Morgunblaðið - 09.12.2004, Side 28
28 FIMMTUDAGUR 9. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
DAGLEGT LÍF
T
ehús finnast ekki mörg hér á landi
en hin glysgjarna Ingibjörg Grét-
arsdóttir gerði sér lítið fyrir og
opnaði testofuna og verslunina
Frú fiðrildi um síðustu helgi í Ing-
ólfsstræti 8 þar sem Kokka var áður til húsa.
„Ég þurfti að fá útrás fyrir skreytiþörf mína og
rómantík og hér er allt eftir mínum bjarta og
bleika hugsunarhætti, bæði innanstokksmunir
og vörurnar sem ég er með til sölu.“
Ingibjörg segir hugmyndina hafa kviknað í
Danmörku þar sem hún hefur búið undanfarin
þrjú ár. „Þar fór ég reglulega á mjög notalegt
og rómantískt tehús sem heitir TEA TIME.
Þar sátum við vinkonurnar ósjaldan og létum
fara vel um okkur í reykleysinu en ég er ein af
þeim sem njóta þess ekki að sitja í reykmekki
eða reykingalykt á kaffihúsum. Testofan mín
er því algerlega reyklaus og loftið hér alltaf
hreint og ferskt.“
Danir rómantískari en Íslendingar
Rómantíkin er sannarlega í hávegum höfð
hjá Frú fiðrildi, þar sem logar á tugum kerta
og hver einasti hlutur er hlýlegur og andrúms-
loftið líkast því að ganga inn í ævintýri. Ingi-
björg segist alla tíð hafa notið þess að gera fal-
legt í kringum sig en hún hafi líka borið með
sér heim áhrif frá Danmörku. „Lífssýnin og
hvernig heimilin þar eru innréttuð er svo miklu
rómantískara en hér á Íslandi. Hér eru allir
svo uppteknir af hönnun, sem er auðvitað hið
besta mál en stundum verður það svolítið
kuldalegt,“ segir Ingibjörg sem keypti bollana,
könnurnar og húsgögnin sem prýða tehúsið
hennar á antikmörkuðum í Danmörku.
Sætt sítrónusmjör frá Bretunum
Gjafavörurnar sem hún er með til sölu í búð-
inni koma líka flestar frá Danaveldi og þar má
meðal annars finna ullarsokka með ísaum-
uðum pallíettum, litríka gamaldags lampa,
bleik glös, skálar, kertastjaka og allskonar
dúllerí fleira.
Gestir hjá Frú fiðrildi geta valið úr fleiri en
einni tegund af tei til að dreypa á og eins geta
þeir sem vilja fengið kaffi. Meðlætið er nýbak-
aðar skonsur sem hún lætur sérbaka fyrir sig
og best af öllu að smyrja þær með sætu sítr-
ónusmjöri sem er handunnið og kemur frá
Bretlandi. Kökur og annað góðgæti er einnig á
boðstólum fyrir þá sem vilja. Ingibjörg leggur
mikið upp úr persónulegri þjónustu og vill því
hafa testofuna smáa í sniðum svo hún geti sjálf
séð um að dekra við sína gesti.
Spákona, brúðuleikhús og föndur
Skreytiþörf hennar hefur einnig fengið út-
rás í gegnum tíðina í innpökkun og hún býður
sérstaklega upp á slíka þjónustu á testofunni.
„Þetta hugsa ég ekki eingöngu fyrir þá sem
versla hjá mér heldur getur fólk líka komið
með gjafir sem keyptar eru annars staðar og
látið mig pakka þeim inn. Ég hef líka séð um að
skreyta sali fyrir veislur og sú þjónusta er öll-
um opin.“
Hjá Frú fiðrildi verður líka spákona reglu-
lega og einnig ætlar hún að bjóða upp á föndur,
brúðuleikhús og upplestur fyrir börn á sér-
stökum fjölskyldudögum.
En hvaðan kemur nafnið Frú fiðrildi? „Ég er
sjálf svo mikið fiðrildi og ég elska líka fiðrildi.“
TESTOFA | Rómantík, spákonur, innpökkun, gjafavara og kertaljós hjá Frú fiðrildi
Þurfti
útrás fyrir
skreyti-
þörf og
rómantík
Nammigott og hverskonar dúllerí er að finna
á testofunni góðu.
Morgunblaðið/KristinnIngibjörg Grétarsdóttir sem stundum er kennd við bleikt. Alsæl á testofunni sinni sem heitir Frú fiðrildi.
Ekki amalegt að setjast niður hjá Frú fiðrildi
við milda lýsingu með dásamlegt te í fögrum
bolla, sérbakaða skonsu og sætt sítrónusmjör.
Í desember verður afgreiðslutími hjá
Frú fiðrildi sá sami og í verslunum á Lauga-
veginum en annars er hann eftirfarandi:
Þriðjud.–föstud. kl. 12:00–18:00 og á laug-
ardögum kl. 12:00–17:00.
Sími: 551-5155.
khk@mbl.is
JÓLAKORT, poppvélar, gestabækur, krem, skærahulstur, málverk og skartgripir var meðal þess sem konur í leikfimi hjá JSB,
Jazzballettskóla Báru, komu með á aðventuhátíð skólans um síðustu helgi. Þetta er í annað sinn sem konunum var boðið að
koma með það sem þær eru að fást við á hátíðina og sýna gestum. Konurnar tóku lagið með Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og ein kon-
an tók til í geymslunni hjá sér og seldi þeim sem vildu fatnað.
Gíslína Krist-
jánsdóttir fór til
Jótlands fyrir
tveimur árum og
lærði kúnstbród-
erí og hún saum-
ar nú út ótrúlega
fallega nytja-
hluti eins og
hulstur fyrir
skæri og poka
fyrir ávexti. Hún segist sauma út á hverjum degi og það sé
ekkert eins afslappandi.
Morgunblaðið/ÞÖK
Harpa María Gunnlaugs-
dóttir hefur smíðað skart
úr silfri í mörg ár en er ný-
farin að búa til kertastjaka
úr vír. Úr víraflækju býr
hún til nokkurskonar
hreiður fyrir sprittkerti
og svo skreytir hún víra
sem standa útúr hreiðrinu
með perlum eða steinum. Harpa selur muni sína í Listaselinu
á Skólavörðustíg en það reka sex konur sem vinna með ólík
efni. Harpa hannar allt sjálf sem hún smíðar eða vinnur og
fyrir jólin saumar hún töskur og býr til jólakort.
Þegar faðir Filippíu Þóru Guð-
brandsdóttur, Guðbrandur Magn-
ússon, lést fyrir tíu árum hóf hún
að búa til kort í minningu hans en
af honum hafði hún lært skraut-
ritun. Á fyrsta kortið sem hún
gerði ritaði hún Faðir vorið á lat-
ínu. Nú gerir hún kort fyrir allar
kirkjulegar athafnir og einnig
fyrir önnur tækifæri. Á sum kortin vatnslitar hún og draum-
urinn er að geta unnið við skrautritunina.
AÐVENTA
Handlagnar konur í leikfimi