Morgunblaðið - 24.02.2004, Side 10

Morgunblaðið - 24.02.2004, Side 10
FRÉTTIR 10 ÞRIÐJUDAGUR 24. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ HALLDÓR Ásgrímsson, utanríkis- ráðherra og starfandi forsætisráð- herra, sagði á Alþingi í gær að ekki væri tímabært að greina frá því eða ákveða með hvaða hætti ríkisstjórnin kæmi endanlega inn í gerð þeirra kjarasamninga, sem nú væri verið að semja um. „Samskipti ríkisstjórnar- innar og aðila vinnumarkaðarins eru í fullkomlega eðlilegum farvegi,“ sagði hann. „Sem betur fer hafa ekki borist nema jákvæðar fréttir af gangi samninganna og eftir því sem ég best veit eru þessir samningar í ágætum farvegi. Það er hins vegar ekki tímabært að greina frá því eða ákveða með hvaða hætti ríkisstjórnin kemur endanlega inn í þessa samn- ingsgerð. Línur þurfa að skýrast bet- ur áður en kemur að því.“ Kom þetta fram í umræðum utan dagskrár um aðkomu ríkisstjórnar- innar að kjarasamningum. Geir H. Haarde fjármálaráðherra ítrekaði í þeim umræðum að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að lögfesta hér skattalækkanir að loknum kjara- samningunum. „Ef það liggur núna fyrir að þeir [kjarasamningarnir] séu að takast á næstu dögum eða vikum verður komið að ríkisstjórninni að skila sínu í þeim efnum en auðvitað verður ekki um þau mál samið við samningaborðið í kjarasamningum, ekkert frekar en ríkisstjórnin getur beitt sér fyrir tiltekinni hækkun lægstu launa. Úr því verða aðilar vinnumarkaðarins sjálfir að greiða þó að ríkisstjórnin fagni því að sjálf- sögðu ef tekst að koma málum þann- ig fyrir að þeir sem minnst bera úr býtum fái mestu kjarabótina í þess- um kjarasamningi.“ Stuðli að friði á vinnumarkaði Atli Gíslason, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, var málshefjandi umræð- unnar. Hann sagði að færa mætti rök fyrir því að ríkisstjórnin hefði með ýmsum aðgerðum gert samningsað- ilum erfitt fyrir um að ná landi í við- ræðum sínum. „Ýmsar álögur hafa verið hækkaðar, nú síðast við af- greiðslu fjárlaga fyrir áramót og oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað tengt loforð sín um skatta- lækkanir frá því fyrir kosningar við væntanlega kjarasamninga. Ríkis- stjórninni ber að skýra stefnu sína þannig að samningsaðilar viti að hverju þeir ganga,“ sagði hann. Atli sagði m.a. brýnt að ríkis- stjórnin gerði grein fyrir afstöðu sinni til hækkunar lægstu launa, þar með talin atvinnuleysislaun og lífeyr- islaun aldraðra og öryrkja frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá sagði hann verkalýðshreyfinguna hljóta að vilja fá skýr svör við því hvað rík- isstjórnin hygðist fyrir í skattamál- um. „Ríkisstjórnin hefur til þessa lagt áherslu á að lækka skatta stór- eigna- og hátekjumanna með niður- fellingu sérstaks eignarskatts, lækk- un eignarskatts og nú síðast með niðurfellingu hátekjuskatts í áföng- um og boðar lækkun erfðafjárskatts. Á sama tíma eru tekjur undir fátækt- armörkum skattlagðar, svo sem at- vinnuleysislaun og lágmarkslífeyris- tekjur aldraðra og öryrkja svo dæmi séu nefnd. Skattleysismörk við álagningu á tekjur árið 2003 miðast við 69.585 kr. mánaðarlaun og hvorki persónuafsláttur né tekjumörk barnabóta og vaxtabóta hafa fylgt verðlagsþróun.“ Halldór Ásgrímsson var til and- svara og sagði í upphafi máls síns að ríkisstjórnin vildi að sjálfsögðu stuðla að því að hér yrði friður á vinnumarkaði og að kjarasamningar myndu nást þannig að stöðugleiki yrði í þjóðfélaginu. „Það er öllum mikilvægt að viðhalda þeim stöðug- leika sem hefur verið hér á undan- förnum árum og aðilar vinnumark- aðarins eru núna að semja um kjör á launamarkaði,“ sagði hann. „Og af því að háttvirtur þingmaður spurði um hækkun lægstu launa er það að sjálfsögðu viðfangsefni aðila vinnu- markaðarins að takast á um hver verður hækkun lægstu launa. Mér er hins vegar fullkunnugt um að á þetta atriði er lögð mikil áhersla sem ég fagna og ég vænti þess að hægt sé að semja um viðsættanlegar tölur í þessu sambandi.“ Ráðherra sagði um skattamál að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að afnema hinn svokallaða hátekju- skatt. „Það er jafnframt stefna rík- isstjórnarinnar að eignarskattur verði afnuminn og það er jafnframt stefna ríkisstjórnarinnar að lækka skattprósentuna verulega og undir- búningur þess máls er í fullum gangi.“ Halldór sagði að Alþýðusam- band Íslands og fulltrúar ríkisstjórn- arinnar hefðu, að ósk ASÍ, átt tvo fundi vegna kjarasamninganna. „Þar hefur fyrst og fremst verið rætt um tvö mál, þ.e. um jöfnun lífeyrisrétt- inda og um atvinnuleysisbætur. Það hafa átt sér stað ágætar viðræður milli fulltrúa ríkisstjórnarinnar og fulltrúa ASÍ um þessi mál og alveg ljóst að ríkisstjórnin fyrir sitt leyti er tilbúin að koma að málum þegar efni standa til, það er ekki komið að því, og reyna að leysa mál eftir því sem svigrúm er til innan marka fjárlaga og stuðla þannig að kjarasamningum sem tryggja vinnufrið í landinu og stöðugleika í efnahagsmálum.“ Verðskuldar ekki traust launamanna Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að ríkis- stjórnin verðskuldaði ekki traust launamanna. „Hún hefur þegar svik- ið mörg þau loforð sem hún gaf og skiptu launamenn ákaflega miklu. Hún lofaði að ná niður atvinnuleysi en ekkert hefur dregið úr því. Hún lofaði að hjálpa efnalitlu fólki með því að hækka húsnæðislánin upp í 18 milljónir króna en hún hefur ekki gert það. Hún lofaði að bæta kjör at- vinnulausra en hún sveik það. Hún lofaði auknum fjárveitingum til ör- yrkja í kosningabaráttunni en hún stóð ekki við þær. Og hún lofaði að lækka skatta um 25 milljarða eins og hæstvirtur utanríkisráðherra og sitj- andi forsætisráðherra var að rifja hér upp en hún efndi það með því að hækka skattana strax í haust.“ Össur sagði í lok ræðunnar að þetta væri ríkisstjórn hinna sviknu loforða. Geir H. Haarde tók næstur til máls og sagði að það lægi í hlutarins eðli að ríkisstjórnin myndi reyna að greiða fyrir gerð kjarasamninga eft- ir því sem í hennar valdi stæði. „Þetta mál er hins vegar það skammt á veg komið að enn hefur ekki á það reynt með hvaða hætti best verður fyrir komið aðkomu ríkisstjórnarinn- ar að því. Vonandi tekst þó að ljúka þessum kjarasamningum innan til- tölulega skamms tíma og þá mun koma í ljós hver aðkoma ríkisstjórn- arinnar verður.“ Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði það al- veg ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum hefði orðið til þess að auka álögur á þá sem hefðu lægstu launin. „Persónuafslátturinn hefur ekki fylgt raungildi launanna sem hefur orðið til þess að þeir sem lægst hafa launin greiða hærri skatta en ella hefði verið. Þarna mun vanta a.m.k. yfir 10 þúsund kr. svo per- sónuafslátturinn haldi því raungildi sem lagt var upp með þegar stað- greiðslukerfið var tekið upp.“ Þing- maður Sjálfstæðisflokks, Einar Odd- ur Kristjánsson, sagðist undir lok umræðunnar taka undir áhyggjur um þróun örorkubóta. „Ég vil taka undir áhyggjur málshefjanda um þróun örorkubótanna og hvernig hinir frjálsu lífeyrissjóðir standa gagnvart henni. Þetta er mjög alvar- legur hlutur og okkur ber að horfast í augu við hann. Enginn má undan líta. Því fyrr sem við horfum til þess, því betra. Þetta er hlutur sem ég held að ríkisvaldið gæti hjálpað til með. Við eigum að skoða það alvarlega.“ Umræður utan dagskrár um aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningunum Skattalækkanir lögfestar að loknum kjara- samningum Morgunblaðið/Árni Sæberg Atli Gíslason, VG, segir að ríkisvaldið þyrfti að koma inn í kjaraviðræðurnar með frumkvæði og hugmyndir. ÞINGMENN gagnrýndu, margir hverjir, á Alþingi í gær bráða- birgðaákvæði í frumvarpi um verndun Mývatns og Láxár í Suð- ur-Þingeyjarsýslu. Umhverfisráð- herra, Siv Friðleifsdóttir, mælti fyrir frumvarpinu síðdegis í gær. Í bráðabirgðaákvæðinu er Umhverf- isstofnun heimilað að veita leyfi fyr- ir hækkun á núverandi stíflu við Laxárvirkjun náist um það sam- komulag milli Landsvirkjunar og Landeigendafélags Laxár og Mý- vatns, að því gefnu að mat á um- hverfisáhrifum hafi farið fram. Steingrímur J. Sigfússon, for- maður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Rannveig Guð- mundsdóttir, þingmaður Samfylk- ingarinnar, voru meðal þeirra þing- manna sem gagnrýndu bráðabirgðaákvæðið. Rannveig sagði ákvæðið koma á óvart. „Með þessu er Alþingi í raun og veru að vísa frá sér frekari ákvarðanatöku á því hvort stíflan verður hækkuð eður ei og setja það í hendur Umhverfisstofnunar. Sam- fylkingin leggst gegn þessu bráða- birgðaákvæði. Við vörum við því að rasað sé um ráð fram með þessum hætti.“ Þá sagði Steingrímur að öll helstu náttúruverndarsamtök á svæðinu sem og á landinu öllu hefðu ályktað gegn bráðabirgða- ákvæðinu. Krafðist hann þess að það yrði tekið úr frumvarpinu. Kristinn gegn ákvæðinu Siv Friðleifsdóttir sagði að bráðabirgðaákvæðið tæki mið af sáttagjörðinni sem ríkisstjórnin gerði við Landeigendafélagið með lögum um vernd Mývatns og Laxár frá árinu 1974. Hún sagði alrangt að halda því fram að frumvarpið bryti gegn þeirri sáttagjörð. „Það er einmitt verið að halda því til haga að ekki er hægt að fara í framkvæmdina nema Landeigend- afélagið fallist á hana,“ ítrekaði ráð- herra. Kristinn H. Gunnarsson, þing- maður Framsóknarflokksins, er meðal þeirra sem eru andvígir ákvæðinu. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að áform væru uppi um það hjá Landsvirkjun að hækka stífluna um tíu til tólf metra. Tilgangur ákvæðisins væri að opna fyrir þá möguleika. „Það þýðir bara mikið lón sem fyllist af sandi. Þetta verður stærsti sandkassi á Íslandi,“ segir hann og ítrekar að náttúru- verndarsjónarmið ráði afstöðu sinni í þessu máli. Hann sagði að Lands- virkjun þyrfti ekki á þessu afli að halda – nóg væri til af rafmagni. „Ég tel að það eigi ekki að hreyfa við Laxárvirkjun heldur leyfa henni að renna sitt skeið.“ Mælt fyrir frumvarpi um verndun Mývatns og Laxár Bráðabirgðaákvæðið harðlega gagnrýnt ALÞINGISMENN minntust Svövu Jakobsdóttur, rithöfund- ar og fyrrverandi alþingis- manns, í upphafi þingfundar á Alþingi í gær. Hún andaðist sl. laugardag, 73 ára að aldri. „Trúnaðarstörf þau, sem Svövu Jakobsdóttur voru falin, eru vísbending um þau mál sem hún lét sig miklu skipta á þeim tæpa áratug sem hún sat á Al- þingi. Það voru jafnréttismál og önnur velferðarmál og mál sem vörðuðu menningu, bók- menntir og listir,“ sagði Hall- dór Blöndal, forseti Alþingis, m.a. í minningarorðum sínum. Að loknum þeim orðum risu al- þingismenn úr sætum og minntust Svövu Jakobsdóttur. Svövu Jakobs- dóttur minnst ÞINGFUNDUR hefst kl. 13.30 í dag. Hefjast þá umræður utan dag- skrár um úthald hafrannsókn- arskipa og hafrannsóknir. Guðjón A. Kristjánsson, Frjálslynda flokkn- um, er málshefjandi. Árni M. Mat- hiesen sjávarútvegsráðherra verð- ur til andsvara. Að þeirri umræðu lokinni heldur áfram umræða um verndun Mývatns og Laxár.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.