Fréttablaðið - 16.12.2007, Blaðsíða 22
22 16. desember 2007 SUNNUDAGUR
Þ
að var kunnuglegur
kauði sem gekk inn á
meðferðarstofnunina
Vog hinn 15. janúar
síðastliðinn. Fjölnir
Bragason, betur þekkt-
ur hjá flestum sem „Fjölnir
tattoo“, hafði margoft áður reynt
að losna undan fjötrum alkóhól-
ismans, með takmörkuðum
árangri þó. „Mér fannst menn
hrista hausinn þegar ég mætti á
svæðið. Þessi gaur, glætan. Þetta
var hugsunarhátturinn sem ég
skynjaði í fyrstu en það var fljótt
að breytast,“ segir Fjölnir þegar
hann rifjar upp sín síðustu andar-
tök sem „óreglumaður“, eins og
hann orðar það sjálfur. Í dag, ell-
efu mánuðum síðar, er Fjölnir
ennþá edrú – honum tókst ætlun-
arverk sitt og hefur aldrei liðið
betur.
„Fólkið í kringum mig segir að
ég sé nýr maður en ég get ekki
nema að hluta til tekið undir það.
Eins og einn mætur maður sagði
eitt sinn: „Ég er ekki nýr maður,
ég er að bjarga þessum gamla.“
Það sem er að gerast núna er að ég
er að kynnast sjálfum mér upp á
nýtt.“ En Fjölnir er ekki aðeins að
kynnast sjálfum sér upp á nýtt.
Hann er að kynnast öllum litlu
þáttunum í
lífinu sem
hann hafði
sagt skilið
við þegar
neyslan var
í hámarki.
„Þá er ég að
tala um hluti
eins og að
fara að sofa
á skikkan-
legum tíma
á kvöldin,
vakna á
morgnana
og líta björt-
um augum á
daginn fram-
undan. Að
geta horft í
augun á
strákunum
mínum og
talað við þá
á eðlilegum
nótum, án
þess að eiga
á hættu að
segja tóma
steypu. Að
geta eldað
kvöldmat heima á eðlilegum tíma,
horfa á fréttirnar og kíkja svo í
heimsókn til mömmu og pabba.
Þetta skiptir mig öllu máli í dag,“
segir Fjölnir og bætir við að hann
upplifi jólin fram undan með gjör-
ólíkum hætti en áður.
„Ég hef ekki fundið þá tilfinn-
ingu sem ég hef núna í mörg ár.
Þegar ég var í neyslunni voru jólin
alltaf einn erfiðasti tími ársins.
Jólin eru tími fjölskyldunnar og
áður þurfti maður gjarnan að
horfast í augu við hluti sem maður
hafði viljað látið ógerða. Nú upp-
lifi ég jólin hins vegar í gegnum
börnin mín og systkina minna og í
mér blundar aðeins tilhlökkun.
Þetta verður æðislegt.“
Hefur gaman af Dr. Phil
Fjölnir er 42 ára og hefur verið
ásatrúarmaður frá átján ára aldri.
Hann segir trúna hafa haft mikil
áhrif á sína lífssýn í gegnum tíð-
ina og af orðfæri hans má ráða að
hann þekkir söguna vel. „Ég hef
alltaf verið trúaður, alveg frá því
ég var barn. Ég las biblíuna
snemma og var búinn að kynna
mér ásatrúna nokkru áður en ég
gekk í félagið. Ég hefði gert það
fyrr, en innganga var bundin við
átján ára aldurinn.“
Á vef Ásatrúarfélagsins stendur
að eitt megininntak siðarins sé að
hver maður sé ábyrgur fyrir sjálf-
um sér og gjörðum sínum. Hjálp-
aði trúin þér við að snúa blaðinu
við?
„Já, tvímælalaust. Ásatrúin er
gullfalleg og mjög jarðbundin
trúar brögð sem snúast um rætur
okkar og tengja okkur við vík-
ingana. Og það tímabil er eitt
helsta gullaldartímabil í íslenskri
sögu – nokkuð sem við getum verið
stolt af. Og mitt líferni, áður en ég
varð edrú, það var allavega ekki
nokkuð sem ég var stoltur af. Ég
var að horfa á Dr. Phil um daginn
…“
Bíddu, bíddu … Horfir Fjölnir
tattoo á Dr. Phil?
„Já, ég á það til að detta inn í
þætti með honum yfir morgun-
matnum. Hann er sjálfur alveg
ágætur en það eru aðallega málin
sem eru tekin fyrir sem geta verið
áhugaverð og hinn fínasti samfé-
lagsspegill. Einn morguninn datt
ég inn í þátt þar sem Ozzy
Osbourne var aðalgesturinn. Og
Ozzy sagði svolítið í þættinum
sem ég tók til mín. Hann sagði:
„My biggest mistake in life is that
I was a people pleaser“. Ég ætla
ekki að bera mig saman við Ozzy
en þegar maður verður að ákveðnu
„ækoni“ eins og ég hef kannski
verið í þjóðfélaginu síðustu ár sem
þessi „Fjölnir tattoo“, gaurinn með
síða hárið og öll húðflúrin, þá fer
maður smám saman að leika þetta
hlutverk. Og eftir á að hyggja þá
hef ég verið mikill „people pleas-
er“ og það var ekki fyrr en fyrir
ellefu mánuðum sem ég fór að
vinna í sjálfum mér af alvöru.“
En þú hefur nú samt ekki breyst
svo mikið. Þú ert ennþá með síða
hárið og gengur um í hlýraboln-
um?
„Já, en þetta er engin ímynd.
Svona er ég bara og svona líður
mér einfaldlega best. Ég hef verið
með sítt hár í næstum aldarfjórð-
ung og hef oft pælt í því að klippa
mig, bara til að prufa það einu
sinni. En ég held að það fyrsta sem
ég myndi gera eftir það væri að
byrja að safna aftur. Síðan er ég
mjög heitfengur og þess vegna
líður mér best í hlýrabolnum. Það
eru nú ekki meiri vísindi á bakvið
þetta en það,“ segir Fjölnir og
glottir.
Fjölnir á tvo stráka, tólf og átján
ára, sem hann lifir fyrir. Hann
viður kennir að hann myndi líklega
snoða sig ef þeir bæðu hann um
það. „Ef yngri sonur minn myndi
biðja mig um það og virkilega
meina það, þá myndi ég gera það.“
Fjölnir hefur varla sleppt orðinu
þegar eldri sonurinn, Atli, sem var
viðstaddur stóran hluta viðtalsins,
tekur til máls: „Pabbi, ég mun
hætta að tala við þig ef þú snoðar
þig,“ segir hann og uppsker mikil
hlátrasköll frá föður sínum. Þar
með er endi bundinn á þær vanga-
veltur – Fjölnir er ekki á leið í
klippingu í bráð.
Miðill í stöðugri þróun
Fjölnir er sonur Braga Ásgeirs-
sonar, eins ástkærasta listamanns
þjóðarinnar, og má því með sanni
segja að honum séu hæfileikarnir
í blóð bornir. Fjölnir segist alltaf
hafa verið góður í höndunum,
hann er lærður myndhöggvari en
hefur haft húðflúrun að aðalstarfi
frá árinu 1995.
Sjálfur var hann 29 ára þegar
hann fékk sitt fyrsta húðflúr. Þá
lét hann setja kennitöluna sína á
herðablaðið. Gjörningurinn fór
fram með rakvél og var virkilega
sársaukafullur. „Og útkoman var
beinlínis ljót,“ bætir Fjölnir hlæj-
andi við. Í dag er hann búinn að
hylja kennitöluna með öðru húð-
flúri, einu af þeim þrjátíu sem
hann hefur fengið sér frá þeim
tíma, og eiga flest húðflúrin það
sameiginlegt að skírskota á einn
eða annan hátt til ásatrúarinnar;
Óðinn, Fáfnir, Freyr og allir hinir.
„Ég er hættur að telja mín húð-
flúr því þau renna öll saman. Og
húðflúrin eru öll í fullri vinnslu,
þau eru ókláruð listaverk. Ég ætla
að taka bakið á mér næst og síðan
mun ég setja húðflúr á fæturna á
mér. Þetta er hluti af þessari endur-
fæðingu. Að gera flott listaverk á
líkamann sem er útpælt og hefur
mikla þýðingu.“
Nú vil ég fá hreinskilið svar. Er
vont að fá sér húðflúr?
Já, það er vont. En þetta er sárs-
auki sem allir eiga að höndla. Húð-
flúr er fyrst og fremst ákveðin
athöfn. Það sem þú ert að setja á
líkamann hefur einhverja þýðingu
fyrir þig og fyrir vikið verður
sársaukinn vel þess virði og í raun-
inni hluti af „kikkinu“ þegar allt
kemur til alls.“
Fjölnir starfar í dag á Íslenzku
húðflúrstofunni, ásamt lærimeist-
ara sínum, Jóni Páli Halldórssyni,
og Búra, samstarfsmanni sínum
til margra ára. Hann vinnur mikið,
er venjulega mættur kl. 10 á stof-
una og vinnur fram að kvöldmat,
jafnvel sex daga vikunnar. „Húð-
flúrin eru ofboðslega skemmtileg-
ur miðill sem er stöðugt að þróast.
Í dag eru það helst litirnir sem
fólk er að uppgötva og þá stað-
reynd að það er hægt að leika sér
með þá endalaust. Tækin og tólin
sem við notum til að flúra verða
sífellt betri, sem og þekkingin á
þeim, og í dag eru litirnir þess
eðlis að það er hægt að treysta
þeim. Húðflúrin endast og við
setjum hugmyndafluginu engin
takmörk. Það er allt hægt.“
Ásatrú eða heiðinn siður byggist
á umburðarlyndi, heiðarleika,
drengskap og virðingu fyrir nátt-
úrunni og öllu lífi. Eitt megin-
inntak siðarins er að hver maður
sé ábyrgur fyrir sjálfum sér og
gerðum sínum. Ì Hávamálum
er einkum að finna siðareglur
ásatrúarmanna en heimsmynd
ásatrúarmanna er að finna í
Völuspá. Þar er sköpunarsögunni
lýst, þróun heimsins, endalokum
hans og nýju upphafi. Ì trúarleg-
um efnum hafa ásatrúarmenn
aðallega hliðsjón af hinum fornu
Eddum. Margir ásatrúarmenn líta
frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl
heldur en bein trúarbrögð.
„Þessi trúarbrögð voru bönn-
uð í 1000 ár sem þýðir að þau
eru ómenguð af öllu ruglinu í
þjóðfélaginu okkar. Flest önnur
trúarbrögð eru lituð eða íþyngd
á einhvern hátt, til dæmis með
fordómum og pólitík,” segir Fjölnir
um ásatrúna.
➜ HVAÐ ER ÁSATRÚ?
Er að kynnast
sjálfum mér
upp á nýtt
Bráðum ár er liðið frá því að Fjölnir „tattoo“
Bragason sagði skilið við óregluna sem einkennt
hafði líf hans að stórum hluta frá því hann hóf
að húðflúra Íslendinga um miðjan síðasta áratug.
Að utan er Fjölnir svo til sami maðurinn og áður,
með síða hárið, skeggrótina og húðflúrin á sínum
stað, íklæddur svarta hlýrabolnum og leðurvest-
inu. Að innan er hann hins vegar gjörbreyttur.
Vignir Guðjónsson ræddi við Fjölni í vikunni sem
leið.
FJÖLNIR BRAGASON „Ég hef ekki fundið þá tilfinningu sem ég hef núna í mörg ár. Þegar ég var í neyslunni voru jólin alltaf erfið-
asti tími ársins.“
Ég ætla að
taka bakið
á mér næst
og síðan
mun ég setja
húðflúr á
fæturna á
mér. Þetta er
hluti af þess-
ari endur-
fæðingu.