Morgunblaðið - 26.09.2002, Qupperneq 37
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. SEPTEMBER 2002 37
frá Auðnum í áratug. Samt þrjósk-
aðist hann við meðan kraftar entust
og ætlaði sér að ljúka Gunnars sögu.
En heilsan brast of fljótt, einmitt
þegar aðdráttum var lokið og sjálf
byggingavinnan komin á góðan rek-
spöl. Sá skaði verður ekki bættur, en
vonandi verða þó aðrir til að hagnýta
sér það mikla efni sem hann var bú-
inn að draga saman.
Þótt bók Sveins Skorra, Svipþing,
sem kom út 1998, sé (ævi)söguleg er
hún fagurbókmenntir, listilega vel
skrifuð örlagasaga. Þar gerir hann
grein fyrir þeim jarðvegi sem hann
óx úr, bregður birtu á persónur sem
stóðu honum nærri og eru hver ann-
arri ólíkar og á viðburði sem virðast
hversdagslegir en ristu þó djúpt í
geði þeirra sem hlut áttu að máli. Í
eðli hans sjálfs var að finna allar þær
andstæður sem bókin lýsir, ættanna
kynlegt bland. Hann var skorinorður
og skjótur til svars, gat verið hvass í
tilsvörum og ummælum, en einnig
tilfinninganæmur, hlýlegur og greið-
vikinn. Hann var mælskumaður og
gat tekið hátíðlega til orða þegar við
átti, en fyrirleit innantómt orðagjálf-
ur.
Við Skorri höfðum lengi skrif-
stofur vegg í vegg. Marga skemmti-
lega samverustund á ég að þakka, yf-
ir bókunum eða á kaffistofunni. Þar
fengu aðrir ríkulega að njóta af
óþrjótandi brunni hans af vísum og
sögum, en samræðurnar gátu líka
snúist um alvarleg efni, úr sögu eða
samtíma. Hann hafði lifandi áhuga
og ákveðnar skoðanir á þjóðmálum
og sögu, ekki síst stjórnmálasögu lið-
innar aldar.
Um 1980 hóf lítill hópur háskóla-
manna – margir úr hugvísindum,
flestir af æskuskeiði – iðkun leikfimi
og körfubolta undir leiðsögn Valdi-
mars Örnólfssonar. Skorri var
tryggur þátttakandi meðan heilsa
leyfði. Aldrei hefur þessi flokkur
verið líklegur til sýningarhalds eða
keppni, en þar hefur fléttast saman
holl hreyfing og góður og gaman-
samur félagsskapur. Skorri bar þess
nokkur merki í körfuboltanum að
hann hafði ekki vanist knattleikjum í
bernsku, en lék samt með af lifandi
áhuga, og allir fögnuðu þegar hann
skoraði, jafnvel í fyrsta sinn sem það
bar við, þótt hann hefði þá í hita
leiksins ruglast á því í hvora körfuna
bæri að stefna boltanum. En Valdi-
mar kom okkur öllum til nokkurs
þroska. Í leikfimisalnum munum við
hugsa með gleði og þakklæti til fé-
laga okkar þegar við setjumst niður
og gerum hina vandasömu æfingu,
Skorris speciale.
Vésteinn Ólason.
Það var haustið 1968 sem Sveinn
Skorri Höskuldsson tók til starfa
sem lektor í íslenskum nútímabók-
menntum við Háskóla Íslands og ég
varð nemandi hans. Hann gekk
hröðum skrefum inn í stofuna í
Árnagarði, grannur sem teinungur,
hárið mikið og dökkt. Glóð í augum.
Málfar hans hátíðlegt. Hann var
nokkuð framandlegur á þessari
stundu enda nýkominn heim frá Sví-
þjóð þar sem hann hafði gegnt stöðu
sendikennara við háskólann í Upp-
sölum um sex ára skeið. Áður hafði
hann dvalist í Winnipeg þar sem
sálufélagi hans, Gestur Pálsson,
hafði verið ritstjóri Heimskringlu í
eina tíð. Við nemendurnir vissum að
hann hafði ritað mikið verk um ævi
og verk Gests, sem hafði verið gefið
út þremur árum fyrr. Það heyrðist
hvíslað að þessum tveimur mönnum
svipaði saman í sjón og raun. Báðir
höfðu þeir heillast af raunsæisstefn-
unni sem Brandes boðaði þar sem
rithöfundar skyldu fjalla um vanda-
mál samtímans og líta á sig sem
lækna þjóðfélagsmeina.
Sveinn Skorri hafði kynnt sér
rannsóknir í kvennafræðum í Upp-
sölum hjá Karin Westman Berg en
hún var frumkvöðull í þeim fræðum
á Norðurlöndum. Í hönd fóru nýir
tímar og rannsóknir á kvenlýsingum
í bókmenntum urðu einn þáttur
kvennabaráttunnar. Markmið þeirra
rannsókna var einmitt lækning sam-
félagsmeina, kvennakúgunar. Það
fór því vel á því að Sveinn Skorri
varð leiðbeinandi minn þegar ég
skrifaði lokaritgerð mína til BA-
prófs um lýsingu Sölku Völku í
skáldverki Laxness. Þar mættist
áhugi okkar á félagslegu raunsæi og
kvenlýsingum. Í Skírni 1972 birtist
grein eftir Svein Skorra, „Í leit að
kvenmynd eilífðarinnar“, en þar
fjallar hann um kvenlýsingar Hall-
dórs Laxness. Þar stendur m.a.:
„Þessi áhugi á hlutskipti kvenna í
skáldskap hefur raunar haldizt í
hendur við vaxandi skilning á gildi
þjóðfélagsfræðilegrar könnunar
bókmennta.“ Hann leggur áherslu á
að hvert skáldverk sé meira en speg-
ilmynd samfélagsins sem það er
sprottið úr. Kristileg tvíhyggja hafi
mótað hefðina í kvenlýsingum vest-
urlandabókmennta. Að mati Sveins
Skorra rís Snæfríður Íslandssól
hæst í verkum Laxness. „Þessi kona,
sem við fáum að fylgjast með og sjá
þroskast frá draumlyndri smámey
til kaldrifjaðrar stjórnmálakonu, val-
kyrju, sem fer þeysireið á svörtum
hestum og stendur yfir höfuðsvörð-
um ástmanna sinna og andstæðinga,
er einhver margbrotnust og ægifeg-
urst mannlýsing íslenzkra bók-
mennta.“
Svo fór að Sveinn Skorri varð að-
alkennari minn á kandidatsstigi,
leiðbeinandi og mikill áhrifavaldur.
Kennslan fór fram á skrifstofu hans í
Árnagarði. Hann sat við skrifborðið,
stundum svolítið utan við sig eins og
hann hefði verið djúpt sokkinn í
rannsóknir sínar þegar tími átti að
hefjast, en við settumst við lítið fund-
arborð. Í tímum var andrúmsloftið
afslappað þegar farið var í einstök
verk eða gefið yfirlit um höfunda-
verk. Hann lagði áherslu á yfirgrips-
mikinn lestur. Sem leiðbeinandi
lagði Sveinn Skorri mikinn þunga á
að vitna ávallt í frumheimildir og of-
urkapp á vandaðan frágang eins og
heimildaskrá. Sjálfur var hann iðinn
fræðimaður og ástríðufullur ná-
kvæmnismaður.
Sveinn Skorri hvatti mig til að
kynna mér kvennarannsóknir hjá
Karin Westman Berg við undirbún-
ing lokaritgerðar. Í Uppsölum
dvaldist ég eitt misseri og kynntist
náið þeirri merku konu. Ég á einnig
honum að þakka að ritgerð mín,
Kvenlýsingar í sex Reykjavíkur-
skáldsögum, var gefin út hjá Rann-
sóknastofnun í bókmenntafræði
1979. Síðar átti hann eftir að fá mig
til að kenna tímabundið kvennabók-
menntir við háskólann. Þannig hvatti
hann nemendur sína, studdi við bak-
ið á þeim og mótaði æviferil þeirra að
vissu marki.
Raunsæisskeið 19. aldar stóð næst
hug og hjarta Sveins Skorra eins og
áður hefur verið vikið að. Sú ástríða
leiddi hann að hinum þingeyska fé-
lagsmálafrömuði Benedikt á Auðn-
um. Í formála að miklu ritverki um
hann sem út kom 1993 gerir Sveinn
Skorri grein fyrir því hvers vegna
hann valdi þetta viðfangsefni. Þar
segir hann m.a.: „Þriggja ára var ég
fluttur úr Þingeyjarþingi suður í
Skorradal. Faðir minn saknaði átt-
haga sinna alla ævi og í orðum hans
ljómuðu þessar byggðir og mannlíf
þeirra í heiðri birtu – í senn glötuð
Paradís og Fyrirheitna landið.
Eftir nokkurt sálufélag við Bene-
dikt og samherja hans í tvo áratugi
skil ég söknuð föður míns betur.
Ekki valdi ég þó líf Benedikts og
æviverk af þeim sökum né heldur því
að ég ætti með honum einn dropa af
sameiginlegu blóði, heldur … vegna
tengsla hans við það skeið norrænna
bókmennta á síðari tímum sem enn
er í mínum hug hin sanna gullöld –
raunsæisskeiðið með Brandes, Ibsen
og Strindberg.“
Lífsbók Sveins Skorra Höskulds-
sonar prófessors er lokið. Ég minn-
ist míns ágæta læriföður með þakk-
læti og söknuði. Við Gunnar vottum
Vigdísi og börnum þeirra dýpstu
samúð.
Gerður Steinþórsdóttir.
Nú er minn gamli góði vinur og
bekkjarbróðir allur.
Ég minnist Skorra fyrst, er við – í
góðum hópi nýnema – hófum nám við
Menntaskólann á Akureyri haustið
1944. Hann var aðkomupiltur –
sunnan úr Skorradal í Borgarfirði –
svipmikill og greindarlegur. Við
lentum saman í bekk. Hann vakti
fljótt aðdáun mína fyrir góða kunn-
áttu í íslensku og hann gat jafnan
svarað, þegar við hin stóðum á gati.
Frábær frammistaða hans jók metn-
að minn og varð mér hvatning til að
bæta mína kunnáttu. Skorri var
prýðis námsmaður og tók hluta
framhaldsdeildar MA utanskóla.
Engum sem til þekkti kom á óvart er
hann eftir stúdentspróf haslaði sér
völl á sviði íslenskra fræða.
Skorri setti svip á umhverfi sitt og
ætíð var hann hress í góðra vina
hópi. Þó tel ég að honum hafi verið
lítt að skapi að bera tilfinningar sín-
ar á torg, en engum sem les hans
snilldarlega skrifuðu bók „Svipþing“
getur dulist, að þar ritar tilfinninga-
ríkur maður, með næman skilning á
blæbrigðum mannlegra örlaga og
næmt auga fyrir fegurð náttúrunn-
ar.
Ég hef átt góðar stundir á heimili
þeirra ágætu hjóna Skorra og Vig-
dísar, en ástir þeirra vöknuðu þegar
á menntaskólaárunum.
Ég er þakklát fyrir vináttu hans
og tryggð við mig og ég veit að ég
tala fyrir mun okkar bekkjarsystk-
inanna, þegar ég segi að við munum
öll sakna hans og sendum Vigdísi og
fjölskyldunni innilegar samúðar-
kveðjur.
Vilhelmína Þorvaldsdóttir.
„Ég var kominn á þau mót æsku
og unglingsára að ég var orðinn
óhæfur til að sjá hið mikla í hinu
smáa,“ segir Sveinn Skorri á einum
stað um sjálfan sig í hinni frábæru
minningabók Svipþingi. Þessi frum-
lega skilgreining á gelgjuskeiði lýsir
Sveini Skorra ákaflega vel.
Þessi orð fá líka aðra merkingu
þegar maður hugsar til baka til bók-
menntakennslu Sveins Skorra.
Minnisstæðastur er nefnilega ein-
mitt hæfileiki hans til þess að greina
hið mikla í hinu smáa. Ég býst við að
kennslufræðingar myndu segja að
hann hafi fyrst og fremst lagt
áherslu á uppgötvunarnám, að varpa
fram ýmsum hugmyndum og mögu-
leikum og láta nemendurna sjálfa
svo spreyta sig. Skorri naut sín best í
litlum hópi, og í fámennum kúrsum á
kandidatsstigi var hann í essinu sínu.
Það var gaman að lesa með honum
bókmenntir, því hann hafði frábært
næmi á hvar feitt var á stykkinu og
var að auki sérlega víðsýnn og for-
dómalaus. Í óformlegu og óhátíðlegu
spjalli um ljóð átti hann engan sinn
líka. Þar naut sín til fulls hæfni hans
til þess að greina hið mikla í hinu
smáa.
Við gamlir nemendur Skorra viss-
um vel hvað hann var snjall penni,
hafði óviðjafnanleg tök á íslensku
máli og fór þó ekki troðnar slóðir.
Hið besta sem hann hefur skrifað um
bókmenntir vottar ekki bara um
næmleika hans á bókmenntir heldur
kom hann hugsunum sínum frá sér í
skýran, skilmerkilegan en jafnframt
póetískan búning. „Hið óljóst sagða
er hið óljóst hugsaða,“ var oft við-
kvæði hans þegar bókmenntaskrif
bar á góma. Ég hafði margoft hvatt
hann til þess að skrifa meira og því
fögnuðum við honum vel þegar hann
birtist eitt sinn með frumsamið bók-
arhandrit á kontórum Máls og
menningar.
Hann kynnti okkur bókina sem
neftóbaksskrif um afa sína og ömm-
ur, sem dró úr okkur sem snöggvast,
en sannarlega birti yfir aftur um leið
og við fórum að lesa þessar listilega
skrifuðu og skemmtilegu minningar
þar sem Sveinn Skorri stígur fram
sem fullskapaður höfundur framúr-
skarandi sagnaþátta af besta tagi.
Það er varla mánuður síðan
Sveinn Skorri heimsótti okkur á for-
laginu síðast, glaðbeittur í fasi og bú-
inn að ná sínum fyrri þrótti, að því er
virtist. Það var hugur í Skorra og við
ákváðum að stefna að því að gefa út
fyrra bindi ævisögu Gunnars Gunn-
arssonar á næsta ári, verk sem hann
hafði unnið að áratugum saman.
Óskandi væri að þessar grundvall-
arrannsóknir á einum helsta höfundi
þjóðarinnar, sem Skorri vann að af
alkunnri natni, komi fyrr en seinna
fyrir augu lesenda í einhverri mynd.
Við Halla og samstarfsmenn hjá
Máli og menningu þökkum Sveini
Skorra samfylgdina og sendum Vig-
dísi og öllum ástvinum hans okkar
innilegustu samúðarkveðjur.
Páll Valsson.
Daginn sem Sveinn Skorri var
jarðaður var mér gengið í átt að mið-
bænum er orkaði sem fyrr á öll skiln-
ingarvit, með litum sínum, hljóðum
og lyktum. Allt var með venjulegum
brag, í vestri Kastalinn og Sæti
Arthúrs austan megin, en niðri í
Meadows sleikti fólk haustsólskinið.
Skyndilega hófust einkennilega þýð-
ir hljómar út úr borgargnýnum,
veikir í fyrstu en mögnuðust eftir því
sem lengra dró inn í garðinn og allt í
einu gekk ég fram á sitjandi mann
við gangstíginn; með hárflóka niður
herðar, grásprengdan, fúlskeggjað-
ur og í svörtum lörfum. Maður þessi
hefur ábyggilega verið á sjötugs-
aldri, rokkari úr öðrum tíma, en lék
furðufimlega á fagurskreytta hörpu
þótt gróffingraður væri. Ertu frá
himnum? spurði kona á leið fram hjá.
Nei, en ég er að reyna afla farareyris
þangað, var svarið. Í húfu við hlið
hans lágu nokkrir aurar.
Ekki ætla ég að líkja Sveini
Skorra við aldurhniginn rokkara í
Edinborg, en andstæður mannlífsins
eru hinar sömu hvert sem litið er;
kannski aldrei meiri en þegar við
stöldrum við og íhugum endalok, því
þótt okkur sé gjarnt að lýsa andláti
sem fullkomnun, árangursríkum
endi, þá er svo sjaldnast. Einhverju
er oftast ólokið, hringurinn fylltur til
hálfs eða að þremur fjórðu, þegar
allt kemur til alls.
Sveinn Skorri var raunhyggju-
maður sem helst vildi tala um róm-
antíska ljóðlist. Þar byrjaði þetta
allt, sagði hann á góðum stundum,
þar gerðist allt og hvað skyldi nútím-
inn vera annað en veikt bergmál
þrátt fyrir hroka sinn og nýjunga-
girni? Öðrum þræði vísindaleg stað-
festa, en á hinn bóginn rómantísk,
næstum trúarleg auðmýkt gagnvart
skáldskap, sem aftur blandaðist
kaldhæðinni vissu um fánýti mann-
legra skrifa. Sveinn Skorri var um
þetta dæmigerður 20. aldar maður.
Sjálfur velti hann andstæðum bók-
menntasögunnar fyrir sér árum
saman, var manna fróðastur um fag-
urbókmenntir og jós af örlæti af
fróðleik sínum, alltaf reiðubúinn að
hlúa að frumlegum hugmyndum, –
vitandi samt að engin hugsun er ný
undir sólinni, eða heldur, að allt er í
senn nýtt og gamalt, eftir sjónar-
horni hverju sinni.
Ekki að hann hafi haft mörg orð
um slíkt, meðan á kennslu stóð, því
góður kennari veitir nemanda sínum
frelsi til að uppgötva hugsun sína í
öllu sem áður hefur verið hugsað.
Fyrir það votta ég Sveini Skorra
þakklæti mitt. Hann kunni að vekja
áhuga á fræðum sínum, gjöfulli flest-
um, mikill raconteur og fagurkeri
eins og bækur hans vitna um.
Einhvern veginn finnst mér sem
spenna sú er við í fátækt okkar nefn-
um Rómantík og Raunsæi hafi alla
tíð fylgt og mótað sýn Sveins Skorra,
gert hann að skáldfræðimanni er
vissi að þótt ritstörf séu takmörk-
unum háð þá eru þau nauðsynleg
hverri menningu, að skynsemi og
ímyndunarafl eru andstæður í orði
en ekki í verki. Sveinn Skorri átti
mikið verkefni óunnið þegar hann
féll frá; ævisögu stórskálds sem
einnig glímdi við andstæður í leit að
niðurstöðu sem ef til vill er hvergi að
finna. Mér finnst það við hæfi: að
deyja frá óloknu verki. Ævi eins
slitnar og tendrast í öðrum ævum; í
spurn en ekki upphrópun.
Vertu sæll, gamli meistari, og
komi Alvaldið þér á óvart hinum
megin. Vigdísi og fjölskyldu flyt ég
okkar innilegustu samúðaróskir.
Matthías Viðar Sæmundsson.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi
að kynnast Sveini Skorra Höskulds-
syni á námsárum mínum í íslensku
við Háskóla Íslands. Þar jós hann úr
viskubrunni sínum um bókmenntir
20. aldar og kveikti í okkur yrðling-
unum fræðabál.
Talaði um sín persónulegu kynni
af mörgum skáldum, sagði sögur og
ræddi um kveðskapinn af þekkingu
eins og honum einum var lagið. Benti
okkur fákunnandi stúdentunum á
grænu augun hans Davíðs, dýrslegar
tilfinningar og dandíisma, svo nokk-
uð sé nefnt. Að hlýða á fyrirlestra
hans var allt í senn, unun, upplifun
og uppfræðsla. Að orðum hans búum
við öll sem notið höfum handleiðslu
hans um heim bókmenntanna, hvort
heldur er gegnum fyrirlestra, út-
varpserindi, greinar eða bækur.
Við störf mín fyrir Stofnun Gunn-
ars Gunnarssonar hef ég oft leitað til
míns gamla lærimeistara og aldrei
komið að tómum kofum. Þekking
hans ótakmörkuð og minnið óskeik-
ult. Það var ekki í eðli Sveins Skorra
að ráðast á garðinn þar sem hann var
lægstur. Ævistarf hans er meðal
annars bundið í stórvirki eins og ævi-
sögu Gests Pálssonar og Benedikts á
Auðnum. Það verk sem hann ætlaði
sér að ljúka þegar hann sjötugur var
hættur að kenna var ævisaga Gunn-
ars Gunnarssonar. Að því verki hafði
hann unnið lengi. Heimildirnar orðn-
ir margir hillumetrar og búið að fara
víða um lönd til að kanna gögn og
staðhætti. Enginn flumbrugangur
við fræðistörfin frekar en vanalega.
Heildarmyndin varð að vera skýr
áður en farið væri að huga að útgáfu.
Höfundarverk Sveins Skorra
hefði fullkomnast með ævisögu stór-
skáldsins. Því miður skar sláttumað-
urinn slóttugi á taumana áður en
honum auðnaðist að ljúka sögunni
um austfirska sveitadrenginn sem
fann draumum sínum farveg í frægð-
arheimi bókmenntanna. En þing-
eyski Borgfirðingurinn á einnig ófá
spor í þeim heimi. Verk hans standa
sem minnisvarðar um fræðimann
sem hafði skáldlegt innsæi og vann
verk sín í þaula. Fræðaseiður Sveins
Skorra mun seint gleymast og kyn-
slóðirnar leita í verk hans til að auka
visku sína.
Hvíl í friði, fræðakappi.
Skúli Björn Gunnarsson, for-
stöðumaður Gunnarsstofnunar.
ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS
Sími 581 3300
Allan sólarhringinn — www.utforin.is
Suðurhlíð 35, Fossvogi
Sverrir
Olsen
útfararstjóri
Bryndís
Valbjarnardóttir
útfararstjóri
Sverrir
Einarsson
útfararstjóri
Landsbyggðarþjónusta. Áratuga reynsla.