Morgunblaðið - 11.05.2005, Síða 6
6 MIÐVIKUDAGUR 11. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
„SKEMMTISKIPUM sem komið hafa til
landsins hefur fjölgað gífurlega á síðasta ára-
tug og stefnir í metsumar í ár,“ segir Ágúst
Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafnar og
stjórnarformaður samtakanna Cruise Ice-
land, en samtökin, sem stofnuð voru 2004,
héldu sinn fyrsta aðalfund í gær. „Fyrir rúm-
um áratug komu um 25 skip til Reykjavíkur
með um 9 þúsund farþega. Til samanburðar
má nefna að í fyrra komu 70 skip til Reykja-
víkur með 46 þúsund farþega. Í ár er svo aft-
ur gert ráð fyrir að vel yfir 180 skemmtiskip
komi til landsins alls í sumar og hafa skipin
aldrei verið fleiri. Gert er ráð fyrir að 77
skipanna komi til Reykjavíkur, 60 til Ak-
ureyrar, 20 til Ísafjarðar auk skemmtiskipa
til Vestmannaeyja, Grundarfjarðar, Keflavík-
ur, Húsavíkur og Seyðisfjarðar,“ segir Ágúst,
en gera má ráð fyrir að hvert skemmti-
ferðaskip staldri við í tveimur til fimm höfn-
um hérlendis í hverri ferð.
Aðspurður segir Ágúst farþega skemmti-
skipa afar verðmæta ferðalanga þó svo að
þeir kaupi sér ekki gistingu og flokkist því
ekki inni í tölum um fjölda ferðamanna sem
leggja leið sína til landsins ár hvert. „Sam-
kvæmt könnun sem gerð var síðasta sumar
er ljóst að að meðaltali eyðir hver farþegi
sem staldrar við hér í Reykjavík um 6.700 kr.
á dag. Samtals versluðu farþegar höfuðborg-
arinnar því fyrir um 300 milljónir kr. í fyrra-
sumar. Í þessum tölum er aðeins um að ræða
kaup á minjagripum, frímerkjum og póst-
kortum, en ótaldar eru dagsferðirnar sem
farþegar kaupa sér meðan þeir staldra hér
við, ferðir með leigubílum og kaup á mál-
tíðum og veitingahúsum,“ segir Ágúst og
minnir á að einnig fáist tekjur fyrir flugvöll-
inn af því þegar skemmtiskip skipta um far-
þega hérlendis, en nú í sumar er gert ráð fyr-
ir að tíu skip skipti um farþega hérlendis.
Farþegum fjölgar um
8% í heiminum öllum
Spurður hver brýnustu framtíðarverkefni
Cruise Iceland samtakanna séu segir Ágúst
ljóst að mikið sé hægt að læra af erlendum
höfnum og því hvernig þær markaðssetja sig
og þjónusti skemmtiferðaskipin. Einnig segir
hann nauðsynlegt að skoða hvernig hægt sé
að stuðla að frekari vöruþróun í framboði af-
þreyingar fyrir farþega skipanna og skoða
möguleika á frekari viðskiptum við farþega
og útgerð skipanna.
„Við þurfum að skoða hver þróun grein-
arinnar er í heiminum og reyna að átta okkur
á því hver hún geti orðið hérna næstu tíu ár-
in,“ segir Ágúst og bendir á að á nýlegum
fundi samtaka Cruise Europe, sem eru sam-
tök 90 hafna í Evrópu, hafi því verið spáð að
farþegafjöldi skemmtiskipa muni halda áfram
að aukast um 8% á ári í framtíðinni líkt og
raunin hefur verið sl. 15 ár. „Ef greinin held-
ur áfram að vaxa hérlendis þá eru ákveðnir
þröskuldar sem þarf að skoða og útfæra bet-
ur. Samanber að það þarf að tryggja nægt
framboð af rútum og leiðsögumönnum sem
tala þrjú tungumál,“ segir Ágúst og nefnir
sem dæmi að í sumar verða á sama tíma í
Reykjavíkurhöfn tvö skip sem taka vel yfir
tvö þúsund farþega hvort. Ef allir farþegar
skipanna ætla í dagsferð út úr bænum kallar
það á 80–90 rútur.
Von á rúmlega 180 skemmtiferðaskipum til Íslands í sumar
Farþegar skemmtiferða-
skipa afar mikilvægir
Eftir Silju Björk Huldudóttur
silja@mbl.is
Morgunblaðið/Kristján
Von er á vel yfir 180 skemmtiferðaskipum til landsins í sumar og hafa þau aldrei verið fleiri.
Gera má ráð fyrir að hvert skip stoppi í tveimur til fimm höfnum á hverri ferð.
Egilsstaðir | Ferðafélag Fljótsdals-
héraðs er nú að hrinda af stað stór-
átaki gegn utanvegaakstri. Í sumar
á að dreifa markvisst til ferða-
manna 70 þúsund eintökum af upp-
lýsingapóstkortum, helstu bílaleig-
ur landsins ætla að setja límmiða
með varnaðarorðum í að minnsta
kosti alla fjórhjóladrifsbíla sína og
upplýsingaplakat fer upp á stærstu
ferðamannastöðum, í skála og á
alla sölustaði Norrönu erlendis og
um borð í skipinu. Þá ætlar Ferða-
málaráð að dreifa upplýsingaefninu
til yfir 200 staða. Upplýsingarnar
eru á sjö tungumálum og teiknaði
Grétar Reynisson kortin. Styrkt-
araðilar að átakinu eru umhverf-
isráðuneyti og dómsmálaráðuneyti,
bílaleigurnar, ýmis félagasamtök
svo sem 4x4, Sjóvá, Toyota og
VÍS.
Utanvegaakstur vaxandi
„Það hefur sýnt sig undanfarin
sumur að utanvegaakstur fer
versnandi,“ segir Þórhallur Þor-
steinsson hjá Ferðafélagi Fljóts-
dalshéraðs. „Það verða árlega
stórskemmdir á landi og æ meiri
tíma skála- og landvarða t.d. norð-
an Vatnajökuls og á Öskju- og
Herðubreiðarlindasvæðinu fer í
að gera við slóðir eftir utanvega-
akstur.“ Þórhallur segir útlend-
inga mest skilja eftir sig „áttur og
hringi“ en Íslendingar fari lengra
og jafnvel að þeir leggi í land-
könnunarleiðangra út og suður
með tilheyrandi slóðamyndun. Á
söndum fyllast slóðir af vikri og
öðru léttu efni og marka línur í
landslagið og gróðurþekja getur
verið 50 ár eða meira að gróa upp,
ef ekki er um vatnsrof að
ræða.„4x4 hefur unnið mjög gott
starf í áróðri gegn utanvegaakstri,
en hið opinbera staðið sig illa,“
segir Þórhallur. „Að vísu er verið
að herða löggjöfina og myndband
var sett um borð í Norrönu og
jafnvel á fleiri upplýsingastaði.
Aðili sem olli miklum skemmdum
í kringum Herðubreiðarlindir í
fyrra hlaut 15 þúsund króna sekt,
sem er hlægilegt og því brýnt að
skerpa á löggjöfinni.“
Hann segir skráningu og flokk-
un vega vera að fara í gang og
stefnt að því að taka ákvörðun um
hvaða slóðir eiga að vera í fram-
tíðinni og hverjar eigi að leggja
af.
Árangur átaksins verður met-
inn í haust og þá tekin ákvörðun
um framhaldið.
Skorin upp herör
gegn utanvegaakstri
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur
steinunn@mbl.is
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
EKKI er litið til þess hvort nemend-
ur hafi lokið samræmdum stúdents-
prófum þegar nýnemar eru teknir
inn í háskóla hér á landi heldur er
miðað við almenn stúdentspróf. Þeir
háskólamenn sem Morgunblaðið
ræddi við í gær sögðu að væntanlega
færu prófin að skipta máli þegar
meiri reynsla hefði fengist af þeim.
Almenn inntökuskilyrði í Háskóla
Íslands er stúdentspróf af bóknáms-
braut og að auki gera sumar deildir
kröfu um útskrift af ákveðnum
brautum. Þórður Kristinsson, for-
stöðumaður akademískrar stjórn-
sýslu hjá Háskóla Íslands, sagði að
þar sem samræmdu stúdentsprófin
væru nýtilkomin væri ekki komin
nægjanleg reynsla á þau til að mögu-
legt væri að nota þau til að meta ný-
nema.
Allir sem uppfylla inntökuskilyrði
fá námsvist í háskólanum og skipta
einkunnir á stúdentsprófi því ekki
máli. Þórður sagði að komi einhvern
tímann til þess að skólinn þurfi að
hafna nemendum verði einkunnir
væntanlega látnar ráða. Þá verði
væntanlega einnig horft til sam-
ræmdra stúdentsprófa.
Steinn Jóhannsson, forstöðumað-
ur kennslusvið Háskólans í Reykja-
vík, sagði að ekki verði miðað við nið-
urstöður á samræmdum stúdents-
prófum við inntöku nýnema á þessu
ári heldur verði horft til árangurs á
almennum stúdentsprófum. Sam-
ræmdu prófin yrðu þó hugsanlega
höfð til hliðsjónar í einstaka tilfellum
ásamt öðrum atriðum s.s. frá hvaða
braut nemandi hefði lokið prófi, við-
bótarmenntunar, starfsferils, fé-
lagsstarfa o.fl. „Hins vegar verða há-
skólarnir væntanlega að líta meira á
þessi samræmdu stúdentspróf á
næstu árum því það eru allir að
gangast undir þessi próf þannig að
þau verða jafngild almennum stúd-
entsprófum,“ sagði hann.
Samræmdu prófin illa kynnt
Að mati Steins eru samræmdu
stúdentsprófin illa kynnt og hann
gagnrýnir að ekki hafi verið haft
samráð við háskóla um prófin. Marg-
ir telji prófin vera eins konar inn-
tökupróf í háskóla en ekkert samráð
hafi verið haft við háskólana um
hvaða kunnáttu prófin ættu að mæla,
það væri t.d. erfitt að sjá hvers virði
prófin væru fyrir nemendur sem
ætluðu í viðskipta- eða lögfræði.
Hjá Viðskiptaháskólanum Bifröst
verður ekki heldur miðað við niður-
stöður á samræmdum stúdentspróf-
um. „En ég held að þegar þetta er
komið í fulla virkni og þetta verður
marktækt förum við að nota þetta.
Auðvitað er þetta mjög sniðugt og
gott fyrir háskóla að geta horft til
þessa við inntöku,“ sagði Magnús
Árni Magnússon, forseti viðskipta-
deildar og aðstoðarrektor. Prófin
verði samanburðarhæf þegar ákveð-
inn fjöldi stúdenta hafi lokið slíkum
prófum.
Skipta ekki máli
vegna inntöku í
nám í háskólum
Samræmdu stúdentsprófin
LANDLÆKNIR telur að ýmsar skýringar geti
verið á mikilli notkun lyfsins methylphenydats
fyrir börn með ofvirkni/athyglisbrest, en þá
helsta að lyfið gefst sannanlega vel við ofvirkn-
iröskun, þótt fleira þurfi að koma til. Í tilkynn-
ingu frá landlækni segir að rétt sé að benda á að
engin aukning varð á notkun lyfsins á síðasta
ári, en aukningu á árinu 2003 megi að einhverju
leyti rekja til þess að þá komu á markað lang-
virk lyf sem ekki þurfi að taka nema einu sinni á
dag, oftast áður en börnin fara í skólann.
Ritalín misnotað af fullorðnum
„Ekki er talin ávanahætta af Ritalíni fyrir
börn, enda lyfið þá notað í mjög litlum skömmt-
um. Ritalín er misnotað af fullorðnum fíklum, en
forðalyfin nýju er erfitt að misnota. Tekið skal
fram að notkun lyfsins við ofvirkni hér á landi er
svipuð og gerist í Bandaríkjunum, en mun meiri
en á Norðurlöndunum, en einnig þar hefur notk-
un þess aukist verulega á undanförnum árum.
Landlæknisembættið hefur heimildir fyrir
því að hér á landi er meðferðin að langmestu
leyti hafin hjá læknum með sérmenntun í barna-
og unglingageðlæknum eða barnalæknum með
menntun í þröngum sérgreinum sem tengjast
þessu sviði, en er stundum fylgt eftir af heim-
ilislæknum sem skrifa þá út lyfin.
Undanfarið hefur verið unnið að nánari verk-
lagsreglum varðandi greiningu og meðferð of-
virkniröskunar í samráði við barna- og ung-
lingageðlækna. Einnig er í hópnum geðlæknir,
sem mun sérstaklega beina sjónum að vaxandi
notkun fullorðinna, sem greindir eru með of-
virkniröskun, á notkun þessara lyfja, en fræði-
legur bakgrunnur er þar veikari en hvað börnin
varðar,“ segir í yfirlýsingu landlæknisembætt-
isins.
Ný langvirk
lyf skýra að
hluta aukn-
inguna
Landlæknir segir
methylphenydat
fyrir börn gefast vel