neituðu að kalla tónlist sína djass en
hún var ekki minni djass fyrir það,
en þeir urðu fyrir áhrifum alls staðar
frá, jafnt úr tónskáldatónlist, poppi
og þjóðlögum Austurlanda. „Það er
aðeins til tvenns konar tónlist,“ sagði
Duke jafnan, „góð tónlist og vond
tónlist“.
En hvort sem listamönnum líkar
betur eða verr verður alltaf reynt að
skilgreina list þeirra og merkja hin-
um ýmsu stílum – vonandi njótend-
um til gagns og glöggvunar. Einfald-
asta skilgreining sem til er á djassi
er höfð eftir John heitnum Lewis,
forsprakka Modern Jazz-kvartetts-
ins. „Djass er spuni með sveiflu“.
Svo má endalaust deila um hvað
sveifla sé.
Tónlist AlasNoAxis leitar víða
fanga sem betur fer, því endurtekn-
ingar á því sem gert hefur verið,
hvort sem er í bíboppi eða frjáls-
djassi, ber dauðan í sér eins og best
hefur sannast á djassframleiðslu
stóru bandarísku útgáfuhringanna.
Tónleikar þeirra félaga upphófust
á miklu rafmagni enda hljóðfæra-
leikararnir vopnaðir hljóðgervlum
ýmiss konar auk hljóðfæranna og
Jim veltir sér upp úr hljóðasköpun-
inni; en að fegurðin sé öllu æðri
sannaðist eftirminnilega þegar Chris
blés hina fátóna en fögru ballöðu M
m og í kjölfarið fylgdi villtari sam-
spuni en á diskinum góða er út kom
með sveitinni í fyrra. Brátt mátti
kenna aðra kostalaglínu, Mabye, af
sama diski og fylgdi trylltur sam-
spuni. Tenórinn leiddi síðan til há-
sætis nýtt tónverk eftir Black en
eins og í flestum verkum kvöldsins
var einleiksspuninn í styttri kantin-
um. Þetta var formföst tónlist með
þungum takti af rokkættinni oftast
eða þá í sveimkenndari kantinum. Þó
brá klassískum djasstöktum oftar en
ekki fyrir hjá meistaratrommaran-
um Jim Black.
Fimmti ópus kvöldsins upphófst á
stórfallegum tenórblæstri Chris
Speed, af frelsisættinni en þó með
coltrönskum undirtóni og síðan tók
við riffið eins og gjarnan og lauk öll-
um með trylltu rafmagni snöggt svo
Jim varð að segja: „That́s all,“ til að
koma klappinu í gang. Þetta var Poet
Staggered og skemmtilega ólíkur
blástur hjá Chris og á diskinum þar
sem hann blæs í falsettu a la Albert
Ayler.
Svo spiluðu þeir fleiri lög af disk-
inum frá í fyrra og ný verk í bland og
fóru að sjálfsögðu á kostum og Jim
þakkaði fyrir sig: „Súpertakk.“
Þetta voru lok á þriggja vikna Evr-
óputúr og ekki undra að félagarnir
væru þreyttir eftir að hafa leikið
stanslaust í hálfan annan tíma í
Tjarnarbíói en aukalagið skyldu tón-
leikagestir fá. Það var nýtt af nálinni
og hófst sem ballaða en reif sig brátt
upp í styrk og spennu.
Lítið fór fyrir einleik hjá Skúla og
Hilmari en því betur gæddu þeir tón-
listina lífi með hljómum sínum, línum
og rafhljóðum.
Þetta voru fyrsta klassa tónleikar
sem bæði skemmtu og glöddu and-
ann og þökk sé fjórmenningunum og
12tónum sem skipulögðu herlegheit-
in. Þeir sem ekki gátu komist ættu
að ná sér í disk þeirra félaga og við
sem vorum í Tjarnarbíói bíðum
spennt eftir þeim nýja.
Tónaveisla og hljóða-
svall í Tjarnarbíói
DJASS
T j a r n a r b í ó
Chris Speed, tenórsaxófón og klar-
inett, Hilmar Jensson gítar, Skúli
Sverrisson rafbassa og Jim Black
trommur. Miðvikudagur 16. maí.
ALASNOAXIS
Vernharður Linnet
KIRKJUKÓR Selfosskirkju heldur
tónleika í Selfosskirkju að kvöldi
uppstigningardags og hefjast þeir kl.
20.30. Eru þetta aðrir tónleikar kórs-
ins á þessu vori og kveður þar örlítið
við annan tón, Enda er þessi efnis-
skrá frábrugðin því sem kórinn oft-
ast fæst við. Sum lögin hafa verið
grafin úr djúpri gleymsku og hafa
e.t.v. aldrei heyrst áður en önnur
flutt í nýjum búningi. Sitthvað ætti
því að vera forvitnilegt áheyrnar.
Stjórnandi kórsins er Glúmur Gylfa-
son. Elín Gunnlaugsdóttir syngur
einsöng með kórnum og undirleik
annast Haukur Gíslason.
Ekki alls fyrir löngu hélt kórinn
tónleika í Selfosskirkju í tilefni loka
á 1000 ára kristnitökuafmælisári. Á
tónleikum var eingöngu flutt kirkju-
legt efni sem hæfa þótti tilefninu.
Kirkjukór Selfosskirkju hyggst
bregða sér út fyrir landsteinana nú í
byrjun júní. Ferðinni er heitið til
Ítalíu og er ætlunin að ferðast um
nokkurt svæði og sýna sig og sjá
aðra og að sjálfsögðu syngja jafnt á
torgum sem fínustu tónleikastöðum.
Kórinn mun meðal annars syngja
með öðrum kórum í Parma og
Mongidoro og einnig mun söngkon-
an Halla Margrét Árnadóttir syngja
einsöng með kórnum í nokkrum lög-
um. Kórinn hefur æft af kappi fyrir
þessa ferð ásamt því að sinna nauð-
synlegum athöfnum. Þegar í ljós
kom að skipuleggjendur á Ítalíu
gerðu ráð fyrir tvennum tónleikum á
svipuðum slóðum var brugðið á það
ráð að bæta við annarri efnisskrá
sem flutt verður á tónleikunum að
kvöldi uppstigningardags.
Aðgangseyrir að tónleikunum er
1.000 krónur.
Morgunblaðið/Sig. Jónss.
Kirkjukór Selfoss heldur í tónleikaferð til Ítalíu í næsta mánuði.
Ryk dustað af gömlum
lögum í Selfosskirkju
Selfoss. Morgunblaðið.