Morgunblaðið - 31.07.2003, Page 24
LISTIR
24 FIMMTUDAGUR 31. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
BANDARÍSKA myndlistarkonan
Roni Horn opnar í dag sýningu í i8
sem nefnist „This is Me, This is You“
(Þetta er ég, þetta ert þú). Um er að
ræða 96 ljósmyndir af táningsstúlk-
unni Georgiu Loy, systurdóttur
listakonunnar, sem teknar voru
1999–2000. Myndirnar eru teknar í
pörum eða samstæðum, en með
nokkurra mínútna millibili og því má
sjá undraverðar breytingar á
svipbrigðum stúlkunnar og stemn-
ingu myndanna. Samstæðunum er
skipt í tvær 48 mynda seríur sem
hengdar eru upp á sama hátt á sitt
hvorum veggnum er standa and-
spænis hvor öðrum. Við fyrstu sýn
er engu líkara en verið sé að sýna
sömu myndina tvisvar en þegar bet-
ur er að gáð verður ljóst að töluverð-
ur munur er oft á myndunum tveim-
ur í hverju pari.
„Í raun á maður ekki ekki að líta á
myndirnar sem portrettmyndir,
þetta snýst ekki um fyrirsætuna
sem persónu heldur um breytileik-
ann sjálfan og óendanlegu, fjöl-
breyttu svipbrigði stúlkunnar. Svip-
brigði sem breytast frá sekúndu til
sekúndu,“ segir Dorothée Kirch
rekstrarstjóri i8. „Manneskjan er
náttúrulega jafn breytileg og lands-
lagið sjálft,“ segir Edda Jónsdóttir
eigandi i8. Að sögn Dorothée og
Eddufylgja skýr fyrirmæli um
hvernig myndunum skuli raðað upp.
Þeim skal raðað upp sem tveim serí-
um, annað hvort hvorri á móti ann-
arri, líkt og gert er í i8, eða í sitt
hvoru herberginu. „Það er til þess að
áhorfandinn verði annað hvort sífellt
að snúa sér við eða hlaupa milli her-
bergja til þess að skoða myndirnar,“
segir Dorothée.
Endalaus upplifun
„Einhverjir gætu spurt hver til-
gangurinn með verkinu sé, þar sem
myndirnar í seríunum virðast næst-
um því eins. Mér finnst hins vegar
þessi fíni þráður svo spennandi í
verkum hennar. Það er eitthvað
leyndardómsfullt og eitthvað sem
fólk þarf að velta fyrir sér,“ segir
Edda. „Áhorfandinn verður stöðugt
að fara fram og til baka milli mynd-
anna og fyrir vikið verður reynsla
hans af verkinu í raun endalaus,“
segir Dorothée. „Þannig gerir verk-
ið töluverðar kröfur til áhorfand-
ans,“ bætir Edda við. „Mér finnst
verk Horn afar viðkvæm og þau
krefjast þess að maður leggi sig
fram við áhorfið. Ef maður gefur sér
ekki tíma til þess að skoða mynd-
irnar er auðveldlega hægt að draga
þá ályktun að myndirnar á báðum
veggjunum séu eins. En munurinn á
myndunum í hverri samstæðu er svo
fíngerður og það mótar skynjunar-
hæfileika fólks, þ.e. ef það gefur sér
tíma til þess að skoða verkið,“ segir
Dorothée. „Í raun getur maður horft
endalaust á þessi fjölbreyttu andlit
Loy. Hún hefur svo ótrúlega sér-
kennilegt andlit og virðist nánast
tímalaus,“ segir Edda. „Þessi stelpa
var tilvalin í þetta verkefni einmitt
af því að hún hefur þúsund andlit.
Þetta gætu verið 96 manneskjur,“
segir Dorothée.
Að sögn Eddu er þetta þriðja sýn-
ing i8 á verkum Roni Horn, en auk
þess kynnir i8 hana á myndlistar-
messum víða erlendis. „Ég met það
mjög mikils að hún skuli treysta
galleríi hér á Íslandi fyrir verkum
sínum og leyfa okkur að kynna sig
erlendis þar sem það eru í raun bara
bestu gallerí í heimi sem fá að sýna
verk hennar. Horn er mjög mikil-
vægur listamaður fyrir i8. Hún teng-
ist Íslandi mjög sterkum böndum og
það er afar mikilvægt að einhver
kynni hana hér á landi og sé alltaf í
sambandi við hana,“ segir Edda.
„Sýning hennar „Þetta er ég, þetta
ert þú“ hefur bara verið sýnd á
tveimur öðrum söfnum áður en hún
kom hingað, þ.e. í Dia-listamiðstöð-
inni í New York 2001 og Fotomuse-
um í Winterthur í Sviss fyrr í sum-
ar,“ segir Dorothée. „Þessi sýning,
þar sem hin mörgu andlit manneskj-
unnar eru til sýnis, á örugglega eftir
að vekja töluverða athygli. Ég gæti
vel trúað því að Íslendingar væru
mjög forvitnir um þetta verk, enda
hér um mjög gott verk að ræða,“
segir Edda og bendir á að von sé á
nokkrum erlendum sýningarstjórum
sem munu skoða sýninguna hér.
„Auk þess er gott að geta sýnt svona
sýningu að sumri til þegar mikið af
ferðafólki er hér á ferð. Við fáum
marga erlenda gesti til landsins sem
fyrst hafa kynnst Íslandi í gegnum
bækur Horn og því má segja að
áhugi hennar dragi athygli að land-
inu. Þannig virka verk hennar óbeint
sem kynning fyrir landið, þó það sé
aldrei markmiðið hjá henni. Raunar
held ég að hún vilji kannski kynna
landið sem minnst, svo Ísland fái að
vera sem mest í friði,“ segir Edda.
Sund Undir stiganum
Í dag opnar jafnframt sýning í
rýminu Undir stiganum. „Hlynur
Hallsson mun opna sýningu sem
hann nefnir „sund – schwimm –
swim“. Yfirleitt eru það ungir og
upprennandi listamenn sem sýna
Undir stiganum, en rýmið heillaði
Hlyn sem fannst skemmtilegt að
hafa sýningu sína þar,“ segir
Dorothée. Samkvæmt upplýsingum
frá Hlyni mun hann m.a. ætla að
spreyja texta á veggina og hengja
upp innrammaða mynd af börnum
sínum í sundi, auk þess sem finna
má skilti með reglum um hvernig
beri að þvo sér áður en farið er í
sund. Báðar sýningarnar opna kl. 17
í dag og standa til 13. september nk.
Mörg andlit manneskjunnar
Morgunblaðið/Einar Falur
Við uppsetningu verksins „Þetta er ég, þetta ert þú“ eftir Roni Horn í i8.
Sýning á ljósmyndum Roni Horn af
síbreytilegum svipbrigðum táningsfrænku
sinnar opnar í i8 í dag. Silja Björk Huldu-
dóttir ræddi við Eddu Jónsdóttur eiganda
og Dorothée Kirch rekstrarstjóra i8.
silja@mbl.is
FYRIR skömmu gerði Fréttablað-
ið almenna skoðanakönnun til að fá
úr því skorið hverjir væru 10 fremstu
listamenn þjóðarinnar í dag. Enginn
myndlistarmaður komst á þennan
lista og í efstu sætum sátu Björk
Guðmundsdóttir og Birgitta Hauk-
dal. Ætti slík niðurstaða að vera
sjokk fyrir íslenskan myndlistar-
heim, en þó fyrirsjáanleg þar sem al-
menningi er yfirleitt ekki kunnugt
um hvað er að gerast í samtímalist-
um. Myndlistarmönnum hefur í raun
aldrei tekist að koma myndlist inn í
hugarfar íslensks samfélags og hefur
hún heldur aldrei náð að festa sér
sess í menningunni eins og t.d. bók-
menntir hafa gert. Myndlistarsýn-
ingar í viðurkenndum sýningarsölum
fyrir samtímalistir eru afar illa sóttar
og virðast ekki koma almenningi
nokkuð við. Mörg myndlistin þarf þó
á slíkum sölum að halda vegna þess
að þeir eru á margan hátt verndað
rými þar sem sýningargestir setja sig
í sérstakar stellingar líkt og þegar
gengið er inn í heilög hús þar sem
menn eru reiðubúnir að vera einir
með sjálfum sér og næra huga og
anda. Nokkuð er þó um myndlistar-
menn sem leita út fyrir hina viðteknu
sýningarsali og inn í samfélagið með
ýmiskonar uppákomum. Einn höfuð-
smiður þessháttar hugsunar er þýski
listamaðurinn Joseph Beuys, sem um
miðja 20. öldina hóf að skapa „fé-
lagslegan skúlptúr“ (Social
sculpture). Beuys vildi gera mynd-
listina að mótandi afli í samfélaginu
og taldi að lýðræði byggt á félagsleg-
um skilningi gæti ekki gengið nema
allir tileinkuðu sér skapandi listræna
hugsun.
Trúarbrögð og pólitík
Snorri Ásmundsson er listamaður
sem gjarnan leitast við að hafa bein
áhrif á samfélagið með opinberum
uppákomum. Hann var einhver eftir-
tektarverðasti myndlistarmaðurinn á
Íslandi í fyrra en hélt þó enga mynd-
listarsýningu í sýningarsal, heldur
var hann með uppákomur sem fjöl-
miðlar voru sérlega ginnkeyptir fyrir
og notaði því ljósvaka og sjónvarps-
stöðvar til að koma gjörningum sín-
um til almennings. Fyrst var það
stofnun VHS-flokksins (Vinstri
hægri snú) og framboð Snorra til
borgarstjóra Reykjavíkur. Slíkir
gjörningar eru reyndar ekki óalgeng-
ir og mörg furðuframboð hafa áður
komið fram í kosningum hérlendis.
Pólitískt framboð er þó leið til að tjá
sig fyrir almenningi og koma skoð-
unum sínum í umræðu. Joseph Beuys
sem dæmi var einn af stofnendum
græningjaflokksins í Þýskalandi, sem
er virkur pólitískur flokkur umhverf-
issinna. Hann stofnaði einnig póli-
tískan flokk fyrir dýr til að leggja
áherslu á dýravernd og reyndi að
koma nokkrum dýrum á þing, en
tókst ekki sem skyldi. Framboð
Snorra snerist þó ekki um svo háleit
markmið heldur snerist það frekar
um Snorra sjálfan. Því var ekki tekið
sérlega alvarlega á meðal almennings
og má jafnframt velta því fyrir sér
hverju listamaðurinn fékk áunnið
með framboðinu. Uppátækið vakti þó
athygli og kom listamanninum á milli
tanna fólksins. Snorri hyggst nú
halda áfram á sömu braut og hefur
lýst sig forsetaefni. Mun hann þá tak-
ast á við ástkæran forseta okkar, Ólaf
Ragnar Grímsson, í kosningum á
næsta ári.
Snorri lætur fleiri þætti íslensks
samfélags skipta sig máli en pólitík-
ina. Trúmálin eru honum ofarlega í
huga og segist hann vera í nánu sam-
bandi við almættið. Hefur hann m.a.
auglýst þjónustu sína undir slagorð-
inu „Snorri leysir vandann“ þar sem
þjáðir geta hringt í síma 9025010 og
hlotið blessun frá Snorra sem með
hjálp æðri máttarvalda, að eigin
sögn, aðstoðar þá við að takast á við
vandamál sín. Kann mörgum að hafa
þótt þessi sjálfskipaði heiðursborgari
Akureyrar fara yfir strikið með þeim
gjörningi, en ekkert uppátæki lista-
mannsins mætti þó jafnharkalegum
viðbrögðum á síðasta ári og sala hans
á aflátsbréfum skömmu fyrir jólin.
Aflátsbréf eru syndaaflausnir sem
hægt er að kaupa af listamanninum.
Segist Snorri hafa leyfi frá almættinu
til að létta syndugum byrðina gegn
gjaldi sem miðaðist við umfang synd-
anna. Fyrirmyndina fékk hann frá
kaþólsku kirkjunni sem lengi vel
seldi þessháttar bréf. Þykja mér af-
látsbréfin þrælgott framtak hjá lista-
manninum. Þau beinast að manni
sjálfum þar sem þau eiga við um
manns eigin duldu syndir og sektir,
en minna jafnframt á græðgi og mis-
notkun valds í Guðs nafni.
Ekki hefur öllum verið ljóst til
þessa að uppákomur Snorra eru
gerðar í nafni myndlistar, en nú hefur
Snorri aðlagað sig viðteknu sýningar-
rými og sett saman einkasýningu í
Kling & Bang galleríi undir yfir-
skriftinni „Til þín“. Um er að ræða
þriggja mínútna myndband sem var
tekið af listamanninum krossfestum
á Seltjarnarnesinu þar sem hann
hangir vanmáttugur í Kristsstell-
ingu, fyrst grátandi í „auðmýkt“ og
síðan skellihlæjandi. Krossi hefur svo
verið komið fyrir í enda sýningarsal-
arins og á veggjum sitt hvorum meg-
in við hann hanga bænir prentaðar á
landslagsmyndir í anda Omega-kyrr-
mynda. Bænirnar eru með óhefð-
bundnu sniði eins og t.d. æðruleysis-
bæn þar sem listamaðurinn biður
Guð um að veita öðrum æðruleysi til
að meðtaka sig (Snorra) eins og hann
er og gefa þeim vísdóm til að kaupa
þá list sem hann skapar. Hvernig svo
sem fólk bregst við þessu uppátæki
listamannsins þá er hann fyrst og
fremst að ögra samfélagslegum og
trúarlegum gildum. Hann leitar á mið
sem kalla á snörp viðbrögð og kannar
um leið mörk náungans og væntan-
lega sín eigin. Gildi og siðfræði ís-
lensks samfélags er eins og hjá öðr-
um samfélögum mótað af
trúarbrögðum og trúarbrögðin eru
svo aftur löguð að samfélaginu. Sýn-
ist mér Snorra vera ljóst þetta sam-
spil samfélags og trúarbragða þar
sem krossfestingarmynd hans hefur
beina tilvísun í íslenska fánann, með
bláan himininn að baki, hvítan kross
og rautt lekandi blóðið.
Fullt af fréttum
Sýningin er einföld í sniðum, húm-
orísk en tilleitin eins og önnur uppá-
tæki hans hafa verið. Vekur afskipta-
leysi fjölmiðla athygli mína. Ekkert á
X-inu, engin fréttaskot í sjónvarpinu,
eða viðtöl í Kastljósi, Íslandi í bítið
o.s.frv. Snorri í augljósu samhengi við
myndlist, þ.e. innan veggja gallerís,
er bersýnilega ekki fréttaefni og því
kem ég aftur að hugmyndinni um
sýningarsalinn sem „verndað“ rými.
Þetta er reyndar bæði kostur og
ókostur við sýningarsali og listasöfn
sem velta má fyrir sér varðandi sýn-
inguna World Press Photo sem nú
stendur yfir í Kringlunni. Sýningin
samanstendur af verðlaunuðum
fréttaljósmyndum í flokki tækni og
vísinda, mannamynda, náttúru og
umhverfis, lista, daglegs lífs, íþrótta,
fréttasagna, almennra frétta og fólks
í fréttum. Þúsundir ef ekki tugþús-
undir manna koma til með að sjá sýn-
inguna eða alltént hluta af henni er
þeir fara í verslunarleiðangur í
Kringluna. Kringlan er því ákjósan-
leg staðsetning ef sóst er eftir mann-
fjölda en sýningaraðstaðan er aftur á
móti afleit. Myndunum er komið fyrir
á milli útsölubása víðsvegar um versl-
unarmiðstöðina á frístandandi veggj-
um sem rétt ramma þær inn. Um-
hverfið er iðandi, fólk þrammandi allt
um kring, hávaði og skvaldur og eng-
in leið að njóta myndanna í næði.
Margar eru myndirnar hreint magn-
aðar og kalla á að maður gefi sér
stund til þess að upplifa myndefnið.
Hér er því spurning hvort „verndað“
sýningarrými væri ekki ákjósanlegri
kostur en verslunarmiðstöð fyrir
þetta alþjóðlega mikils metna sýn-
ingu.
MYNDLIST
Kling & Bang
Snorri Ásmundsson
Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl.
14–18. Sýningu lýkur 4. ágúst.
BLÖNDUÐ TÆKNI Mátturinn og dýrðin
Morgunblaðið/Arnaldur
Michael Amedolia: Náttúran og umhverfi. World press photo í Kringlunni.
Morgunblaðið/Jim Smart
Kross Snorra Ásmundssonar.
Jón B. K. Ransu
Kringlan
World Press Photo
Sýningin er aðgengileg á afgreiðslutíma
Kringlunnar. Henni lýkur 2. ágúst.
FRÉTTALJÓSMYNDIR