Morgunblaðið - 04.09.2005, Side 20
20 SUNNUDAGUR 4. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
Á
hugi á strandmenn-
ingu tengir Íslending-
inn Sigurbjörgu
Árnadóttur og Norð-
manninn Stein
Malkenes. Þau hafa
bæði unnið að áhuga-
máli sínu og eru nú framkvæmda-
stjórar verkefnisins Knörrinn – hafið
– síldin. Nafnið vísar til landnáms
Norðmanna á Íslandi, fyrst þegar
Ingólfur Arnarson sigldi frá Noregi
til Íslands og nam land árið 874 og
svo rúmum þúsund árum síðar þegar
Norðmenn komu til síldveiða á Ís-
landsmiðum og miðluðu þekkingunni
til Íslendinga. Ætlunin er að skipu-
leggja og markaðssetja menningar-
tengda ferðaþjónustu bæði á Íslandi
og í Noregi og gefa ferðamönnum
kost á að heimsækja svæði þar sem
hægt er að hverfa aftur í tímann og
kynnast lifnaðarháttum landnáms-
manna eða upplifa gömlu síldarsög-
una.
Ferðamenn sem koma til Íslands
geta vissulega farið á söguslóðir og
upplifað síldarsöguna í hinu verð-
launaða Síldarminjasafni á Siglufirði
en verkefnið er lengra komið í Nor-
egi. Tengingin við Ísland er mest í
Sogns- og fjarðafylki og þar hafa
fylkisstjórn og aðilar í ferðaþjónustu
tekið saman höndum við Sigur-
björgu og Stein um að gera ferða-
þjónustu hærra undir höfði og gefa
almenningi kost á að kynnast menn-
ingu svæðisins.
Í ljós kom að margir vildu vera
með. „Hér höfum við hitt heimafólk
sem hefur frá svo mörgu fróðlegu að
segja en hafði ekki uppgötvað það
sjálft,“ segir Sigurbjörg m.a. „Hér
eru gömul síldverkunarhús sem
heimamenn hafa varðveitt en
kannski ekki almennilega áttað sig á
hvað eigi að gera við þau og þar kom-
um við til dæmis inn með hugmyndir
og verkefnisstjórn.“
Sigurbjörg bendir á að á Íslandi
hafi gömlu síldarbátarnir bara verið
settir á áramótabrennur en í Noregi
virðist hafa verið passað betur upp á
minjavernd. Mikill áhugi sé þó á
verkefninu í báðum löndunum.
„Menningararfurinn er dýrmætur
hverri þjóð og á honum er hægt að
byggja vandaða ferðaþjónustu,“ seg-
ir Sigurbjörg. Hugmyndin er að ná
til ferðamanna víðar en frá Noregi
og Íslandi, sem áhuga hafa á sögu,
náttúru og strandmenningu. Verk-
efnið verður því markaðssett m.a. í
Þýskalandi, Englandi, Frakklandi
og Kína.
Gömlu síldverkunarhúsin sem eru
svo einkennandi fyrir þessar slóðir í
Noregi verða því mörg hver að söfn-
um og upp spretta kaffihús og veit-
ingastaðir. Gistirými fer vaxandi úti
við ströndina og í einu síldarpláss-
inu, Kalvåg, hefur því verið komið
svo fyrir að gistirými er fyrir 250
manns, í þorpi þar sem íbúarnir eru
aðeins nokkur hundruð. Eitt hótel er
á staðnum en eigendur sumarhúsa
leigja húsin sín áfram og því er
mögulegt að hýsa svo marga ferða-
menn. Kalvåg er heillandi lítið þorp
þar sem síldarsagan smýgur um allt.
Íbúafjöldinn fór upp í tíu þúsund
manns þegar síldveiðin var sem mest
á seinni hluta 19. aldar. Síldar-
skemmur og verbúðir sem gerðar
hafa verið upp setja svip sinn á þetta
kyrrláta þorp sem gæti orðið áfanga-
staður söguþyrstra ferðamanna en
líka þeirra sem bara vilja slaka á og
njóta fallegrar náttúru. Þegar ferða-
mannastaðir eru heimsóttir kemur í
ljós að fólk hefur upp á sitt eindæmi
ákveðið að halda gömlum munum til
haga og gefa ferðalöngum kost á að
kynnast menningunni og gamla tím-
anum.
Nils R. Sandal, fylkisstjóri í Sogni
og fjörðum, segir verkefnið hafa
mikla þýðingu fyrir fylkið og mik-
ilvægt að þróa samvinnu á milli Ís-
lands og Noregs áfram. Sjálfur er
hann einn af Íslandsvinunum í Nor-
egi, hefur oftar en einu sinni verið á
Íslandi og telur aðkomu Íslendinga
mikilvæga. Sogns- og fjarðafylki hef-
ur sett sem samsvarar 1,5 milljónum
íslenskra króna í verkefnið og mun
síðan leggja meira fram til atvinnu-
uppbyggingar. Sandal segir að
ferðaþjónusta sé að verða ein af mik-
ilvægustu atvinnugreinunum í Nor-
egi. „Við höfum strandlengjuna og
firðina, jökla og fjöll og marga staði
sem eru áhugaverðir fyrir ferða-
menn. Verkefni af þessu tagi er mik-
ilvægt í þessari vaxandi atvinnu-
grein,“ segir fylkisstjórinn.
Alls mun verkefnið kosta um tutt-
ugu milljónir, þ.e. markaðssetning,
gerð bæklinga og kynningarefnis,
breytingar og bætur sem gera þarf á
ýmsum stöðum og fleira.
Norður-Atlantshafssamstarfið,
NORA, hefur lagt 2,5 milljónir ís-
lenskra í verkefnið og ennfremur
byggðaþróunarsjóðir í Noregi.
Styttan af Ingólfi
Sagan er áþreifanleg þegar komið
er á vesturströnd Noregs og það er
m.a. sagan sem hefur laðað ferða-
menn á þetta svæði en einnig nátt-
úrufegurðin og það sem hægt er að
upplifa á þessum slóðum. Noregur
hefur ekki verið helsti áfangastaður
Íslendinga í sumarleyfinu en sam-
eiginleg saga ætti að kveikja áhuga
margra á að ferðast á staði eins og
Rivedal og Dalsfjörð, Kalvåg, Florø
og fleiri, en í Florø er t.d. mikið safn
um strandmenningu Norðmanna.
Þorgrímur Gestsson vakti m.a. at-
hygli á áhugaverðum sögustöðum í
Noregi með bókinni Ferð um fornar
sögur en þar skráir hann ferðalag
sitt um þær slóðir í Noregi sem hafa
tengingu við Ísland um fornsögurn-
ar, og þar á meðal er Rivedal eða
Hrífudalur við Dalsfjörð. Til stendur
að bókin komi út á norsku á næst-
unni.
Þaðan á Ingólfur Arnarson að
hafa verið og þar stendur m.a.s.
stytta af landnámsmanninum.
Bautasteinninn sem hann reisti til
minningar um föður sinn áður en
hann hélt á haf út er reyndar eina
vísbendingin um að Ingólfur hafi ein-
mitt verið héðan. Þegar blaðamenn
ber að garði standa tvær konur í
fornum klæðum við styttuna og
stemningin er mögnuð. Jú, Ingólfur
hlýtur að hafa verið héðan.
Kjell Ask, bóndi í Rivedal, hefur
tekið á móti ófáum Íslendingunum á
þennan sögustað og hefur ekkert á
móti því að gera það áfram. Hann
segir söguna af Ingólfi, Helgu og
Atla jarli af kunnáttu því að á þess-
um stað hefur hún lifað mann fram af
manni. Í stuttu máli er sagan sú að
sonur Atla jarls sem bjó á Ósi vildi
kvænast Helgu, systur Ingólfs, en
það vildi Ingólfur ekki leyfa. Hann
gerði sér lítið fyrir og drap biðilinn
og fleiri og var gerður útlægur fyrir
vikið. Ef ekki hefði hann áreiðanlega
haldið áfram búskap í Rivedal og
ekki dottið í hug að yfirgefa Dals-
fjörðinn þar sem náttúrufegurðin er
mögnuð.
Nú stendur til að gefa ferðamönn-
um kost á að dvelja á heimaslóðum
Ingólfs og verið er að byggja upp
ferðaþjónustu á svæðinu, eins og á
fleiri stöðum í fylkinu. Bændur á
þessum slóðum hafa hingað til tekið
ferðamenn upp á arma sína og kynnt
svæðið fyrir þeim án þess að fá nokk-
uð að launum en af samtölum við
heimafólk í fylkinu má ráða að það
styður hugmyndina um ferðaþjón-
ustu sem atvinnuveg á svæðinu.
Styttan af Ingólfi í Rivedal var af-
hjúpuð árið 1961 í kjölfar heimsókn-
ar Ásgeirs Ásgeirssonar forseta árið
1955. Þá var íslenski forsetinn á ferð
um Sogn og firði og heimafólki í
Rivedal hafði borist til eyrna að hann
myndi ekki stoppa þar. Það þótti
þeim súrt í broti þar sem um merki-
legan sögustað er að ræða. Tónlist-
arkennarinn á staðnum ákvað því að
kenna börnunum íslenska þjóðsöng-
inn til að reyna að laða forsetann að
landi, sem gekk eftir. „Ekki auðvelt
lag,“ segir bæjarstjórinn í Askvoll
hlæjandi en hún var ein af börnunum
sem náðu eyrum íslenska forsetans.
Forsetinn hvatvísi ákvað síðan að
heimamönnum yrði gefin afsteypa af
styttunni, sem stendur á Arnarhóli,
og hana afhjúpaði Bjarni Benedikts-
son, þáverandi utanríkisráðherra,
árið 1961.
Endurnýja en ekki rífa
Innan verkefnisins rúmast fjöl-
breytt ferðaþjónusta, alls kyns
fræðsla til ferðamanna, sýningar,
söfn og ferðir með leiðsögumönnum
eða án. Í Terdalen björguðu bændur
sér með vatnsorku og byggðu eigið
vatnsorkuver. Til stendur að varð-
veita það og nýta í ferðaþjónustu
þannig að ferðamenn kynnist göml-
um lifnaðarháttum og rúmast það vel
innan verkefnisins, að sögn Stein og
Sigurbjargar.
Þau segja sömu hugmyndina að
baki öllu því sem ferðamönnum gefst
kostur á að upplifa á þessum slóðum
og rúmast innan verkefnisins Knörr-
inn – hafið – síldin, þ.e. að nýta
gamla menningararfinn og blása
nýju lífi í hann. Hvort sem það er
með því að gista í vita, skoða og prófa
gömul atvinnutæki, sigla á gömlum
póstbátum eða prófa víkingaskip –
jafnvel með mótor! Eða hverfa aftur
til síldaráranna í síldarminjasöfnum.
„Við eigum ekki stórar hallir og
kirkjur eins og margar aðrar þjóðir
en við eigum brotakennda sögu og
hús sem við verðum að varðveita,“
segir Stein Malkenes. Og heima-
mönnum virðist annt um að vernda
gömlu húsin, gera þau upp, halda
gamla andanum og sögunni í stað
þess að rífa og byggja nýtt. Því hvar
sem við komum eru endurgerðar
verbúðir, veitingahús þar sem gamla
byggingarlagið á síldarskemmunum
skín í gegn og hótel, sem var nýlega
opnað, niðri við höfn í bænum Dale
Að blása nýju lífi í
Síldin og Ingólfur, sjórinn
og sagan. Margt tengir
Norðmenn og Íslendinga og
nú er að hefjast samvinnu-
verkefni um menning-
artengda ferðaþjónustu
í báðum löndunum.
Steingerður Ólafsdóttir
fór á söguslóðir í Sogns-
og fjarðafylki á
vesturströnd Noregs.
Sigurbjörg og Stein, framkvæmdastjórar verkefnisins Knörrinn – hafið – síldin. Báturinn Atløy í baksýn.
Sidsel Anita Ekblad Itland, geitabóndi
og söngkona, og Synnøve Rivedal
ferðamálafrömuður við styttuna af
Ingólfi Arnarsyni.
Vatnsorkuver í Terdalen. Þar er verið
að byggja upp aðstöðu þar sem ferða-
menn geta kynnst gömlum atvinnu-
háttum.
Nýverið var opnaður garður þar sem talið er að Gulaþingið, sem stofnað var um
900, hafi verið. Gulaþingið er talið fyrirmynd Alþingis Íslendinga.
Unn Karin, bóndi að Ósi í Gaulum,
gefur ferðamönnum mjöð. Búningur
er úr Gaularspelet, leiksýningu sem
byggð er á Ingólfi Arnarsyni.
’Við eigum ekki stórar hallir og kirkjur eins og margar aðrar þjóðir en viðeigum brotakennda sögu og hús sem við verðum að varðveita. ‘