Morgunblaðið - 18.07.2004, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 18.07.2004, Blaðsíða 10
10 SUNNUDAGUR 18. JÚLÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ Í fréttum af hvarfi konu á fertugsaldri í Stórholti hefur komið fram að konan hafi kært fyrrverandi sambýlismann sinn fyrir ofbeldi gegn sér um mitt ár í fyrra. Á meðan réttað var í málinu dró aðalvitnið framburð sinn úr lög- regluskýrslu til baka og maðurinn var sýknaður af ákærunni. Nú situr hann í fangelsi grunaður um að eiga aðild að hvarfi konunnar. Ekkert hefur til hennar spurst frá því sunnudaginn 4. júlí. Fréttir af umskurði, nauðgunum, mansali og hvers kyns öðru kynbundnu ofbeldi gegn kon- um berast okkur til eyrna nánast á hverjum degi. Alltof oft bregðumst við því miður við með því að telja sjálfum okkur trú um að frásagn- irnar tengist öðrum fremur fátækum og illa upplýstum samfélögum í fjarlægum löndum. Við höfum tilhneigingu til að loka augunum fyr- ir því að á Íslandi, rétt eins og annars staðar í hinum vestræna heimi, setur „heimilisofbeldi“ smánarblett á velferðarsamfélagið. Umfang heimilisofbeldis bæði á Íslandi og í heiminum öllum kemur flestum á óvart. Al- þjóða heilbrigðisstofnunin telur að 69% kvenna verði fyrir ofbeldi í heiminum öllum. Evr- ópuráðið telur að heimilisofbeldi sé helsta orsök dauða og örkumla kvenna á aldrinum 16 til 44 ára og valdi fleiri dauðsföllum og meira heilsu- leysi en krabbamein og umferðarslys. Andrew R. Klein, virtur bandarískur sér- fræðingur á sviði heimilisofbeldis, segir hlut- fallið nokkuð mismunandi eftir löndum. Erfitt sé að meta hlutfallið í Bandaríkjunum. Hins vegar segi opinberar tölur til um að 1.600 konur látist af völdum heimilisofbeldis á ári hverju. Tíðni manndrápa af völdum heimilisofbeldis fari talsvert eftir byssueign í hverju ríki. Meiri- hluti kvenna í stærstu bandarísku borgunum sæki slysamóttökur sjúkrahúsa vegna áverka af völdum heimilisofbeldis. Svipaðar fréttir berast frá öðrum löndum. José Luis Roderiguez Zapatero, forsætisráð- herra Spánar, var varla sestur í embætti þegar hann boðaði aðgerðir til verndar fórnarlömbum heimilisofbeldis. Yfirvöld segja ofbeldi gegn konum mestu „þjóðarskömm Spánverja“. Við sama tækifæri sagði Jesus Caldera, fé- lagsmálaráðherra Spánar, að nær 600 spænsk- ar konur hefðu dáið af völdum ofbeldis maka eða fyrrverandi maka á síðustu 8 árum. Um 100 þeirra hefðu látist af völdum heimilisofbeldis í fyrra. 14% orðið fyrir líkamlegu ofbeldi Í skýrslu dómsmálaráðherra um meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu frá árinu 1997 kemur fram að heimilisofbeldi sé sjald- gæfara á Íslandi en í ýmsum öðrum löndum, t.a.m. í Bandaríkjunum. Umfangið virðist svip- að og í Danmörku en ekki hafi verið gerðar rannsóknir á tíðni heimilisofbeldis á hinum Norðurlöndunum. Alls sögðust 14% íslenskra kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hendi maka í rannsókn á tíðni heimilisofbeldis á Íslandi árið 1996. Athygli vekur að ekki er getið um andlegt ofbeldi. Sífellt fleiri konur nefna slíkt ofbeldi sem eina af ástæðunum fyrir komu sinni í Kvennaathvarfið samkvæmt ársskýrslu Samtaka um kvennaathvarf fyrir árið 2003. Í kandídatsritgerð Árnínu Steinunnar Krist- jánsdóttur og Sigríðar Hrefnu Hrafnkelsdóttur við lagadeild Háskóla Íslands „Manndráp í ís- lensku samfélagi – dómar hæstaréttar frá 1900–2000“, kemur fram að 32 morð hafi verið framin af ásetningi á Íslandi á síðustu öld. Af þeim hafi aðilar ekki þekkst í 12 tilvika (37%). Aðilar hafi þekkst í 20 tilvika (63%). Karlmenn urðu konum sínum eða fyrrverandi konum sín- um að bana í 6 þessara tilvika. Ekki var þó allt- af um heimilisofbeldi að ræða. Ritgerðin var skrifuð undir stjórn prófessors Ragnheiðar Bragadóttur haustið 2001. Samtök um kvennaathvarf skjóta skjólshúsi yfir konur, veita viðtalsþjónustu og símaráðgjöf í Kvennaathvarfinu í ónafngreindu húsnæði í Reykjavík. Alls fjölgaði komum kvenna úr 55 í 73 og barna úr 41 í 59 börn á milli áranna 2002 og 2003 að því er fram kemur í ársskýrslu sam- takanna. Drífa, fræðslu- og kynningarstýra Kvenna- athvarfsins, minnir á að aðsókn að Kvenna- athvarfinu sé mjög sveiflukennd á milli ára og telur að umræðan í samfélaginu, meðvitund fagaðila um heimilisofbeldi og vitneskja kvenna af þessu úrræði hafi þar mikil áhrif. „Það ber að varast að heimfæra tölur um aðsókn að athvarf- inu á ofbeldi í samfélaginu enda vitum við að við sjáum aðeins toppinn á ísjakanum hverju sinni.“ Sest ofan á þaninn kviðinn Heimilisofbeldi hefst oftast með einhvers konar andlegu ofbeldi, t.d. hótunum, ein- angrun, efnahagslegri- og tilfinningalegri kúg- un ( sjá - www.kvennaathvarf.is). Fjölmörg dæmi eru um að líkamlegt ofbeldi hefjist eða versni þegar konur eru þungaðar. Á fréttavefn- um Guardian Unlimited sagðist 1 af hverjum 6 aðspurðra ljósmæðra í breskri viðhorfskönnun hafa vissu fyrir því að ein eða fleiri þungaðar konur í hennar umsjón hafi búið við heimilis- ofbeldi á meðgöngunni. Karlmennirnir verða afbrýðisamir út í konurnar fyrir þá athygli sem þær fá á meðgöngunni og bregðast við með því að beita þær andlegu og jafnvel líkamlegu of- beldi. Sambýlismaður Mary, 36 ára, sló hana og kýldi áður en hann settist ofan á þaninn kvið hennar að hans sögn til að þrýsta barninu út. „Ofbeldið versnaði eftir því sem leið á með- gönguna,“ segir hún á fréttavefnum. „Hann þoldi ekki hvað ég var feit og auðvitað gerði ég ekki annað en að fitna. Ég var lögð inn á sjúkra- hús og fékk einkastofu til að hvílast betur. Hann barði mig meira að segja í heimsókn- artímunum. Þegar honum var sagt að ég þyrfti að vera lengur á sjúkrahúsinu sagði hann að ég þyrfti að koma heim til að hugsa um hin börnin. Ég held að hann hafi verið verri en venjulega þegar ég var ólétt því að þá vissi hann að hann gat stjórnað mér algjörlega. Hann vissi að ég gat ekki farið neitt – komin 8 mánuði á leið. Hann hafði mig þar sem hann vildi hafa mig.“ Heimilislæknirinn Dawn Harper segir að augu sín hafi opnast þegar komið var með konu til hennar komna 26 vikur á leið með tvö glóð- araugu, marin brjóst og far eftir straujárn á bakinu. „Ég verð að viðurkenna að fram að þeim tíma trúði ég því ranglega eins og fleiri læknar að þungun gæti verið nokkurs konar hvíld fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis,“ er haft eftir Harper. Augnatillit veldur skelfingu „Tvær goðsagnir hafa lengi gengið um út- breiðslu heimilisofbeldis. Annars vegar að heimilisofbeldi sé aðeins að finna meðal fátæk- linga og minnihlutahópa. Hins vegar að heim- ilisofbeldi sé jafn útbreitt meðal allra hópa í samfélaginu. Hvorugt er alfarið rétt,“ segir bandaríski sérfræðingurinn Klein. „Við vitum að heimilisofbeldi er algengara á meðal lægri stétta samfélagsins, þ.e. þeirra fátækustu og verst menntuðu. Engu að síður er staðreynd að heimilisofbeldi fyrirfinnst í öllum þjóðfélags- hópum. Þeir ríku beita oft andlegu ofbeldi í gegnum peningastreymi og eiga oft auðveldara með að leyna því hvað er í gangi vegna þjóð- félagsstöðu sinnar. Talsvert hefur verið fjallað um tengsl áfengisnotkunar og heimilisofbeldis. Áfengisnotkun veldur ekki heimilisofbeldi. Hitt er jafn víst að áfengisnotkun veldur því að of- beldið verður alvarlegra – m.a. þess vegna er mikilvægt að skilorðsfulltrúar ofbeldismann- anna tryggi að þeir neyti ekki áfengis eða ann- arra vímuefna á skilorðstíma.“ Í staðfærðum dönskum bæklingi „Ofbeldi gegn konum“ (VOLD ties ikke ihjel) er m.a. reynt að svara því hvort þolendur heimilis- ofbeldis annars vegar og ofbeldismennirnir hins vegar eigi eitthvað sameiginlegt. Sam- kvæmt niðurstöðum margra rannsókna eru veikt sjálfstraust og hefðbundið viðhorf til kyn- hlutverkanna algengustu sálrænu einkenni kvennanna. Á hinn bóginn er erfitt að fullyrða hvort skortur á sjálfstrausti sé orsök eða afleið- ing, a.m.k. sé því ekki þannig farið að allar kon- ur með veikt sjálfstraust séu þolendur ofbeldis þó þær séu hugsanlega misnotaðar á annan hátt. Í bæklingunum kemur fram að fjölskyldan, sem hugtak og stofnun, hafi yfirleitt mikla þýð- ingu fyrir konurnar. „Líf án fjölskyldu, án eig- inmanns er hreinlega óhugsandi í þeirra aug- um. Tilgangur þeirra í lífinu er að eignast fjölskyldu. Þegar ofbeldi kemur fram í fjöl- skyldunni, hrynur heimur þeirra til grunna. Þær sjá engan annan valkost en fjölskylduna. Möguleiki þeirra felst því annaðhvort í því að eignast nýjan mann, og þar með nýja fjöl- skyldu, eða að loka augunum fyrir því sem hef- ur gerst, afneita því, og láta eins og fjölskyldan þeirra sé „venjuleg“ fjölskylda, eins og þær hafði dreymt um að eignast. Þetta getur varað í mörg ár, jafnvel allt lífið (bls. 31).“ Fram kemur að rannsóknir bendi til að karl- arnir komi oftar en konurnar frá ofbeldisheim- ilum. Einkennin á mönnunum eru yfirleitt sögð vera að þeir hafi veika sjálfsmynd og sálræn vandamál – sem þeir reyni að leyna eða horfast ekki í augu við. Aðferð þessara manna til að komast áfram í lífinu er lýst sem ýktri karl- mennsku, þ.e.a.s. mennirnir stilla sér upp og skýla sér á bak við ýkta útgáfu af karlmennsku- hlutverkinu. Þeir vita allt, kunna allt, enginn á að segja þeim neitt, þeir hafa stjórn á heim- inum, þeir vita hvað þeir vilja, þeir hafa alltaf rétt fyrir sér og þeir kæra sig ekki um mót- mæli. Þeir séu íhaldssamir í skoðunum – eink- um með tilliti til kynhlutverkanna. Klein minnir á að ofbeldismennirnir komi ekki aðeins illa fram við sína nánustu. „Oft gengur þeim illa að lynda við vinnufélagana og margir hafa fengið dóma fyrir annars konar brot áður en þeir eru kærðir fyrir heimilis- ofbeldi. Þeir fara sínu fram og hafa óhemju vald yfir konunum. Ég hef oft orðið vitni að því að ekki þarf nema eitt augnatillit frá mönnunum þar sem þeir sitja handjárnaðir í dómssalnum til að konurnar verði skelfingu lostnar af hræðslu.“ Friðhelgin – takmörkun Í grein undir yfirskriftinni „Heimilisofbeldi er veruleiki margra íslenskra kvenna“ eftir Guðrúnu M. Guðmundsdóttur mannfræðing, í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélags Íslands árið 2001, er haft eftir Ástu Júlíu Arnardóttur, fyrr- verandi starfskonu Kvennaathvarfsins, að heimilisofbeldi þrífist í skjóli friðhelgi einkalífs- ins. Drífa segir að lög um friðhelgi einkalífsins megi ekki vera yfirsterkari vernd þeirra sem verða fyrir heimilisofbeldi. „Að öðru leyti tel ég skilgreiningaratriði hvaða heimildir lögreglan hefur til að stöðva heimilisofbeldi ef grunur leikur á að einhver sé jafnvel í hættu. Þar verða vinnureglurnar að vera skýrari en þær eru í dag.“ Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlög- regluþjónn í Reykjavík, segir að vissulega hafi lögreglan takmarkaðan rétt til að hafa afskipti af fólk í heimahúsum, t.d. í tengslum við heim- ilisofbeldi. „Hins vegar held ég að lög- reglumenn séu almennt mjög vel meðvitaðir um hvenær lögreglunni er heimilt að skerast í leikinn og hvenær ekki. Orðið heimilisofbeldi er hvergi að finna í refsilöggjöfinni. Brot af þessu Heimilisofbeldi – mesta s Morgunblaðið/Árni Torfason Kynbundið ofbeldi gegn konum er útbreiddasta mannréttinda- brot í heiminum. Engu að síður telst til mikilla tíðinda þegar stjórnvöld boða til aðgerða gegn heimilisofbeldi, eins og gert var á Spáni á vordögum. Anna G. Ólafsdóttir velti fyrir sér eðli og umfangi heimilisofbeldis, bæði hér á landi og erlendis. ’Erlendar konur eru háðari mökum sínum en inn-lendar enda er dvalarleyfi þeirra oft bundið við sam- búð, svo ekki sé talað um hversu félagslega og fjár- hagslega háðar þær geta verið. Ef karlmenn beita ofbeldi á annað borð kann slíkt ójafnvægi í sambúð- inni ekki góðri lukku að stýra.‘

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.