Morgunblaðið - 05.06.2003, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 05.06.2003, Blaðsíða 35
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. JÚNÍ 2003 35 Símar 581 3300 - 896 8242 Allan sólarhringinn - Áratuga reynsla Suðurhlíð 35 — Fossvogi — www.utforin.is Sverrir Olsen, útfararstjóri. Sverrir Einarsson, útfararstjóri. Bryndís Valbjarnardóttir, útfararstjóri. Baldur Frederiksen, útfararstjóri. ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS Lundi V/Nýbýlaveg 564 4566 • www.solsteinar.is heimili mínu. Hún var einstaklega góð tengdamóðir sem gat ekki leynt ást sinni á okkur öllum fjórum tengdasonum sínum. Hún lét vera að reyna að ala okk- ur upp, enda áttu aðrir að hafa lokið því hlutverki. Hún sýndi okkur öllum sérstaka hlýju og virðingu sem við þökkum nú í dag. Mig langar að ljúka þessari fátæk- legu kveðju með orðum úr Háva- málum, sem mér finnst eiga svo vel við lífsskoðanir tengdamóður minn- ar. Megi algóður Guð blessa minn- ingu hennar. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama, en orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. Jón Örn Ámundason. Frá fyrsta degi var mér mætt af mikilli vinsemd og hlýju er ég fór að venja komur mínar til Birnu, einnar af heimasætunum á Barónsstíg 19 þar sem Ásta Guðmundsdóttir og Hrólfur Benediktsson bjuggu allan sinn búskap með fjórum dætrum sínum. Brátt eru liðnir fjórir áratug- ir frá því þessi kynni hófust og betra fólki hef ég ekki kynnst um ævina. Hrólfur lést langt fyrir aldur fram árið 1976 aðeins 66 ára að aldri og var harmdauði öllum sem hann þekktu. Nú er Ásta, mín kæra tengdamóðir, gengin, 86 ára gömul og södd lífdaga. Ásta var fædd og uppalin í Vest- mannaeyjum við mikið ástríki for- eldra sinna. Guðmundur Sigurðsson, faðir Ástu, var bóndasonur í Litlu- Hildisey í A-Landeyjum. Hann kvæntist Arnleifu Helgadóttur, hreppstjóradóttur frá Grímsstöðum í V-Landeyjum, árið 1909. Þau tóku fljótlega við búinu í Litlu-Hildisey. Þrátt fyrir dugnað og útsjónarsemi Guðmundar við að stunda jarðabæt- ur á túnum og með því að sækja björg í bú með útróðrum frá Sand- inum þá var lífsbaráttan hörð og óvægin. Tvö elstu börnin, tveir syn- ir, Sigurður Helgi og Helgi, létust sem ungbörn á þessum árum. Lík- legt má telja að óyndi hafi sótt á þau Guðmund og Arnleifu við barnamissinn og harðræðið og þau talið sér betur borgið með því að flytja til Vestmannaeyja og takast á við lífið á nýjum stað. Þangað koma þau árið 1917, rétt í þann mund er Ásta fæðist. Árið 1922 flytja þau í Heiðardal (Hásteinsveg 2) er Guð- mundur hafði reist og var fjölskyld- an frá því jafnan kennd við Heið- ardal. Guðmundur var sjómaður en gerðist útgerðarmaður 1924 er hann eignaðist fjórða hlut í vélbátnum Valdemar VE 268 en tapaði síðan öllu sínu í kreppunni upp úr 1930. Tók það Guðmund áratug eða meira að greiða upp skuldir sínar sem hann og gerði. Frá 1929 starfaði Guðmundur lengst af sem verkstjóri hjá Vegagerðinni víða um land enda þótt hann byggi áfram í Eyjum. Tvær eldri systur Ástu, þær Lilja (eldri) og Sigríður, létust á þessum árum, 12 og 8 ára. Jafnframt eign- aðist Ásta yngri systur árið 1923, Lilju, sem lifir nú ein þeirra systk- ina. Af sex börnum þeirra Guðmund- ar og Arnleifar voru þannig aðeins tvær systur sem náðu fullorðins- aldri. Arnleif var virk í starfi fyrir fátæka í Eyjum og hafði oftast mannmargt heimili. Einnig var hún einkar trúrækin og vann mikið fyrir Landakirkju. Þetta er sá jarðvegur sem Ásta var vaxin úr og mótaði hana til lífstíðar. Ásta tók þátt í starfi KFUK og snemma kom í ljós áhugi hennar á tónlist, einkum söng. Hún söng í Vestmannaeyjakórnum. Eftir að hafa verið tvo vetur í Gagnfræða- skóla Vestmannaeyja var hún í Hér- aðskólanum á Laugarvatni aðra tvo vetur, þá 16 og 17 ára. Um þriggja ára skeið vann hún í Apótekinu í Vestmannaeyjum. Árið 1939, þá 22 ára, hélt Ásta til Reykjavíkur og nam saumaskap í einn vetur hjá Ástu Þórðardóttur saumakonu. Lífsförunaut sinn, Hrólf Bened- iktsson, hitti Ásta er þau bæði störf- uðu í Félagsprentsmiðjunni en Hrólfur var þar verkstjóri árin 1935 til 1945. Þau gengu í hjónaband 24. maí 1941 og næstu 35 árin helgaði Ásta sig heimilinu á Barónsstíg 19 en þar voru ávallt margir í heimili. Heimili þeirra var einkar fallegt og hlýlegt enda lagði Ásta mikið upp úr því að fegra umhverfi sitt og snyrta. Þau Hrólfur eignuðust fjórar dætur, Ernu Lilju, Birnu, Ástu Sigríði og Hrefnu. Ásta lagði stolt sitt í að hafa þær vel til fara og mér hefur verið tjáð að oft hafi malið í saumavélinni heyrst fram á nótt þegar Ásta var að sauma á dæturnar. Hátíðir eins og jól og áramót voru hafðar í sérstök- um hávegum og hafa dæturnar vilj- að halda sínar hátíðir með sama hætti og í foreldrahúsum. Það segir sína sögu. Einstakt viðmót mætti okkur sem urðum svo heppnir að verða tengda- synir Ástu og Hrólfs. Dætrunum fannst á stundum of mikið látið með okkur og göntuðust við móður sína að þær teldust heppnar að hafa ekki eignast bróður. Mikil og einlæg vin- átta okkar tengdasonanna tókst við þau hjón. Tónlist og þá einkum söngur var mikið áhugamál Ástu. Hún tók þátt í kórastarfi, m.a. með Kvennakór Slysavarnafélagsins og Fílharmón- íusöngsveitinni. Ásta hafði mjög ákveðnar skoðanir á því hvenær henni þótti vel sungið og hvenær ekki. Ég minnist þess oft að hafa heyrt hana óspara á hrósyrðin þegar henni þótti vel að verki staðið. Ásta var hrein og bein í allri fram- göngu og hún sagði sína meiningu jafnan umbúðalaust. Snemma kom í ljós mikill viljastyrkur hjá Ástu. Hún komst þangað sem hún ætlaði sér. Það var ekki hægt annað en dást að því hvernig hún bjargaði sér þegar á móti blés. Árið 1976 urðu straumhvörf í lífi Ástu þegar Hrólfur andaðist eftir skammvinn veikindi, aðeins 66 ára að aldri. Hann hafði rekið fyrirtæki sitt, Offsetprent hf., frá 1945 til dauðadags við góðan orðstír. Ásta var orðin ekkja einungis 59 ára að aldri. Það var henni mikið áfall eins og gefur að skilja. Prentsmiðjan var seld stuttu síðar. En Ásta lagði ekki árar í bát. Sex- tug að aldri fór hún að leita sér að vinnu. Án þess að segja dætrum sín- um frá því sótti hún um starf sem aðstoðarstúlka á tannlæknastofu. Síðar lýsti hún því hvernig henni leið innan um stúlkur sem allar voru mörgum áratugum yngri en hún og sóttust eftir sama starfinu. En hún fékk starfið og hófst þá nýr kafli í lífi Ástu. Hún starfaði hjá Geir Tóm- assyni tannlækni í nær 19 ár eða þar til hún var orðin 78 ára gömul. Sam- viskusemi Ástu var við brugðið og hún rækti sitt starf í samræmi við það. Lengi vel eftir að hún var hætt störfum var hún engu að síður með hugann við vinnuna og fannst sem hún væri að bregðast trausti með því að mæta ekki til vinnu sinnar. Fjöl- skylda Ástu þakkar af heilum hug þeim hjónum Geir Tómassyni og Mariu Elfriede þá ræktarsemi og velvild sem þau sýndu Ástu alla tíð allt til hinstu stundar. Ásta var um langt skeið félagi í Oddfellowreglunni og hafði af því mikla ánægju. Stúkusystur hennar héldu tryggð við hana og léttu henni stundir þegar heilsan tók að bila. Fyrir um tíu árum tók að bera á minnisbresti hjá Ástu. Fjölskylda hennar reyndi svo lengi sem mögu- legt var gera henni kleift að búa í íbúð sinni á Rauðalæk 34. Fyrir sex árum fékk hún inni á hjúkrunar- heimili. Fyrst var hún á Laugaskjóli og síðar á Skjóli er heilsu hennar hrakaði frekar. Aðalheiði Vilhjálms- dóttur og Kristínu Árnadóttur ásamt samstarfsfólki á Laugaskjóli og Skjóli eru færðar einlægar þakk- ir fyrir góða umönnun og ekki síður einstaklega hlýlegt og jákvætt við- mót í garð Ástu. Ásta fylgdist grannt með afkom- endum sínum og gladdist yfir hverj- um þeim áfanga sem þau náðu. Barnabörnin sem eru tíu talsins sýndu ömmu sinni ræktarsemi af ástúð og hlýju. Barnabarnabörnin eru sex. Ég mun ætíð minnast Ástu fyrir hennar sterka persónuleika og hreinskiptni. Það var gaman að eiga við hana orðastað því hún hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og gaf ekkert eftir í rök- ræðu. Einnig gat hún verið afar hnyttin í tilsvörum. Ásta var stolt kona og glæsileg og henni var í blóð borið að standa sig í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Ég get með góðri samvisku fullyrt að hún stóð sína vakt með prýði. Ég bið góðan guð að varðveita Ástu Guðmunds- dóttur, mína elskulegu tengdamóð- ur, um leið og ég þakka henni sam- fylgdina. Einar Sveinsson. Við fráfall tengdamóður minnar, Ástu Guðmundsdóttur, koma upp í hugann góðar minningar frá okkar kynnum. Þau hófust fyrir um 25 ár- um er ég fór að venja komur mínar til dóttur hennar, Hrefnu. Í fyrstu nokkuð uppburðarlítill, hafði ekki kjark til þess að knýja dyra, heldur beið fyrir utan þar til Hrefna kom út. Þetta háttalag þótti Ástu nokkuð undarlegt og kallaði þennan kjark- litla unga mann gjarnan huldumann- inn. Það átti eftir að koma á daginn að þessi fælni mín var algjörlega ástæðulaus, enda tók Ásta mér sér- lega vel þegar við loksins hittumst. Ásta hafði þá nýlega séð á bak eig- inmanni sínum við ótímabært fráfall hans í september 1976. Hrólfur Benediktsson prentsmiðjustjóri hafði um árabil rekið fyrirtæki sitt, Offsetprent, af myndarskap og Ásta staðið fyrir stóru heimili og uppeldi fjögurra dætra. Því urðu mikil um- skipti í lífi hennar við fráfall Hrólfs. Það lýsir Ástu vel, að hún hafði kjark og þor til þess að takast á við breyttar aðstæður og fór að leita fyrir sér á vinnumarkaðinum á sex- tugasta aldursári. Hún réðst til starfa hjá Geir Tómassyni tann- lækni, þar sem hún starfaði allt til þess að Geir lét af störfum fyrir ald- urs sakir. Vinnan var Ástu afar mik- ilvæg ekki síður en ágæt kynni hennar, Geirs og eiginkonu hans. Ásta var þeirrar gerðar, að það verk sem hún tók að sér vann hún af trú- mennsku og samviskusemi. Við Hrefna giftum okkur árið 1978, tveimur árum eftir fráfall Hrólfs. Ásta, sem þá var á tímamót- um í lífi sínu, stóð fyrir brúðkaupinu af miklum rausnar- og myndarskap, vandaði til á allan hátt eins og henn- ar var háttur. Ásta var mikil gæfukona í lífi sínu. Hún eignaðist fjórar myndarlegar dætur og fjölda barnabarna og barnabarnabarna. Hún var ákaflega gestrisin og naut sín best, þegar fjöl- skyldan kom saman af ýmsu tilefni. Þá dró hún ekki af sér við að reiða fram veislukost og viðurgjörning sem best mátti verða. Hún var af gamla skólanum í þessum efnum, settist varla til borðs, þar eð hún var sífellt að sjá til þess að gestirnir hefðu allt til alls. Synir okkar Hrefnu, Hjörtur og Hrafn, minnast ömmu Ástu með þakklæti og hlýhug fyrir allar þær mörgu stundir er hún gætti þeirra, sótti í skólann eða hlustaði á mistil- þrifamikinn tónlistarflutning á tón- leikum í Tónmenntaskólanum sem og fyrir stundirnar er setið var í eld- húsinu á Rauðalæk, reiknað og skrifað fyrir skólann undir hand- leiðslu ömmu. Ásta hafði mikið yndi af tónlist, söng sjálf í kórum og fylgdist með tónlistarviðburðum. Hún hafði næmt tóneyra og ákveðnar skoðanir á flestu er tónlistina varðar. Hún var virk í félagsstarfi Oddfellowa eins og Hrólfur eiginmaður hennar hafði einnig verið. Þar átti hún marga vini sem ætíð reyndust henni vel. Ásta hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum líðandi stund- ar. Hún hafði gaman af því að tala um stjórnmál og setti sig þá gjarnan í öndverða stöðu við viðmælandann, sér til gamans. Hún hafði ágæta kímnigáfu og hnyttin tilsvör hennar og athugasemdir geymast í minning- unni. Ásta var lengst af heilsuhraust, kvik í hreyfingum, stundaði sund og gönguferðir. Síðustu árin átti Ásta við veikindi að stríða þar sem and- legt atgervi lét undan síga. Hún naut góðrar aðhlynningar, fyrst á sambýlinu Laugaskjóli og síðar á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Þakkir skulu hér færðar öllu því ágæta fólki sem annaðist hana síðustu árin. Ég kveð nú Ástu Guðmundsdótt- ur með virðingu og þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast henni og ganga með henni þennan spöl á ævi- veginum. Guð blessi minningu hennar. Hjörtur Örn Hjartarson. Mín fyrsta minning um ömmu Ástu er frá því ég var fimm ára og bjó í Eskihlíð. Það var Þorláks- messukvöld og mig langaði sérstak- lega mikið í ákveðinn sælgætisstaf í skóinn frá jólasveininum eins og Erna frænka hafði fengið nóttina áð- ur. Amma Ásta kunni ráð við því og fór með mig inn í rúm, kenndi mér Faðirvorið og svo fórum við með bæn þar sem þessari einlægu ósk var komið á framfæri. Morguninn eftir þegar ég vaknaði og sá að hlustað hafði verið á bænina dáðist ég að snilld ömmu. Þótt ég viti núna hvaðan sælgætisstafurinn kom, þá hafði þetta mikil áhrif á mig og í hvert sinn sem ég lauk við að fara með bænirnar mínar var endað á Faðirvorinu mjög samviskusamlega. Ég á margar góðar minningar um ömmu Ástu. Hún var einstaklega dugleg og fór mikið í sund. Mér þótti merkilegt og skemmtilegt að yfir- leitt þegar við fórum í Laugardals- laugina valdi hún útiklefann þar sem við skokkuðum og teygðum eftir sundsprettinn og heita pottinn. En utanlandsferðirnar til Flórída standa þó upp úr, því ömmu þótti alla tíð mjög gaman að fara á strönd og fá lit á kroppinn. Á hverjum morgni var amma mætt fyrst út og gekk alla ströndina endanna á milli og ef maður vildi með, þá mátti mað- ur hafa sig allan við að halda í við hana, svo rösklega gekk hún. Einu skiptin sem hún hægði á sér var til að tína upp fallegar skeljar sem urðu á vegi hennar. Að kvöldi var síðan metist um hver hefði tekið mestan lit þann daginn og hafði amma Ásta yfirleitt vinninginn. Elsku amma Ásta, dugnaður þinn og kraftur var aðdáunarverður. Ég kveð þig með söknuð í hjarta en trúi að þú sért komin á betri stað, án veikinda og elli, og er sannfærð um að vel hefur verið tekið á móti þér af afa Hrólfi, fjölskyldu þinni og öllum þeim sem þú snertir á þinni löngu ævi. Vertu sæl að sinni, amma mín. Ásta S. Einarsdóttir. Í dag kveðjum við ömmu Ástu. Við systkinin viljum með fáum orð- um minnast ömmu okkar Ástu Guð- mundsdóttur, sem lést 27. maí. Við áttum ekki margar stundir með ömmu áður en Alzheimersjúkdóm- urinn fór að taka sinn toll af lífi hennar. En ferðirnar í sumarbústað foreldra okkar með ömmu eru okkur nú afar dýrmætar. Ekkert var eins gaman og að vera út á túni með ömmu í fótbolta. Hún óþreytandi í markinu meðan við skutum og hún skutlaði sér milli stanganna, komin á áttræðisaldur. Og alltaf með vissu millibili kom þessi setning: „Hrólfur, áttu ekki að vera í Val eins og hann afi þinn?“ Hún amma var ótrúlega fim og létt á sér. Það var mikið hleg- ið og amma hló mest þegar við náð- um að skora hjá henni og hún lá í mjúkum mosanum og gat varla stað- ið upp. Það var einnig gott að kúra hjá ömmu á kvöldin og finna nærveru hennar og öryggi, en þessum stund- um lauk alltof fljótt. Nú hefur góður Guð tekið ömmu til sín og við vitum að nú líður henni vel hjá afa Hrólfi. Við erum einnig sannfærð um að hér eftir muni þau bæði halda verndar- hendi yfir okkur börnunum sínum. Við kveðjum ömmu með ljúfri bæn sem okkur var kennd þegar við vorum lítil. Kristur minn, ég kalla á þig, komdu að rúmi mínu, gjörðu svo vel og geymdu mig, Guð, í skjóli þínu. Fanney Birna Jónsdóttir og Hrólfur Örn Jónsson. Kæra vinkona, mig langar til að hnýta saman nokkur fátækleg kveðju- og þakkarorð, er leiðir nú skiljast – um sinn. Ásta Guðmundsdóttir kom til starfa á tannlæknastofu minni nokkru eftir andlát eiginmanns síns, Hrólfs Benediktssonar prentsmiðju- stjóra. Þar með sköpuðust okkar fyrstu kynni, sem urðu að varanlegri vináttu, sem aldrei bar neinn skugga á. Eftir áralangt samstarf okkar Ástu var hún orðin mín stoð og stytta í okkar daglegu störfum; stundvís og samviskusöm með af- brigðum. Fjarvistir frá störfum voru eiginlega engar. Óhætt er að segja, að Ásta hafi verið sérstaklega vel liðin af sjúklingum mínum og margir þeirra hafa spurt um hana og minn- ast hennar með þakklæti, er ég hefi hitt þá nú á síðari árum. Minnisstæð okkur hjónum eru þau skipti er við kölluðum á starfs- fólk okkar í einskonar jólakvöldkaffi rétt fyrir hátíðarnar. Þá var oft glatt á hjalla með Ástu, Þóru og Hólm- fríði; hlegið, myndir teknar og dreypt á glasi enda í góðra vina hópi. Ekki vorum við Ásta alltaf sam- mála er við ræddum um dægurmálin eða heimspekilegar vangaveltur, s.s. eilífðarmálin. En það að vera skemmtilega ósammála var eigin- lega hluti af fölskvalausri vináttu okkar – nokkuð sem við bæði höfð- um gaman af. Fyrir allt þetta þakka ég nú henni og bið henni blessunar og fararheilla á þeim leiðum, sem hún nú hefur lagt út á. Óljóst og þokukennt er upphaf allra hluta en ekki endamark þeirra. Þegar þú, kæra vinkona, gengur nú til móts við hið nýja og óþekkta fylgja þér hugheilar óskir um far- arheill. Ástvinum þínum sendum við hjón- in innilegar samúðarkveðjur og segjum: Far þú í friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.) Maria og Geir R. Tómasson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.