Morgunblaðið - 11.05.2005, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. MAÍ 2005 27
UMRÆÐAN
ÞAÐ varð ljóst eftir að borgaryf-
irvöld kynntu skipulagsátak sitt
„Uppbygging og verndun við
Laugaveg“ að húsavernd í Reykja-
vík hafði beðið mikinn hnekki. Sam-
kvæmt því verður heimilt að rífa
megnið af öllum timburhúsum vest-
an Frakkastígs. Ekki bara sum –
heldur flest.
Þegar bæklingurinn „Verndun og
uppbygging“ barst óvænt inn um
bréfalúgur borgarbúa, var um leið
boðað til opins borgarafundar um
málið – kl. 17 sama dag! Hvaða
tækifæri hafði venjulegt fólk til að
koma undirbúið á þann fund?
Skipulagsyfirvöld vildu með þessu
útspili kynna útrætt mál; að nú
væri umræðunni lokið. Laugavegur,
íbúar Reykjavíkur og landsmenn
allir eiga betra skilið: Að þeir
möguleikar sem gömlu húsin bjóða
upp á verði skoðaðir.
Því er oft haldið fram að and-
staða við skipulagsátak Laugavegar
sé á misskilningi byggð. Að það eigi
ekki að rífa öll húsin, heldur að eig-
endur megi það, kjósi þeir svo.
Þetta er enginn misskilningur;
einmitt það, að það megi rífa öll eða
sum þessara húsa, að tilviljun megi
ráða, er nákvæmlega það sem við
sættum okkur ekki við.
Draugagangur
Með því að leyfa
sameiningu lóða og
aukna hæð húsa, hafa
borgaryfirvöld búið
til mjög sterkan „nið-
urrifshvata“, burtséð
frá stöðu fasteigna og
byggingamarkaðar í
dag. Það liggur við
að svæðið norðan
Laugavegar niður í
Skuggahverfið sé
orðið að opnu bygg-
ingarlandi.
Það er dapurlegt að sjá drauga-
gang frá skipulaginu 1962 end-
urvakinn, þar sem verslanamið-
stöðva- og hraðbrautaborgin skyldi
ryðja öllu úr vegi. Reykjavík hefur
á undanförnum árum gengið í
gegnum miklar samfélagsbreyt-
ingar; ekki síst í samgöngum og
verslunarháttum. Það er því eðli-
legt að bæjarhlutar skipti um hlut-
verk og að þungamiðja atvinnu-
starfsemi færist til. Laugavegurinn
og framtíð hans eru hvorki einka-
eign né einkamál kaupmanna einna.
Kvosin og neðri hluti Laugavegar
eru orðin það lítill hluti af versl-
unar- og þjónustusvæðum Reykja-
víkur, að við ættum að hafa efni á
að sögulegar og menningarlegar
forsendur fái þar að halda vægi
sínu. Gamli bærinn er hluti af nú-
tímanum og hann á erindi við fram-
tíðina.
Að eiga sér lifandi og sögulegt
umhverfi er hluti af lífsgæðum nú-
tímaborga. Reykjavík er í heild
sinni fátæk, þegar kemur að bygg-
ingararfi. Það er því sorglegt að
horfa upp á skipulagsyfirvöld fara
um þann arf eins og fíll í postulíns-
búð. Það væri dapurlegt ef að efna-
legt ríkidæmi okkar í dag leiddi af
sér aukna menningarlega fátækt til
framtíðar.
Til þess eru vítin
að varast þau
Sú úrelta 50–60 ára gamla hugs-
un, sem skipulagshugmyndir þessar
byggjast á, hafa náð að eyðileggja
margar miðborgir í nágrannalönd-
um okkar. Þar hefur þróunin snúist
við; í dag er mest rifið af 30–40 ára
gömlum húsum. Á Laugavegi hefur
þessu verið snúið á haus, fertug hús
eru friðuð – en 19. aldar bygging-
arlist fjarlægð. Við mótmælum því
að borgaryfirvöld komi stöðugt
fram eins og deild í sannleiksráðu-
neyti Orwells; með endalausum öf-
ugmælaáróðri.
Mögulegt niðurrif í miðbænum á
ekkert skylt við verndun og upp-
byggingu. Það er helst að það sé
nýlegt verslunarhúsnæði sem
stendur autt við Laugaveginn. Það
er því ekkert sem segir að stærri
og hærri hús breyti nokkru, nema
að þeim fylgi enn meiri dauði.
Hvers vegna svartir borðar?
Snorri Freyr Hilmarsson og
Óskar Jónasson fjalla um skipu-
lagsmál við Laugaveginn
’Með því að leyfa sam-einingu lóða og aukna
hæð húsa, hafa borg-
aryfirvöld búið til mjög
sterkan „niðurrifs-
hvata“, burtséð frá
stöðu fasteigna og bygg-
ingamarkaðar í dag.‘
Óskar
Jónasson
Snorri Freyr er leikmyndahönnuður
og Óskar er kvikmyndagerðarmaður.
Snorri Freyr
Hilmarsson
Svartir borðar voru hengdir á hús sem stendur til að rífa við Laugaveginn
síðastliðinn laugardag.
HINN 29. apríl sl. hélt Landspít-
ali – háskólasjúkrahús (LSH) hinn
árlega ársfund sinn í Salnum í Kópa-
vogi. Ég komst því miður ekki, þar
sem ég var að vinna. Sé hins vegar í
Mogganum í dag að á fundinum hafi
talað erlendur gestafyrirlesari um
loftljós á vinnustöðum, og að auki
hafi mikið verið rætt um nýtt LSH
sem sögur herma að pólitískur vilji
sé fyrir að taka fyrstu skóflustung-
una að árið 2008. Það er að segja, ef
Síminn selst vel og Alþingi sam-
þykkir að leggja mögulegan gróða af
þeirri sölu óskiptan í byggingu á
nýju háskólasjúkrahúsi.
Gott og vel. Verð hins vegar að
segja, að eftir því sem ég verð eldri
geri ég mér æ betur grein fyrir að
nútíðin reynist manni oft einhvern
veginn raunsannari en möguleg
framtíð. Las um daginn í blöðunum
viðtal við lögfræðing á skrifstofu
starfsmannamála LSH þar sem við-
urkennt var að vinnuálag á starfs-
fólk LSH væri mun meira en góðu
hófi gegndi, en það stæði til bóta þar
sem starfsfólk gæti nú fengið sál-
gæslu og þannig létt af sér byrðum
sínum – væntanlega svo starfsfólkið
geti síðan haldið áfram að bera
meira en góðu hófi gegnir. Sam-
kvæmt opinberum tölum hefur
kostnaður á LSH nefnilega ekki
aukist að raunvirði frá árinu 2000
þrátt fyrir að þjóðin eldist, henni
fjölgi, vísindunum fleygi fram og
spítalinn greiði birgjum á hverju ári
dráttarvexti sem hver meðalstór
kaupstaður á landinu gæti skamm-
ast sín fyrir. Merkilegt. Um daginn
barst mér fundargerð í hendur þar
sem nýskipaður yfirmaður gæða-
mála stofnunarinnar skilgreindi
gæði á LSH sem „það besta sem við
getum gert, og fyrir sem minnstan
pening“. Sá ekki minnst á vellíðan
starfsfólks eða sjúklinga í þessari
fundargerð, hlýtur að hafa gleymst
að skrá þau orð niður.
Fylgdist líka nýverið með ritdeil-
um yfirstjórnar sjúkrahússins við 12
yfirlækna sjúkrahússins (og reyndar
fleiri lækna) um stjórnskipulag og
stjórnhætti á sjúkrahúsinu, eggja-
kasti sem staðið hefur yfir linnulítið
síðastliðin ár. Frá stjórnvaldinu í
heilbrigðisráðuneytinu, sem ber, að
mínu viti, að þó nokkrum hluta
ábyrgð á því með aðgerðaleysi sínu
að þessum deilum er nú komið í
rembihnút, barst á svipuðum tíma sú
fregn „að aðilar innan LSH yrðu að
vera menn til þess að setja sínar deil-
ur niður sjálfir“. Varð sjálfum hugs-
að til þess að síðastliðið ár hef ég
borgað einum af virtari lögmönnum
landsins reglulega fyrir að gefa mér
ráð varðandi samskipti mín við hátt-
setta stjórnendur á LSH, bara svo
ég viti hvernig ég á þar að stíga nið-
ur fæti. Ef einhver hefði sagt við mig
áður en ég flutti heim til Íslands árið
2002 að kannski myndi ég þurfa að
grípa til slíkra úrræða hefði ég skellt
upp úr, enda ekki vanur slíku í sam-
skiptum við yfirmenn mína erlendis.
Mér fróðari menn hafa sagt mér
að það sé afar mikilvægt að geta liðið
vel á vinnustað. Er sjálfur ekki alveg
viss um að brýnasta verkefni LSH
sé bygging nýs spítala. Held kannski
að þar þurfi að byrja á allt öðrum
enda.
Hlynur Níels Grímsson
Nýtt LSH?
Höfundur er læknir, sérfræðingur í
krabbameinslækningum við Land-
spítala – háskólasjúkrahús.
ÞAÐ ER að koma að
endasprettinum í for-
mannskjöri hjá okkur í
Samfylkingunni. Þetta
hefur verið um margt
góður og spennandi tími
og sem betur fer lítið um
misfellur í baráttunni.
Við höfum sýnt að sú
lýðræðislega leið sem
við völdum, með beinni
kosningu formanns, hef-
ur bæði styrkt flokkinn
og innviði hans. Þá er
gengið til góðs.
Fyrir mér er valið af-
ar auðvelt. Ingibjörg Sólrún er sá leið-
togi sem ég vil sjá í stórum Jafn-
aðarmannaflokki – ekki spurning. Hún
hefur sýnt og sannað á sínum pólitíska
ferli hvers hún er megnug. Sem borg-
arstjóri allra Reykvíkinga sýndi hún
að hennar meginstyrkleiki var að sam-
eina ólíka krafta, kalla ólíkt fólk til
mikilvægra verka fyrir borgina, höf-
uðborg allra landsmanna. Með henni
áttu félagshyggjuöflin sæta sigra gegn
Sjálfstæðisflokknum í
borginni – ekki bara
einu sinni – heldur þrisv-
ar, nokkuð sem er og
verður algjörlega
ógleymanlegt og ómet-
anlegt fyrir borgarbúa.
Ingibjörg Sólrún hefur
átt farsælt samstarf með
sveitarstjórnarmönnum
og fólki um allt land og
að sjálfsögðu mun það
skila sér í öflugum
stuðningi við hana nú í
formannskjöri Samfylk-
ingarinnar. Ég hef ekki
trú á öðru. Ánægjulegast finnst mér að
sjá alla þá breidd sem er í stuðningsliði
Ingibjargar Sólrúnar, breidd sem á
djúpar rætur í kjarna flokksins, þar
sem bæði eru ungir og aldnir, kratar
og allaballar, kvennalistakonur og allt
þarna á milli. Flokkurinn á mikið ein-
valalið af fólki sem gaman er að starfa
með, það hefur sýnt sig nú og svo mun
verða áfram. Við eigum góða ferð fyrir
höndum með slíku fólk í Samfylking-
unni.
Ég vil hvetja alla þá sem eiga eftir
að skila atkvæði sínu að gera það hið
fyrsta og minna mann og annan á hið
sama. Því ekki verður sigurinn í höfn
fyrr en allir stuðningsmenn hafa kosið.
Það er kominn tími til að breyta og
göngum nú alla leið, leiðina til sigurs
Ingibjargar Sólrúnar í formannskjöri
Samfylkingarinnar.
Alla leið – til sigurs!
Guðrún Ögmundsdóttir
fjallar um formannskjör
Samfylkingarinnar ’Það er kominn tími tilað breyta og göngum nú
alla leið, leiðina til sig-
urs Ingibjargar Sól-
rúnar í formannskjöri
Samfylkingarinnar.‘
Guðrún Ögmundsdóttir
Höfundur er alþingismaður.
Í ALLRI þeirri neikvæðu umræðu
sem hefur farið fram um vistun og
umönnun aldraðra langar mig að
hrósa nýrri deild sem foreldrar
mínir dvelja á á Hrafnistu.
Deildin heitir H-1 og er í ný-
byggingu Dvalarheimilis aldraðra
á Hrafnistu í Reykjavík. Deildin er
í tveggja hæða húsi sem var tekið í
notkun í júlí 2004. Í þessu húsi eru
mismunandi hjúkrunardeildir, ann-
arsvegar lokuð deild fyrir þá sem
ekki geta farið út og hinsvegar
fyrir fólk sem hefur það góða
heilsu að það geti farið út með að-
stoð. Herbergin eru 25 fermetrar
með snyrtingu, góðum skápum, ís-
skáp og aðstöðu til að hella upp á
kaffi ef fólk vill. Á H-1 eru 30 vist-
menn, flestir einstaklingar, en
möguleiki er á að fá tvö herbergi
samliggjandi með hurð á milli.
Þegar foreldrar mínir fluttu þang-
að var þeim boðið að nota her-
bergin eftir óskum, þ.e. svefn-
herbergi með góðum sjúkrarúmum
og stofu eða tvö svefnherbergi. Í
dag er eins og að þau búi í lítilli
íbúð, með húsgögnum frá þeirra
fallega heimili, myndir á veggjum
að vild, rúmgóð baðherbergi með
sturtu og góðir fataskápar í báðum
herbergjum. Fimm sinnum á dag
eru þau sótt í mat eða kaffi og er
aðstaða hin besta bæði í setustofu
og matsal. Á deildinni er gert ráð
fyrir að hver starfsmaður hugsi
um fimm vistmenn. Þarna starfa
hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar,
starfsfólk í eldhúsi og ófaglærðir
sem eru í umönnunarstörfum. Í
miðju álmunnar er björt og rúm-
góð setustofa með sjónvarpi og að-
gengi út í afgirtan garð. Þarna
sitja vistmenn gjarnan eftir mál-
tíðir, lesa blöðin, prjóna og horfa á
sjónvarp. Ef vistmenn eru nægi-
lega hressir er tekið í spil en þá
þarf oftast aðstoð frá starfs-
mönnum. Það eru alltaf viðbrigði
fyrir fólk að flytja á stofnum og
fólk verður daufara, en þar reynir
á starfsfólk og skipulag að gera
dagana fjölbreytta. Föstudagar
eru baðdagar, sumir fara í sjúkra-
þjálfun eða í sundlaug sem er sam-
byggð dvalarrými á H-1. Þetta er
afar góður staður að dvelja á og er
það von mín að í framtíðinni geti
þjóðin boðið eldri borgurum að
dvelja síðustu æviárin á svona góð-
um dvalarheimilum, þau eiga það
sannarlega skilið.
HILDUR JÓNSDÓTTIR,
Kristnibraut 45, Reykjavík.
Einstök deild
á Hrafnistu
Frá Hildi Jónsdóttur:
Vistmenn og starfsfólk í setustofu H-1.
BRÉF TIL BLAÐSINS
Morgunblaðið Kringlunni 1 103 Reykjavík Bréf til blaðsins | mbl.is