Morgunblaðið - 07.05.2005, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 07.05.2005, Blaðsíða 34
34 LAUGARDAGUR 7. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Ragnar Þór Jör-undsson fæddist á Hellu í Steingríms- firði 29. júlí 1924. Hann lést á Hjúkrun- arheimilinu Lundi á Hellu á Rangárvöll- um 2. maí síðastlið- inn. Foreldrar hans voru Elín Sigríður Lárusdóttir húsmóð- ir, frá Álftagróf í Mýrdal, f. 5. janúar 1900, d. 26. febrúar 1983, og Jörundur Gestsson, bóndi á Hellu, bátasmiður og hreppstjóri, f. 13. maí 1900, d. 29. september 1989. Systkini Ragnars eru: Ingimundur Gunnar (látinn), Lárus Örn, Guðfinna Erla,Vígþór Hrafn og Guðlaugur Heiðar. Hálf- bróðir samfeðra Magnús Gunnar (látinn) og fóstursystir Elenóra (látin). Ragnar kvæntist Öllu Árdísi Al- exandersdóttur, þau slitu samvist- um. Dóttir Öllu, María, er kjör- dóttir Ragnars. Þau Alla Árdís eignuðust dótturina Elínu Sigríði Ragnarsdóttir, f. 10. febrúar 1963, sem ólst upp hjá föður sín- um. Dóttir hennar er Guðrún Guð- laug Þorgrímsdóttir, f. 27. desem- ber 1984, dóttir hennar og Árna E. Harðarsonar er Snædís Birna, f. 14. febrúar 2001. Elín giftist 26. des- ember 1997 Stefáni Óskarssyni, f. 21. janúar 1964, sonur þeirra er Óskar Már, f. 18. september 1997. Ragnar ólst upp á myndar- og menn- ingarheimili for- eldra sinna á Hellu í Steingrímsfirði í stórum systkinahópi. Ragnar hlaut almenna menntun, hneigðist snemma til búskaparstarfa og tók við búi af föður sínum 1964 og var bóndi á Hellu fram til ársins 1986 er dóttir hans Elín tók við búinu. Ragnar var mikill hagleiksmaður og góður bátasmiður. Hann flutti með dóttur sinni og tengdasyni að Skipagerði II í Vestur-Landeyjum 1996, en árið 2000 hafði heilsu hans hrakað og fluttist hann því á Hjúkrunarheimilið Lund. Ragnar verður jarðsunginn frá Akureyjarkirkju í Vestur-Land- eyjum í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Þungt er að skilja. Skapadægur skáru bönd, benjar vöktu. Bliknar rós við reiðarslag. Þraut sár þeim er syrgja. Hug hefjum hæða til. Yljar sólarsýn. Ódáins akurlönd rósar rót hlúir. Mikla stund mikillar sorgar. Moldar til mold hnígur. Mesta stund mestrar gleði ljóshaf ljós heimtir. Vakir of vonum manna alvalds náð undursamleg. Lítur allt lifandi og dautt ljósi ljósvakans. Hryggðin hjartað sker. Huggun hug friðar. Kærleikur kristins manns gleymir gröf og dauða. (Jör. Gestsson frá Hellu.) Biðjum Guð að blessa minningu Ragnars Þórs Jörundssonar og þökkum fyrir allt sem hann var okk- ur. Guðrún og Guðlaugur (Bíbí og Laugi). Afi minn. Fyrsta myndin sem kemur upp í hugann er af sterk- byggðum manni í köflóttri skyrtu að leggja kapal við eldhúsborðið og hlusta á hádegisfréttirnar. Við hlið hans situr á stól lítill, þrílitur minka- hundur og bíður í ofvæni eftir að afi gefi sér eins og einn sykurmola. Heimsins bestu félagar, afi og Snúð- ur. Þegar ég hugsa til baka og reyni að finna orð til að lýsa honum Ragga afa mínum detta mér bara í hug lýs- ingarorð í efsta stigi; bjartasta bros- ið, hlýjasta faðmlagið, sterkasta höndin, stærsta hjartað. Besti afinn. Afinn sem alltaf átti knús til að deila ef þess var þörf og koss á bágtið, hversu lítið sem það var. Afi var ekki stærstur manna í hinum efnislega heimi, enda mat hann það ekki svo að slíkt væri nauðsynlegt. Hann var aftur á móti maður sterkra tilfinn- inga og skoðana og hafi eitthvað upp á vantað í hans lífi hvað efnislega hluti varðaði, bætti hann það upp með sínum einstaka persónuleika. Hugurinn reikar aftur til sex ára aldurs þegar lítill telpuhnokki með krullað hár lagði hönd sína í lófa hans og sagðist ætla að verða eins og hann einhvern daginn. Nei, elskan mín, svaraði hann; vertu bara ná- kvæmlega eins og þú ert. Ég hyggst taka þessum ráðleggingum hans afa míns, enda vissi hann sem var, að maðurinn skyldi ekki mældur af því sem hann á, heldur því sem hann er. Nú þegar stærsta hjarta besta afans slær ekki meir, langar mig að kveðja hann með einni af fyrstu bænunum sem hann kenndi mér. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson.) Góða nótt, elsku afi minn. Við sjáumst aftur einhvern morguninn. Þín Guðrún (Gulla). Nú ertu laus við þjáning og þraut og þreytu við lífsins róður. Við glaum og gleði best þín naut og blessun Guðs að góðu hlaut. Guð blessi minn góða bróður (Lárus Jör.) Ragnhildur og Lárus. Nú í maíbyrjun þegar farfuglar eru flestir komnir til landsins, æð- urin lónir í kringum hólma og sker á Hellu í Steingrímsfirði og krían komin í varðstöðu sína við Höfðann er hann Raggi minn, síðasti bóndinn á Hellu, fallinn frá eftir langa og erf- iða glímu við Elli kerlingu. Snemma á lífsleiðinni leit ég mjög upp til þessa síkáta frænda míns með stóru hendurnar sínar og hlýja hjartað enda var það svo að börn og ungmenni löðuðust mjög að Ragga, enda kunni hann vel þá list að koma fram við smáfólkið sem jafningja sína og vini. Við Raggi áttum margt spjallið saman um lífið og tilveruna eftir að ég fór að fara til hans sem vikapiltur á sumrum og var þá pólitíkin tekin með morgunmjöltunum og knatt- spyrnan með kvöldmjöltunum og stóð þá Raggi jafnan með sínum mönnum í gegnum þykkt og þunnt og var engin lognmolla í kringum skoðanir hans á hlutunum. Raggi hafði gjarnan þann sið þegar hann vakti mig á morgnana að byrja á því að segja mér einhver stórtíðindi úr sjöfréttunum með sínum eigin skýr- ingum og man maður marga stór- viðburði frá sjöunda og áttunda ára- tugnum af frásögn hans. Raggi hafði alveg einstaka frásagnargáfu og voru sögurnar þá jafnan sagðar með tilheyrandi eftirhermum og lát- bragði og oftar en ekki var það svo að þeir sem á hlýddu veltust um af hlátri og fannst undirrituðum eftir að fullorðisaldri var náð eiginlega fátt betra í amstri og firringu hvers- dagsins en að fara norður að Hellu og hlæja með honum Ragga í svo sem eins og eina kvöldstund, enda var hann þannig maður, uppfullur af húmor og gleði þótt oft gæfi á bát- inn. Hann hafði unun af fegurri hliðum mannlífsins, svo sem tónlist, enda oft raulandi og flautandi lagstúf fyr- ir munni sér og íþróttamót eða kapp- leik á Ströndum lét hann aldrei framhjá sér fara og hafði sig þá mjög í frammi enda var Raggi fé- lagsvera og hafði gaman af því að vera innan um fólk og spjalla við fólk, þó er ég ekki frá því að dýrin hafi ekki skipað minni sess hjá hon- um en mannfólkið. Enda vék hann jafnan einhverjum fallegum orðum að þessum vinum sínum þegar færi gafst, sel í sjó eða kind á fjalli, og þótti svo vænt um heimalningana sína að helst mátti ekki flytja þá í sláturhús að hausti. Eins var alltaf skemmtileg sjón að sjá þá félaga Ragga og hundinn Snúð sem fylgdi honum hvert fótmál síðustu árin á Hellu og gerði ýmsar hundakúnstir fyrir húsbónda sinn. Þegar Raggi tók við búi af for- eldrum sínum um miðjan sjöunda áratuginn, eftir nokkurra ára dvöl í Reykjavík, voru uppgangstímar í búskap á Ströndum, menn fullir af bjartsýni og eftirvæntingu um fram- tíðina þrátt fyrir eilífa baráttu við náttúruöflin. Þar tók Raggi strax til óspilltra málanna að rækta tún, byggja upp, vélvæða og fjölga fénu við erfið skilyrði því þrátt fyrir bjartsýnina voru þetta erfið ár þar nyrðra, hafísinn árlegur gestur, snjór í brekkum og hæðum fram á mitt sumar. En menn bitu á jaxlinn, héldu sínu striki og tóku þetta út á sjálfum sér með striti og löngum vinnudegi með von um betri tíð. Ég man að sem strákur bar ég nokkra virðingu fyrir þessum bjart- sýnu Selstrandarbændum sem köll- uðu ekki allt ömmu sína og áttu flestir það sameiginlegt að verða síð- ustu ábúendur á jörðum sínum, punktur í þúsund ára sögu og fæstir þeirra hefðu trúað því að aðeins 30 árum seinna ríkti þögnin ein á ströndinni þeirra stærsta hluta árs- ins. Þegar fyrirbærin kvóti og skerð- ing komu til sögunnar ofan á annað var ekki lengur bjargvænlegt með búskapinn og eins fór það hjá Ragga, en búskapurinn hvíldi að mestu á herðum Elínar dóttur hans síðustu árin þeirra á Hellu og árið 1996 brugðu þau búi og fluttu suður í Rangárvallasýslu. Nú þegar komið er að leiðarlokum hjá Ragga er rétt að minnast þess að þegar hann var á meðal okkar með fullri rænu hugsaði hann töluvert um eilífðarmálin og hafði orð á að hann hlakkaði til að komast þarna upp eins og hann orðaði það og hitta alla gömlu vinina sem farnir voru á undan honum. Nú er hann sjálfsagt sæll og glaður þar efra og lítur til með Ellu sinni, hennar fólki og okk- ur hinum. Hryggðin hjartað sker. Huggun hug friðar. Kærleikur kristins manns. Gleymir gröf og dauða. (Jör. Gestsson frá Hellu.) Við Inga sendum Ellu og fjöl- skyldu hennar innilegar samúðar- kveðjur. Guð blessi minningu Ragnars Jör- undssonar. Ísak Pétur Lárusson. RAGNAR ÞÓR JÖRUNDSSON Innilegar þakkir til þeirra, sem sýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og útför móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, SIGURLAUGAR ARNÓRSDÓTTUR, Smárahvammi 16, Hafnarfirði. Sérstakar þakkir til starfsfólks gjörgæsludeildar Borgarspítalans fyrir hlýtt viðmót og góða umönnun. Guðrún Axelsdóttir, Solveig Axelsdóttir, Svavar Haraldsson, Hrönn Axelsdóttir, Guillermo Rito, Axel Kristján Axelsson, Anna Eiríksdóttir, barnabörn og barnabarnabarn. Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför ástkærs eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, GUÐMUNDAR SÆMUNDSSONAR, Víkurbraut 30, Hornafirði. Alúðarþakkir til starfsfólks hjúkrunardeildar Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands fyrir góða umönnun. Aðalheiður Sigurjónsdóttir, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegs eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, SNORRA JÓHANNESSONAR, Garðavegi 14, Hvammstanga. Tryggva Margrét Eggertsdóttir, Erna Snorradóttir, Marteinn Reimarsson, Jóhannes Snorrason, Valdís Valbergsdóttir, Elín Rósa Snorradóttir, Högni Jónsson, Eggert Snorrason, Guðfinna Jónsdóttir, Hulda Snorradóttir, Ragnar Gunnarsson, barnabörn og barnabarnabörn. Við þökkum öllu því yndislega vinafólki sem studdi okkur með nærveru sinni við útför eig- inkonu minnar, móður okkar, tengdamóður, ömmu og systur, JÓDÍSAR A. SIGURÐARDÓTTUR, Spóarima 27, Selfossi. Sérstakar þakkir til þeirra sem linuðu þjáning- ar hennar og þeirra fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn til að gera kveðjustundina jafn eftirminnilega og hún var. Eysteinn Ó. Jónasson, Axel Örn Cortes, Arndís Einarsdóttir, Sigurður Jónas Eysteinsson, Kristján Hannesson, Arnrún Ósk Eysteinsdóttir, Halldór Snær Bjarnason, Eysteinn Aron Halldórsson, Einar Marlin, Védís Drótt, Áslaug Hlökk, Eysteinn Aron, Anna María Elísabet, Hulda María og þeirra fjölskyldur. Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og útför ástkærs fósturföður, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, SVAVARS GÍSLASONAR vörubílstjóra. Ellen Emilsdóttir, Svava Svavarsdóttir, Geir Svavarsson, Jóhanna Svavarsdóttir, Jóhannes Svavarsson, Esther Svavarsdóttir, Jóhannes Björnsson, afa- og langafabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.