Fréttablaðið - 16.12.2007, Blaðsíða 28
28 16. desember 2007 SUNNUDAGUR
D
uggholufólkið er ævintýra-
mynd um borgardreng sem
þekkir tölvuleiki og kvikmynd-
ir jafn vel og lófann á sér en er
sendur í sveit þar sem hann
kynnist veðrum, draugum, norn og ævintýr-
um. Hugmyndina að myndinni segir Ari
mega rekja allt aftur til barnæsku hans.
„Menn ganga alltaf með einhverja atburði
í maganum sem haft hafa áhrif á þá. Þessa
kvikmynd má eiginlega rekja til þriggja
atburða í mínu lífi. Fyrst er það lífsreynsla
mín í sveitinni þegar ég kom þangað sem
barn, sjö eða átta ára gamall. Munurinn á
sveit og borg var enn það mikill að þetta var
þó nokkuð menningarsjokk, sér í lagi þegar
ég var látinn hjálpa til við að slátra kú. Belj-
an var skotin, skorin á háls, vaskafat sett
undir blóðbununa og allir létu eins og ekkert
væri eðlilegra í heimi. Ég var settur í það
verkefni að hræra í brúsa sem blóðinu úr
vaskafatinu var hellt í. Annar atburður sem
situr í mér er þegar ég tók á móti dreng úr
sveit sem aldrei hafði séð sjónvarp. Í tækinu
var svart-hvítur glæpaþáttur og aðalbófinn
var skotinn. Fer þá ekki drengurinn að
hágráta því hann vissi vel úr sveitinni hvað
það var að deyða en hafði aldrei séð mann
skotinn. Fólkið reyndi að hugga hann en hann
var alveg skelfingu lostinn og miður sín. Í
dag kippir auðvitað enginn sér neitt upp við
það þótt 20-30 manns séu drepnir á skjánum
á hverju kvöldi.“ Ari lumar á þriðju sögunni.
„Fyrir nokkrum árum lenti ég í aðgerð á
Borgarspítalanum sem misheppnaðist eitt-
hvað og var mér haldið lengi sofandi í öndun-
arvél. Þegar ég fór að vakna aftur til lífsins
úr móki djúpsvæfingarlyfja mætti mér alltaf
þessi draugur, sem krafðist þess að ég hjálp-
aði sér ef ég vildi sleppa lifandi út af spítal-
anum.
Ég var lamaður af hræðslu því draugurinn
var býsna skelfilegur í upphafi. Á endanum
náði ég nógu mikilli skynsemi til að úrskurða
að þetta væri ímyndun sem gæti ekki gert
mér neitt. Og það er að nokkru leyti það sem
kemur fram í myndinni: Það er ákvörðun
hvers og eins hversu hræddur hann verður
við þessar verur, hvort sem það eru draugar
eða myndir á tjaldi.“
Mikilvægt fyrir börnin að sjá sig á skjánum
Ari hefur verið viðloðandi kvikmyndabrans-
ann í nær 28 ár og varla til sú kvikmynd þar
sem hann hefur ekki lagt sitt á vogarskálarn-
ar. Hans eigin kvikmyndir, sem hann sjálfur
skrifar handritin að, virðast þó einhverra
hluta vegna verða barnamyndir. Af hverju
skyldi það vera? „Ég veit það ekki. Ég held
kannski að í æsku hafi ég orðið svo bergnum-
inn af þessu formi sem kvikmyndin er og
þótt það svo æðislegt að ég hafi viljað miðla
því til annarra barna. Pappírspési átti reynd-
ar aldrei að verða kvikmynd heldur sjón-
varpssería en fjármagnið sem koma átti frá
Þýskalandi brást þannig að við neyddumst til
að gera úr þessu kvikmynd í stað átta sjón-
varpsþátta. Mér leist ekkert á að gera úr
þessu bíómynd, en það var verið að bjóða upp
íbúðina og þetta vanalega sem tilheyrir því
að vera kvikmyndagerðarmaður svo ég varð.
Þegar ég kom hins vegar í bíóið og upplifði
þessa miklu stemningu og þakklæti barnanna
– að fá að sjá barnamynd á íslensku – áttaði
ég mig á að þessi kynslóð barna hafði aldrei
séð mynd á íslensku í bíó, því að tíu ár voru
liðin síðan næsta barnamynd á undan, Jón
Oddur og Jón Bjarni, var sýnd.
Ég er alveg viss um að hverri kynslóð er
nauðsynlegt að sjá sjálfa sig og sitt umhverfi
á hvíta tjaldinu. Ef börn sjá aldrei sitt eigið
umhverfi í kvikmyndum hugsa þau: „Hér bý
ég á þessum ómerkilega stað. Hér gerast
aldrei neinar skemmtilegar sögur og hér er
ekki þetta fallega fólk sem er í kvimyndun-
um.“ Ari viðurkennir líka að honum gangi
mjög illa að eldast. „Kannski geri ég ungl-
ingamynd næst – fer upp um tvö ár í
þroska.“
Auglýst eftir lömbum
Myndin fjallar ekki aðeins um börn heldur
koma dýr talsvert við sögu. Þannig skipta tvö
lömb með sér stóru hlutverki og var annað
lambið villt og hitt hálftaminn heimalningur.
„Myndin var tekin upp í nóvember og sam-
kvæmt líffræðinni eiga lömbin víst bara að
fæðast í maí. Ég hugsaði með mér að ein-
hvers staðar hlytu kindurnar að stríða nátt-
úrunni og fæðast.“ Og það stóð heima, Ari
auglýsti eftir lömbum sem fædd voru utan
líffræðilögsögunnar og fékk tvö hundruð
svör. Tvö lömb voru valin, annað til að vinna
í stúdíóinu og hitt lék fyrir vestan í útitökum.
„Sunnlenski heimalningurinn var ákaflega
spakur, hafði alist upp með hundi sem einnig
leikur í myndinni og leit á hann sem sína nán-
ustu fjölskyldu. Þannig hvíldu lambið og
hundurinn sig saman milli taka og lágu í
faðmlögum.“ Öllu erfiðara var að eiga við
villta lambið fyrir vestan, því ef því var
sleppt hljóp það bara í burtu. „Við tókum því
upp hálf stalíníska aðferð. Höfðum móður
lambsins og systur í haldi og færðum fjöl-
skyldu þess úr stað ef við þurftum að færa
lambið því alltaf elti lambið. Stalín vissi allt-
af að hann gat hleypt fólki úr landi ef hann
hafði fjölskylduna hjá sér kyrrsetta – fólkið
kæmi alltaf aftur. Lambið var því þægt. Eitt
sinn slapp þó móðirin úr haldi okkar og hvarf
á harðahlaupum niður fjallið. Ég sá fram á að
ekki yrði um fleiri lambamyndatökur að
ræða. Sonur minn, Kristinn, hljóp á eftir
kindinni og kom, mér til mikillar furðu, með
hana til baka stuttu síðar. Þegar móðirin var
komin hálfa leið niður fjallið og áttaði sig á
að lömbin fylgdu henni ekki á flóttanum sneri
hún nefnilega við og gekk sjálfviljug aftur til
fangavarðanna.“
Þekkir sjálfan sig í stráknum
Duggholufólkið fjallar sem fyrr segir um
strák sem sendur var burt frá tölvuleikjum
og sjónvarpsglápi vestur á firði. Þekkir Ari
vel til barna sem föst eru í viðjum tækninnar
og trúa henni og treysta betur en foreldrum?
„Satt best að segja verð ég að viðurkenna
það að ég sjálfur er voðalega líkur þessum
strák. Ég er mikill tölvuáhugamaður og þegar
ég fékk mína fyrstu tölvu árið 1986 leið mér
eins og ég hefði fundið útliminn sem alltaf
vantaði á mig. Og atvikin í myndinni eru
meira að segja tengd vitleysu sem ég hef gert
sem fullorðinn maður. Og það eftir að ég
skrifaði handritið!“ Ari vísar þar í mikla
hættu sem hann komst í þegar hann var á
ferðalagi með Friðriki Þór um vetur að leita
BARNAMYNDIR STYRKJA SJÁLFSMYND BARNA „Það er nauðsynlegt að hver kynslóð sjái sig eins og hún er. Ef börn sjá heldur aldrei sitt eigið umhverfi í myndum hugsa þau: „Hér bý ég á þessum ómerkilega stað. Hér
gerast aldei neinar sögur og hér er ekki þetta fallega fólk sem er í kvikmyndunum,“ segir Ari Kristinsson. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Gengur illa að eldast
Þegar Ari Kristinsson kvikmyndagerðarmaður gerði kvikmyndina Pappírspésa fyrir um sautj-
án árum höfðu íslensk börn ekki séð íslenska barnamynd í um tíu ár. Nú er Ari búinn að fram-
leiða sína þriðju barnamynd, Duggholufólkið, og er því orðinn sá Íslendingur sem flestar barna-
myndir hefur gert. Júlía Margrét Alexandersdóttir hitti Ara, sem segist eiga margt sameiginlegt
með aðalpersónunni.
Á göngunni, læddist að
manni sú hugsun hvað það
yrði kaldhæðnislegur endir
á lífinu að verða úti á Skúla-
skeiði, eftir að hafa nýlokið
við að skrifað handrit að
kvikmynd um hvað það
væri heimskulegt að æða
til fjalla treystandi aðeins á
farsímann.
FRAMHALD Á SÍÐU 69