Morgunblaðið - 09.11.2004, Blaðsíða 32
32 ÞRIÐJUDAGUR 9. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Pétur Þórssonfæddist á Húsavík
9. júní 1953. Hann lést
á heimili sínu í Kópa-
vogi 1. nóvember síð-
astliðinn. Móðir Pét-
urs er Hilma Hólm-
fríður Sigurðardóttir
húsmóðir, f. á Saurbæ
á Langanesströnd 20.
mars 1920. Foreldrar
hennar voru Guð-
björg Stefanía Þor-
grímsdóttir frá Hró-
arsstöðum í Vopna-
firði, f. 13. september
1888 og Sigurður
Árnason frá Miðfirði á Langanes-
strönd, f. 10. ágúst 1892. Faðir Pét-
urs var Þór Pétursson útgerðar-
maður, f. 21. maí 1904, d. 6. mars
1989. Foreldrar hans voru Pétur
Jónsson, f. í Breiðuvík á Tjörnesi
11. júlí 1871 og Hólmfríður Sigur-
laug Eiríksdóttir, f. að Valakoti í
Blönduhlíð í Skagafirði 1. júlí 1874.
Systkini Péturs eru Guðrún, f. 4.
október 1941, Stefán, f. 27. maí
1945, Hafliði, f. 10. apríl 1949 og
Sigurður, f. 27. apríl 1957.
Hinn 2. desember 1972 kvæntist
Pétur Ásu Birnu Áskelsdóttur, f. 4.
janúar 1952. Þau slitu samvistum.
Dóttir þeirra er Þórný, f. 9. sept-
ember 1972, sam-
býlismaður Baldur
Bragason, sonur
þeirra er Atli Mar.
Pétur var í sambúð
með Margréti Snæs-
dóttur, f. 17. apríl
1964. Börn þeirra eru
Þór, f. 15. desember
1987, Guðrún, f. 2.
febrúar 1989 og Rán,
f. 19. desember 1990.
Eftirlifandi kona
Péturs er Hulda Finn-
bogadóttir, f. 13.
mars 1948. Börn
Huldu eru 1) Gunnar
Smárason, f. 22. maí 1967. Dóttir
hans er Snæfríður. Móðir hennar
er Kristín Ragna Gunnarsdóttir,
þau slitu samvistum. 2) Elín Björg
Smáradóttir, f. 24. júlí 1968. Eig-
inmaður hennar er Hjalti Nielsen,
börn þeirra eru Hrafnhildur Arna
og Hjalti Þór. 3) Hrafnhildur Huld
Smáradóttir, f. 27. mars 1975.
Pétur starfaði lengst af sem sjó-
maður og við útgerð fjölskyldu
sinnar. Hann lærði pípulagnir og
starfaði við það með sjómennsk-
unni, nú síðast eingöngu við þá iðn.
Útför Péturs fer fram frá Kópa-
vogskirkju í dag og hefst athöfnin
klukkan 15.
Elsku pabbi minn er farinn frá okk-
ur.
Ég minnist allra bókanna sem hann
las fyrir mig og ljóðanna sem hann
orti en enginn fékk að sjá. Ég minnist
alls tímans sem hann gaf sér til að
ræða við mig um allt milli himins og
jarðar þegar ég var unglingur og allra
ráðanna sem hann gaf mér. Eitt
þeirra hefur reynst mér afar vel í
stóru sem smáu. Einhverju sinni,
þegar ég bar mig illa, benti hann mér
á að ég hefði alltaf þrjá valkosti; sætta
mig við núverandi aðstæður, breyta
þeim eða einfaldlega yfirgefa þær.
Þannig kenndi hann mér að ég réði
yfir og bar ábyrgð á mínum eigin að-
stæðum. Þakka þér fyrir það pabbi.
Þessar síðustu vikur lífs pabba
míns, eftir að ljóst varð að hann var
heltekinn af banvænum sjúkdómi,
sýndi hann mikla stillingu. Hann lét
hverjum degi nægja sína þjáningu og
kvartaði ekki nema gengið væri hart
eftir því hvernig honum liði. Hvorki
lét hann í ljós beiskju, reiði né sárindi
út guð eða lífið þó að honum hefði ver-
ið skammtaður svo naumur tími.
Sjálfsagt hefur honum þó oft liðið illa
þó ekki segði hann mikið. Ósjálfrátt
kemur í hugann Æðruleysisbæn
Reinholds Niebuhr, bænin sem hann
studdi sig við í lífsins ólgu sjó.
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við
það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að
breyta því sem ég get breytt
og vit til að
greina þar á milli.
Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann
er,
eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa
hann
og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur
í þessu lífi
og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að
eilífðinni kemur.
Amen.
Ég hugsa með trega til allra stund-
anna sem við hefðum notið saman ef
örlögin hefðu ekki ætlað pabba að
ljúka ævinni allt of snemma. Elsku
amma, Hulda, Rán, Guðrún og Þór,
við skulum sameinast í minningunni
um hann.
Þórný Pétursdóttir,
Baldur Már Bragason og
Atli Mar Baldursson.
Móðir mín sagði mér eitt sinn frá
atviki sem átti sér stað í hennar
bernsku. Hún var í heimsókn hjá
ömmu sinni og afa þar sem hún í
barnslegum ærlsagangi braut falleg-
an og ómetanlegan hlut. En í stað
þess að reiðast og syrgja þennan
ómetanlega listmun, sem eflaust
hefðu verið eðlilega viðbrögð flestra,
þá huggaði hún móður mína, leit blíð-
lega á hana og sagði: „Við skulum
aldrei gráta dauða hluti.“ Þessi litla
saga hefur verið mér ákaflega hug-
leikin og ég hef alltaf dáðst að þessum
viðbrögðum ömmu minnar. En sama
hversu mikla virðingu ég hef borið
fyrir persónu hennar, sem einkennd-
ist af hjartahlýju og miklu jafnvægi,
þá hefur mér reynst erfitt að nýta
mér þessa arfleifð hennar í lífinu. Við
erum nefnilega flest of sjálfselsk til að
skilja og hvað þá tileinka okkur slíkar
hugsjónir. Á okkar dögum hentar
best að hugsa fyrst og fremst um
sjálfan sig, þeir sem hugsa of mikið
um hag annarra eiga oft erfitt upp-
dráttar.
Í dag minnist ég vinar míns, vinar
sem grét aldrei dauða hluti og var
meira umhugað um velferð vina og
vandamanna en sína eigin. Í augum
Péturs voru veraldleg gæði til að
gleðja og veita hamingju en ekki upp-
spretta sundrungar og beiskju eins og
svo oft er raunin í okkar harða heimi.
Vegna þessara góðu eiginleika þjáðist
hann oft því góðu fólki reynist oft erf-
itt að fóta sig í samfélagi þar sem
dyggðir á borð við umburðarlyndi og
kærleika eru litnar hornauga og mis-
notaðar til hins ýtrasta.
Ég á eftir að sakna nærveru vinar
sem aldrei var íþyngjandi og þurfandi
heldur eðlileg og gefandi, nærveru
sem róaði mig og huggaði í miskunn-
arleysi hins daglega amsturs. Ég hef
haft það lengi á tilfinningunni að
manneskjum sem manni getur liðið
vel í kringum án orða og einhverra
fyrir fram skilgreindra samskipta fari
fækkandi. Mér leið alltaf vel í kring-
um Pétur og oft best þegar við sátum
saman í hljóði því ekkert er dýrmæt-
ara en að fá að njóta hugsana sinna í
félagsskap fólks sem veitir manni
stuðning með nærveru sinni einni
saman.
Elsku Pétur, við fjölskyldan eigum
eftir að sakna þín mikið. Þær stundir
sem við áttum saman eru okkur ómet-
anlegar og við erum þér þakklát fyrir
að halda alltaf við okkur tryggð, sama
hvernig á stóð. Við gátum alltaf leitað
til þín eftir hjálp og vonum í hjarta
okkar að vinskapur þinn og greiða-
semi í okkar garð hafi að einhverju
leyti verið endurgoldin.
Við viljum votta nánustu ættingj-
um Péturs innilega samúð og vonum
að minning um góðan dreng eigi eftir
að sefa sorg og söknuð með tímanum.
Við vitum það af biturri reynslu að
sorgin deyr aldrei en ást og umhyggja
Péturs í ykkar garð mun lifa áfram og
hlýja ykkur á erfiðum tímum. Nú
mun minningin um góðan eiginmann,
son og pabba hugga ykkur líkt og ást
ykkar huggaði hann á síðustu stund-
um lífsins.
Örlygur Ólafsson, Harpa
Hafliðadóttir og börn.
Ég sit hér og hugleiði, hvað eigi er-
indi í minningargrein um Pétur. Á er-
indi hvað hann var rólegur, yfirveg-
aður og gat séð yfir sviðið, á hverju
sem gekk? Á erindi hve æðrulaus
hann var, fróður, þroskaður, vitur og
gegn? Á erindi til manna hversu
hjálplegur hann var við meðbræður
sína og skeytingarlaus um eigin hag í
því sambandi og kærleikurinn til ann-
arra var honum svo margfalt meira
virði?
Ég vil byrja á að þakka fyrir Pétur.
Þakka móður hans fyrir að eignast
hann og forsjóninni fyrir að ég hafi
eignast hann að vini um nokkur ár, að
vísu alltof fá.
Við Pétur hittumst þegar við vor-
um báðir ungir og að byrja sjálfstætt
líf. Opnir fyrir ýmsu og óráðnir, eins
og oft er með unga menn. Eitthvað
gerðist og við urðum strax vinir og
höfum verið um nærfellt þriggja ára-
tuga skeið.
Menn vita um hringinn, sem er í
tveimur hlutum, Jing og Jang, svo var
með okkur. Pétur dökkur yfirlitum og
fríður, ég ljós og luralegur. Baugur-
inn varð heill, við þurftum ekki að
orða það eða láta uppi með gerðum –
þetta var bara svona. Það er erfitt að
skýra fyrir öðrum en átt hafa hvernig
svona samband verður – það bara er.
Ekki svo að skilja að við höfum ekki
talast við, jú við mösuðum margt en
áheyrendur skildu ekki alltaf, þar
sem setningarnar botnuðust ekki, það
var alger óþarfi, við skildum báðir það
sem hinn vildi og það dugði.
Þegar ég flutti vestur á firði urðu
samverustundirnar stopulli en við
vildum. Þegar við hittumst, fyrir vest-
an eða syðra, hurfu dagarnir, vikurn-
ar, mánuðirnir og árin, allt varð eins
og áður, hringurinn heill. Ekki þurfti
heldur að hjala neitt mikið um það, né
fara fram með látalæti, þetta var bara
svona. Fyrir þetta ber að þakka. Svo
flutti ég aftur á mölina og var þá sem
ég hefði aldrei flækst burt, haldið á
þaðan sem frá var horfið, ekkert eðli-
legra undir sólinni.
Pétur var afskaplega stoltur af
börnunum sínum öllum og gerði sér
títt um velferð þeirra og að þau þrosk-
uðust, sem sjálfstæðastir einstakling-
ar og heilir. Hann lét sér annt um
hvaðeina sem að þeirra vegferð kom
og tróð þær götur, sem með þurfti, til
að svo mætti verða að steinar væru úr
vegi þeirra færðir og þorn úr holdi.
Aðrir áttu auðvitað sinn stað í
hjarta hans og nú, ekki alls fyrir
löngu, mátti sjá á karli að hann var
orðinn sem ungur maður, ástfanginn
upp fyrir haus. Þarna var kominn
maki hans í svo mörgu tilliti að hlýjaði
mér um hjartað, sem vini. Hún Hulda
hans var honum sem sólin er blóminu
og lífið varð nýtt.
Hér er því komið að hringurinn er
brotinn og ég verð að kveðja Pétur
með þeim orðum sem við brúkuðum
svo oft sem kveðju – ,,Hafðu það eins
og þú vilt, vinur minn“ en eins og
þroskaðir menn vita, er vart hægt að
biðja nokkrum betur en svo.
Ég mun síðar ferðast líkt og þú, þá
munum við hittast – hverfa dagarnir,
vikurnar, mánuðirnir, já jafnvel árin,
allt mun heilt og hringurinn fullkom-
inn.
Sorgin vegna fráfalls Péturs er ill-
viðráðanleg ástvinum hans, sár, níst-
andi og áköf.
Þeim sendi ég hugheilar kveðjur
með ósk um að þau hafi lært af Pétri
þroska og æðruleysi til að takast á við
þennan harða veruleika og bið Guð að
leggja líkn með þraut.
Bjarni Kjartansson.
Kvaddur er skólabróðir og vinur
Pétur Þórsson.
Fjarri er galsi og hlátur ungra
manna, að vetri á Hjarðarholtstjörn, í
lopapeysum og hátíska Bítlaáranna
frá Karnabæjarstræti í London rétt
handan við Húsavíkurfjallið.
Pétur var sjarmör þá sem síðar og
hrafnsvart hárið komið úr báðum ætt-
um.
Fjörutíu árum seinna hringir Pétur
og boðar komu sína til mín þar sem ég
var staddur í Reykjahverfi, sunnan
Húsavíkur. Ég bíð hans í hlaðvarp-
anum og ekki líður á löngu þar til
hvellt og taktfast vélarhljóð berst úr
fjarska um kyrrláta sveit og hækkar
eftir því sem mótorhjólið nálgast.
Svartklæddur riddarinn stígur af
vínrauðum Harley Davidson-vélfákn-
um og tekur af sér hjálminn glottandi
og sítt hárið og villt flaksar í golunni
og þau Hulda ganga í hlað. Setið úti í
sumarnóttinni í tímalausum samræð-
um um menn og málefni og Pétur
samur og jafn, hægur, sposkur, at-
hugull, fróður og sérstakur. Eftir
góða endurfundi er Harley Davidson
startað og ekið til norðurs í átt til
Húsavíkur og frændgarðsins, mót
geislum miðnætursólar sem flýtur við
hafsbrún yfir spegilsléttum Skjálf-
anda, austur af Flatey.
Örlygur Hnefill Jónsson.
Það var snemma á mánudagsmorg-
un að Hanna Stína hringdi og sagði
mér að Pétur mágur sinn væri dáinn.
Ég varð orðlaus, því ég gerði mér
ekki grein fyrir því, þó ég vissi af erf-
iðum veikindum hans, að það væri
komið að leiðarlokum.
Svo fóru minningarnar að streyma
í gegnum hugann allt frá bernsku til
unglingsára og þar til við hittumst
síðast fyrir tveim árum á fermingar-
afmæli á Húsavík.
Við bjuggum í sama húsi til sex ára
aldurs, fluttum þá á bakkann með eitt
hús á milli okkar og í gegnum árin
hefur alltaf verið mikill samgangur á
milli fjölskyldna okkar. Sjáfarborg
var mitt annað heimili og svo fullt af
hlýjum minningum, sem ekki verður
rakið hér.
Ofarlega er í huga mér þegar ég
ákvað að ég vildi fara í sveit eitt sum-
ar og Fríða bjargaði því. Pétur, sem
hafði verið í sveit þar, fylgdi mér og
var með mér tvær eða þrjár vikur, því
hann vildi ekki skilja mig eftir eina
hjá ókunnugu fólki og svo var hann
þar að mestu allt sumarið líka.
Við vorum eins og systkini, óað-
skiljanleg í bernsku og alltaf sam-
ferða í skólann og heim aftur.
Pétur var alltaf rólegur og ljúfur
drengur og ég minnist þess ekki að
hann hafi skipt skapi.
Og minningin er sterk þegar við
hittumst heima á Húsavík, vorum að
tínast eitt og eitt og þú komst út í
Sölku og stóðst þar í dyrunum í leð-
urgallanum, hár og grannur með
svarta síða hárið þitt, og þar heyrðist;
hver er þetta? Þá sagði ég, haldið þið
þekkið ekki Pétur Þórs, og hann kom
og settist hjá okkur Stebba. Það var
mikið spjallað og hlegið. Svo þegar við
vorum að fara stóð þetta flotta Harley
Davidson-mótorhjól fyrir utan, sem
hann var á og vakti mikla athygli.
Og svo daginn eftir eins og fyrr,
samferða úr Safnahúsinu og niður á
bakka og svo kom ég við og tók hann
með niður á Gamla bauk og þar var
mikið fjör fram eftir kvöldi.
Guð geymi þig.
Fríða mín, við hjónin vottum þér og
fjölskyldu þinni, innilega samúð okk-
ar.
Þín skólasystir,
Þórdís og fjölskylda.
„Vinur minn er dáinn,“ sagði Hjalti
Þór 5 ára vinum sínum á leikskólan-
um morguninn eftir að Pétur lést.
Þetta lýsir Pétri vel. Hann var vin-
margur og aldur eða staða hafði ekki
áhrif á vináttu hans. Hann ávann sér
traust okkar og vináttu í rólegheit-
unum með góðvild sinni og hjálpsemi.
Við þökkum fyrir vináttu hans, sem
við fengum þó notið allt of stutt.
Elín Smáradóttir
og fjölskylda.
Það væri óskandi að fleiri væru
eins og Pétur. Hann var einn þeirra
sem lærðu af því sem þeir gengu í
gegnum í lífinu. Hann reyndi meira
en margur annar og þeirri visku og
þeim þroska sem hann hafði náð staf-
aði af honum. Þó var hann ekki að
miðla af reynslu sinni og visku óum-
beðinn. Hann var ekki einn þeirra
sem finnst þeir alltaf vera í aðstöðu til
að gefa góð ráð. Hann hafði hins veg-
ar einstakan hæfileika til að skynja
það ef samferðafólk hans hafði þörf
fyrir að tala. Þá hlustaði hann af
þeirri þolinmæði sem fáir hafa til að
bera. Pétur hlustaði. Hann greip ekki
fram í, gaf ekki óumbeðin ráð, þurfti
ekki að koma sínum skoðunum eða
reynslu á framfæri heldur hlustaði í
raun og veru. Það kunna fáir.
Pétur bjó líka yfir einstöku æðru-
leysi og þannig tókst hann á við það
sem lífið lagði á hann. Líka veikindin
sem drógu hann til dauða. Hann talaði
ekki mikið um veikindi sín og kvartaði
ekki. Hann sagðist hafa það ágætt þar
til undir það allra síðasta þrátt fyrir
að það væri deginum ljósara að hann
var sárþjáður. Hann spurði ekki
hvers vegna þetta væri hans hlut-
skipti, hvers vegna lífið væri svo
óréttlátt. Hann vissi sem var að það
stoðar ekki að spyrja slíkra spurn-
inga. Við erum ekki þess megnug að
svara því hvers vegna lífið er stundum
svo ósanngjarnt og til hvers þá að
spyrja? Pétur tók því sem að höndum
bar af æðruleysi sem allir geta tekið
sér til fyrirmyndar.
Þolinmæði, æðruleysi, hæfileiki til
að fyrirgefa og einstök hæfni til að
greina á milli þess sem er rétt og
rangt, án þess þó að láta aðra finna til
þess að ef til vill væri hann eilítið
þroskaðri en við hin, er það sem
stendur upp úr mínum minningum
um Pétur. Og allar eru þær afskap-
lega jákvæðar og góðar. Vonandi
munum við sem eftir sitjum bera
gæfu til þess að læra af Pétri. Von-
andi munu flestir sem hann þekktu
heiðra minningu hans með því að
reyna að læra af því hvernig hann
tókst á við lífið.
Hrafnhildur Huld Smáradóttir.
Kynni okkar við Pétur Þórsson hóf-
ust fyrir rúmum þremur árum, þegar
við tengdumst fjölskylduböndum.
Hann var heillandi maður með blik í
augum, ljúfur og djúpt hugsandi og
það var gott að vera nálægt honum.
Hann var fámáll en hafði ríka kímni-
gáfu og var vel að sér um alla hluti.
Hann hafði ákveðnar skoðanir á
mönnum og málefnum, þótt hann flík-
aði þeim ekki. Að því leyti og mörgu
öðru minnti hann okkur á fólk til
sveita, sem við bæði kynntumst í
Borgarfirði og í Skötufirði við Djúp
fyrir hálfri öld og höfum minnst æ síð-
an.
Hann hafði verið sjómaður og var
kominn af merkum sjómönnum norð-
ur í landi. Fyrir okkur, afkomendur
sjómanna við Ísafjarðardjúp, sem
höfðum enga þekkingu á sjómennsku,
var afskaplega fróðlegt að hlusta á
Pétur tala um lífið á sjónum. Það
leiddi hugann að öfum okkar, sem
báðir voru sjómenn, annar á árabát-
um og hinn á togurum í byrjun 20.
aldarinnar.
Pétur og Hulda keyptu bát og sóttu
sjóinn en það hafði ekki verið gert á
Marbakka síðan önnur hjón, sem hófu
búskap sinn þar fyrir meira en 60 ár-
um, gerðu hið sama.
Í huga okkar er sterk mynd af
Pétri, þar sem hann kemur siglandi á
bátnum sínum eftir fengsæla ferð á
miðin. Það var mikið ævintýri fyrir
börnin, sem heimsóttu ömmu sína á
Marbakka, að fá að fylgjast með út-
gerðinni og taka þátt í henni. Og það
voru fleiri börn sem fylgdust með sjó-
ferðum Huldu og Péturs og kynntust
þannig hlið á lífinu sem þau hefðu
tæpast annars kynnst.
Við vorum viðstödd brúðkaup hans
og Huldu Finnbogadóttur í eldhúsinu
á Marbakka. Við vorum þar tvö ásamt
móður Péturs við fallega og óvenju-
lega athöfn. Hulda las upp bréf til
Péturs og sagði að hann hefði kennt
sér æðruleysi. Það orð lýsir honum
vel.
Við vottum Huldu, Fríðu, börnum
Péturs og systkinum hans dýpstu
samúð okkar. Nú söknum við góðs ná-
granna og vinar.
Sigrún Finnbogadóttir,
Styrmir Gunnarsson.
PÉTUR
ÞÓRSSON
Minningarkort
570 4000
Pantanir á netinu: www.redcross.is
Rauði kross Íslands bregst við neyð jafnt innanlands
sem utan og veitir aðstoð er gerir fólk hæfara til að
takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum.
Þegar á reynir
Rauði kross Íslands