Morgunblaðið - 20.04.2003, Side 30

Morgunblaðið - 20.04.2003, Side 30
LISTIR 30 SUNNUDAGUR 20. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ ÞAÐ hefur lengi verið vandamál fyrir íslenskan myndlistarheim að framsækin og tilraunakennd gallerí þrífast ekki hérlendis. Listasöfnin hafa á sinn hátt verið að bregðast við þessari vöntun á tilraunagalleríum. Listasafn Íslands hefur opnað lítið sýningarrými í kjallaranum og eins og fram kemur í bæklingi safnsins er ætlað að kynna þar íslenska mynd- listarmenn af yngri kynslóðinni. Þremur sýningum hefur þegar verið ráðstafað og eru allir sýnendurnir reyndar á fimmtugsaldri. Í Listasafni Reykjavíkur eru sams konar áform í gangi með gamla skrifstofuhúsnæðið á Kjarvalsstöðum og ýmiskonar smærri verkefni sem eru á vegum safnsins gefa möguleika á framsæk- inni tilraunastarfsemi. Helst eru það þrjár sýningar sem Listasafn Reykjavíkur hefur staðið fyrir í Kúl- unni í Ásmundarsafni, þar sem myndlistarmennirnir Tumi Magnús- son, Finnbogi Pétursson og Eygló Harðardóttir hafa verið fengin til að gera staðbundin listaverk. Vel heppnaðar sýningarnar hafa endur- vakið athygli á þessu sérstaka húsi Ásmundar og því tvöfaldur vinningur fyrir safnið. Listamennirnir fá greiddar 150.000 krónur fyrir vinnu sína. Kannski ekki hæsta kaup sem um getur fyrir skapandi vinnu, en stórt skref í rétta átt sem Listasafn Íslands mætti taka til fyrirmyndar með sýningarnar í kjallaranum þar sem sýnendur sjá um allan efnis- kostnað sjálfir. Þessi smærri verkefni hjá lista- söfnunum eru gott framtak en koma þó aldrei í staðinn fyrir starfsemi til- raunagallería enda eru söfnin opin- berar stofnanir og hafa öðrum skyld- um að gegna en gallerí. Það uppbyggingarstarf sem fram fer í til- raunakenndum galleríum snýst um að ögra ríkjandi gildum og efla hinn skapandi huga sem nauðsynlegt er svo framvinda verði á menningu okk- ar. Slík starfsemi er öllu samfélaginu til góða þótt hagnaðurinn sé ekki töl- fræðilega borðleggjandi. Megin- ástæðan fyrir því að gallerí þrífast ekki hérlendis er sú að allt of fáir safna framúrstefnulist og því þarf fjárstuðning frá hinu opinbera sem ekki er veittur nema í litlum mæli. Ekki virðist þó skortur vera á pen- ingi til menningarstarfsemi þegar viljinn er fyrir hendi, allavega ekki af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík sem nýverið veittu um 80 milljóna króna fjárstyrk til Péturs Arasonar listaverkasafnara til reksturs nýs safns. Má vel fagna því að listaverka- safn Péturs verði opið almenningi en maður hugsar þó hvort verið sé að forgangsraða úthlutun styrkja á rétt- an hátt. Mundi það t.d. gjörbylta myndlistarsenunni á Íslandi ef til- raunagallerí fengju brot af þessari upphæð til umráða. Coca Cola og engisprettur Gallerí Hlemmur er tilraunagallerí sem til þessa hefur verið rekið í sjálf- boðastarfi. Það er nú á fjórða starfs- ári og hefur á þeim tíma verið mik- ilvægur hlekkur í myndlistarflóru Reykjavíkur, auk þess að vera upp- lyfting fyrir svæðið umhverfis Hlemm sem ekki telst til betri hluta borgarinnar. Undanfarið hefur gall- eríið komist í ágætt samband við Sví- þjóð. Nýlega sýndu sex íslenskir myndlistarmenn á vegum Gallerís Hlemms í Sollentunna-myndlistar- messunni í Stokkhólmi og að auki var þar kynning á öllum þeim listamönn- um sem hafa sýnt í galleríinu. Þá hafa tveir sænskir listamenn komið hing- að til lands á vegum gallerísins og sýnt verk sín. Fyrst Elin Wikström í fyrrasumar og nú Thomas Broomé sem um þessar mundir sýnir rýmis- innsetninguna „Locust“, sem saman- stendur af um 600 engisprettum sem listamaðurinn gerði úr kókdósum. Það er heldur ógnvænleg tilfinning sem fer um líkamann þegar maður stendur í sýningarrýminu og horfir á fryst augnablik af Coca Cola engi- sprettum skríða út um göt eða sprungur á veggjum og lofti gallerís- ins og um leið heyra hljóðupptöku sem gefur til kynna mikinn fjölda engisprettna skríðandi á milli veggjanna. Innan skamms má ætla að rýmið fyllist af Coca Cola engi- sprettum sem eflaust éta mann eins og í einhverri B-mynda hrollvekju á borð við The Swarm, Demnation All- ey eða The Attack of the killer tom- atoes. Þessi innsetning er þó ekki bara leikmynd til að skapa ógnvæn- lega tilfinningu heldur er þetta myndlíking á áhrifum fjöldafram- leiðslu og sem slík nokkuð hittin ádeila á Ameríkuvæðinguna sem rið- ið hefur yfir jarðkringluna síðan heimsstyrjöldinni síðari lauk. Með því að nota Coca Cola dósir er Broomés einnig að endurnýta fram- leiðsluvöru sem undir eðlilegum kringumstæðum færi í annars konar endurvinnslu en sjá má í Galleríi Hlemmi og snertir því umhverfismál samtímans. Dægurmál kúlunnar Sýning Eyglóar Harðardóttur í Kúlunni í Ásmundarsafni er rýmis- innsetning eins og verk Broomés, en þar sem Broomés aðlagar tilbúið listaverk sýningarrýminu hugleiðir Eygló á tómt rýmið og skapar lista- verk út frá því. Þannig hefur hátt- urinn verið á í þeim þremur sýning- um sem hafa verið í Kúlunni. Fyrst var það Tumi Magnússon sem varp- aði myndbandsupptöku upp í hvelf- inguna, síðan Finnbogi Pétursson sem vann með hljóð sem magnast upp í slíkum hvelfingum og nú Eygló Harðardóttir sem vinnur út frá veggjum Kúlunnar. Eygló skapar innsetningu sem vinnur í mótvægi við lögun sýningarrýmisins. Hún hefur smíðað fjóra veggi úr einangrunar- frauði, sem dempa ýkt hljóðið sem er í rýminu, og stillir þeim upp á milli glugga Kúlunnar. Hún vinnur síðan á hvern vegg með málningu, ljósmynd- um og ljósritum sem hún tekur úr tímaritum. Hver veggur hefur sína mynd eða þema. Á einum veggnum tekur hún fyrir drauma, aðra tvo veggi málar hún í fánalitunum og vinnur með þjóðlegt þema, íslenska hestinn og hálendið, og síðasta vegg- inn málar hún í jarðbundnum litum og sýnir gervihnattamyndir af Írak og myndir af áhöfn geimfarsins Kól- umbíu sem fórst fyrir skömmu. Eygló tekur fyrir dægurmál eins og tíðkaðist í popplist sjötta og sjö- unda áratugarins. Áhrif popplistar- innar eru áberandi í samtímalistum. Sem dæmi þá á verk Thomas Broomés margt skylt við „Harð- kjarna“ popplist (Hardcore pop) en innsetning Eyglóar sver sig í ætt við popplistamenn sem komu í kjölfar abstrakt expressjónismanns, Robert Rauschenberg sem dæmi. Við lifum á upplýsingaöld og því telja margir listina stefna í að vera meira og meira um beinar upplýsingar. Er innsetn- ing Broomés til merkis um það. Myndlíking, efnisval og framsetning liggja skýrt fyrir og túlkunin nokkuð gefin. Vinnubrögð Eyglóar eru aftur á móti ósjálfráð, innsæi umfram rök- ræna útfærslu, og gera kröfur til list- neytandans um að vera skapandi þátttakandi í upplifun á listaverkinu. Tilraunir með rými MYNDLIST Listasafn Reykjavíkur – Kúlan, Ásmundarsafni Opið alla daga frá 13–16. Sýningu lýkur 11. maí. RÝMISINNSETNING EYGLÓ HARÐARDÓTTIR Jón B.K. Ransu Óvættir skríða meðfram veggjum Gallerís Hlemms. Frá sýningu Eyglóar Harðardóttur í Kúlunni. Gallerí Hlemmur Opið fimmtudaga til sunnudags frá 14– 18. Sýningu lýkur 27. apríl. RÝMISINNSETNING THOMAS BROOMÉ

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.