Morgunblaðið - 09.12.2004, Page 44
44 FIMMTUDAGUR 9. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
Þá hefur amma mín
blessunin lokið vegferð
sinni, eftir stutta
sjúkralegu, ég þakka
guði fyrir það.
Fyrstu samfelldu minningar mín-
ar um ömmu eru þegar við bræður
komum norður til Raufarhafnar með
Boddu frænku 28. mars 1969 eftir
þvæling með flugi fyrst til Egils-
staða og þaðan norður. Þá tók hún á
móti okkur með útbreiddan arminn,
og faðmaði okkur að sér, drengina
sína og sitt fólk, og bauð okkur vel-
komin með kynstrin öll af mat og
notalegt heimili. Ég þyrfti ekki að
hafa þetta lengra, því þetta er jú það
viðmót sem einkenndi ömmu, þetta
hlýlega viðmót og endalausa um-
hyggja fyrir sínum afkomendum. En
amma hafði svo margt fleira til
brunns að bera.
Örlögin höguðu því þannig til að
ég ílengdist þarna fyrir norðan og
þetta var mitt æskuheimili, eða
kannski frekjaðist ég bara til að vera
áfram.
Amma gekk mér þarna í móður-
stað. Hún tók við uppeldinu og það
var jú ekkert áhlaupaverk en hún
bætti þessu bara við öll önnur verk
sem hún sinnti. Og þvílík elja, hún
eins og aðrar konur af hennar kyn-
slóð lét sér ekki allt fyrir brjósti
brenna, það var farið á fætur tveim-
ur tímum áður en nokkur annar fór á
fætur, byrjað á að taka til kaffi fyrir
afa og pabba áður en þeir fóru til
vinnu og svo snerist allur dagurinn
um að hafa til mat handa fjölskyld-
unni. Það var bakað, sultað, saltað,
súrsað o.s.frv. Þessu öllu sinnti hún
af stakri prýði ásamt því að sauma
og prjóna föt á mannskapinn. En
þetta var ekki nóg, ef tími gafst til þá
var tekið til starfa fyrir ýmis góð-
gerðar- og líknarmál. Kvenfél. og
verkalýðsfél. voru henni hugleikin
og eru þær ómældar stundirnar sem
hún sinnti störfum fyrir þau félög.
Og ekki hef ég né nokkur annar tölu
á þeim dúkum, peysum, sokkum og
vettlingum sem hún heklaði og
prjónaði. Og eftir langa vinnuviku
lét hún sig ekki muna um að selja
veitingar á dansleik ef svo bar undir.
Þvílíka orku í einni manneskju hef
ég sjaldan eða aldrei séð og er
reyndar til efs að ég sjái nokkurn
tíma framar.
Far í friði mín elskulega amma.
Þinn
Hallur Þorsteinsson yngri.
Hún elsku amma mín er farin frá
okkur.
Minningarnar sem við eigum eru
dýrmætar og við geymum þær hjá
okkur eins og gullmola. Það fyrsta
sem kemur upp í hugann var þegar
ég kynnti Bjarna fyrir ömmu, það
var í fermingarveislunni hans Halls
bróður. Ég sagði við ömmu að þetta
væri Bjarni, amma sagði ekkert,
stóð bara og starði á hann. Kærast-
inn minn sagði ég, þá kom bros á
ömmu því hún hélt ég hefði verið að
meina Bjarna Ara. Amma hélt svo
mikið upp á Bjarna Ara, alveg frá
því hann var unglingur og vann
söngvakeppnina látúnsbarkann.
Þegar ég var að læra hárgreiðslu
fékk ég að æfa mig á ömmu og var
hún alltaf jafn þolinmóð og þakklát.
Hún kenndi mér að prjóna þegar ég
var aðeins fimm ára gömul, ég mun
samt aldrei verða eins klár og hún.
Sæþór Elí fæddist fimm dögum eftir
91 árs afmælið hennar og er afkom-
KRISTÍN
GUNNÞÓRA
HARALDSDÓTTIR
✝ Kristín GunnþóraHaraldsdóttir
fæddist á Grjótnesi á
Melrakkasléttu 20.
október 1913. Hún
lést á Hjúkrunar-
heimilinu Garðvangi
í Garði 23. nóvember
síðastliðinn og fór út-
för hennar fram frá
Útskálakirkju í Garði
1. desember.
andi hennar númer 91.
Þau hittust ekki en ég
mun segja honum frá
henni og hversu yndis-
leg kona hún var.
Amma var svo
ánægð þegar ég sagði
henni að ég vildi vera
húsmóðir og vera
heima hjá börnunum
mínum, þá kom yndis-
legt bros á hana.
Elsku amma mín, þú
hefur unnið mikið verk
hér á jörðu og skilur
eftir þig svo mikið. Ég
er svo þakklát fyrir að
hafa verið hluti af lífi þínu og hreyk-
in af að vera afkomandi þinn. Guð
geymi þig. Þín
Særún Thelma.
Elsku amma mín, núna ert þú far-
in á annað tilverustig og minning-
arnar hrannast upp í huga mér,
minningar um þig, þessa ljúfu konu
sem alltaf var tilbúin að rétta náung-
anum hjálparhönd.
Fyrstu árin mín eru á Raufarhöfn
í húsinu þínu þar sem ég fæddist og
bjó síðar með foreldrum mínum og
systrum á loftinu hjá þér og afa. Þá
var nú stutt að hlaupa niður til
ömmu ef manni leiddist eitthvað, og
alltaf áttir þú tíma aflögu til að
spjalla eða spila að ég tali nú ekki
um veitingarnar sem þú galdraðir
fram úr búrinu þínu, alls konar
kræsingar í marglituðum baukum
sem þú hafðir bakað sjálf (og sagðir
alltaf að þetta væri nú ekki merki-
legt). Og seinni árin eftir að við flutt-
um suður kom ég reglulega norður
til þín í vinnuferðirnar á námsárun-
um mínum og alltaf tókst þú á móti
mér eins og drottningin sjálf væri að
koma í heimsókn; séreldaður matur
og fleira, þú hlakkaðir alltaf jafn
mikið til og ég þegar ég kom. Þú
stóðst eins og herforingi í eldhúsinu
þessa 4–5 daga sem ég stoppaði og
allir kúnnarnir mínir fengu kaffi og
með því áður en þeir fóru til síns
heima. Eftir að þið afi fluttuð suður
hittumst við oftar og þú gast komið á
stofuna til mín og fengið Ásuklipp-
ingu. Þú lagðir alltaf svo mikið upp
úr því að vera vel tilhöfð um hárið.
Elsku amma, takk fyrir allt sem þú
kenndir mér og að deila leyndarmál-
um þínum með mér og ég trúi því að
nú sért þú komin á þann stað þar
sem þér líður vel og þú hafir samein-
ast ástvinum þínum sem luku sínu
hlutverki á undan þér.
Elsku amma hvíl þú í friði. Þín
Ása.
Hún amma er farin til himna og
ætlar að fylgjast með okkur þaðan.
Það sem kemur fyrst upp í huga
mér er þegar við fórum til Ríben
(Raufarhöfn) eins og við sögðum að
heimsækja ömmu og afa. Amma var
alltaf bakandi og eldandi. Hún safn-
aði umbúðum utan af matvælum og
sendi okkur til að geta leikið með
það, það var svo gaman að fá þetta
dót því það var öðruvísi en hérna
fyrir sunnan. Amma var góð kona og
vildi öllum vel, ég heyrði hana aldrei
tala illa um neinn. Ég man bara allt-
af hvað það var gaman að koma til
hennar hvort sem það var á Rauf-
arhöfn, í Silfurtúnið, á Hlévang eða á
Garðvang, alltaf tók hún vel á móti
manni og vildi spjalla um heima og
geima.
Það sem er mér efst í huga núna
er þegar ég fyrir tæpu ári fór að
heimsækja ömmu á Hlévang með
mömmu, Ólu Sól og Elvari eða rétt
fyrir síðustu jól. Mamma fór með
krakkana út í bíl og ég varð eftir og
var að tala við ömmu, þá hélt hún að
núna væri komið að kveðjustund
sinni, og hún var að kveðja mig og ég
hana. Hún sagði mér margt sem
henni lá á hjarta og margt sem hún
sagði að snerti mig mikið og ég hef
hugsa oft til þessa samtals. Við vor-
um þarna að kveðjast þó svo að
kveðjustundin hafi ekki komið fyrr
en ári seinna, þá fannst mér gott að
hafa átt þessa stund með henni
þarna og ég hugsa um það núna hvað
það var gott að kveðja hana svona
vel. Ég veit að við eigum eftir að
hittast aftur og ég veit líka að hún
mun vaka yfir mér ásamt öðrum af-
komendum sínum. Ég veit líka að
núna líður þér betur og ég mun alltaf
hugsa til þín og biðja þig um að leið-
beina mér í gegnum lífið.
Með þessum orðum langar mig að
minnast ömmu minnar.
Góði Guð passaðu hana vel.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
(Vald. Briem.)
Sveinborg Petrína Jensdóttir.
Við viljum í örfáum orðum minn-
ast Kristínar Haraldsdóttur sem
andaðist á Garðvangi þriðjudaginn
23. nóvember. Kristín bjó nánast alla
sína tíð norður á Raufarhöfn ásamt
eiginmanni, Halli Þorsteinssyni
heitnum, og börnum þeirra. Við
minnumst þess sérstaklega hversu
hlýjar og góðar mótökur við fengum
ávallt er við sóttum þau hjón heim á
Raufarhöfn. Kristín veigraði sér
ekki við að elda dýrindis máltíðir
handa þeim gestum er bar að garði
hverju sinni, það var mikið kappsmál
að frá henni færi enginn svangur. Á
efri árum fluttu þau hjón suður með
sjó og settust að í Garðinum til að
vera nær afkomendum sínum. Hinn
30. janúar 1998 andaðist Hallur, eig-
inmaður Kristínar, þar sem mikill
heilsubrestur hafði gert vart við sig.
Síðar sama ár fluttist Kristín á Hlév-
ang, dvalarheimili aldraðra í Kefla-
vík.
Alexander minnist með mikilli
hlýju þeirra stunda sem hann sat
með langömmu sinni á Hlévangi þar
sem þau gátu eytt heilu dagstund-
unum við að spila. Það var áberandi
hversu glöð gamla konan varð í öll
þau skipti sem litli langömmustrák-
urinn kom og skoraði á hana í spil.
Undir það síðasta fluttist Kristín á
Garðvang þar sem heilsu hennar
hafði farið hrakandi, en þar fékk hún
alla þá umönnun sem á þurfti að
halda.
Við kveðjum okkar ástkæru Krist-
ínu með trega í hjarta og biðjum guð
almáttugan að vaka yfir og styrkja
þá aðstandendur sem eftir standa.
Guðmundur Karl Ingvason,
Særún Björg Karlsdóttir,
Alexander Karlsson.
Langamma mín var góð og falleg
kona. Hún hafði einstaka útgeislun
og frá henni stafaði hlýju og mildi.
Það þarf því ekki að koma á óvart að
bóheminn hann Dósi skuli hafa fallið
fyrir henni þegar þau hittust í
Reykjavík. Langamma var frá
Kópaskeri og var við nám í hjúkrun
en hvarf frá þegar hún varð ólétt.
Hún fluttist aftur norður og átti
dóttur sína, ömmu mína. Þar giftist
hún Halli Þorsteinssyni og átti með
honum níu börn, þar af eru sjö á lífi.
Afi Dósi vildi ekki binda sig og það
var tímanna tákn að í óvígðri sam-
búð þótti ótækt að ala upp barn sam-
an. Það voru aðrir tímar minnist ég
að amma Stína hafi sagt. Mig grunar
þó að Dósi hafi allaf verið skotinn í
Stínu. Og þarf engan að undra. Fyr-
ir nokkrum árum hittust amma
Stína og afi Dósi. Þessir gömlu elsk-
endur höfðu þá ekki sést svo árum
skipti. Langafi var orðinn nokkuð
gamall þegar þetta var og hættur að
þekkja flesta. Amma Stína heilsaði
Dósa og sagði svo: Þú manst víst
ekki eftir mér – Jú, jú ég man eftir
þér. Þú ert gamla viðhaldið mitt gall
þá í langafa. Eftir öll árin og þrátt
fyrir gleymsku ellinnar mundi Dósi
enn eftir Stínu.
Langamma mín spurði mig oft
hvort ég væri ekki á leiðinni með að
eignast börn. Hana langaði að verða
langalangamma. Það eru því blendn-
ar tilfinningar að hún skuli falla frá
nú þegar ég á von á mínu fyrsta
barni. Ég er glöð að hún skuli hafa
lifað fréttina af því að von væri á
fjölgun í ættinni en á sama tíma er
ég örlítið döpur að hún skuli ekki lifa
það að hitta nýju manneskjuna. Ég
velti fyrir mér ólíkum aðstæðum
okkar langömmu. Hún neyddist til
að hverfa frá námi þegar hún varð
barnshafandi, flutti aftur í sveitina,
giftist góðum manni, og eignaðist
með honum mörg börn. Í dag þykir
sjálfsagt og eðlilegt að konur eignist
börn á meðan þær eru í námi. Konur
geta aflað sér bæði menntunar og
starfsframa en á sama tíma eignast
börn og fjölskyldu. Langamma mín
hafði rétt fyrir sér, tímarnir hafa
breyst.
Guð blessi minningu ömmu Stínu.
María Heba Þorkelsdóttir.
Hún sefur og hvílist, sem vakti og vann,
sem vildi hið góða og þarfa,
sem annarra farsæld sér ánægju fann
við áreynslu skyldunnar starfa.
Sem kona og móðir hún vakti og vann
og velferðar barnanna gætti,
og hvar sem við bágstadda færi hún fann,
hún fúslega mein þeirra bætti.
Þótt horfinn sé vinur af hérvistar braut,
til heimsvonar æðri vér snúum,
vér samfögnum henni, að sigruð er þraut
og sömu til ferðar oss búum.
(Sigurbjörn Jóhannsson.)
Mig langar til að minnast föður-
systur minnar, Kristínar Gunnþóru
Haraldsdóttur, sem lést hinn 23.
nóv. sl., 91 árs að aldri.
Kristín frænka mín var fulltrúi
þeirrar kynslóðar, sem þurfti
snemma að fara að vinna og bjarga
sér.
Hún var 9 ára þegar móðir hennar
lést og var það hlutskipti systkin-
anna að fara til vandalausra.
Hún var þeirrar gerðar að þau
störf sem vinna þurfti hverju sinni
gekk hún í, hvort heldur þau voru
flokkuð sem kven- eða karlastörf.
Þeir sem minna máttu sín í sam-
félaginu áttu stuðning og hjálpsemi
hennar vísa.
Hún ól upp stóran barnahóp við
aðstæður sem fólk í dag getur tæp-
lega gert sér í hugarlund hvernig
voru.
Auk þess tók hún virkan þátt í fé-
lagsstörfum eins og kvenfélagi og
verkalýðsfélagi og fleiru.
Að leiðarlokum viljum við, ég og
mín fjölskylda, þakka henni alla
elskusemi í okkar garð.
Börnum hennar og fjölskyldum
þeirra sendum við samúðarkveðjur.
Hvíl í friði.
Vigdís Sigurðardóttir.
Geisli bjartur gegnum myrkur skín,
hve gott á sá er þreyttur fær að sofna.
Drottinn mun vaka og vernda börnin þín,
hans viska lætur hjartasárin dofna.
(Áróra Guðmundsdóttir.)
Nú við upphaf aðventu þegar jóla-
ljósin eru tendruð þá slokknaði eitt
skærasta ljósið í lífi mínu, ljós sem
hefur lýst mér frá fæðingu.
Haustið 1955 fæddist lítil stúlka
norður á Raufarhöfn. Í skírn hennar
var henni gefið nafn móður- og föð-
urömmu sinnar.
Litla stúlkan var svo lánsöm að fá
að alast upp hjá móður sinni undir
verndarvæng ömmunnar og var um-
vafin ást þeirra og umhyggju. Frá
fyrstu dögum lífsins þróuðust þau
sérstöku tengsl milli ömmunnar og
litlu stúlkunnar, sem haldist hafa
ávallt síðan.
Amma mín var ekki jafn lánsöm, í
sinni æsku, og ég, því snemma knúði
sorgin dyra hjá henni. Aðeins níu
ára gömul missti hún móður sína. Þá
sorgarsögu sagði hún mér eftir að ég
varð fullorðin. Ég skynjaði þá hve
sorgin var henni enn þung og hve
djúpt hún hafði grafið um sig. Við lát
langömmu minnar leystist fjölskylda
ömmu upp og fóru allir hver í sína
áttina. Amma fór í fóstur hjá hjón-
unum Birni Kristjánssyni og Rann-
veigu Gunnarsdóttur, sem bjuggu í
Útskálum á Kópaskeri. Hún mat það
alltaf mikils við þau og fjölskyldur
þeirra hjóna hve góð þau voru henni.
Eftir að amma hafði lokið skóla-
göngu á Laugum í Reykjadal fór hún
til Reykjavíkur að læra hjúkrunar-
fræði. En dvölin varð styttri en áætl-
að var, aðeins eitt ár, því amma hitti
ungan mann og þau felldu hugi sam-
an. Þessi ungi maður var Dósi afi
minn. Ást þeirra bar ávöxt og fædd-
ist móðir mín í Útskálum á Kópa-
skeri undir verndarvæng fóstru
ömmu. Ömmu þótti afar vænt um
fóstru sína og skírði móður mína í
höfuðið á henni. Ömmu og afa tókst
ekki að rækta sitt samband og því
skildu leiðir þeirra. Þegar móðir mín
var þriggja ára hafði amma kynnst
Halli afa mínum. Þau hófu búskap í
Skinnalóni á Sléttu, örugglega við
erfið skilyrði á þessum hrjóstruga
og harðbýla stað. Árið 1947 brugðu
þau búi í Skinnalóni og fluttust til
Raufarhafnar og bjuggu þar til árs-
ins 1992. Á heimili þeirra ólst ég upp
til sex ára aldurs. Heimilið var
mannmargt, þar var mikill gesta-
gangur og alltaf veitt af mikilli
rausn. Eftir að ég flutti burt stóð
heimili ömmu og Halls afa mér alltaf
opið. Mér er ljúft að minnast þess
hve gott og ánægjulegt var að dvelja
hjá þeim sumarlangt, ýmist við leik
eða störf.
Það voru blendnar tilfinningar hjá
ömmu og afa þegar þau yfirgáfu
Raufarhöfn, þann stað þar sem þau
höfðu eytt bestu árum ævi sinnar, og
hugur þeirra var oft fyrir norðan.
Hallur afi lést í janúar árið 1998
eftir stutta en þunga legu.
Nú þegar leiðir skilja birtast
myndir frá liðnum tíma og hugurinn
hverfur til Raufarhafnar og bernsku
minnar. Litla stúlkan er að flytja úr
Dvergasteini upp í Hverfi „í nýja
húsið“ sem heitir Höfðaborg. Hún
ásamt frænkum sínum er veik og
myndin er skýr. Þær standa á stól-
um við gluggann inni í svefnherbergi
ömmu og afa og fylgjast með þegar
verið er að bera dótið inn. Einn vet-
ur dvelur litla stúlkan með móður
sinni í Reykjavík, þegar hún kemur
aftur til Raufarhafnar man hún
ömmu sína í útidyraganginum með
útbreiddan hlýjan faðminn, faðminn
sem alltaf var svo hlýr og mjúkur.
Litlar frænkur leika sér í teygjutvist
í útidyraganginum heima í Höfða-
borg, önnur svindlar og neitar að
hætta, sú eldri reiðist þegar réttlæt-
inu er ekki framfylgt, nær í sóp og
lemur þá yngri í hausinn. Sú yngri
hleypur öskrandi til ömmu sem er að
salta síld. Það fer ekki framhjá
neimun þegar litla stúlkan kemur
öskrandi niður á síldarplanið. Enn
sér litla stúlkan myndina þegar
amma kemur hlaupandi á móti
henni, því amma sér blóðið sem lek-
ur niður andlit litlu stúlkunnar. Litla
stúlkan segir sína sögu og sú eldri
fær allar skammirnar fyrir að meiða
litlu stúlkuna, sem átti alla sök á ill-
indunum. Þegar litla stúlkan flutti
burt saknaði hún alltaf ömmu sinnar
og skyldmennanna á Raufarhöfn. Já
myndbrotin eru miklu miklu fleiri.
Í perlubandi daganna er alltaf einn
og einn
sem eitthvað sérstakt hefir manni að færa.
Í minningunni ljómar hann sem ekta
eðalsteinn
og angar eins og lambagrasið skæra.
(Áróra Guðmundsdóttir.)
Hún amma mín var svo sannar-
lega ekta eðalsteinn.
Elsku fallega og góða amma mín,
við fráfall þitt dimmir í huga mínum
en um leið er ég þakklát fyrir að hafa
haft þig svo lengi. Ég er þakklát fyr-
ir að hafa komið til þín síðasta af-
mælisdaginn þinn í þessari jarðvist.
Þann dag varstu svo hress og ánægð
að mér datt ekki í hug að þú værir á
förum. Enn þakklátari er ég fyrir
síðustu stundina okkar saman, þeg-
ar ég sat við dánarbeð þinn, eina af
síðustu nóttunum þínum, hélt í hlýja
höndina þína og við áttum okkar síð-
asta samtal.
Amma mín, við Þorkell og börnin
okkar þökkum þér allt sem þú varst
okkur og biðjum góðan Guð að
vernda þig og leiða í nýjum heim-
kynnum. Minningin um þig lifir með
okkur alla tíð.
Ég elska þig alltaf og hugsa til
þín, þú varst önnur af stóru kon-
unum í lífi litlu stúlkunnar. Öll mín
ástúð og allt mitt þakklæti fylgi þér.
Vertu ávallt Guði falin.
Þín elskandi
Þóra Fríða.