Morgunblaðið - 15.06.2004, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 15.06.2004, Blaðsíða 38
MINNINGAR 38 ÞRIÐJUDAGUR 15. JÚNÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Snorri Lárus Öl-versson var fæddur 14. ágúst 1954. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut. Foreldr- ar hans eru Ölver Þ. Guðnason, f. 1. sept. 1925, og Edda Snorradóttir, f. 12. janúar 1934. Systkini Snorra eru Guðni, f. 7. febrúar 1952, Vil- borg, f. 19. ágúst 1955, Unnur, f. 9. september 1956, og María, f. 22. mars 1958. Snorri var tvígiftur. Fyrri kona hans var Aðalheiður Ingvadóttir frá Keflavík. Þau eignuðust eina dóttur, Eddu, árið 1976. Síðari kona hans var Mich- elle Dunjana, frá Höfðaborg í Suður- Afríku, og með henni eignaðist hann dótturina Andreu Caroline árið 1998. Snorri ólst upp og gekk í barnaskóla á Eskifirði. Síðan lá leiðin í Reykholts- skóla í Borgarfirði, þaðan sem hann út- skrifaðist vorið 1971. Snorri hóf síðan nám í Tónlistarskól- anum í Reykjavík og enn síðar í Fiskvinnsluskóla Íslands. Útför Snorra verður gerð frá Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Fréttin um andlát Snorra bróður míns hinn 7. júní síðastliðinn kom svo sem ekki á óvart. En samt. Snorri hafði barist hetjulegri bar- áttu við krabbamein í fimm ár og sigrast á sjúkdómnum hvað eftir annað. En sumarið 2003 var ljóst orðið að Snorri gat ekki gert sér væntingar um mikið lengra líf nema til kæmi mergskiptaaðgerð sem framkvæma þurfti í Svíþjóð. Leitin að merggjafa stóð ekki lengi yfir því hann var svo heppinn að yngsta systir okkar, María, hafði nákvæmlega það sem hann þurfti á að halda. Því var Snorri bjartsýnn þegar þau systkinin héldu til Stokkhólms í október síðastliðnum þar sem aðgerðin var framkvæmd á sjúkrahúsinu í Huddinge. Lengi vel virtist allt hafa heppn- ast eins og best varð á kosið. Hann var laus við krabbann. En í febrúar síðastliðnum, aðeins þremur dögum áður en hann átti að fljúga heim, bönkuðu ný veikindi á dyrnar. Hann hafði fengið sýkingu sem lagðist hastarlega á lungu hans. Þrátt fyrir bjartsýnina, mikinn vilja og enn meiri baráttu varð Snorri að láta í minni pokann fyrir æðri máttarvöldum. En hann gafst aldrei upp. Snorri var næstelstur í systk- inahópnum sem ólst upp í Sunnu- túni á Eskifirði. Hann var rólegur en fylginn sér og fékk sitt venju- lega fram með sínum hætti. Eitt gott dæmi um viljastyrk Snorra er frá því hann var í kringum tíu ára aldurinn. Hann var frekar feitlag- inn og hljóp ekki ýkja hratt. Það leiddist honum heldur. En hann fann fljótlega ráð við því. Þrátt fyrir að hann hefði óbeit á fótbolta lagði hann það á sig að æfa nánast hvern einasta dag sem viðr- aði þar til aukakílóin höfðu runnið af honum. Frá þeim tíma var hann alla tíð í góðu líkamlegu standi þar til veikindin komu upp árið 1999. Snorri var alla tíð mikill áhuga- maður um tónlist. Í herberginu okkar, á neðri hæðinni heima, var oft rætt um tónlistina og sýndist sitt hverjum. Fyrir bítlaæðið hlust- aði ég á Cliff en Snorri var hrifnari af Fats Domino. Eitt sinn er pabbi kom heim úr siglingu hafði hann keypt gítar handa Snorra. Meira að segja raf- magnsgítar sem ekki voru algengir á Eskifirði í þá daga hjá börnum undir tólf, eins og við sögðum. Snorri var ekki lengi að læra á gít- arinn og varð fljótt mjög liðtækur gítarleikari og kom við sögu í mörgum góðum hljómsveitum í gegnum tíðina. Á skólaárum sínum stundaði Snorri sjómennsku sem síðan varð hans aðalstarf allt þar til veikindin bönkuðu á dyrnar. Fyrstu árin á sjónum var hann á síldarbátum í Norðursjónum og á síldar- og loðnubátum hér heima. Síðar réðst hann til sjós með tengdaföður mín- um, Erlingi Kristjánssyni, á Ársæli Sigurðssyni frá Grindavík. Þeir fylgdust lengi að á ýmsum bátum. En þar kom að Snorra langaði í land. Þá var Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði kominn til sögunnar. Snorra fannst þjóðráð að afla sér menntunar þar. Eftir að hann lauk námi þaðan vann hann við verkstjórn í landi í nokkur ár. En sjómennskan kallaði svo aftur á hann og hann gerðist vinnslustjóri á frystitogurum, lengst af hjá Sjólaskipum í Hafn- arfirði, allt þar til hann varð að hætta störfum af heilsufarsástæð- um. Hvarvetna sem hann var í skiprúmi kom hann sér vel og verk hans vitnuðu um þá kosti sem hann var búinn. Hann var hörkudugleg- ur og góður sjómaður. Snorri var heimsmaður og ferð- aðist mikið þegar hann átti þess kost. Á togaraárunum lá leið hans víða um veröldina. Hann var um tíma við veiðar við Chile og Falk- landseyjar. Seinna lá leið hans til Marokkó, Namibíu og Suður-Afr- íku þar sem hann var búsettur í tvö ár. Snorri var heillaður af náttúru Suður-Afríku og lét sig oft dreyma um að fara þangað aftur. Snorri var tvígiftur og eignaðist tvær dætur, Eddu og Andreu, sem nú er aðeins fimm ára gömul. Þær lifði hann fyrir og talaði gjarnan um hvað hann ætlaði að gera fyrir þær þegar hann væri orðinn frísk- ur. Þær hafa mikið misst við fráfall föður síns og söknuðurinn er mikill. Snorri var ekki bara bróðir minn. Hann var líka einn besti vin- ur minn. Við vorum alla tíð í nánu sambandi og fyrir mér er það enn óraunverulegt að ég geti ekki hringt í Snorra til að fá fréttir frá Íslandi. Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir á nánast öllu sem fór fram í kringum hann og lá sjaldan fast á þeim. En þó hann væri ekki jafn- hrifinn af öllu sagði hann alltaf skemmtilega frá, enda kímnin í góðu lagi til síðustu stundar. Hann var léttur og hress á sunnudeg- inum 6. júní en dó mánudaginn 7. Því er erfitt að að trúa. Ég vil þakka Snorra fyrir sam- fylgdina í næstum fimmtíu ár. Minningarnar eru margar og alltof langt mál að telja þær allar upp. En ég get ekki látið hjá líða að minnast þess hve mikla ræktarsemi Snorri sýndi syni mínum, Ölveri Árna, allt frá því hann fæddist. Samband þeirra var ekki bara frændsemin. Þeir voru líka bestu vinir. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Hér að framan kom ég aðeins inn á knattspyrnuáhuga Snorra sem ekki var fyrirferðarmikill í æsku. Það fór nú aldrei svo að hann kveddi þennan heim án þess að eignast sitt eftirlætis lið. Það var Hammarby í Stokkhólmi. Þegar Snorri lá á Huddinge- sjúkrahúsinu lögðu nefnilega knatt- spyrnumaðurinn Pétur Marteins- son og kona hans Unnur leið sína til hans og buðu honum að koma með sér á leik. Ferðin á völlinn fyllti huga hans af endurnýjaðri lífsgleði. Eftir hvern einasta leik liðsins hafði Snorri samband og ræddi leikinn og auðvitað mest frammistöðu Péturs. Það voru hans sælustu stundir síðustu mánuðina í Svíþjóð. Eins og nærri má geta hefur hin langa lífsbarátta Snorra haft áhrif á alla fjölskylduna okkar. Það hef- ur tekið sinn toll en líka gefið okk- ur ómetanlega staðfestingu á því hve mikilvæg samstaða okkar er. Við erum aldrei ein. Bæði mamma og pabbi dvöldu langdvölum hjá Snorra á sjúkrahúsinu og við sem áttum heimangengt heimsóttum hann þegar hægt var. Við höfum öll fundið hve mik- ilvægt er að eiga fjölskyldu. Nú er fjölskylda okkar farin að týna tölunni en við eigum eftir að sameinast aftur. Þar fer Snorri bróðir fyrir móttökunefndinni. Elsku Edda og Andrea. Við Inga vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Þið eruð báðar bæði greindar og sterkar og þó söknuðurinn sé sár í dag heldur lífið áfram. Minningin um pabba ykkar er besta veganesti sem þið getið fengið á veginum í gegnum lífið. Við vottum ennfremur öllum að- standendum Snorra samúð og þökkum jafnframt öllum sem hjálp- að hafa okkur á þeim erfiðu tímum sem veikindin hrjáðu hann hvað mest. Guðni. Kom þú til mín aftur æskudagur, alltof lengi hef ég saknað þín. Með ljós í hendi, ljúfur, bjartur, fagur, leið þú barnið veginn heim til þín. Í stigum lífsins hætt er við að hrapa þó hafi menn í vöðvum þrek og mátt. Því má ekki trausti þínu tapa, taktu litla drenginn þinn í sátt. (Hafsteinn Stefánsson.) Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sig.) Ég kveð þig, elsku bróðir, Guð geymi þig. Þín Unnur. Gott er sjúkum að sofna, meðan sólin er aftanrjóð, og mjallhvítir svanir syngja sorgblíð vögguljóð. Gott er sjúkum að sofa, meðan sólin í djúpinu er, og ef til vill dreymir þá eitthvað sem enginn í vöku sér. (Davíð Stef.) Snert hörpu mína, himinborna dís, svo hlusti enlgar guðs í Paradís. Við götu mína fann ég fjalarstúf og festi á hann streng og rauðan skúf. Og eins og barnið rís frá svefnsins sæng, eins sigrar lífið fuglsins væng. Er tungan kennir töfra söngs og máls, þá teygir hann sinn hvíta svanaháls. Nú fljúga mínir fuglar, góða dís. Nú fagna englar guðs í Paradís. ( Davíð Stef.) Með sárum söknuði kveð ég kær- an bróður. Guð geymi þig, elsku Snorri minn. Þín Vilborg. Elsku Snorri, ég átti ekki von á að kveðja þig í síðasta skipti þegar ég kvaddi þig í Huddinge í Svíþjóð. Við vorum við bæði óskaplega bjartsýn eftir meðferðina. Allt hafði gengið eins í lygasögu. Þú varst eldhress og dróst mig út í gönguferðir alla daga. Mér þótti of kalt en mótbárur voru kaffærðar í fæðingu og út var haldið og arkað í köldu haustloftinu í sænskum skógi í góðan tíma. En þetta átti eftir að breytast. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að reyna að hjálpa þér og fyrir þær stundir sem við áttum saman bæði hér á Íslandi áður en við fórum út og eins í Svíþjóð. Þar sem ég hef búið erlendis fylgdist ég ekki eins með veikind- um þínum og aðrir og kom mér það því enn frekar á óvart þegar pabbi hringdi og sagði mér frá andláti þínu. Elsku Snorri, þú fórst aldrei troðnar slóðir, varst alltaf með nýj- ar hugmyndir og drauma. Þú elsk- aðir útlönd enda búinn að ferðast víða og búa á nokkrum stöðum. Það var gaman að sjá hvað þú naust þess að ferðast með Eddu og sýna henni dýrðina í útlöndum. Henni verða minningar frá þessum ferðum dýrmætar. Þú náðir líka að fara í langt ferðalag með Andreu litlu Caroline, alla leið til Suður- Afríku og svo ferðuðust þið um Sví- þjóð og til Dunna bróður í Noregi með mömmu í fyrrasumar. Næst ætlaði hún að koma með þér til okkar í Flórída að sjá krókódíla. Þegar ég kom til Íslands í haust sátum við saman fyrir framan tölv- una þína hlustuðum á tónlist sem þú varst að semja og horfðum á myndir af dætrum þínum sem þér þótti svo ofur vænt um og varst svo stoltur af. Þarna voru líka myndir úr ferðalögun og vinnu þinni á framandi slóðum. Þú naust þess að segja mér sögur af þessum stöðum og öllu fókinu sem þú hafðir kynnst. Í dag þykir mér sérstaklega vænt um þann tíma sem ég sat í rúminu mínu við hliðina á þínu rúmi á spítalanum í Huddinge og horfði og hlustaði á þig semja tón- list. Ég mun líka minnast þess þeg- ar þú spilaðir fyrir hjúkrunarfólkið sem alltaf gaf sér tíma til að setjast niður til að hlusta og dást að tón- listinni þinni og leikni með gít- arinn. Elsku Edda mín og Andrea litla, missir okkar allra er mikill en mestur er hann þó fyrir ykkur og mömmu og pabba. „Í hendi Guðs, Drottinn minn og Guð minn, þú gefur lífið og þú einn getur tekið það aftur. Þú hylur það eitt andartak í leyndardómi dauðans til að lyfta því upp í ljósið bjarta, sem eilífu kífi til eilífrar gleði með þér. Lít í náð til mín í sorg minni og söknuði. Lauga sorg mína friði þín- um og blessa minningarnar, jafnt þær björtu og þær sáru. Lát mig treysta því að öll börn þín séu óhult hjá þér. Í Jesú nafni. Amen.“ Þín systir María. Snorri frændi, eins og við bróðir minn kölluðum hann, var einfald- lega maðurinn. Þegar ég heyrði það fyrst að hann hefði greinst með krabba þá var mér vissulega brugðið, því að alltaf virtist allt ein- hvern veginn reddast hjá kallinum – sama hvað dundi á hjá honum. En viti menn, allt kom fyrir ekki. Ég og mín fjölskylda neyddumst til þess að horfa á Snorra deyja hægt og rólega. Manninn sem hafði gefið mér svo mikið. Þegar ég hugsa til baka þá sé ég Snorra alltaf fyrir mér í brúnum leðurjakka, með eldspýtu eða tann- stöngul í munnvikinu, og alltaf sama glottið. Allar hugmyndir sem maður sagði honum, varðandi hvað maður ætlaði að gera í framtíðinni eða hvað maður ætlaði að kaupa sér, hljómuðu vel í hans eyrum. Hann studdi mann alltaf í öllu og fannst einhvern veginn ekkert fá- ránlegt sem maður sagði. Þannig var hann bara. Hikaði aldrei við að gera nokkurn skapaðan hlut og hellti sér út í allt með krafti, sama hvað var. Snorri var hrifsaður frá okkur án þess að nokkur gæti að gert. Þess- um kvensama stuðbolta sem alltaf var til í glens og gaman. Þegar veikindin voru orðin Snorra hvað erfiðust fór hann á spítala í Svíþjóð. Þar var hann í þó nokkra mánuði. Svo var farið að líða á páskana og ég ákvað að eina vitið væri að skella sér út og kíkja á hann. Þetta var orðinn allt of langur tími og ekki veitti honum af stuðningnum. Í Svíþjóð komst ég almennilega að því hversu ofboðs- lega líkir við frændurnir vorum. Báðir höfðum við þann leiðinda- vana að sturta niður áður en við vorum búnir að pissa, báðir höfðum við gaman af því að fá okkur í tönn, báðir þrjóskari en andskotinn, sennilega þeir kærulausustu í fjöl- skyldunni, við skömmuðumst okkar fyrir fæst, tónlist mikilvægasta bensín í lífi okkar beggja og svo að sjálfsögðu þóttumst við báðir alltaf eiga allt það besta. Ég þakka guði fyrir að ég fór út til þess að vera með Snorra í Sví- þjóð. Því aldrei fékk ég leið á að hanga með honum og spjalla við hann. Einnig er ég ævareiður út í þennan blessaða guð, hver sem það er, fyrir að hafa hrifsað hann svona skyndilega frá okkur. Þetta er ein- faldlega ekki sanngjarnt. Ég mun aldrei gleyma þeim áhrifum sem Snorri hafði á líf mitt og öllum þeim innblæstri sem hann veitti mér. Andri Freyr Viðarsson. Snorri frændi er látinn. Eftir baráttu við krabbamein fær hann hvíld. Á meðan ég var inni á spít- alaherbergi hans með fjölskyldu minni, þar sem hann sagði skilið við sitt jarðneska líf, urðu öll þessi mikilvægu augnablik, bæði stór og smá sem ég átti með frænda, ljós- lifandi. Það var eins og hausinn á mér væri með þau í hraðspilun. En samt gat ég upplifað þau uppá nýtt án þess að missa af neinu. Ekkert er mikilvægara en minningarnar um vin okkar Snorra frænda. Ég gleymi t.d. aldrei hlátrinum hans Snorra. Þessi hlýi, rámi og einlægi hlátur. Hlátur sem gat látið hvaða ókunnugu manneskju sem er, líða einsog hún væri heima hjá sér. Hvernig hann skaut tannstönglin- um á milli tannanna (eða „túþpikk“ eins og hann og pabbi kölluðu þá). Rétt eins og Snorri þá er ég sjúkur í músík. Það er að miklu leyti hon- um að kenna af því að hann gaf mér fyrstu Iron Maiden-plötuna mína þegar ég var fimm ára. Eftir það varð ekki aftur snúið. Takk fyrir. Ég gleymi aldrei þegar Snorri spilaði á gítarana sína fyrir mig. Þegar hann tók mig í útreið- artúr. Þegar hann leyfði mér svo oft að gista hjá sér, svo ég gæti leikið mér við Eddu frænku. Þar gátum við horft á „bannaðar innan sextán“ myndir. Rosa spenna. Snorri var ávallt til í allt sem maður stakk upp á og hann var alltaf reiðubúinn til að hjálpa. Meira að segja þegar veikindin voru að gera honum lífið leitt, þá rauk meistarinn til að hjálpa frænda sínum. Þó að hann væri veikburða þá mætti hann á svæðið til að rífa í sundur skáp sem ég átti, setti hann saman aftur og svona í bónus henti hann upp nýju blöndunartæki svo ég gæti þrifið á mér skrokkinn. Móður og másandi (augljóslega þrekaður eftir átökin) brosti kappinn og hló. Það er svo margt sem mig lang- ar að skrifa um Snorra, skrifa til þeirra sem standa honum nálægt en plássið leyfir það ekki. Ég elska þig, frændi. Takk fyrir allt. Hvíl í friði. Birkir Fjalar Viðarsson. Eftir harðvítuga báráttu við erf- iðan sjúkdóm er vinur minn Snorri Ölversson látinn. Það var í Hafn- arfirði fyrir rúmum 20 árum sem kynni okkar Snorra hófust þegar við hófum báðir nám við Fisk- vinnsluskólann. Tókust með okkur Snorra vinabönd sem héldust öll þessi ár þótt stundum liði langur tími á milli þess að við hittumst þegar hann bjó og starfaði erlendis um lengri eða skemmri tíma. Snorri var tónlistarunnandi og lið- tækur ljósmyndari og var það hann sem vakti áhuga minn á ljósmynd- un á þessum tíma. Snorri hafði þroskaðan tónlistarsmekk og hafði ekki mikið álit á léttmeti. Hann var unnandi gamla góða rokksins og spilaði sjálfur á gítar bæði lög eftir helstu gítarsnillinga rokksins og sjálfan sig. Við Snorri vorum eitt sinn, stuttu eftir okkar fyrstu kynni, í London og þræddum plötubúðir þar saman. Sagði hann við mig að hann ætlaði að koma mér í kynni við alla helstu rokkara þess tíma og við afgreiðslukassann í einni plötubúðinni skiptu u.þ.b. 50 stórar vínilplötur um eiganda. SNORRI ÖLVERSSON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.