Morgunblaðið - 24.02.2004, Blaðsíða 25
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 24. FEBRÚAR 2004 25
Úr söluskrá
1. Lítið og þægilegt innrömmunarfyrirtæki.
2. Skemmtilegar verslanir í Smáralind.
3. Þekkt sportvöruverslun í 101 Reykjavík.
4. Heildverslun með landsþekkt merki. Góð álagning.
5. Ein fallegasta hársnyrtistofa borgarinnar.
6. Stórt bílaverkstæði á Norðausturlandi.
7. Skemmtileg föndurverslun á höfuðborgarsvæðinu.
8, Einstök íþróttavöruverslun í góðu hverfi.
9. Sólbaðstofa á gjafverði.
Höfum trausta kaupendur fyrirtækja á bilinu frá
100 millj. til 3 milljarða.
Fullur trúnaður
fyrirtaeki.is
Nánari upplýsingar aðeins á skrifstofunni.
Einar Örn Reynisson, lögg. fasteignasali.
EKKERT viðfangsefni dregur
eins fram natúralistana í íslensku
leikhúsfólki og sjómannslífið. Í verk-
um Kristjáns Kristjánssonar með
Skagaleikflokknum höfum við séð
lúkar með rennandi vatni og virkri
eldavél til viðbótar við hin lögboðnu
þrengsli, og svo dugði sama hópi
ekkert minna en árabátur á hvolfi í
ískaldri sundlaug til að túlka ör-
væntingu manna í sjávarháska. Í
Brimi er stigið enn eitt skrefið þar
sem veltingurinn bætist við þrengsl-
in og ómannlegan hráslagann sem
lykilatriði í framvindunni. Frábær-
lega hugvitssamleg leikmynd Bark-
ar Jónssonar og Hlyns Kristjáns-
sonar setur svo sannarlega svip sinn
á ferð leikaranna gegnum verkið þar
sem hinn óhrjálegi lúkar hangir í
vírum innan í stálbúri og bregst af
miskunnarleysi náttúruaflanna við
minnstu hreyfingum áhafnarinnar á
ömurlegu línuskipinu sem er vett-
vangur verksins.
Í landi eru flestir skipverja undir-
málsmenn. Sumir eru beinlínis á
mörkum greindarskerðingar en aðr-
ir ramba á brún annarra viður-
kenndra viðmiða um hvað telst í lagi:
berja konuna sína, geta ekki hamið
kynhvötina, eða glíma við sálrænan
fortíðarvanda. Um borð tekst alla
jafnan að viðhalda einhvers konar
ógnarjafnvægi, og hversu ömurlega
mynd sem Jón Atli dregur upp af líf-
inu um borð er ævinlega skýrt að
þessir menn eru enn ráðvilltari í
landi.
Verkið er næsta framvindulaust.
Sterkustu þættir þess eru smá-
smyglisleg samtöl skipverjanna um
ekki neitt og nokkur eintalanna sem
brjóta upp myndina af lífinu um
borð. Þau eru þó vissulega misjöfn
að gæðum og talsverður munur á
hversu miklu lífi leikurunum tekst
að gæða persónurnar. Formið, hin
framvindulitla lýsing aðstæðna, rýr-
ir líka nokkuð möguleika Jóns Atla
til að koma áhorfendum á óvart og
halda þeim við efnið. Það litla sem
finnst af atburðarás og þróun í verk-
inu er lítilfjörlegt og illa byggt. Það
er í lýsingu aðstæðna og persóna
sem styrk höfundarins er að finna.
Jón Atli hefur þrátt fyrir allt eitt-
hvað að segja og hæfileikarnir til að
skila því í texta eru ótvíræðir, þótt ef
til vill hafi hann ekki náð tökum á
öllum tækjunum í brúnni á þeim
flókna listræna frystitogara sem
leikhúsið er.
Mest blómstra þeir leikaranna
sem fá að skapa gróteskustu persón-
urnar. Stjarna sýningarinnar er tví-
mælalaust Ólafur Egill Egilsson
sem hinn félagslega fatlaði Kiddi.
Frábær mannlýsing bæði frá hendi
höfundar og leikara, sem nær þeim
skýrleika í túlkun að vera samtímis
fullkomlega raunsæisleg og glæsi-
lega stílfærð. Gísli Örn Garðarsson
er bæði aumkunarverður og bráð-
hlægilegur sem hinn treggáfaði
Benni kokkur. Af þeim hinum jarð-
bundnari persónum á Ingvar E. Sig-
urðsson einna bestan dag, og nýtur
þar myndugleika síns á sviði sem
vélstjórinn. Björn Hlynur Haralds-
son og Víkingur Kristjánsson eru á
sömu raunsæismiðunum og Ingvar
en ná hvorki að ljá persónum sínum
nægilegan kraft né nægilega skýr
einkenni til að blómstra við hlið
Gísla og Ólafs. Hlutverk Nínu Dagg-
ar Filippusdóttur er eiginlega frekar
vandræðalegt í verkinu og þótt hún
fari lýtalaust með það tekst henni
ekki að breiða yfir hve óþarft það er.
Hafliði Arngrímsson sest í nýjan
stól að þessu sinni, og leikstýrir
sinni fyrstu sýningu í íslensku at-
vinnuleikhúsi. Hann fer að mínu viti
hárrétta leið að verkefninu, leggur
áherslu á sterkan og dálítið grót-
eskan stíl, vinnur vel með klisjuleg
sjómannalög sem varpa skemmti-
legu ljósi á nöturlegan raunveruleik-
ann, og stýrir umferðinni um erfitt
rýmið af næmri tilfinningu fyrir
myndmáli og orkuflæði. Hafliði er
vonandi kominn á bragðið því það er
ljóst að þar fer maður með sterkar
skoðanir og afgerandi leikhússmekk
sem á betur heima á leiksviði en sem
álit á verkum annarra.
Sú ákvörðun Vesturports að
frumsýna Brim utan höfuðborgar-
svæðisins og stefna síðan á leikferð
um landið er aðdáunarverð ný-
breytni í vinnulagi frjálsra leikhópa,
ekki sú fyrsta sem þetta magnaða
leikhús stendur fyrir. Viðbrögð
frumsýningargesta í Vestmannaeyj-
um ættu að staðfesta að það er
hungur eftir slíkum viðburðum og
ekki síður eftir því að lífi íslensks al-
mennings séu gerð skil á leiksviðum
þjóðarinnar. Hér er þörf sem öll
leikhús – og leikskáld – landsins
verða að uppfylla. Annars er eins
gott að pakka bara saman og fara á
sjóinn.
Herbergi í skipi
„Hér er þörf sem öll leikhús – og
leikskáld – landsins verða að upp-
fylla,“ segir m.a. í umsögninni.
LEIKLIST
Vesturport
Höfundur: Jón Atli Jónasson, leikstjóri:
Hafliði Arngrímsson, leikmynd: Börkur
Jónsson og Hlynur Kristjánsson, lýsing:
Björn Kristjánsson, hljóðmynd: Björn
Kristjánsson og Sigurjón Brink. Leikendur:
Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garð-
arsson, Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg
Filippusdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Vík-
ingur Kristjánsson. Vélarsalnum í Vest-
mannaeyjum föstudaginn 20. febrúar.
BRIM
Þorgeir Tryggvason
MÖRG tónskáld hafa sótt inn-
blástur í svokallaða heimstónlist,
þ.e. þjóðlög og tónlistarhefðir fram-
andi menningarsvæða. Íslenski tón-
listararfurinn varð Jóni Leifs að
yrkisefni og í seinni tíð hefur orðið
vart við svipaðar tilhneigingar hjá
mörgum tónskáldum af yngri kyn-
slóðinni. Samstarf ýmissa tónskálda
og Collegium musicum í Skálholti
hefur getið af sér spennandi tónverk
og mér eru ofarlega í huga nokkrar
tónsmíðar Áskels Mássonar, sem
eru ekki aðeins litaðar af þjóðlögum
heldur einnig ásláttartónlist fram-
andi landa.
Í heimi dægurtónlistarinnar hér á
landi kemur forn menningarafur við
sögu af og til; skemmst er að minn-
ast rímnarapps Hilmars Arnar
Hilmarssonar, Steindórs Andersen
og Erps Eyvindarsonar. Margt tón-
listarfólk erlendis hefur sömuleiðis
tekist að bræða skemmtilega saman
ýmiskonar tónlistarstefnur; þar á
meðal er hljómsveit Elias Meiri og
Timnu Brauer, en þau hafa vakið
töluverða athygli fyrir verkefni sem
nefnist Voices for Peace. Þar er um
að ræða tónlist sem grundvallast á
gyðinglegum arfi, en við hana er
bætt músík múslíma og kristinna
manna. Tónlistin er sungin af tveim-
ur kórum og samanstendur annar af
gyðingum en hinn af Palestínumönn-
um. Á tónleikum í Listasafni
Reykjavíkur um helgina gat að
heyra nokkurs konar vasaútgáfu
verkefnisins þar sem Brauer, Meiri
og hljóðfæraleikarar frá Trinidad og
Tyrklandi fluttu þjóðlega tónlist frá
ólíkum menningarsvæðum með
vænum skammti af djassi, flamingó
og öðru. Óhætt er að segja að út-
koman hafi komið verulega á óvart,
eins og fram kemur hér fyrir neðan.
Ólíkir straumar einkenna líka tón-
list samísku söngkonunnar Mari
Boine, en hún hélt einnig tónleika
hér á landi um helgina. Tónlist henn-
ar byggðist á samísku joiki og
sálmasöng, og var krydduð með suð-
ur-amerískum flautuleik, afrískum
ryþma og ýmsu öðru. Sennilega var
rokkið samt mest áberandi hluti
dagskrárinnar.
Þó ég hafi ekki verið hrifinn af
tónleikum Boine var engu að síður
gaman að boðið skyldi vera upp á
svona „öðruvísi“ tónlist hér. Óneit-
anlega var það tilbreyting frá því
sem verið hefur í gangi í tónlistarlíf-
inu undanfarnar vikur. Ég er viss
um að ég er ekki sá eini sem þráir
meira slíkt – helst í allra nánustu
framtíð!
Unaðsfagur söngur
Tónleikar Voices for Peace voru
haldnir í porti Listasafns Reykjavík-
ur á föstudagskvöldið, en fyrir ofan
portið hefur nýlega verið strengdur
dúkur sem er hið ágætasta þak. Auk
Timnu Brauer sem söng, sló trommu
og dansaði, komu fram Elias Meiri
píanóleikari, Yldirim Fakilar slag-
verksleikari og Courtney Jones, en
hann spilaði á hefðbundið trommu-
sett. Þau voru öll klædd í litríka bún-
inga, en Brauer klæddi sig úr og í
gervalla tónleikana og var í viðeig-
andi yfirhöfn þess lands sem tónlist-
in var frá hverju sinni. Eftir hvert
lag klæddi hún gínu á sviðinu í þessi
föt og í lok tónleikanna var gínan
komin í búninga margra mismun-
andi landa. Var það táknrænt fyrir
friðarboðskapinn sem þau Brauer og
Meiri flytja með tónlist sinni.
Nú kunna einhverjir að ætla að
tónleikarnir hafi bara verið sundur-
laus hrærigrautur og furðufatasýn-
ing, en það var öðru nær. Samruni
glitrandi djasspíanóleiks Elias
Meiri, líflegs slagverksleiks Fakilar
og Jones, sönglaga frá Ísrael, Pal-
estínu og úr kristnu handriti frá
þrettándu öld var ótrúlega sannfær-
andi; þrátt fyrir þessar ólíku tónlist-
arstefnur var heildarsvipurinn ein-
staklega sterkur og var útkoman
eftir því frumleg og hrífandi.
Oftar en ekki voru lögin hæg til að
byrja með, en síðan jókst hraðinn
meir og meir uns alger tryllingur
náði yfirhöndinni. Það er gamalt trix
sem hér virkaði vegna þess hversu
samspilið var nákvæmt og söngur-
inn öruggur. Brauer hefur einhverja
fegurstu söngrödd sem ég hef heyrt
í og Meiri er píanósnillingur er lék
sér að hverju sem var. Útsetning
hans á hinu þekkta gyðingalagi
Hava Nagira var með þvílíkum en-
demum að það var eins og Franz
Liszt væri risinn til lífsins á ný sem
djasspíanóleikari, og kristna lagið
sem Brauer söng undir brjálæðis-
legum trommuleik allra á sviðinu
mun aldrei líða mér úr minni. Lag
Súfí-arabanna, sem eru íslamskir
dulhyggjumenn, var sömuleiðis stór-
kostlegt og þegar Brauer dansaði of-
an á einni trommunni í brúðkaups-
lagi frá Úsbekiztan var það svo
tilgerðarlaust, eðlilegt og umfram
allt glæsilegt að áheyrendur tóku
andköf af hrifningu.
Ekki er hægt að ljúka þessari um-
fjöllun án þess að minnast á hljóð-
blöndunina, sem var svo vel heppnuð
að sjaldan hefur annað eins heyrst.
Þetta voru yfirgengilegir tónleikar
og einhverjir þeir bestu sem ég hef
farið á í mörg ár.
Andleg fátækt
Kvöldið eftir var komið að Mari
Boine, sem hélt tónleika í Salnum í
Kópavogi ásamt hljómsveit. Tónmál-
ið var talsvert hefðbundnara en hjá
Brauer og félögum, aðeins einfaldar
laglínur sem voru kryddaðar með
hljómsveitarundirleik. Hljóðfæra-
leikurinn var óttalega ferkantaður,
sömu hendingar og hrynbrot voru
endurtekin aftur og aftur án þess að
nokkur úrvinnsla ætti sér stað, auk
þess sem þreytandi var að heyra
hvert lagið á fætur öðru í moll. Ekk-
ert kom á óvart í músíkinni; stíg-
andin var framkölluð með því að
spila það sama aftur og aftur æ
sterkar, og ef það er ekki andleg fá-
tækt þá veit ég ekki hvað hún er.
Þrátt fyrir þessar takmarkanir
get ég ekki neitað því að tónlistin var
áheyrileg í sjálfu sér; laglínurnar
voru grípandi og Boine söng ágæt-
lega. Hljómsveitarleikurinn var líka
fagmannlegur, fínleg blæbrigði í ró-
legum lögum voru prýðilega útfærð
og mismunandi hljóðfærasamsetn-
ingar komu vel út. Suður-amerískur
flautuleikur, sem kryddaði músíkina
á stöku stað, jaðraði reyndar við að
vera væminn, en kraftmeiri kaflar
tónlistarinnar voru spilaðir af öryggi
og vöktu greinilega aðdáun tónleika-
gesta.
Sjálfsagt fer það eftir smekk
hvort tónlistin „virkaði“ eða ekki.
Persónulega fannst mér hún tilgerð-
arleg, tilbreytingarlaus og drepleið-
inleg, en ef marka má viðtökur
áheyrenda þá var ég greinilega í
miklum minnihluta á tónleikunum,
kannski sá eini sem ekki froðufelldi
af hrifningu þegar rokkið lét sem
hæst. Og þó, gömul hjón á næsta
bekk fyrir framan mig héldu fyrir
eyrun og gengu út áður en tónleik-
arnir voru búnir; sennilega hefði ég
átt að gera slíkt hið sama.
Dansað á trommunni
TÓNLIST
Listasafn Reykjavíkur
Timna Brauer, Elias Meiri og fleiri. Lög frá
ýmsum menningarsvæðum. Föstudagur,
20. febrúar.
VOICES FOR PEACE
Morgunblaðið/Sverrir
Söngkona Voices for Peace, Timna Brauer.
Ljósmynd/Ola Røe
Samíska söngkonan Mari Boine.
Jónas Sen
Salurinn í Kópavogi
Hljómsveitina skipa Roger Ludvigsen,
gítar og slagverk, Svein Schultz, bassi,
Richard Thomas, saxófónn, flauta, slag-
verk og Carlos Zamata Quispe, flauta og
órafmagnaður gítar. Laugardagur, 21.
febrúar.
MARI BOINE ÁSAMT HLJÓMSVEIT