Fréttablaðið - 11.11.2006, Side 76
Þessi spurning kviknar líklega af
þeirri staðreynd að tveir keisarar
sem báðir tóku sér nafnið Napó-
leon ríktu í Frakklandi á 19. öld. Sá
fyrri var Napóleon Bónaparte eða
Napóleon I, en sá síðari tók sér tit-
ilinn Napóleon III. Það liggur því
nokkuð beint við að velta fyrir sér
hver var Napóleon II.
Eiginlega er hægt að svara spurn-
ingunni um tilvist Napóleons II
bæði játandi og neitandi. Í huga
Napóleons I byggðist keisaraveld-
ið á því að hann gæti eignast karl-
kyns erfingja. Kona Napóleons,
Jósefína, gat ekki eignast börn og
því skildi hann við hana og giftist
Maríu Lovísu, dóttur Austurrík-
iskeisara, árið 1810. Ári seinna ól
hún sveinbarn, Napóleon Frans
Jósef Karl Bónaparte. Napóleon
yngri hlaut heiðurstitilinn ,konung-
ur Rómar‘, líkt og erfingi bresku
krúnunnar ber titilinn ,prinsinn af
Wales‘.
Árið 1814 hafði Napóleon I farið
halloka í styrjöldum sínum og
neyddist til þess að segja af sér
keisaradómi. Hann gerði það með
því skilyrði að við völdum tæki
sonur hans, þá þriggja ára, en ekk-
ert mark var tekið á þessari ósk.
Napóleon I var sendur í útlegð til
eyjunnar Elbu og sonurinn varð
eftir hjá Maríu Lovísu, móður
sinni.
Ári seinna reyndi Napóleon I aftur
að ná völdum en varð að lúta í gras
í orrustunni við Waterloo. Eftir
hana sagði Napóleon af sér keisara-
dómi á ný og bað aftur um að sonur
sinn tæki við völdum. Í þetta sinn
samþykkti franska þingið beiðni
Napóleons, og því ríkti fjögurra
ára drengur í um það bil tvær vikur
yfir Frakklandi að nafninu til áður
en bandamenn komu til Parísar og
settu snáðann af. Þar með lauk end-
anlega valdatíð þeirra feðga en
Napóleon I eyddi síðustu árum ævi
sinnar í útlegð á St. Helenu í Suður-
Atlantshafi þar sem lést árið 1821.
Eftir Napóleonsstyrjaldirnar fékk
Napóleon yngri titilinn ,hertoginn
af Reichstadt‘ en var í raun hálf-
gerður fangi í Austurríki. Hann dó
úr berklum árið 1832, einungis 21
árs. Eins og með föður hans hafa
heyrst raddir um að honum hafi
verið byrlað eitur en líklega er
engin leið að komast að hinu sanna
í málinu.
Engir nema hörðustu stuðnings-
menn Bónaparte-ættarinnar kalla
Napóleon Frans Jósef Karl Bóna-
parte nafninu Napóleon II. Samt
sem áður ákvað frændi þeirra
feðga, Loðvík Napóleon, árið 1852
að taka upp nafnið Napóleon III í
virðingarskyni við stutta valdatíð
frænda síns.
Stefán Gunnar Sveinsson,
sagnfræðingur
Fræðimenn eru nokkurn veginn
sammála um að það sem veldur
hækkun á hitastigi jarðar sé auk-
inn styrkur svokallaðra gróðurhúsa-
lofttegunda af mannavöldum. Sú
lofttegund sem leikur hér lykil-
hlutverk er koltvíoxíð. Meðal ann-
arra gróðurhúsalofttegunda eru
vatnsgufa, metan, tvínituroxíð,
óson og ýmis halógen-kolefnissam-
bönd sem framleidd eru í iðnaði.
Til þess að átta sig á verkan þess-
ara efna og hvers vegna þau eru
kennd við gróðurhús er mikilvægt
að skoða hvernig geislar sólar
hegða sér á jörðinni.
Þegar sólargeislar falla á loft-
hjúp jarðar endurkastast 26 pró-
sent þeirra strax aftur út í geim-
inn vegna frákasts frá skýjum og
ýmsum ögnum í lofthjúpnum.
Skýin og agnir í andrúmsloftinu
gleypa svo í sig um nítján prósent
þeirra geisla sem berast frá sólu
en afgangurinn, 55 prósent, nær
að yfirborði jarðar. Af þeim geisl-
um er 4 prósentum varpað strax
aftur út í geim. 51 prósent hefur
síðan margvísleg áhrif og veldur
meðal annars bráðnun jökla, upp-
gufun vatns og hitun yfirborðsins.
Síðast en ekki síst nýtast þessir
geislar til ljóstillífunar plantna.
Geislar sólar sem ná yfirborði
jarðar eru ljós og önnur rafsegul-
geislun með stuttri bylgjulengd.
Orka þeirra vermir jörðina og
sendir þá jörðin frá sér sem
varmageislun með talsvert meiri
bylgjulengd en upphaflega ljósið.
Aðeins brot af síðarnefndu geisl-
unum berst þó út fyrir lofthjúp-
inn; meirihluti þeirra er fangaður
af sameindum í andrúmsloftinu
sem við nefnum í daglegu tali
gróðurhúsalofttegundir. Geislun-
in frá yfirborði jarðar hitar sam-
eindir þessara efna í lofthjúpnum
og þær endurkasta hitageislum í
allar áttir. Allt að níutíu prósent
þessara geisla berast aftur til
jarðar, hita hana og kastast svo
aftur út í loftið. Þannig gengur
þetta fyrir sig aftur og aftur. Því
má segja að lofttegundirnar virki
eins og gróðurhús þar sem þær
halda varmanum innan lofthjúps-
ins svipað og loft og gler í gróður-
húsi heldur varmanum inni þó að
húsið sé ef til vill ekki hitað upp
sérstaklega.
Aukning gróðurhúsalofttegunda í
andrúmslofti hækkar hita loft-
hjúpsins þar sem fleiri agnir eru
til þess að gleypa í sig geislana og
endurkasta þeim. Þetta getur haft
slæmar afleiðingar fyrir lífríki
jarðar. Þó má ekki gleyma því að
gróðurhúsaáhrif eru náttúrulegt
fyrirbæri í lofthjúpi jarðar og ef
þeirra nyti ekki við væri allt að
33° C kaldara á jörðinni. Meðalhiti
jarðar væri þá allt að -18° C en
ekki +15° C eins og nú er. Því leika
gróðurhúsalofttegundir lykilhlut-
verk í því hversu lífvænlegt er á
jörðinni.
Jón Már Halldórsson,
líffræðingur