Morgunblaðið - 11.05.2005, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 11.05.2005, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 11. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ MENNING Hlíðasmára 11, Kópavogi sími 517 6460 www.belladonna.is Réttu stærðirnar H eiðursstjórnandi Sin- fóníuhljómsveitar Ís- lands, Vladimir Ashkenazy, stjórnar hljómsveitinni á tón- leikum hennar í Háskólabíói á morgun. Leikin verður 9. sinfónía Mahlers, sem Sinfóníuhljómsveitin flytur í fyrsta sinn, en Sinfón- íuhljómsveit æskunnar frumflutti verkið hérlendis árið 1989. Ashkenazy segist hafa stjórnað 9. sinfóníunni mörgum sinnum áð- ur, en aldrei með þessari hljóm- sveit. Þetta sé því mjög áhugaverð reynsla. „Og æfingar ganga mjög vel,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið í gær, þá tveimur dögum fyrir tónleika. „Ég hef stjórnað öllum Mahler-sinfóníun- um, en það var orðið langt síðan ég fékkst við þessa svo ég hugsaði með mér – hvers vegna ekki að taka hana?“ Í sumum af sinfóníum Mahlers er hljómsveitin mjög stór, til dæm- is í þeirri þriðju, sjöttu og sjöundu. En svo er ekki í þessari. Ashke- nazy viðurkennir þó að það sé margt sérstakt við hljóðfæraskip- anina og þetta sé ekki auðvelt verk að flytja. „Mahler er auðvitað alltaf erfiður. Takturinn og kontrapunkt- urinn er oft mjög flókinn og tækni- leg atriði geta verið mjög erfið, því hann notar allar hugsanlegar að- ferðir sem strengjaleikarar geta framkvæmt. En aðalmálið er að sjálfsögðu að ná tökum á andanum í verkinu,“ segir hann. „Eins og svo oft getur tekið nokkurn tíma að ná tökum á því sem tónskáldið er að reyna að segja, sérstaklega ef maður hefur ekki leikið verk mjög oft. Það er auðvitað hægt að spila nóturnar, en það er merking þeirra sem skiptir máli.“ Ekki torskilin, en flókin Mahler lauk 9. sinfóníunni um einu og hálfu ári fyrir dauða sinn, og hún var því síðasta sinfónían sem hann náði að ljúka. Hann hóf samningu þeirrar 10., en náði aldr- ei að ljúka henni þó ýmsir hafi spreytt sig á þeirri framkvæmd síðan. „Mahler heyrði 9. sinfóníuna aldrei flutta,“ útskýrir Ashkenazy. „Þess vegna náði hann ekki að endurskrifa neitt í henni eins og hann gerði með fyrri sinfóníur sín- ar, hlustaði á þær fluttar og breytti síðan. En þessa heyrði hann hvorki æfða né flutta.“ En skyldi hún vera mjög ólík hinum sinfóníum hans af þessari ástæðu? „Hún er auðvitað mjög ólík hinum, á tónlistarlegan hátt. Í fyrsta lagi er hún flóknari bæði í stefjum, hljómum og laglínum. En andi hennar er líka máttugri en hinna. Ég myndi ekki kalla hana torskilda, en það er ekki auðvelt að ná tökum á henni. Fyrsta sinfónían hans liggur hins vegar nokkuð beint við, svo dæmi sé tekið.“ Asheknazy segist telja að ólíkindin komi til vegna aldurs – eftir því sem Mahler eltist hafi persóna hans einnig orðið marg- breytilegri. „Hann varð flóknari karakter með aldrinum, og óham- ingjusamur maður, og sýn hans á líf og dauða einkenndist mjög af því. Þessu finnur maður mjög sterklega fyrir í 9. sinfóníunni, og það er alltaf erfitt að takast á við nokkuð sem er svo margslungið.“ En er sinfóníuhljómsveitin að ná tökum á þessu, samt sem áður? „Ég held það. Margt veltur líka á mér, auðvitað, en ekki allt.“ 2–3 ár í tónlistarhús Eins og flestir vita hefur Ashkenazy um árabil verið einn öt- ulasti talsmaður uppbyggingar í lista- og menningarmálum hér á landi. Meðal þess sem hann hefur einkum beitt sér fyrir er fyrir- hugað tónlistarhús í Reykjavík, og var hann á dögunum sá fyrsti af fjölda íslenskra forkólfa í tónlistar- lífinu sem skrifaði undir áskorun um að hafa 200 sæta kammersal í húsinu. „Mér finnst samt skipta mestu að stóri hljómsveitarsalurinn sé vel úr garði gerður, og það má ekki taka ákvarðanir sem koma niður á gæðum hans,“ segir hann. „En yfirhöfuð er mín skoðun sú að sé verið að gera eitthvað, þá ætti að gera það vel, og almennilega. Fremur en að gera málamiðlanir.“ Meðan á dvöl hans stendur á Ís- landi hefur Ashkenazy fundað með hljómburðarsérfræðingi tónlistar- hússins, Russell Johnson. Hann segist bjartsýnn eftir þær samræð- ur. „Johnson var mjög bjartsýnn á mál núna og segir þau í miklum framgangi,“ segir hann. „Hann vill meina að það séu 2–3 ár í að húsið verði fullgert. Ég vona að þau hafi rétt fyrir sér.“ Hvers vegna ekki Ísland? Ashkenazy ferðast víða um Norðurlöndin sem stjórnandi. Hann segist ekki skilja hvers vegna ekki sé til tónlistarhús á Ís- landi enn þá, með tilliti til að- stæðna í nágrannalöndum okkar. „Ég kem til dæmis nokkuð fram í Finnlandi. Þetta er 4–5 milljóna þjóð, með mörgum litlum borgum með 50–80.000 íbúum. Í flestum þeirra hefur verið sett opinbert fé í að byggja mjög vel búin, ný tón- listarhús með kannski 5–600 sæt- um. Fyrir nokkrum dögum var ég líka staddur í Eistlandi. Í lítilli borg sem heitir Pärnu, með kannski tæplega 100.000 íbúa, var byggt glæsilegt tónlistarhús fyrir tveimur árum. Þetta er bara 12 ár- um eftir að ríkið skildi sig frá Sov- étríkjunum, og er enn mjög fátækt. Hvernig má það vera, að hér á Ís- landi, einu af Norðurlöndunum, hjá þjóð upp á næstum 300.000 íbúa, nútímalegu ríki með góðri rík- isstjórn, að hér sé búið að tala um að byggja tónlistarhús í yfir 20 ár, og enn hefur ekkert gerst? Hvern- ig má þetta vera? Ég skil það ekki, en ég tek það fram að þessa stund- ina er ég bjartsýnn á að húsið verði opnað innan þriggja ára.“ Tónlist | Vladimir Ashkenazy stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands í 9. sinfóníu Mahlers á morgun Merking tónanna skiptir meginmáli Morgunblaðið/Þorkell Vladimir Ashkenazy er bjartsýnn á að tónlistarhús verði opnað í Reykjavík innan þriggja ára. Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is FJÖLMENNT var á tónleikunum í Salnum á sunnudag þegar banda- ríski píanistinn góðkunni, Ann Schein, kom fram með eiginmanni sínum Earl Carlyss, líkast til í fyrsta sinn hér á landi. Carlyss er prófessor í fiðluleik og kamm- ertónlist við Juilliard í New York og lék fyrrum á 2. fiðlu í sam- nefndum strengjakvartett. Hins vegar munu hjónin ekki hafa leikið mikið saman hingað til, ef marka má nýlegt viðtal í Mbl. Dagskráin mátti heita gæða- stimpluð í bak og fyrir, þar sem Copland myndaði léttan upptakt að þungavigturunum Beethoven og Brahms sínu hvorum megin við hlé. Það lék frískandi fjallaselsloft um þríþætta sónötu Aarons Copland frá 1942/43, enda samin skömmu fyrir ballett hans Appalachian Spring og liður í viðleitni þessa góðvinar og fyrirmyndar Leonards Bernstein til að hanna þjóðlegt „amerískt“ tóntak. Sónatan er heið- ríkt dæmi um hugfengan einfald- leika – markmið er heppnast því miður sjaldnar en reynt er. I. þátt- ur var tær en líflegur en II. inni- legur og svolítið einmanakenndur. Í scherzólega III. þættinum var hins vegar leikið á als oddi líkt og kið- lingar að vori í nánu kjörvægu samspili á fisléttri danssveiflu. Fiðlusónötur Vínarmeistaranna tveggja voru hvor síðust þeirra í greininni, nr. 10 hjá Beethoven en 3 hjá Brahms. Hraðavöl hjónanna í G-dúr sónötunni Op. 96 frá 1812 virtust sérlega eðlileg og afslöppuð, nema kannski helzt Scherzóið (III) er fleytti fyrir vikið nokkrar kerl- ingar yfir rytmísku fínessurnar; þó ekki til stórskaða. Andrúmsloftið var í heild notalega heimilislegt og bar lítinn vott um takmarkað sam- spil. Annað hljóð kom í strokkinn í fí- rugu upphafsallegrói „Thuner“- sónötu Brahms í d-moll frá 1888, þar sem píanistinn lét nánast vaða á súðum á fullopnu flygilloki svo fiðluleikarinn mátti hafa sig allan við. Tónað var þó niður í syngjandi blíðu adagíói II. þáttar, og sá III. bauð upp á perlandi andríkan sam- leik áður en ráðizt var til atlögu við stormandi fínalinn, Presto agitato. Hér mátti víða heyra blóðríkan og glæsilegan slaghörpuleik hjá Ann Schein, er misfingraði sig hvergi heyranlega nema í knús- uðum þríólukafla undir lokin. Fiðlu- leikur Earls Carlyss var hér örugg- ur og innlifaður sem endranær, þó að herzlumuninn vantaði upp á joachimska neistaflugið er Brahms hafði e.t.v. í huga þegar mest gekk á. Nema hvað vart var við hálf- deiga inntónun á einstaka stað í Copland, er bent gæti til að verið væri að vinna sig upp í fyrra og betra form. Hitt mátti hann eiga að vera með öllu laus við þann hvim- leiða og enn furðualgenga kæk í hérlendum kammerstrokleik að læðast inn í tóninn með klígjandi eftirhnykk. Vissulega fyrirmynd til eftirbreytni. Andríkt og samlynt Morgunblaðið/Árni Torfason Bandarísku hjónin Ann Schein píanóleikari og Earl Carlyss fiðluleikari. TÓNLIST Salurinn Fiðlusónötur eftir Copland (1943), Beethoven (nr. 10 í G Op. 96) og Brahms (nr. 3 í d Op. 108). Earl Carlyss fiðla og Ann Schein píanó. Sunnudaginn 8. maí kl. 20. Kammertónleikar Ríkarður Ö. Pálsson Skólavörðustíg 21, Reykjavík sími 551 4050 Glæsileg brúðarrúmföt í úrvali

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.