Morgunblaðið - 27.10.2001, Side 40

Morgunblaðið - 27.10.2001, Side 40
MINNINGAR 40 LAUGARDAGUR 27. OKTÓBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Jón Jónsson íFremstafelli fæddist 5. apríl 1908 á Mýri í Bárðardal. Hann lést 17. októ- ber síðastliðinn á Sjúkrahúsinu á Húsavík. Foreldrar hans voru Aðalbjörg Jónsdóttir, hús- freyja á Mýri, f. 1880, d. 1943, og Jón Karlsson, bóndi og kirkjuorganisti, f. 1877, d. 1937. Jón í Fremstafelli var fimmti í röð níu systkina: Karl, f. 1901, d. 1979, Hulda, f. 1902, d. 1989, Guðrún Pálína, f. 1904, d. 1985, Þórólf- ur, f. 1905, d. 1991, Jón, f. 1908, d. 2001, Páll Helgi, tvíburabróð- ir Jóns, f. 1908, d. 1990, Áskell, f. 1911, Baldur, f. 1916, d. 1979, og Kristjana, f. 1924. Jón kvæntist 11. júlí 1936 eft- irlifandi konu sinni, Friðriku Kristjánsdóttur, f. 18. júlí 1916. Friðrika er dóttir hjónanna Rósu Guðlaugsdóttur, húsfreyju í Fremstafelli, Köldukinn, f. 1885, d. 1962, og Kristjáns Jónssonar, bónda þar, f. 1881, d. 1964. Jón og Friðrika eignuðust fimm börn. Þau eru: Ásdís, f. 22. októ- ber 1936, býr í Reykjavík, á þrjú börn; Aðalbjörg, f. 3. nóvember 1939, býr í Ólafsfirði, á fimm börn; Rósa, f. 12. júlí 1943, býr í Reykjavík, á þrjú börn; Rannveig, f. 20. júní 1949, býr á Akureyri, á tvö börn; og Þorgeir, f. 26. júlí 1955, býr á Akureyri, á fimm börn. Barnabarna- börn Jóns og Frið- riku eru tuttugu. Jón ólst upp á Mýri og vann að búi foreldra sinna. Hann var síð- an bóndi á Mýri 1937–1940. Þá flytur hann með Friðriku, konu sinni, og tveimur elstu dætrun- um, Ásdísi og Aðalbjörgu, í Fremstafell þar sem þau bjuggu allan sinn búskap. Jón kenndi sig löngum við Fremstafell. Árið 1994 þau flytja þau hjónin til Húsavíkur, fyrst í eigin íbúð í Miðhvammi, en árið 2000 fara þau í Hvamm, dvalarheimili aldraðra, þar sem Friðrika býr nú. Útför Jóns fer fram frá Þor- geirskirkju á Ljósavatni í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Þegar ég sest niður til að minnast tengdaföður míns finn ég það brátt að talsverður vandi er að minnast slíks manns með fáeinum orðum. Það er sýnu erfiðara að velja úr safni minninganna en skrifa langt mál. Níutíu og þrjú ár eru býsna drjúg mannsævi og margt getur borið við á styttri tíma. Þó bjó Jón aðeins á þremur stöðum um ævina, á æsku- heimili sínu, Mýri í Bárðardal, þar sem hann bjó einnig fyrstu búskap- arárin með eftirlifandi konu sinni, Friðriku Kristjánsdóttur frá Fremstafelli. Þangað fluttu þau svo með tvö elstu börnin og bjuggu þar allan sinn búskap. Við þessa tvo bæi kenndi Jón sig gjarna, Jón Jónsson frá Mýri eða Jón í Fremstafelli. Jón og Friðrika bjuggu síðustu árin á heimili aldraðra á Húsavík og þar býr Friðrika nú. Æskuárin á Mýri voru Jóni kær, en þeim fylgdi líka mikill sársauki. Þegar Jón var innan við fermingu missti faðir hans annan fótinn og eins og nærri má geta var það mikið áfall fyrir stórt sveitaheimili. Þrátt fyrir bæklunina gekk faðir Jóns að búverkum en synirnir, ekki síst Jón, tóku á sínar herðar hluta af þeirri ábyrgð sem fylgdi búrekstr- inum. Minningarnar voru Jóni alla ævi lifandi veruleiki, ekki síst sú sem hann lýsir í kvæðinu Heim að Mýri (Hjartsláttur á þorra.) Mér heyrðist eins og hækjuhljóð úr blæ, hlökt í lestarferð með klyf á reiðing, skuggaþrepin fetuð sporum fast um fenjalönd og hlíðarhallans sneiðing og jökulelfaraur og iðukast. Jón í Fremstafelli var einkar mannblendinn og átti sérlega auð- velt með að kynnast fólki og ræða við það, bæði kunnugt og ókunnugt. Það var honum reyndar lífsnauðsyn og því mikið frá honum tekið hin síð- ari árin þegar heyrnin fór að bila. Það gerði honum mannakynni öll torveldari og var honum þungbært. Jón var afburðavel máli farinn og fágætur ræðumaður. Hann átti auð- velt með að leggja þannig út af efni að eftir var tekið og hlustað með eft- irtekt. Kunningi minn lýsti ræðustíl Jóns bónda á þann veg að líkast væri því sem hann klifraði upp trjá- stofn, færi út á hverja grein allt upp í topp og renndi sér síðan beint nið- ur. Sannmæli það. Samur var ritstíll hans. Þræðin- um hélt hann alltaf þótt víða kæmu innskot þar sem nokkuð var vikið af leið. Þegar bústang minnkaði og fleiri tómstundir gáfust skrifaði Jón mik- ið, bæði minningar frá fyrri tíð og um dægurmál. Sumt birtist í dag- blöðum en minningaþættirnir marg- ir í tímaritinu Heima er best. Bundið mál var Jóni sérlega hug- stætt og allt frá barnæsku las hann mikið af ljóðum. Í amstri daganna var hann alltaf með blýantsstubb í vasanum og pappír, gjarna umslög utan af Tímanum, og skrifaði niður hugmyndir sem hann síðan vann úr kvæði þegar tími gafst að loknu dagsverki, ekki ólíkt skáldbóndan- um sem hann dáði svo mjög og hafði hitt ungur drengur heima á Mýri, Stephani G. Stephanssyni. Mér eru þær stundir ákaflega minnisstæðar þegar Jón fór ofan í tösku sína eða skrifborðsskúffu, lok- aði dyrunum og las mér nýort kvæði eða eldra kvæði sem hann hafði ver- ið að fága og snurfusa. Mér fannst hann sýna mér sérstakan trúnað, og fyrir það er ég þakklátur. Síðar sýndi hann mér þó enn meiri trúnað með því að fá mig til að hjálpa sér við að búa til prentunar ljóðabæk- urnar tvær, Hjartslátt á þorra, 1982, og Viðkvæm er jörð, 1987. Í mörg- um kvæðanna sést glöggt hæfileiki Jóns til að leggja út af atviki, litlu eða stóru, og tengja það daglegu lífi. Báðar bækurnar sýna hugmynda- heim skálds fremur en hagyrðings, og nafnið skáldbóndi ber Jón með miklum sóma. Áberandi tónn í kvæðum Jóns er tryggð hans við æskustöðvarnar, Mýri í Bárðardal, og Fremstafell, þar sem hann skilaði farsælu lífs- starfi. Hvort sem hugur hans sem ung- lings og ungs manns hefur staðið til sveitabúskapar eða ekki var hann bóndi af lífi og sál allt til hinstu stundar. Jón var hugsjónamaður og hreifst snemma af samvinnustefnunni og var tryggur fylgismaður hennar æ síðan og félagsmaður í þremur kaupfélögum. Það varð honum þungbær raun að fylgjast með rekstrarerfiðleikum þeirra en þó sá hann alltaf eitthvert ljós í myrkrinu og trúði því að úr myndi rætast. Allt fram undir það síðasta fylgd- ist hann vel með landsmálum, las blöð og hafði skoðanir á öllum hlut- um. Hann fylgdist ákaflega vel með störfum Alþingis og var fastagestur á þingpöllum þegar hann kom til Reykjavíkur á þingtíma. Hann var framsóknarmaður, ekki einungis í pólitískum skilningi heldur einnig almennum. Ekki var hann alltaf sáttur við stefnu flokksins en fann þó pólitískum skoðunum sínum ekki stað utan hans. Hins vegar átti hann ágæt samskipti við stjórnmálamenn úr öðrum flokkum og virti þá vel. Jón gegndi ýmsum trúnaðarstörf- um fyrir sveit sína. Hann var um tíma í hreppsnefnd og átti þátt í ýmsum þeim málum sem til fram- fara horfðu. Þar held ég honum hafi verið kærast að hafa lagt sitt af mörkum til þess að bygging skóla á Stóru- tjörnum yrði að veruleika. Á það minntist hann oft þegar við heim- sóttum þau hjón í Hvamm og talið barst að liðnum tímum. Kirkjunni vann Jón um árabil af áhuga og trúmennsku. Hann var meðhjálpari í Ljósavatnskirkju í áratugi og söng í kirkjukórnum, og þau reyndar bæði hjónin. Bygging Þorgeirskirkju á Ljósa- vatni var honum sérstakt hjartans mál. Eftir að byrjað var að byggja kirkjuna og hann var enn í sæmileg- um færum að bera sig um ókum við þeim hjónum að byggingunni og hann gekk um grunninn, fullur áhuga og glaður í bragði. Það var honum síðan ómetanlegt að geta verið við vígslu kirkjunnar í fyrra- sumar. Þótt Jón í Fremstafelli væri kirkj- unnar maður og trúaður var í hon- um tómasareðli gagnvart kenning- unni. Hann var ákaflega gagnrýninn á ræður presta og lét skoðanir sínar á þeim í ljós, ekki síst á héraðsfund- um. Þrátt fyrir það hygg ég að prestar í Ljósavatnssókn hafi allir metið Jón bónda mikils fyrir hrein- skiptnina og séð trú hans og virð- ingu fyrir sköpunarverkinu sem að baki bjó gagnrýninni. Jón var að jafnaði ákaflega opinn fyrir nýjungum. Hann setti í hlöð- una hjá sér súgþurrkun stuttu eftir að sú tækni varð tiltæk. Með tilliti til þess varð ég ofurlítið undrandi á tortryggni hans þegar bændur fóru að rúlla megnið af heyfeng sínum eða jafnvel allan. Reyndar var það eftir að Jón hætti búskap. Hefði rúllutæknin verið tiltæk á síðari hluta 7. áratug- arins býst ég við að hann hefði tekið henni fagnandi þau köldu sumur þegar meira að segja var erfitt að ná heyi nógu þurru í súgþurrkun. Á sjöunda áratugnum kom Bjarni Pétursson frá Ameríku og settist að búi á Fosshóli. Hann kveikti áhuga bænda fyrir kornrækt og stofnað var kornræktarfélag í sveitinni. Jón í Fremstafelli varð einn af forystu- mönnum þess. Því miður setti kóln- andi veðurfar strik í reikninginn svo að kornræktin varð lítt arðbær og af hlaust nokkurt fjárhagslegt tjón. Ekki missti Jón þó áhugann fyrir kornræktinni og hann varð afar glaður þegar við komum í heimsókn nú síðla sumars og gátum sagt hon- um frá bylgjandi kornökrum í Kinn. Árið 1978 birtist í Samvinnunni grein eftir Braga Árnason prófessor um framleiðslu vetnis til eldsneytis. Greinin fangaði svo mjög hug Jóns bónda að hann setti sig í samband við höfundinn til að fá nánari upp- lýsingar. Allar götur síðan fylgdist hann náið með framvindu þeirra mála og ekki er langt síðan vetn- isframleiðslu bar á góma þegar við heimsóttum þau Jón og Friðriku. Tengslin við moldina voru ríkur þáttur í skapgerð Jóns í Fremsta- felli. Það er því miklu fremur fagnað- ar- en sorgarefni að hann nú, saddur lífdaga, sameinast henni. Engu að síður er aðstandendum sem eftir lifa sár söknuður í huga. Minningin um kæran tengdaföður og vin lifir. Kistulagningin að kvöldi hins 19. okt. sl., að nokkrum nánustu aðstandendum viðstöddum, var einkar hátíðleg. Friður var yfir svip hins dána, friður þess sem fengið hefur langþráð svör við hinstu rök- um tilverunnar og gengur á Guðs vegum. Ég gef að lokum Jóni sjálfum orð- ið með ljóðinu Haust, sem er hið síð- asta í fyrri ljóðabók hans, Hjart- sláttur á þorra. Haustfölva slær á hlíðarvangann rjóða, hjartsláttur dvín, og liðin sumarganga. Voðin er unnin, vafin upp í stranga. Vefarinn hefur lokið sinni skyldu. Næst mun sér annar nema þarna spildu. Megi almáttugur Guð blessa minningu Jóns í Fremstafelli, eft- irlifandi eiginkonu og aðra aðstand- endur. Þórir Jónsson. Elskulegur afi okkar hefur kvatt þetta jarðlíf og haldið á vit nýrra ævintýra. Þar mun hann verða hrókur alls fagnaðar. Laus við heyrnartækin sem of lítið gögnuðust honum hin seinustu ár, af því að samskipti við annað fólk var afa mesta skemmtun. Að fá gesti og fara á bæi – það var gaman. Ræða um málefni líðandi stundar og áhugasviðið var fjölbreytt; vetnis- framleiðsla, búvörusamningar, byggðamál, borgarmál, stjórnmál, virkjanaframkvæmdir, samgöngur og þjóðmálin eins og þau voru á hverjum tíma. Ræður, yfirleitt blað- laust, við ólík tækifæri voru eftir- minnilegar og þar naut kímnigáfa og frásagnarhæfileikinn sín. Afi sagði okkur frá lífinu á Mýri þar sem hann ólst upp í stórum systkinahópi, af ýmsum svaðilferðum þeirra bræðra og af kynnum sínum af mönnum og málleysingjum eins og til dæmis Stóra-Brún. Lestur og skriftir voru ein hans uppáhaldsiðja þegar dagur var að kvöldi kominn og erill dagsins að baki. Dagbókarskrif, ljóðagerð og minningar festar á blað. Útvarpið innan handar. Ekki mátti missa af fréttum eða veðrinu. Þá var notalegt í gömludagstofu. Sjónvarpið heillaði lítið – of mikið ofbeldi sem hann afi tók alltaf nærri sér, skildi ekki vonsku heimsins. Fremstafell mun alltaf eiga sérstakan stað í hjörtum okkar því þar byggði hann afi upp sitt myndarbú með henni Friðriku sinni, elsku ömmu okkar sem nú hefur misst sinn félaga og förunaut. Nú hefur haustað að og við þökkum fyrir alla umhyggjuna og samfylgd- ina sem var okkur svo kær. Minn- ingarnar um ljúfan afa og langafa munu lifa með okkur um ókomin ár. Haustfölva slær á hlíðarvangann rjóða, Hjartsláttur dvín, og liðin sumarganga. Voðin er unnin, vafin upp í stranga. Vefarinn hefur lokið sinni skyldu. Næst mun sér annar nema þarna spildu. (J. J.) Ásdísarbörn. Hann er lagður upp í síðasta ferðalagið sitt, hann Jón gamli. Í það minnsta það síðasta sem hann leggur upp í frá Þingeyjarsýslum. Síðasta ferðalag á undan þessu var til Kanada, í bændaferð. Þar átti Jón bókað og fullgreitt pláss. Hann var reyndar búinn að borga miðan sinn hann Jón í þetta síðasta ferðalag, en hann vissi ekki nákvæmlega hvenær yrði lagt í ’ann. Kallið kom svo fyrir rúmri viku. Og ef ég þekki hann Jón rétt var hann alltaf tilbúinn í ferða- lag. Hann var haldinn óstjórnlegri ferðlöngun og hafði til að bera ein- hverja mestu forvitni sem ég hef séð prýða nokkurn gamlan mann. Í fari Jóns var forvitni kostur. Hann bók- staflega ryksugaði hvern einasta fréttatíma og hann kunni skil á sam- tíma pólitík, bæði undiröldu og öldu- földum. Ég minnist þess þegar leiðir okk- ar Jóns lágu fyrst saman. Ég ríflega tvítugur búinn að ná mér í blómarós að norðan og nú átti að hitta afa. Leiðin lá í Fremstafell í Kinn og þar mætti mér góðlegt og glaðlegt and- lit. Anna – barnabarnið fékk léttan koss á kinnina og svo var henni ýtt til hliðar. „Er þetta pilturinn,“ sagði hann upphátt. Þetta var ekki spurn- ing. Hann var að tala við sjálfan sig. Á þessum tíma var ég nýráðinn fréttastjóri á Tímanum – blaði fram- sóknarmanna. Og í huga Jóns var ég eins og jólapakki. Ég var leiddur inn í litla eldhúsið og svo var farið að tala um pólitík. Jón var í essinu sínu. Ég skyldi það ekki fyrr en löngu seinna hversu mikill framsóknar- maður Jón var. Og þessa fyrstu daga mína fyrir norðan var rætt um pólitík hvenær sem færi gafst. Ég hafði gaman af þessum umræðum, en við vorum ekki alltaf sammála. Jón hafði þó eitt tak á mér sem aldr- ei brást. Hann hafði undarlega þörf fyrir að vera mjög nálægt þeim sem hann talaði við. Það brást ekki að þegar ég var á annarri skoðun en sá gamli, þá lagði hann gjarnan hönd á lær mér skammt ofan við hnéð. Mig kitlar óskaplega þegar lærið á mér er kreist. Í mestu makindum færði hann höndina upp eftir lærinu á mér og kreisti af og til þéttingsfast. Innra með mér æmti ég af kitli en á ytra borði brosti ég vandræðalega og tapaði fljótlega rökræðunni sök- um einbeitingarleysis. Jón kom oft suður og þá til að hitta vini og vandamenn. En Jón fór líka alltaf á Alþingi að hitta þá menn sem stjórnuðu landinu og í bænda- höllina til að kanna stöðuna þar á bæ. Oftast keyrði Gulli hennar Hildu gamla manninn en þó kom fyrir að ég fór með Jóni. Hann hafði þann sið á þessum fundum að hann greip menn þéttu taki með hægri hendi í öxlina og dró þá að sér. Hann var handsterkur. Þannig gat hann ráðið meiru um fundartímann. Þeg- ar hann hitti Kristin Finnbogason, heitinn, sem var á þessum árum framkvæmdastjóri Tímans, fór í verra. Kristinn var með mikla ístru og það var erfitt fyrir Jón að ná „fundartakinu á Kristni. Ístran á Kidda var stöðugt fyrir, en sá gamli gafst ekki upp. Þegar ég hallaði hurðinni inn til þeirra var Jón búinn að draga sig hálfan upp á ístruna á Kidda og fór vel á með þeim. Kiddi var reyndar ofurlítið skrýtinn á svipinn þegar ég hallaði hurðinni. Svo að Jón njóti nú sannmælis var þetta hans leið til að heyra betur til manna, því hann var orðinn mjög heyrnardaufur, eftir því sem árin færðust yfir hann. Jón var skáld og það náttúru- skáld. Hann ritaði margar greinar og orti ljóð. Hann átti það til að fara út um víðan völl í skrifum sínum og sérstaklega man ég eftir nokkrum minningargreinum sem ég sló inn í tölvu eða á ritvél fyrir Jón gamla. Í öllum þeim skrifum sem ég kom ná- lægt hjá þeim gamla kom hann inn á karakúlveikina. Ef ég man rétt var það veiki í sauðfé sem þótti mikill vágestur á síðustu öld og var Jóni seint úr minni. Þó svo að Jón hafi verið mikill framsóknarmaður þá talaði hann vel um alla sína þingmenn, undir það síðasta ræddi hann mikið um Stein- grím J. Sigfússon og þótti hann góð- ur drengur. Við rifumst nokkuð um umhverfismál, reyndar síðustu skiptin aðeins í síma. Jóni var í mun varðveisla landsins og umgengni um náttúruauðlindir. Hann var enda sveitadrengur alla ævi og stoltur slíkur. Fróðleiksfýsn og ferðahugur voru hans kyndlar. Ef það eru ferða- skrifstofur í framhaldinu, veit ég að Jón er þegar farinn að skoða bækl- inga. Nú er heyrnin komin í lag og hann þarf ekki að haltra lengur. Eftir lifir hún Friðrika eiginkona Jóns og lífsförunautur. Henni votta ég samúð mína, sem og öðrum að- standendum. Jóni þakka ég fyrir að hafa verið til. Það er bónus í þessu lífi að þekkja svona menn. Megirðu ferðast um alla eilífð. Eggert Skúlason. Hann var fæddur og upp alinn í faðmi öræfanna, á Mýri, sem lengi hefur verið fremsta byggt ból í Bárðardal vestan Skjálfandafljóts. Dýrð óbyggðanna, með Aldeyjar- foss og Kiðagil skammt undan, glæddi sál hins unga sveins og blés honum í brjóst skáldlegri andagift sem entist honum til ellidaga. Í fyrri daga náði byggðin lengra suður, og fram undir lok 19. aldar var búið á þremur bæjum framan við Mýri: Litlutungu, Íshóli og Mjóadal. En á æskudögum Jóns Jónssonar voru þær jarðir komnar í eyði og orðnar hluti hins mikla af- réttarlands sveitarinnar sem rennur saman við heimaland Mýrar. Þá var ekki enn hafin hin mikla umferð nútímafólks eftir Sprengi- sandsleið sem liggur um túnið á Mýri, og bærinn var því nokkuð af- skekktur hversdagslega. En tvisvar á ári var Mýri í þjóðbraut, þegar Bárðdælingar og jafnvel Kinnungar ráku fé sitt til afréttar á vori og smöluðu því af fjalli á hausti. Landið var kjarnmikið og gott til beitar, en hin mikla víðátta og fjöldi aðkomu- fjár heimtaði liðsafla vaskra búenda. Foreldrar Jóns, Jón Karlsson og Aðalbjörg Jónsdóttir, settust að á Mýri árið 1903 þegar faðir Aðal- bjargar fluttist til Kanada, ekkju- maður með stóran barnahóp. Aðal- björg var elst og þegar manni gefin, það bjargaði henni frá brottflutningi JÓN JÓNSSON

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.