Réttur - 01.01.1952, Page 56
56
RÉTTUR
þá séu það íslenzkur hugur og hendur, sem margfalda frjómagn
og gróður íslenzkrar moldar, töfra ótæmandi orku úr íslenzkum
fossum og hverum, hagnýta af raunhyggju landhelgi íslendinga
einna, — vér viljum að þegar stóriðja sósíalismans verður
sköpuð á grundvelli íslenzkra auðlinda, þá vinni hún í þjónustu
íslenzkrar þjóðar, til að skapa henni þá efnahagslegu velferð,
sem hún aldrei hefur fengið að njóta stundinni lengur, sakir
erlendrar ásælni og undirgefni íslenzkra valdhafa.
Vér viljum að þegar þjóðfélag sósíalismans hefur sigrað á
jörðunni, fái þjóð vor, þjóð Eddu og íslendingasagna, þjóð
Snorra Sturlusonar og Stephans G., þjóð Jónasar Hallgríms-
sonar og Halldórs Laxness, þjóð þeirra starfandi og stritandi stétta,
sem sigruðust á ísum og eldgosum, lifðu af einokun og alla er-
lenda áþján , að njóta síns mikla andlega atgerfis, ávaxtanna af
erfiði sínu og auðlinda lands síns í fyrsta sinn til fulls.
Vér vitum að verði þeirri ógæfu afstýrt, sem amerískt auðvald
býr oss nú, vinni íslenzkur andi sigur í glímu sinni við amerískan
auð, þá munu fegurstu fyrirheit þjóðar vorrar rætast í nýrri
gullöld menningar og velferðar, þar sem auðurinn er ekki lengur
böl, heldur blessun fyrir alþýðu, og menning og fegurð lífsins
eigi lengur einkanautn útvaldra, heldur sameign vor allra.