Morgunblaðið - 04.09.2005, Qupperneq 22
22 SUNNUDAGUR 4. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
M
annanafnanefnd
kemst í fréttirnar
með reglulegu milli-
bili, gjarnan þegar
hún samþykkir að
setja ný nöfn inn á
mannanafnaskrá,
sem nefndin við-
heldur og sér um að halda úti – en ekki síður
þegar fólk er ósátt við niðurstöðu nefnd-
arinnar; þegar fólki er meinað að gefa barni
sínu það nafn sem það kýs.
Aðalheiður Jóhannsdóttir, dósent við laga-
deild Háskóla Íslands, er formaður manna-
nafnanefndar en með henni í nefndinni eru
Guðrún Kvaran, forstöðumaður Orðabókar
Háskóla Íslands, og Haraldur Bernharðsson
málfræðingur.
Aðalheiður, sem tók við formennsku í
nefndinni í febrúar á þessu ári, segir starfið
afar skemmtilegt og gjöfult. Erindin sem
nefndinni berist séu fjölbreytt og gagnrýni,
sem annað slagið beinist að nefndinni, sé ein-
ungis eðlilegur þáttur starfsins. Því megi þó
ekki gleyma að nefndin starfi alfarið skv. lög-
um sem samþykkt hafi verið af löggjafanum.
Tvíþætt hlutverk
En hvert er hið raunverulega hlutverk
nefndarinnar? Aðalheiður svarar því:
„Mannanefndanefnd starfar í samræmi við
VIII. kafla mannanafnalaganna. Í sama kafla
eru helstu verkefni nefndarinnar tíunduð, en
þau eru í stórum dráttum tvíþætt. Annars
vegar er nefndin ráðgefandi aðili og veitir
prestum, forstöðumönnum trúfélaga, dóms-
málaráðuneyti og forsjármönnum barna ráð-
gjöf um nöfn, auk þess ber nefndin ábyrgð á
svokallaðri mannanafnaskrá. Hitt stóra hlut-
verkið er að skera úr í álita- og ágreinings-
málum sem kunna að koma upp við nafn-
giftir, nafnritun og annað sem að nöfnum
lýtur.“
Mannanafnanefnd er skipuð í samræmi við
21. gr. mannanafnalaga frá 1996. Í lögunum
er tekið fram að einn nefndarmanna skuli
skipaður skv. tillögu heimspekideildar Há-
skóla Íslands, annar af lagadeild skólans og
einn af Íslenskri málnefnd. „Þetta er til þess
að tryggja að ákveðin sérfræðiþekking sé
fyrir hendi hjá úrskurðaraðila,“ segir Að-
alheiður.
Hún segir talsvert um að ráðgjafar sé leit-
að hjá nefndinni og einstaka nefndarmönn-
um, t.d. þegar fólk íhugar nafngift; nefnir að
bæði prestar og foreldrar sem leiti að nöfn-
um á börn sín hafi samband, ýmist í gegnum
síma eða með tölvupósti; fær þá ráðleggingu
um nöfn, beygingar nafna og ýmislegt fleira í
þeim dúr.
„Mestur tími nefndarinnar fer í að fjalla
um einstök nöfn sem eru ekki á manna-
nafnaskrá. Á síðasta ári bárust nefndinni rétt
rúmlega 100 erindi, þar sem hún þurfti að
úrskurða um nöfn. Þá er óskað eftir því að
nefndin fjalli um tiltekið nafn eða millinafn
og að það fari á mannanafnaskrá. Stærstur
hluti beiðnanna er samþykktur. Það er auð-
velt fyrir einstaklinga að nálgast allar upp-
lýsingar; mannanafnaskrá er á vef dóms-
málaráðuneytisins og sömuleiðis allir
úrskurðir sem nefndin gefur upp.“
Nefndin óþörf?
Annað veifið lýsir fólk undrun sinni á því
þegar ákveðnum nöfnum er hafnað af
mannanafnanefnd, og sumir hafa gengið svo
langt að segja nefndina óþarfa. Að foreldrar
séu fullkomlega færir um það að velja börn-
um sínum nöfn í friði. Hvað segir Aðalheiður;
er nefndin ef til vill óþörf?
„Ég hef í sjálfu sér enga skoðun á því. Það
er vilji löggjafans að mannanafnalög skuli
gilda og að það skuli vera ákveðnar reglur
um nöfn og hvaða skilyrði þau þurfi að upp-
fylla. Hlutverk nefndarinnar er einungis að
beita lögunum; að fara eftir lagabókstafnum.
Og þar sem ég er í nefndinni get ég ekki
svarað því hvort lögin eru góð eða sanngjörn;
ég fer einungis eftir þeim.“
Hún segir Ísland ekki hafa sérstöðu á
þessu sviði. Mannanafnalög séu víða í gildi,
t.d. í Danmörku og Finnlandi þar sem
strangar reglur gildi einmitt um rithátt
nafna. „Það er reyndar erfitt að bera saman
mannanafnalög því markmiðin kunna að vera
mismunandi.“
Þegar Aðalheiður er spurð, í framhaldi
þessa, hver séu markmið laganna hérlendis,
segir hún:
„Í lögunum er ekki skýr markmiðsgrein en
úr þeim má þó lesa, fyrst og fremst 5. og 6.
grein, ákveðna stefnu. Þar segir að eiginnafn
skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu,
að nafnið megi ekki brjóta í bága við íslenskt
málkerfi og skuli ritað í samræmi við al-
mennar málvenjur í íslenskum nöfnum.
Hins vegar eru ákveðin nöfn sem teljast
hafa unnið sér hefð í málinu. Þau geta vikið
frá þessum skilyrðum. Til að meta hvort nafn
hafi unnið sér hefð í íslensku máli styðst
nefndin við ákveðnar vinnulagsreglur sem
koma fram í frumvarpi til mannanafnalaga.
Samkvæmt þeim er það fjöldi nafnbera sem
skiptir mestu máli þegar metið er hvort nöfn
teljast hafa unnið sér hefð.“
Nafn getur sem sagt fengist samþykkt
þótt það uppfylli ekki skilyrðin, ef tiltekinn
fjöldi fólks ber nafnið.
Þegar þessi vinnubrögð eru viðhöfð liggur
í augum uppi að sum nöfn verða aldrei notuð
framar – en foreldrum hefur stundum verið
neitað um að skíra börn sín í höfuð afa eða
ömmu, vegna þess hversu fáir bera eða hafa
borið nafnið undanfarna áratugi.
Aðalheiður segir um þetta: „Það má e.t.v.
segja að í því að nota hefðarreglur felist
ákveðin stefna. Nafnberum sem ekki upp-
fylla almennu skilyrðin í 5. gr. fjölgar því
ekki, nema nafnberar flytjist til Íslands.“
Hún segir dæmi þess að erlend nöfn hafi
unnið sér hefð hér á landi vegna fjölda þess
fólks sem ber viðkomandi nafn.
„Löglegt“ nafn?
Morgunblaðið veit að karlmannsnafnið
Jack er eitt þeirra nafna sem hafa verið sam-
þykkt, þótt það uppfylli ekki almennu skil-
yrðin.
Aðalheiður segir að öðru hverju fái manna-
nafnanefnd fyrirspurnir frá fólki sem nú þeg-
ar ber nöfn sem ekki er að finna á manna-
nafnaskrá „og fólkið hefur því eðlilega
áhyggjur af því hvort nafnið sé „löglegt“ – en
rétt er að taka fram að þótt nafn sé ekki á
mannanafnaskrá hefur það engin áhrif á rétt-
indi fólks til þess að bera nöfnin“.
Annað atriði sem Aðalheiður nefnir er að
oft vefjist fyrir fólki munurinn á eiginnöfnum
og millinöfnum, en síðarnefnda hugtakið er
notað yfirs sérstaka tegund nafna sem eru
kynlaus; nöfn sem bæði er hægt að gefa
drengjum og stúlkum.
Aðalheiður segir starfið í nefndinni afar
skemmtilegt og gjöfult, eins og vikið var að í
upphafi. „Maður lærir mjög mikið af þessu;
okkur berast afar fjölbreytt erindi og spurn-
ingar.“
Aðalheiður segir að við síðustu lagabreyt-
ingu hafi orðið talsverðar breytingar á um-
ræddum lögum og „það er óhætt að segja að
þær breytingar hafi orðið í átt að meiri
sveigjanleika“, segir hún.
Þegar spurt er hvort mikið sé um að
nefndinni berist fyrirspurnir um „skrýtin“
nöfn eða hvort einhver nöfn séu sérstaklega í
tísku um þessar mundir segist Aðalheiður
ekki gera sér almennilega grein fyrir því.
Hún segir að þegar nöfn fólks séu til um-
ræðu sé um afar persónulegt mál að ræða og
nefndin leggi því áherslu á að upplýsingar
allar og útskýringar séu gagnsæjar. „Nefnd-
in leggur mikla áherslu á að gera fólki grein
fyrir því hvað það er sem við teljum að upp-
fylli ekki skilyrði laganna, ef sú er raunin.
Við höfum til dæmis lagt okkur í líma við að
hitta fólk til þess að það viti nákvæmlega
hvers vegna ekki er mögulegt að samþykkja
tiltekin nöfn og fólk bregst yfirleitt mjög vel
við.“
Vilji löggjafans skýr
Aftur er vikið að hefðarreglunni; þegar
ekki nógu margir bera nafn afa eða langafa,
svo dæmi sé tekið; nafn sem foreldrar kjósa
að gefa barni sínu en fá ekki leyfi til. Er það
ekki dálítið skrýtið?
Aðalheiður svarar: „Það er spurning við
hvað á að miða. Vilji löggjafans er skýr að
miða við þessi ákveðnu viðmið og þau koma
fram í greinargerðinni með lögunum. Það
getur vel verið að einhver önnur aðferð sé
betri en þar sem ég er í nefndinni get ég
ekki haft neina skoðun á því.“
Aðspurð kveðst Aðalheiður ekki fylgjast
mikið með gagnrýni sem nefndin verður fyrir
„en ég hef orðið þess áskynja að fjölmiðlar
hafa mikinn áhuga á störfum nefndarinnar.
Og það finnst mér mjög jákvætt“.
Vert er að geta þess að nefndin hefur fjór-
ar vikur til þess að kveða upp úrskurði í mál-
um sem vísað er til hennar og úrskurðir
nefndarinnar eru birtir á heimasíðu dóms-
málaráðuneytisins strax eftir að búið er að
svara fólki bréflega.
Vilji löggjafans er skýr
Hvað á barnið að heita? er spurning
sem lögð hefur verið fyrir marga í
gegnum tíðina. Skapti Hallgríms-
son kynnti sér starf mannanafna-
nefndar; hvað barnið má heita og
hvað ekki, og hvers vegna.
Morgunblaðið/Kristinn
’Þar [í lögunum]segir að eiginnafn
skuli geta tekið ís-
lenska eignarfalls-
endingu, að nafnið
megi ekki brjóta í
bága við íslenskt
málkerfi og skuli rit-
að í samræmi við al-
mennar málvenjur í
íslenskum nöfnum. ‘
skapti@mbl.is
’…foreldrum hefurstundum verið neit-
að um að skíra börn
sín í höfuð afa eða
ömmu, vegna þess
hversu fáir bera eða
hafa borið nafnið
undanfarna áratugi.‘Aðalheiður Jóhannsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, er formaður mannanafnanefndar.