Morgunblaðið - 10.08.2001, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 10.08.2001, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 FÖSTUDAGUR 10. ÁGÚST 2001 MORGUNBLAÐIÐ GERT er ráð fyrir að Íslendingar, Bretar, Færeyingar og Írar muni á næstunni halda fyrsta sameiginlega fund sinn vegna tilkalls til land- grunnsréttinda á Hatton Rockall- svæðinu. Frá þessu greindi Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra á blaðamannafundi í gær. Sagði hann slíkan fund marka tímamót í Hatton Rockall-málinu, en vissar líkur eru taldar á því að unnt verði að vinna olíu á svæðinu. Halldór sagði einnig frá því að rík- isstjórnin hefði samþykkt tillögu þeirra Valgerðar Sverrisdóttur iðn- aðarráðherra um að ráðist verði í undirbúning greinargerðar til land- grunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna. Voru áform þessi kynnt í gær þar sem sátu fyrir svörum auk utanríkisráðherra og iðnaðarráð- herra þeir Tómas H. Heiðar, þjóð- réttarfræðingur utanríkisráðuneyt- isins, og Steinar Guðlaugsson, sérfræðingur hjá Orkustofnun, sem hafa haft veg og vanda af undirbún- ingi málsins. Gert er ráð fyrir að vinna þessi, sem er mjög viðamikil, taki um fjög- ur ár og er áætlaður heildarkostn- aður vegna hennar um 700 milljónir króna. Verður greinargerðinni skilað til landgrunnsnefndarinnar árið 2005. Fjórhliða fundur allra deiluaðila haldinn í haust Halldór sagði að annars vegar yrði gert tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna í suðri, það er á Reykjanes- hrygg og Hatton Rockall-svæðinu, og hins vegar í austri, í Síldarsmug- unni. Aðeins Ísland geri kröfu um landgrunnsréttindi á Reykjanes- hrygg, en á öðrum svæðum geri ná- grannalöndin jafnframt kröfu um réttindi. „Á Hatton Rockall-svæðinu hafa Danmörk, fyrir hönd Færeyja, Bretland og Ír- land einnig sett fram kröf- ur um réttindi. Í Síldar- smugunni mun Noregur einnig gera kröfu til land- grunnsréttinda út frá Jan Mayen og hugsanlega mun Danmörk einnig setja fram kröfu um slík réttindi fyrir hönd Færeyja,“ sagði Halldór. „Við höfum á undanförnum misserum átt óform- legar tvíhliða viðræður við þá aðila sem auk okkar gera tilkall til land- grunnsréttinda á Hatton Rockall- svæðinu, það er Færeyinga, Breta og Íra. Markmiðið hefur verið að koma á fundi allra deiluaðilanna en slíkur fundur hefur aldrei verið haldinn. Stefnt er að því að fjórhliða fundur verði haldinn í haust en hann mun marka tímamót í Hatton Rockall- málinu. Mikilvægt er að aðilar hefji að leita leiða til að leysa þetta mik- ilvæga mál, en ekki er við því að bú- ast að viðræður aðila muni leiða til skjótrar niðurstöðu enda er málið af- ar flókið og erfitt að samræma sjón- armið aðila. Gera má ráð fyrir að á næstu misserum muni einnig eiga sér stað viðræður við Norðmenn, og hugsanlega Færeyinga, um afmörk- un landgrunns í Síldarsmugunni.“ Sagði hann að til að lausn næðist um afmörkun landgrunns á umdeild- um svæðum á borð við Hatton Rock- all þyrfti tvennt að koma til. Annars vegar þyrftu hlutaðeigandi ríki að komast að samkomulagi um skipt- ingu landgrunnsins sín á milli eða um að það verði sameiginlegt nýtingar- svæði og hins vegar þurfi að nást nið- urstaða um afmörkun ytri marka landgrunnsins með hliðsjón af tillög- um landgrunnsnefndarinnar. Þá sagði hann að samkvæmt haf- réttarsamningnum færu ríki sjálf með afmörkun landgrunns sín á milli, en að landgrunnsnefndin mætti ekki aðhafast neitt sem hefði áhrif á af- mörkun landgrunns á svæðum sem tvö eða fleiri ríki gerði tilkall til. Á hinn bóginn væri ljóst að ekki yrði kveðið á um ytri mörk landgrunns- ins, það er gagnvart alþjóðlega hafs- botninum, nema að fengnum tillög- um nefndarinnar. Sameiginleg greinargerð viðkomandi ríkja til nefndarinnar gæti gert henni kleift að gera tillögur um ytri mörk land- grunns á umdeildu svæði. Ísland hefur frest til 13. maí 2009 til að leggja fram umrædda grein- argerð, þó að ákveðið hafi verið að gera það mun fyrr vegna þeirra hagsmuna sem eru í húfi, sagði Hall- dór. Hann sagði að í framhaldi af greinargerð Íslands mundi nefndin leggja fram sínar tillögur, en að mörk landgrunnsins, sem strandríki ákveður á grundvelli þessara til- lagna, skuli vera endanleg og bind- andi. Í starfsreglum nefndarinnar er einnig að finna ákvæði sem felur í raun í sér undanþágu frá fresti strandríkja til að leggja upplýsingar um mörk landgrunnsins fyrir nefndina. „Samkvæmt ákvæðinu getur strandríki lagt upplýsingar um ein- ungis hluta landgrunns síns fyrir nefndina í því skyni að hafa ekki áhrif á álitamál varðandi afmörkun milli ríkja á öðrum hlutum landgrunnsins. Leggja má upplýsingar um síðar- nefndu svæðin fyrir nefndina síðar og eru engin tímamörk sett í því sam- bandi. Væntanlega munum við beita þessu undanþáguákvæði og leggja fyrst fram upplýsingar um land- grunnið á Reykjaneshrygg en upp- lýsingar um landgrunnið á Hatton Rockall-svæðinu og í Síldarsmug- unni, sem fleiri ríki gera tilkall til, síðar.“ Halldór sagði einnig að stefnt væri að því að afla fullnægjandi upplýs- inga um mörk íslenska landgrunns- ins á Reykjaneshrygg fyrir árið 2005 og að við það væri miðað að þá lægju jafnframt fyrir fullnægjandi upplýs- ingar um mörk íslenska landgrunns- ins á Hatton Rockall-svæðinu og í Síldarsmugunni. Sagði hann það for- sendu fyrir þátttöku Íslands í samn- ingaviðræðum við nágrannaríkin um afmörkun þessara tveggja svæða að til staðar væru sem gleggstar upp- lýsingar um landgrunnið þar. „Vissar líkur eru taldar á því að unnt verði að vinna olíu á Hatton Rockall-svæðinu, einkum í vestur- jaðri Rockall-trogsins, en ekki eru horfur á að olíu sé að finna á Reykja- neshrygg eða í Síldarsmugunni. Rétt er hins vegar að hafa í huga að at- hygli manna beinist í vaxandi mæli að öðrum auðlindum á landgrunninu, allt frá málmum til erfðaefnis lífvera á hafsbotni. Með tækniframförum eykst bæði vitneskja um auðlindir á landgrunninu og möguleikar á nýt- ingu þeirra. Ýmislegt bendir til þess að réttindi yfir landgrunninu fái aukna þýðingu í framtíðinni og mik- ilvægt er því að öðlast yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunns- svæðum,“ sagði Halldór. Heildarkostnaður um 702,5 milljónir króna Sagði Halldór að mikið starf væri framundan við að tryggja fullnægj- andi upplýsingar um mörk íslenska landgrunnsins utan 200 sjómílna en meðal annars þurfa að fara fram um- fangsmiklar og kostnaðarsamar mælingar á umræddum þremur svæðum. Tæknilegur undirbúningur greinargerðar til landgrunnsnefnd- arinnar verði fyrst og fremst í hönd- um Orkustofnunar og að tryggt verði að stofnunin hafi bolmagn til að tak- ast á við verkefnið með fullnægjandi hætti. Sagði hann að Orkustofnun hefði áætlað að heildarkostnaður vegna tæknilegra starfa við undir- búninginn, sem taka mun fjögur ár, verði 654,9 milljónir króna. Þá tók Halldór fram að utanrík- isráðuneytið bæri ábyrgð á þeirri greinargerð sem skilað verður til landgrunnsnefndarinnar og að ráðu- neytið muni hafa yfirumsjón með undirbúningi hennar og taka allar stefnumarkandi ákvarðanir, að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið, Orkustofnun og aðrar stofnanir. Verður skipuð nefnd undir forystu utanríkisráðuneytisins til að vinna greinargerðina og einnig verður búið til nýtt stöðugildi í utanríkisráðu- neytinu á tímabilinu, þar sem starfs- svið viðkomandi verður afmarkað við landgrunnsmál og önnur hafréttar- mál. Gert er ráð fyrir að kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna fram- angreinds verði 47,6 milljónir króna og er því áætlaður heildarkostnaður vegna greinargerðar til landgrunns- nefndarinnar um mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna 702,5 millj- ónir króna. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- ráðherra tók undir með utanríkisráð- herra um að mikið starf væri fram- undan við að tryggja fullnægjandi upplýsingar um mörk íslenska land- grunnsins utan 200 sjómílna. Meðal annars þurfi að yfirfara fyrirliggj- andi gögn, afla nýrra gagna, þar sem þörf er á, og ganga úr skugga um að þau séu í samræmi við hinar vísinda- legu og tæknilegu viðmiðunarreglur landgrunnsnefndarinnar. Sagði hún að umfangsmesti og kostnaðarsam- asti verkþátturinn væru mælingar á því landgrunni sem Ísland geri tilkall til utan 200 sjómílna, en það svæði sé um 1.000.000 ferkílómetrar að stærð. Auk þess sé nauðsynlegt að gera mælingar á 350.000 ferkílómetrum af landgrunninu sem sé innan 200 sjó- mílna. Samtals sé því um að ræða 1.350.000 ferkílómetra svæði sem sé um þrettánfalt landsvæði Íslands. Valgerður sagði að Orkustofnun hefði afmarkað þrjú mælingasvæði, Síldarsmuguna, Reykjaneshrygg út að 350 sjómílum ásamt landgrunninu suður af landinu og Hatton Rockall- grunn. Hinn tæknilegi undirbúning- ur greinargerðar til landgrunns- nefndarinnar yrði, eins og áður sagði, fyrst og fremst í höndum Orkustofnunar, en aðrar stofnanir, meðal annars Sjómælingar Ís- lands, tækju væntanlega þátt í afmörkuðum hlut- um starfsins. Sagði hún að af þeim 654,9 milljónum sem er áætlaður heildarkostnaður Orkustofnunar vegna hins tæknilega starfs, sé áætl- aður kostnaður vegna mælinga á landgrunninu 501,6 milljónir króna sem skiptist þannig að til fjölgeisla- dýptarmælinga eru áætlaðar 346 milljónir króna og til hljóðendur- varpsmælinga 155,6 milljónir króna. Kostnaðurinn skiptist þannig á ein- stök mælingasvæði að 67 milljónir verða notaðar við mælingar í Síld- arsmugunni, 196,2 milljónir við mæl- ingar á Reykjaneshrygg út að 350 sjómílum ásamt landgrunninu suður af landinu og 238,4 milljónir í mæl- ingar á Hatton Rockall-grunni. Nauðsynlegt að forathugun fari fram á næsta ári „Að mati Orkustofnunar er nauð- synlegt að svokölluð forathugun fari fram þegar á næsta ári,“ sagði Val- gerður en í henni fælist að „skil- greina ytri mörk íslenska land- grunnsins til bráðabirgða með alþjóðlega viðurkenndum hugbúnaði á grundvelli gagna sem þegar liggja fyrir í alþjóðlegum gagnagrunnum. Að grandskoða ytri hluta land- grunnsins frá sjónarhóli landgrunns- nefndarinnar og nágrannaríkja okk- ar í þeim tilgangi að finna hugsanlegar veilur í fyrirhuguðum kröfum okkar. Að komast að því hvort nýta megi hluta fyrirliggjandi gagna sem frumgögn í greinargerð okkar til landgrunns- nefndarinnar og draga þannig úr kostnaði við mælingar, og að undirbúa mælingar sem fram fara eftir að forathugun er lok- ið,“ sagði Valgerður. Gert er ráð fyrir að mælingar á landgrunninu fari fram árin 2002, 2003 og 2004, lokaúr- vinnsla þeirra, samning greinargerð- ar og skil hennar árið 2005 og munn- leg kynning greinargerðarinnar fyrir landgrunnsnefndinni árið 2006, sagði hún. Kostnaður vegna hins tæknilega starfs skiptist þannig að í ár er hann 9 milljónir króna, á næsta ári verður hann 69,5 milljónir, árið 2003 270,6 milljónir, árið 2004 verður hann 257,2 milljónir, árið 2005 43 milljónir og árið 2006 5,6 milljónir. Viðamikill undirbúningur greinargerðar til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna hafinn Mikilvægt að öðlast yfirráð yfir sem víðáttumestum land- grunnssvæðum Morgunblaðið/Sverrir Steinar Guðlaugsson sérfræðingur hjá Orkustofnun, Valgerður Sverr- isdóttir iðnaðarráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins, ræddu við blaðamenn í gær.                         Fyrsti sameiginlegi fundur þeirra sem gera tilkall til landgrunnsréttinda á Hatton Rockall-svæðinu er í vændum og segir utan- ríkisráðherra slíkan fund marka tímamót. Birna Anna Björnsdóttir sat blaðamanna- fund þar sem þetta kom fram og kynntur var undirbúningur að greinargerð til land- grunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna. bab@mbl.is Olía og aðrar auðlindir á land- grunninu Mælingar gerðar á þrettánföldu landsvæði Ís- lands

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.