Fréttablaðið - 20.09.2006, Síða 12
12 20. september 2006 MIÐVIKUDAGUR
DÓMSMÁL Tveir menn hafa verið
dæmdir í Héraðsdómi Vestur-
lands fyrir fíkniefnabrot og
ofbeldisverk. Annar var dæmd-
ur í fangelsi, hinn í sekt.
Annar mannanna réðst að
manni aðfaranótt sunnudagsins
17. apríl 2005 fyrir utan Búðar-
klett í Borgarnesi. Fórnarlambið
marðist mikið í andliti og fékk
skurð á vinstra kinnbein. Sömu
nótt réðust báðir sakborningarn-
ir á annan pilt á sama stað. Annar
þeirra sló hann í jörðina, en hinn
sló og sparkaði í andlit honum
þar sem hann lá. Pilturinn missti
við þetta tvær tennur úr efri
gómi.
Auk þessa var öðrum hinna
dæmdu gefið að sök að hafa gert
tilraun til fíkniefnabrots meðan
hann sat í fangelsinu á Akureyri,
en þá reyndi hann að smygla
kókaíni inn í fangelsið.
Annar mannanna var dæmd-
ur í tveggja mánaða fangelsi.
Honum var gert að greiða þeim
sem tennurnar missti 135 þús-
und krónur, svo og sakarkostn-
að. Hinn var dæmdur í 50 þús-
und króna sekt eða fjögurra daga
fangelsi, greiði hann hana ekki
innan tilskilins tíma. - jss
BORGARNES Ofbeldisverkin áttu sér stað
fyrir utan Búðarklett í Borgarnesi.
Dómur í Héraðsdómi Vesturlands fyrir fíkniefnabrot og ofbeldisverk:
Sló og sparkaði í andlit pilts
ÁHYGGJUFULLUR Áhyggjusvipurinn
leyndi sér ekki á Ferenc Gyurcsany,
forsætisráðherra Ungverjalands, er
hann heimsótti í gær lögreglumenn
sem slösuðust í óeirðunum í fyrri-
nótt. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
UNGVERJALAND, AP Ferenc Gyurcsany, forsætis-
ráðherra Ungverjalands, sagði í gær að atburð-
ir þeir sem áttu sér stað í Búdapest í fyrrinótt
hefðu gert hana að „lengstu og myrkustu nótt“
í sögu landsins frá því
kommúnisminn féll árið 1989.
Um 150 manns slösuðust í
óeirðum sem upphófust eftir
að spiluð var í ungverska ríkis-
útvarpinu upptaka af ræðu
Gyurcsanys í lokuðum hópi
flokksmanna sinna, en í ræðunni segir hann að
ríkisstjórn hans hefði „logið öllum stundum“
um ástand efnahagsmála í landinu í aðdrag-
anda þingkosninga í apríl síðastliðnum.
Mótmælendum og óeirðalögreglu laust
saman við höfuðstöðvar ungverska sjónvarps-
ins í Búdapest í fyrrakvöld. Mótmælendur
báru lögregluna ofurliði og gengu berserks-
gang í sjónvarpshúsinu. Lágu allar útsending-
ar niðri um hríð. Um 150 manns slösuðust í
átökunum, þar af 102 lögreglumenn. Einn var
lagður inn á sjúkrahús með alvarlega höfuð-
áverka, að sögn talsmanns lögreglunnar.
Í viðtali við AP-fréttastof-
una sagði Gyurcsany að hann
hafnaði því algerlega að
verða við kröfum um að víkja
úr embætti vegna málsins.
Hann sór hins vegar að hann
myndi halda til streitu efna-
hagsumbótaáætlun sinni.
„Ég fer hvergi og gegni starfi mínu áfram.
Það á hug minn allan að hrinda áætluninni í
framkvæmd,“ segir Gyurcsany. „Ég veit að
fólk á erfitt með að kyngja þessu, en þetta er
eina leiðin fram á við fyrir Ungverjaland.“
Gyurcsany fordæmdi „skemmdarfýsn“
þeirra á að giska tvö þúsund til þrjú þúsund
mótmælenda sem réðust inn í sjónvarpshúsið.
Hann sagðist jafnframt hafa fullt traust á lög-
reglunni að koma aftur á friði og ró.
Bræðin sem hin umdeilda upptaka hefur
leyst úr læðingi er rakin til sparnaðaraðgerða
stjórnvalda, sem þau hafa gripið til í því skyni
að freista þess að hemja fjárlagahallann, sem
stefnir í að verða meira en tíu prósent af vergri
landsframleiðslu í ár, og þar með langmesti
hallinn sem um getur í aðildarríkjum Evrópu-
sambandsins.
Meðal aðgerða sem boðaðar hafa verið í
þessu skyni eru skattahækkanir, uppsagnir
fjölda ríkisstarfsmanna, og að tekin verði upp
þjónustugjöld í heilbrigðisþjónustu og skóla-
gjöld fyrir flesta háskólanema.
Samsteypustjórn Sósíalistaflokks Gyurc-
sanys og frjálsra demókrata var fyrsta ríkis-
stjórn Ungverjalands sem náði endurkjöri
eftir að lýðræði komst aftur á í landinu árið
1990. audunn@frettabladid.is
VERKSUMMERKI ÓEIRÐA Eyðilagður lögreglubíll fyrir utan höfuðstöðvar ungverska ríkissjónvarpsins í Búdapest í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
Þrýsta á afsögn Gyurcsanys
Birting upptöku þar sem ungverski forsætisráðherrann Gyurcsany segir ríkisstjórn sósíalista hafa logið um
ástand efnahagsmála fyrir kosningar í vor hefur valdið mikilli reiði meðal Ungverja. Hann neitar að víkja.
Ég fer hvergi og gegni
starfi mínu áfram.
FERENC GYURCSANY
FORSÆTISRÁÐHERRA UNGVERJALANDS
ATVINNUMÁL Meirihluti starfs-
manna matvöruverslana,
veitingastaða og kráa er yngri en
25 ára. Þetta leiða nýjar tölur frá
Hagstofu Íslands í ljós en þeirra
er getið í vefriti fjármálaráðu-
neytisins. Í október á síðasta ári
voru 46 prósent þeirra sem
störfuðu í matvöruverslunum
tvítugt fólk eða yngra og sextíu
prósent allra sem þar störfuðu
höfðu ekki náð 25 ára aldri.
Svipaða sögu er að segja af
veitingahúsum og krám, þar voru
61 prósent starfsmanna 25 ára og
yngri. Samtals starfa um níu
þúsund manns í þessum tveimur
atvinnugreinum. - kdk
Starfsfólk matvöruverslana:
Meirihluti
ungt fólk
MENNINGARMÁL Pólsk menningar-
hátíð verður haldin dagana 28.
september - 1. október næstkom-
andi. Hátíðin hefur verið tvö ár í
undirbúningi og með henni verður
ýtt úr vör stærstu kynningu á
pólskri menningu sem fram hefur
farið hér á landi.
Landsvirkjun styrkir menningar-
hátíðina en íslensk/pólska vináttu-
félagið og Landsvirkjun hafa undir-
ritað samstarfssamning sem hefur
það að markmiði að kynna pólska
menningu á Íslandi og stuðla að
skilningi á fjölmenningu og
nútímasamfélagi á Íslandi.
Í byrjun tíunda áratugarins
fluttu margir Pólverjar til Íslands
í leit að betur launuðum stöfum og
nú eru þeir langstærsti hópur inn-
flytjenda. Flestir þeirra eru
dreifðir um landið í ýmsum störf-
um þar sem lítillar sérmenntunar
er krafist. Menningarhátíðinni er
ætlað að kynna menningarlegan
bakgrunn þessa fólks.
Meðal þeirra sem fram koma á
hátíðinni eru heimsfrægir pólskir
listamenn eins og Krzysztof Pend-
erecki, sem mun stjórna Sinfóníu-
hljómsveit Íslands. Þá verða sýnd-
ar pólskar kvikmyndir og tónleikar
haldnir til heiðurs Szymon Kuran
tónlistarmanni sem lést á síðasta
ári. Þeir sem vilja kynna sér dag-
skrá menningarhátíðarinnar betur
er bent á heimasíðuna www.
polska.is. - hs
Pólsk menningarhátíð verður haldin um næstu mánaðamót:
Pólsk menning kynnt í Reykjavík
UNDIRRITUN SAMNINGSINS Þorsteinn
Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkj-
unar, ásamt Önnu Wojtynska og Mörtu
Macuga.