Morgunblaðið - 30.06.2002, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 SUNNUDAGUR 30. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
VIKAN 16/6 – 22/6
ERLENT
INNLENT
FLUGLEIÐIR hafa
sagt upp 25 flugmönnum
hjá fyrirtækinu auk þess
sem 9 manns sem ráðnir
voru tímabundið fá ekki
framlengdan ráðning-
arsamning.
BRYNJÓLFUR Bjarna-
son forstjóri Granda var
ráðinn nýr forstjóri
Landssímans í vikunni.
Var það ákveðið á stjórn-
arfundi fyrirtækisins á
mánudagskvöld.
ALLSTÓR hópur vít-
isengla stefndi til lands-
ins í sumar samkvæmt
heimildum Morgunblaðs-
ins en mun nú hafa hætt
við förina. Lögreglan hef-
ur sérstaka viðbragðs-
áætlun vegna komu
slíkra hópa til landsins
og getur brugðist við
með skömmum fyrirvara.
Vítisenglarnir hugðuðst
koma með Norrænu.
ÍSLAND er í 11. sæti á
lista yfir þau ríki í heim-
inum þar sem mest frjáls-
ræði ríkir í efnahags-
málum. Það hækkaði um
sjö sæti á listanum frá
1995-2000 og fékk 7,7 í
einkunn af 10.
NÝR sjúkdómur, kúf-
fisksótt, var greindur við
umfangsmikla rannsókn á
starfsmönnum kúffisk-
vinnslufyrirtækis á Norð-
urlandi.
DRENGUR fæddist í
aftursæti bíls í Súg-
andafirði rétt fyrir
miðnætti á mánudag.
Faðirinn tók á móti
barninu en foreldrarnir
sem búa á Suðureyri voru
á leið á sjúkrahúsið á Ísa-
firði.
Búnaðarbankinn gerir
yfirtökutilboð í SPRON
FIMM stofnfjáreigendur í Sparisjóði
Reykjavíkur og nágrennis hafa gert til-
boð í allt stofnfé bankans en Búnaðar-
bankinn sér um fjármögnun. Ef tilboð-
ið gengur eftir mun hann eignast
meirihluta í SPRON og sameina spari-
sjóðinn bankanum.
Stjórn SPRON telur tilboðið ekki
standast lög, vill bíða úrskurðar frá
Fjármálaeftirlitinu og afboðaði því fyr-
irhugaðan fund með stofnfjárfestum á
föstudag. Samkvæmt tilboðinu fá stofn-
fjáreigendur fjórfalt hærra verð fyrir
bréf sín miðað við það sem tillaga stjórn-
ar SPRON gerði ráð fyrir. Stofnfjáreig-
endurnir fimm eru Gunnar A. Jóhanns-
son, Ingimar Jóhannsson, Pétur H.
Blöndal, Sveinn Valfells og Gunnlaugur
M. Sigmundsson en þeir telja afboðun
fundarins á föstudag vera ólöglega.
Landspítali – háskóla-
sjúkrahús 3,3%
umfram fjárheimildir
REKSTUR Landspítala – háskóla-
sjúkrahúss (LSH) fór 319 milljónir
króna eða 3,3% umfram fjárheimildir
fyrstu fimm mánuði ársins samkvæmt
rekstraruppgjöri sjúkrahússins. Stjórn
spítalans sendi í lok vikunnar tillögur
um sparnaðaraðgerðir til ráðherra sem
hún leggur til að gripið verði til. Meðal
aðgerða eru að starfsmannakostnaður
verði lækkaður, dregið verði úr yfir-
vinnu, hert verði á ráðningareftirliti og
verklag verði endurskoðað en tillög-
urnar fela ekki uppsagnir starfsfólks.
Samtök verslunarinnar – FÍS hafa sent
forstjóra LSH, Magnúsi Péturssyni,
bréf þar sem fram kemur að spítalinn
og Sjúkrahúsaapótekið ehf. skuldi
birgjum innan Samtaka verslunarinnar
a.m.k. 520 milljónir króna án dráttar-
vaxta. Magnús segir vandann tilkom-
inn vegna ónógra fjárveitinga, raunút-
gjöld spítalans hafi dregist saman.
Bush hvetur til
að Arafat fari frá
GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti
hvatti Palestínumenn á mánudaginn í
ræðu um málefni Mið-Austurlanda,
sem beðið hafði verið eftir með nokk-
urri eftirvæntingu, til að velja sér nýja
leiðtoga. Bush nefndi Yasser Arafat,
forseta heimastjórnar Palestínu-
manna, aldrei á nafn í ræðu sinni en
ljóst var þó hvað hann átti við. „Friður
þarfnast þess að ný og allt önnur for-
ystusveit komi til sögunnar hjá Palest-
ínumönnum – aðeins þannig getur
sjálfstætt ríki orðið að veruleika,“
sagði Bush. „Ég hvet því palestínsku
þjóðina til að velja sér nýja leiðtoga,
leiðtoga sem ekki hafa spillt orðspori
sínu með tengslum við hryðjuverk.“
Bush gerði lýðum ljóst að stuðning-
ur Bandaríkjanna við stofnun Palest-
ínuríkis og fjárhagsaðstoð væri háður
umfangsmiklum umbótum á heima-
stjórninni, sem m.a. fæli í sér að skipt
yrði um forystusveit.
Bókhaldssvik hjá
WorldCom
MIKIÐ verðfall varð á fjármálamörk-
uðum á miðvikudaginn eftir að upplýst
var um mikil bókhaldssvik hjá banda-
ríska fjarskiptarisanum WorldCom og
hugsanlegt gjaldþrot fyrirtækisins.
George W. Bush, forseti Bandaríkj-
anna, sagði um tíðindin, að þau væru
„yfirgengilegt“ hneyksli og hét ná-
kvæmri rannsókn á málinu. Óttast er,
að þetta geti orðið stærra í sniðum en
Enron-gjaldþrotið og ásamt öðru tafið
fyrir auknum hagvexti í Bandaríkjun-
um. Mikið verðfall varð á helstu fjár-
málamörkuðum um allan heim þegar
það fréttist, að WorldCom, sem starf-
ar í 65 löndum og er með 85.000 starfs-
menn, hefði vantalið útgjöldin á þessu
ári og í fyrra um 334 milljarða ís-
lenskra króna. Um leið var ljóst, að
uppgefinn hagnaður á þessum tíma
var aðeins blekking.
YASSER Arafat,
leiðtogi Palestínumanna,
mun bjóða sig fram í for-
setakosningum sem
Palestínumenn hafa boð-
að í janúar, að því er ná-
inn ráðgjafi Arafats sagði
á miðvikudaginn, þótt
George W. Bush Banda-
ríkjaforseti hafi nýlega
hvatt til þess að Palest-
ínumenn kysu sér nýjan
leiðtoga.
ÓTTAST er að a.m.k.
tvö hundruð manns hafi
farist og margir til við-
bótar slasast þegar far-
þegalest lenti í árekstri
við flutningalest í
Tansaníu á mánudaginn.
Slysið átti sér stað 400
km vestur af höfuðborg
Tansaníu, Dar es Salaam,
í Dodoma-héraði. Lýsti
ríkisútvarpið í Tansaníu
slysinu sem því versta í
sögu lestarsamgangna í
landinu. Um eitt þúsund
farþegar voru í lestinni
er slysið átti sér stað.
LEIÐTOGAR átta
helstu iðnríkja heims
samþykktu á fimmtudag
á öðrum og síðari degi
fundar síns í Kanada að-
gerðaáætlun um hjálp við
Afríkuríki gegn
fyrirheitum þeirra um
óspillta stjórnarhætti og
heilbrigða efnahags-
stjórn. Einnig var
ákveðið að verja miklu fé
til að aðstoða Rússa við
að eyða birgðum af
kjarna- og efnavopnum.
Að öðru leyti settu
ástandið í Miðaust-
urlöndum og efnahags-
málin almennt mikinn
svip á fundinn. Akralind 1, 201 Kópavogi, sími 564 0910.
Útiarinn - Grill
Verð 49.900 kr.
Kynningarverð
Verð 69.900 kr.
Kynningarverð
TVEIR mjólkurframleiðendur á
samlagssvæði Norðurmjólkur
fengu á dögunum viðurkenningu
fyrir að hafa framleitt úrvalsmjólk
í 10 ár samfleytt. Þetta voru Þór-
dís Karlsdóttir og Leifur Guð-
mundsson í Klauf í Eyjafjarð-
arsveit og Hulda Kristjánsdóttir
og Sveinbjörn Sigurðsson á Bú-
völlum í Aðaldal.
Þau fyrrnefndu hafa 160 þúsund
lítra framleiðslurétt en á Búvöll-
um er rétturinn 140 þúsund lítrar.
Á báðum bæjum stunda bændurnir
einnig kálfauppeldi.
Fyrir tveimur árum var fjósinu í
Klauf breytt í svonefnt lausa-
göngufjós og sett upp mjaltagryfja
og eru þau Þórdís og Leifur ánægð
með breytinguna sem þá varð.
Þau segja kröfur um framleiðslu
úrvalsmjólkur alltaf að aukast og
það megi lítið út af að bregða. Sýni
eru tekin reglulega og ef eitthvað
reynist í ólagi lætur mjólkureftir-
litsmaðurinn vita.
„Kannski er þetta líka heppni að
einhverju leyti,“ sagði Leifur
spurður um galdurinn á bak við
það að framleiða úrvalsmjólk 10 ár
í röð. Hann sagði mikilvægt að
kýrnar væru heilbrigðar og
hraustar og betra væri að farga
þeim sem reyndust of frumuháar.
„Það er lykilatriði að hafa hrausta
gripi,“ sagði hann.
Þá nefndi hann að miklu máli
skipti að nota sem minnst af
fúkkalyfjum og eins yrði að gæta
þess að passa vel upp á mjaltavél-
arnar og gæta fyllsta hreinlætis.
Mörgum finnst þeir
ekki geta farið frá
Breytingar voru einnig gerðar á
fjósinu á Búvöllum fyrir tveimur
árum, en Sveinbjörn sagði að þau
hefðu ákveðið að fara ekki út í
lausagöngufjós. Það hefði verið
spurning um að fara ekki út í of
miklar skuldir. „Það hefur ríkt
bjartsýni í greininni, enda hafa
neytendur tekið afurðunum vel,“
sagði Sveinbjörn, en þvertók ekki
fyrir að eitthvað hefði dregið úr
bjartsýninni nú.
„Þessi einyrkjastarfsemi sem
kúabúskapur er samræmist ekki
þeim lífsstíl sem flestar nútíma-
fjölskyldur kjósa sér,“ sagði hann.
Þau hjónin hafa rekið búið í 21 ár
og hafa mest brugðið sér af bæ í
fjóra sólarhringa í einu. „Það falla
margir í þá gryfju, að finnast þeir
aldrei geta farið frá. Kröfur til
framleiðenda eru enda mjög mikl-
ar og það er ekki auðvelt að fá fólk
sem kann til verka og menn
treysta til fulls því það má ekkert
út af bregða,“ sagði Sveinbjörn.
Hann gat þess að fram-
leiðslueiningar væru sífellt að
stækka og í kjölfarið væri erfiðara
að hafa hlutina í lagi. „Þessi mikla
stækkun búanna hefur í för með
sér annars konar álag, umsjón-
arálag, sem ekki er betra og þá
hefur stækkun búanna leitt til þess
að framleiðendur eru færri nú en
áður og það kemur mjög niður á
félagslífinu til sveita,“ sagði Svein-
björn.
Hann sagði viðmiðunarmörk
varðandi framleiðslu úrvals-
mjólkur orðin þröng, „þannig að
við erum kannski heppin,“ sagði
hann. Þar fyrir utan sagði hann
reglusemi skipta afar miklu máli
og að hafa góða yfirsýn yfir kýrn-
ar. „Með því að mjólka nánast allt-
af sjálf skapast minni hætta á slys-
um og við gerum okkur far um að
fylgjast vel með heilbrigði kúnna
og sjáum alltaf um að hreinsa öll
tæki sjálf,“ sagði Sveinbjörn.
Hann sagði að ósjálfrátt hefðu
þau fyllst metnaði vegna þess hve
vel hefði tekist til með framleiðsl-
una. „Og manni félli ekki vel ef
eitthvað færi úrskeiðis,“ sagði
hann.
Hafa framleitt úrvalsmjólk í samfleytt áratug
Morgunblaðið/Kristján
Leifur Guðmundsson og Þórdís Karlsdóttir við mjaltir í Klauf.
Hulda Kristjánsdóttir og Sveinbjörn Sigurðsson í fjósinu á Búvöllum.
Hraustar
kýr, hrein-
læti og dá-
lítil heppni