Morgunblaðið - 18.07.2004, Blaðsíða 16
16 SUNNUDAGUR 18. JÚLÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Gummi Skarp bauð mér far um dag-inn, þegar ég ætlaði í bankann.Hann stoppaði fyrir framanKaupfélagið, og ég uppgötva þeg-ar ég kem inn í bankann að mig
vantar annan svarta fingravettlinginn minn. Ég
sé út um gluggann að hann er á götunni, hafði
dottið þegar ég fór út úr bílnum. „Gréta, vett-
lingurinn þinn er á götunni,“ segir þá Erla, dótt-
ir Ingimars Láka, við mig. „Já, það vill þetta
enginn, ég er búin að stoppa í hann,“ segi ég. Þá
verður henni að orði: „Það veit nú enginn í dag
hvað það er.“
Og Gréta er hjartanlega sammála.
Við sitjum inni í stofu á Laugarvegi 35 á
Siglufirði, þar sem hin síunga kona hefur búið í
50 ár, þar af ein síðastliðin 12 ár, eftir að maður
hennar dó. Hún er eldhress, bæði andlega og
líkamlega, og erfitt að trúa því að hún sé 81 árs.
En það er hún raunar, og kann frá ýmsu að
segja af tímanum fyrir og um miðja 20. öld, þeg-
ar önnur hugsun þurfti að vera í gangi, sökum
allsleysisins.
„Yngsti strákurinn minn er nú orðinn 36 ára
og hann var orðinn a.m.k. 7 ára gamall þegar ég
keypti efni í buxur á hann. Ég saumaði þetta allt
upp úr gömlum pilsum af mér, það nægði síddin
á hann svona lítinn, og buxum af strákunum.
Það telst nú ekki til dyggða í dag að sauma upp
úr gömlu, segi ég. En svona var þetta. Maður
saumaði upp úr gömlu á börnin og ég get alveg
sagt þér það að börnin mín litu ekkert verr út
klæðalega séð en önnur börn þótt ég saumaði
þetta upp úr gömlu, þetta gat litið vel út fyrir
því. Svo man ég eftir því þegar útvíðu buxurnar
voru að koma, þegar Jónas, yngsti sonur minn,
er ekki nema tveggja ára gamall. Við höfðum
keypt jólafötin á eldri strákana í JMJ á Ak-
ureyri og það voru brúnar smáköflóttar buxur
og jakkarnir voru öðruvísi. Ég saumaði svo upp
úr þessu útvíðar buxur á Jónas, ég vissi svo sem
ekkert hvernig ég átti að fara að því, ég hafði
ekkert til að fara eftir en ég byrjaði svona rétt
neðan við hnéð að víkka út og þegar Maddý,
yngsta dóttir mín, kom svo með hann í bæinn í
nýjum útvíðum buxum alveg eins og nýr herra-
maður, þá ætluðu þær alveg að gleypa hann,
stelpurnar, þeim fannst hann svo flottur. Svona
getur maður gert og ég saumaði meira að segja
kápur á stelpurnar meðan þær voru litlar.“
Ytra-Garðshorn í Svarfaðardal
Margrét Arnheiður er ættuð innan úr Svarf-
aðardal, fædd á Ytra-Garðshorni 10. febrúar ár-
ið 1923. Foreldrar hennar voru Árni Valde-
marsson, sem alinn var upp í Dæli í Skíðadal, og
kona hans Steinunn Jóhannesdóttir frá Hær-
ingsstöðum í Svarfaðardal.
„Þetta er í miðsveitinni, eins og við kölluðum
það,“ segir Gréta. „Ytra-Garðshorn er þar og
þar bjó systir hennar mömmu og maðurinn
hennar og annaðhvort hafa þau verið þar í hús-
mennsku, eins og það var kallað, eða bara hún
fæddi mig þar. Ég á eina systur sem er eldri en
ég, Aðalheiði, annars erum við sjö systkinin og
öll á lífi. Hún er fædd 1921 og núna komin á
Dalbæ á Dalvík. Næst mér er Jónína, svo Val-
rós, mamma Árna Steinars, fyrrverandi þing-
manns. Stefán býr í Reykjavík, Halla á Dalvík
og Heiðar í Reykjavík; hann er yngstur. Ég
man eftir okkur á Ytri-Másstöðum í Skíðadal,
það var svona smákot. Svo fluttum við yfir að
Hnjúki, sem er framar í Skíðadalnum og hinum
megin við ána.“
Þegar Gréta var 12 ára var flust út til Dalvík-
ur og þar fermdist hún.
„Það var Stefán á Völlum sem fermdi mig.
Hann var Kristinsson og prestur þarna frá
1901–1941. Ég man vel eftir deginum. Systir
vinkonu minnar, sem dó í fyrra, hafði verið á
Kristneshæli og var svona æðislega flink að
greiða; hún var með gamalt krullujárn og hún
greiddi okkur báðum. Við þurftum að fara
snemma því hún var dálítið lengi að þessu. Við
vorum svo fínar, ég man vel eftir því. En það var
nú engin veisla, svo ég muni. Eitthvað fékk ég
nú samt í fermingargjöf, en man ekki hvað. Villa
frænka, föðursystir Bjarna geimfara, og Bjarki
Elíasar, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í
Reykjavík, við vorum fermd saman. Ég veit um
eina enn, Doddu, hún er orðin sjúklingur held
ég. Hitt er allt farið, ég held við höfum verið 9–
10.
Svo fór maður í skólann á Dalvík, en svo ekki
meira eftir að hann var búinn.“
Eftir það tók alvara lífsins við, eins og títt var
hjá mörgu ungu fólki á þeim árum. Gréta var í
sjávarplássi og því fátt annað í boði en störf því
tengd.
„Nú fór maður að vinna, bæði að vaska salt-
fisk og vera á línunni, beita og stokka upp. Þá
var ekki farið að beita úr haug, eins og er gert
nú. Við beittum á tré, sem kallað var. Það voru
135 krókar á trénu á einum stokk, svo komu lóð-
irnar og það voru ekki nema 100 í þeim og ég
fékk 20 aura fyrir að beita stokkinn og 25 aura
fyrir að stokka upp.
En ég get ómögulega munað hvað við fengum
á tunnuna, fyrst þegar við fórum að salta síld.
Ég byrjaði að salta á Dalvík, um 17 ára gömul.
Við vorum tvær saman með tunnu. Frænka
mín, sem er árinu eldri en ég, var með mér og
mér líkaði það ekki þegar hún var glápandi eitt-
hvað út á sjó, þegar hún átti að vera að skera og
ég var að leggja niður, svo ég skar miklu oftar
og hún lagði niður. Ég var alltaf miklu fljótari að
salta en leggja niður, þegar maður fór að salta
fyrir alvöru einn. En ég var nú samt fljót með
hitt, komst fljótt upp á lagið með það. Ég var
líka metnaðarfull, vildi ekki vera seinust.“
Til Siglufjarðar
Nokkrum árum síðar kemur Gréta til Siglu-
fjarðar, ræður sig á vetrarvertíð á bát, sem er
að róa þaðan; hún var í landi að beita. Umrædd-
ur bátur hét Nói og var frá Dalvík. Þær voru
tvær upp á einn hlut.
„Við gerðum allt sem karlarnir gerðu, nema
að taka á móti bátnum, og við gátum náttúrlega
gert það, og fórum ekki með balana fram. Mér
fannst það nú alltaf svolítið ósanngjarnt. Við
fórum tvisvar hingað, vorum í Hinriksbrakk-
anum í annað skiptið, bjuggum uppi á lofti, og
svo var pláss fyrir beitinguna niðri. Ég var um
tvítugt.
Svo vorum við aftur í Rotterdam, eins og þeir
kölluðu það, rétt hjá þar sem Shell-bryggjan
var þarna niður frá; þetta var lítið hús og við
beittum í smáskúr á bakvið. Þarna kynntist ég
Þórði. Þá var hann í Hrímni, vélstjóri, það var
næsta hús við.“
Og hér er komin skýringin á viðurnefni
Grétu; hún var sumsé og er alla jafna kennd við
eiginmann sinn, Þórð Þórðarson, sem fæddur
var á Siglunesi 14. desember 1921, sonur
hjónanna Þórðar Þórðarsonar vitavarðar,
Brandssonar húsmanns á Kálfsstöðum í Land-
eyjum, og Margrétar Jónsdóttur, Þorlákssonar
bónda á Siglunesi.
Gréta settist að í þessum nyrsta kaupstað á
Íslandi og hefur búið þar alla tíð síðan og er ekki
á förum, segir hvergi betra að vera en á Siglu-
firði. Þau hjón eignuðust sjö börn, sem öll kom-
ust upp. Elst er Sigríður Anna, fædd 1946, næst
Árdís, fædd 1948, þá Þórunn, fædd 1950, svo
Árni Valdimar, fæddur 1954, síðan Þórður,
fæddur 1955, næstyngst Margrét Steinunn,
fædd 1959, og yngstur er Jónas, fæddur 1967.
„Ég var 23 þegar ég átti Siggu og þá fórum
við að búa,“ segir Gréta. „Fyrst þar sem er nú
Túngata 26, í risinu, það var eldhús og eitt her-
bergi. Þarna áttum við heima þar til við fluttum
suður á Laugarveginn, 12. apríl 1954, þannig að
ég er búin að vera í þessu húsi í 50 ár. Við flutt-
um þegar Árni var á 1. ári. Við vorum einu sinni
með kindur í kjallaranum og íslenskar hænur.
Það var býsna algengt að fólk væri með kindur
hjá sér á þessum árum.
Það var allt í lagi, við komumst ágætlega af;
vorum ekki upp á aðra komin. Ég vann ekkert
úti á þessum árum, þegar ég var að eiga krakk-
ana skrapp stundum í síld á næturnar en fór
annars ekki að vinna fyrr en þau voru orðin full-
orðin. Þó þetta væri erfitt áttu þeir Hrímni, Jón
og Þórður, bóndi minn, þar var saltað og fryst
síld fyrir bátana sem lögðu upp frá þeim og þeir
fóru með það heim á haustin. Þórður átti alltaf
bíl, þar til síðustu árin. Dætur mínar sáu ein-
hvern tímann föt sem þær vildu láta skrifa hjá
mér, en ég sagði nei, það kemur að skuldadög-
unum. Við hvöttum þau öll til að læra og öllum
gekk vel í skóla.
Nú, Sigga fór í MA, og í íslensku og grísku í
háskólanum eftir það. Dísa fór suður, fyrst í
Kennaraskólann, svo á Laugarvatn og er
íþróttakennari og rekstrarhagfræðingur í dag.
Hún var skíðadrottning í mörg ár. Þeir hafa nú
aldrei kunnað að meta það Siglfirðingar. Mér er
alveg ósárt um það að þeir skuli ekki eiga marga
afreksmenn núna, þeir kunna aldrei að meta
það. Tóta lauk fiskvinnsluskólanum á Dalvík og
er gæðastjóri hjá Granda. Árni er skipstjóri á
Baldvini Þorsteinssyni á Akureyri, Þórður yf-
irvélstjóri á Mánaberginu frá Ólafsfirði, Maddý
býr í Danmörku og er þar kennari og Jónas er
húsasmiður, kláraði Tækniháskólann um ára-
mótin og er í framhaldsnámi í Danmörku.
Barnabörnin mín eru átján talsins og barna-
barnabörnin sjö.“
Þá og nú
Eins og kom fram hér í upphafi finnst Grétu
dálítið stór munur á gamla tímanum og þeim
nýja, og ekki allt hinum síðarnefnda í vil.
„Mér finnst það alveg skelfilegt í dag eins og
með fjármál og allt það. Það sem krakkar eiga,
dótið sem sonarsynir mínir eiga, báðir níu ára,
þetta eru full herbergi af dóti. Ég er ekki að
segja að þeir leiki sér aldrei að þessu, en svo
verður þessu bara hent. Maður reyndi að gefa
börnunum hluti ef þau langaði í eitthvað. En
þetta er nú fullmikið. Það er allt látið eftir
krökkunum nú til dags, þau þurfa ekki nema að
rétta út höndina, þá fá þau það sem þau vilja.
Í dag er svo margt sem glepur sem var ekki
þegar ég var að ala upp mín börn. Ég var rosa-
lega ströng við þau, þegar ég var að ala þau upp.
Það var hjallur þar sem húsið hans Sverris Jóns
stendur, fiskihjallur sem þeir áttu, og börnin
voru þar oft á kvöldin þegar gott var veður yfir
sumartímann og ég kallaði alltaf í þau kl. níu og
ég er að hugsa um það núna að þetta hefur verið
mjög ósanngjarnt; það var enginn farinn að
kalla á krakkana sína nema ég. En þau komu
Gréta Þórðar heitir ekki Gréta og er ekki heldur Þórðardóttir. En sú mæta kona og skörungur hefur verið kölluð það á Siglufirði alla tíð,
þótt fullt nafn hennar sé Margrét Arnheiður Árnadóttir. Sigurður Ægisson leit inn til hennar á dögunum með ýmsar spurningar í fartesk-
inu, m.a. varðandi dóttur hennar, Sigríði Önnu, sem á haustdögum tekur við embætti umhverfisráðherra landsins af Siv Friðleifsdóttur.
Frá áttræðisafmæli Grétu. Talið frá vinstri. Aftari röð: Þórunn, Þórður, Árni og Jónas. Fremri röð:
Margrét, Árdís, Gréta og Sigríður Anna.
Sjö barna móðir og komin á níræðisaldur. Ótrúlegt en satt. Gréta Þórðar á góðviðrisdegi í Siglufirði, 5. júlí 2004.
Það þýðir ekkert að leggjast í dvala og grenja ofan í klofið á
sér ef eitthvað er að. Það skánar ekkert við það. Ég er búin
að komast að því í gegnum tíðina að það er um að gera að
vera nógu léttlyndur. Það er það sem ræður öllu.
„Stoltust er ég af börnunum“
Ljósmynd/Sigurður Ægisson