Morgunblaðið - 20.04.2002, Síða 6

Morgunblaðið - 20.04.2002, Síða 6
FRÉTTIR 6 LAUGARDAGUR 20. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ VERKFRÆÐINGAFÉLAG Íslands fagnaði í gær 90 ára afmæli félags- ins og notaði tækifærið til að veita viðurkenningar fyrir athyglisverð- ustu verkfræðiafrek síðustu aldar, eitt fyrir hvern áratug. Þá færði félagið verkfræðideild Háskóla Íslands að gjöf fartölvu og skjávarpa og áskrift að handbókinni ENGnetBASE á tölvutæku formi. Sjö manna nefnd valdi þrjú at- hyglisverðustu verkfræðiafrek hvers áratugar, alls 30 verk. Eitt var síðan valið úr sem athyglisverð- asta verkfræðiafrek þess áratugar. 1901–1910 – símalögn frá Seyðisfirði til Reykjavíkur Í ágúst 1906 var sæsímastrengur tengdur í land í Seyðisfirði. Sama ár var lögð símalína milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar, 614 km leið. Olav Forberg var falin skipulagning og stjórnun versksins en hann varð síð- ar fyrsti Landssímastjórinn og einn af stofnendum Verkfræðingafélags Íslands. Sumarið 1905 var unnið að undirbúningi verksins með merk- ingu línustæðis og veturinn eftir voru 14.000 staurar fluttir á hestum og dregnir út á línustæðið. Einnig tilnefnd: Vífilsstaðaspítali og Vatnsveita úr Gvendarbrunnum. 1911–1920 – Reykjavíkurhöfn Bæjarstjórn Reykjavíkur bauð verkið út árið 1912 og hlaut danska verkfræðifyrirtækið N.C. Monberg verkið. Vélum og búnaði sem not- aður var við hafnargerðina var skipað upp við gufuskipabryggjuna í Viðey og flutt þaðan í land á tveim- ur prömmum. Meðal þess var eim- reið, járnbrautarvagnar og spor, kranar og timbur. Grjót í hafn- argarðinn var sótt í Öskjuhlíð en þangað var lagt 12 km langt járn- brautarspor. Verkinu var stjórnað af ungum dönskum verkfræðingi, N.P. Kirk. Eftirlit var í höndum Knud Zimsen borgarstjóra og verk- fræðings. Einnig tilnefnd: Holræsi í Reykja- vík og Loftskeytastöðin í Reykjavík. 1921–1930 – brú á Hvítá í Borgarfirði Brúin á Hvítá hjá Ferjukoti í Borgarfirði var byggð árið 1928. Árni Pálsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, hannaði brúna og vinnuflokkar Vegagerðarinnar byggðu hana. Þetta er bogabrú í tveimur höfum, hvort um sig 51 metri en heildarlengd brúarinnar er 106 metrar. Verkið hófst í apríl og var brúin vígð sex og hálfum mán- uði síðar. Einnig tilnefnd: Ríkisútvarpið og Síldarverksmiðja ríkisins á Siglu- firði. 1931–1940 – talsamband við útlönd Hinn 1. ágúst 1935 var talsam- band við útlönd opnað á einnar rás- ar stuttbylgjusambandi við London og Kaupmannahöfn. Tvær radíó- stöðvar voru byggðar, sendistöð á Vatnsenda og móttökustöð í Gufu- nesi. Umsjón með verkinu höfðu verkfræðingarnir Guðmundur Hlíð- dal og Gunnlaugur Briem. Einnig tilnefnd: Sundhöllin í Reykjavík og Ljósafossvirkjun. 1941–1950 – Hitaveita Reykjavíkur Árið 1933 samdi bæjarstjórn Reykjavíkur um kaup á hitarétt- indum að Reykjum í Mosfellssveit og var byrjað að bora það ár. Á ár- unum 1939-43 var lögð hitaveita í mestan hluta byggðar í höf- uðstaðnum ásamt aðalæðum frá Reykjum. Hinn 17. júní 1943 var hitaveituvatni hleypt á fyrsta húsið, Listasafn Einars Jónssonar á Skóla- vörðuholti. Efnahagsleg áhrif hita- veitunnar voru gríðarleg auk þess sem hún var fyrirmynd annarra hitaveitna. Einnig tilnefnd: Rafvæðing dreif- býlis og verkfræðikennsla við Há- skóla Íslands. 1951–1960 – Áburðarverksmiðjan Lög um áburðarverksmiðju gengu í gildi árið 1949 en grundvöll- ur fyrir framkvæmdum fékkst skömmu síðar með Marshall- aðstoðinni. Bandarískir verkfræð- ingar sáu um skipulagningu verk- smiðjunnar og hönnun fram- leiðsluferla en Almenna byggingarfélagið hf. sá um verk- fræðilega hönnun allra mannvirkja og annaðist byggingaframkvæmdir. Verksmiðjan tók til starfa árið 1954. Einnig tilnefnd: Miklabraut í Reykjavík og Sementsverksmiðjan. 1961–1970 – Búrfellsvirkjun Með Búrfellsvirkjun var jök- ulvatn í fyrsta skipti virkjað. Til að tryggja rekstur hennar voru gerð sérstök ísfleytimannvirki til að flytja ís sem myndaðist í ánni við ákveðin veðurskilyrði fram hjá inn- taki virkjunarinnar. Þessi mann- virki áttu sér enga fyrirmynd. Bandaríska verkfræðifyrirtækið Harza Engineering sá um hönnun og útboð en Fosskraft, sem var sam- steypa Almenna byggingarfélags- ins, Phil & Sön og Skanska, var að- alverktaki. Einnig tilnefnd: Reykjanesbraut og Laugardalshöll. 1971–1980 – Svartsengi Orkuverið í Svartsengi var fyrsta orkuver sinnar tegundar í heim- inum. Það notar heitan jarðsjó til upphitunar á ferskvatni, sem síðan er notað til upphitunar á húsum, átti sér ekki hliðstæðu og finna þurfti lausn á flóknum tæknilegum vanda- málum. Orkuverið var byggt með hugviti, rannsóknum, þróun og hönnun íslenskra tæknimanna. Einnig tilnefnd: Skyggnir ásamt millilandasímstöð og brýr á Skeið- arársandi. 1981–1990 – Flugstöð Leifs Eiríkssonar Embætti Húsameistara ríkisins sá um mótun hússins í samvinnu við bandarískt ráðgjafafyrirtæki varð- andi fyrirkomulag og flæði í bygg- ingunni. Byggingin er formsterk og þykir fara einkar vel í auðninni þar sem hún er staðsett, glæsilegt mannvirki og dæmi um verkmenn- ingu þjóðarinnar. Einnig tilnefnd: Nesjavallavirkj- un og Sundahöfn. 1991–2000 – Hvalfjarðargöng Spölur á og rekur Hvalfjarð- argöng. Fyrirtækinu falið að fjár- magna, hanna, grafa og reka Hval- fjarðargöng. Framkvæmdir hófust 1996 og þau voru opnuð fyrir um- ferð í júlí 1998. Verktaki var Foss- virki sf., sameignarfélag Skanska AB, E. Phil & Sö AS og Ístaks, sem stjórnaði framkvæmdum. Gerð ganganna er fyrsta einkafram- kvæmd í samgöngum á Íslandi og ein hin fyrsta á Norðurlöndunum. Einnig tilnefnd: Perlan og staf- ræn fjarskiptakerfi. Verkfræðingafélag Íslands minnist þess sem vel hefur verið gert á 90 ára afmæli sínu Útnefndu helstu verkfræðiafrek síðustu aldar Morgunblaðið/BjarniBrúin yfir Hvítá var útnefnd verkfræðiafrek þriðja áratugarins. Árni Pálsson verkfræðingur hannaði brúna. Morgunblaðið/Kristinn Hákon Ólafsson, formaður Verkfræðingafélags Íslands, afhendir Sig- urði Brynjólfssyni, deildarforseta verkfræðideildar Háskóla Íslands, fartölvu, skjávarpa og rafræna áskrift í tilefni 90 ára afmælis félagsins. DONALD Rumsfeld, varnarmála- ráðherra Bandaríkjanna, skýrði frá því í byrjun febrúarmánaðar að hann og ráðuneyti hans hefðu leitast við að ná fram samþykki fyrir því að dregið yrði úr herstyrk Bandaríkjanna víða um heim. Ráðherrann nefndi Ísland sérstaklega í þessu viðfangi. Rumsfeld lét þessi orð falla er hann kom fyrir hermálanefnd öld- ungadeildar Bandaríkjaþings hinn 5. febrúar síðastliðinn. Í Bandaríkjun- um geta þingnefndir kallað ráðherra og aðra háttsetta menn fyrir sig og spurt þá ítarlegra spurninga um þá málaflokka, sem undir þá heyra. Á þingfundinum þennan dag var víða komið við. Rætt var um útgjöld til varnarmála, endurskipulagningu herafla Bandaríkjanna, stríðið gegn hryðjuverkum og heimavarnir í ljósi árása hryðjuverkamanna á New York og Washington 11. september. Samkvæmt útskrift af þingfundin- um getur James M. Inhofe, öldunga- deildarþingmaður frá Oklahoma, þess að álagið á heraflanum sé gíf- urlegt um þessar mundir sökum skuldbindinga Bandaríkjamanna er- lendis og þeirra viðbragða, sem ákveðin hafi verið eftir 11. septem- ber. Þanþol heraflans sé reynt til fullnustu. Telur hann þetta kalla á endurskipulagningu herafla Banda- ríkjanna og aðra forgangsröðun. Donald Rumsfeld svarar á þann veg að hann sé þingmanninum sam- mála og ljóst sé að þúsundir þjóð- varðliða og hermanna í varaliðinu, sem að öllu jöfnu hefðu ekki verið kallaðir út, séu nú við störf vegna árásarinnar 11. september. Ýmislegt hafi á hinn bóginn verið gert til að bregðast við þessum vanda. Jafn- framt séu yfirvöld varnarmála vongóð um að takast megi að draga úr viðbúnaði á ákveðnum sviðum á næstunni. Síðan segir Rumsfeld: „Ég vil einnig að fram komi að ég hef verið að reyna – og ég verð að segja, að það er ekki auðvelt – en ég hef reynt að fá hluta þess herstyrks, sem Bandaríkjamenn halda úti um heim all- an, á stöðum eins og Ís- landi og á Sínaí-skaga – og við höfum fækkað ásamt bandamönnum okkar í herliðinu í Bosníu á ábyrgan og yfirvegaðan hátt – til þess að við getum fengið þá til baka til að styðja við hluta þessara aðgerða...“ „Sumir þeirra gegna hlutverki“ Inhofe þakkar varnarmálaráðherr- anum og kveðst þess fullviss að hann reyni að „kalla til baka“ herstyrk „frá öðrum svæðum“ og kveður þá ráð- stöfun nauðsynlega. Viðbúnaður Bandaríkjamanna á Íslandi kemur einnig við sögu í viðtali sem bandaríska dagblaðið The San Francisco Chronicle átti við Paul Wolfowitz, aðstoðarvarnarmálaráð- herra Bandaríkjanna, 23. febrúar sl. Þar er Wolfowitz spurður hvers vegna Bandaríkjamenn þurfi að halda úti þúsundum hermanna í Þýskalandi. Svar hans hljóðar svo: „Sumir þeirra gegna hlutverki, hluti þeirra er, eins og þú bendir réttilega á, á þessum stöðum einkum af póli- tískum ástæðum. Ég skal nefna örlít- ið dæmi; ég veit ekki undir hvaða skil- greiningu það fellur en árum saman höfum við reynt að fækka orrustuþot- um á Íslandi þótt fjöldi flugvéla þar sé lítill þegar á heildina er litið. En þetta er byrði fyrir flugherinn og jafnan þegar haldið er úti flugsveit erlendis verður að hafa tvær eða þrjár þar [hér á aðstoðarráðherrann sýnilega við tvær eða þrjár flugvélar til að tryggja að ein sé ávallt til reiðu], það er ógerlegt að halda sama fólkinu þar ár eftir ár þannig að koma þarf á skiptikerfi til að halda þeim úti. En þegar við tölum við Íslendingana segja þeir; þið þurfið á loftvörnum að halda í Bandaríkjunum og við þurfum loftvarnir á Íslandi. Við erum því enn í miðjum viðræðunum hvað þetta varðar.“ Viðmælandi Wolfowitz spyr gagn- vart hverju verið sé að verja „þá“ og spyr hvor Grænlendingar séu ógnin. Wolfowitz svarar: „ Nei, ég býst við að þeir myndu segja annarri farþega- þotu. Þú veist, við viljum njóta vernd- ar, þeir vilja vernd og allir vilja ör- yggi nú. Ég er vongóður um að okkur takist að sannfæra þá um að aðrar leiðir séu færar til að koma fyrir vörnum fari svo að raunveruleg ógn- un skapist og einhver ætli að ræna farþegaflugvél og stefna henni til Ís- lands. Það er hvergi auðvelt að koma á breytingum í heiminum.“ Síðar í viðtalinu segir Wolfowitz þegar rætt er um hvort öryggi Suður- Kóreu sé á einhvern hátt ógnað: „Mér virðist það vera sama sagan alls staðar þar sem við erum með liðsafla. Ég vil svo sannarlega ekki níðast á („pick on“ á enskri tungu) Suður- Kóreu. Ég vil ekki einu sinni níðast á Íslendingunum. Alls staðar þar sem við erum með viðbúnað koma fram ákveðnar ástæður fyrir því að menn þar vilja ekki breytingar, og alls stað- ar þar sem við höldum úti herliði verðum við að spyrja okkur hvort ógerlegt sé að gera hlutina með skil- virkari hætti.“ Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, svarar spurningum þingmanna Donald Rumsfeld Paul Wolfowitz Við höfum reynt að draga úr við- búnaði á Íslandi ’ Ég er vongóðurum að okkur takist að sannfæra þá um að aðrar leiðir séu færar til að koma fyrir vörnum ‘

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.